30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

168. mál, listskreytingar opinberra bygginga

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í sambandi við þetta frv.

Ég held að það sé augljóst að hv. flm. eru hér að fjalla um mjög mikilvægt mál, sem reyndar hefur lengi verið til meðferðar á Alþ. og lagabókstafur er fyrir í allmörg ár, a. m. k. að hluta. Það, sem þetta frv. hefur, ef svo má segja, fram yfir það sem er nú þegar í lögum, er það, sem réttilega kom fram hjá hv. l. flm. í ræðu hans áðan, að um verulegar breytingar er að ræða frá því sem hugsað hefur verið, því að þarna er gert ráð fyrir að allar opinberar byggingar, þó með nokkrum undantekningum, verði listskreyttar og sé skylt að listskreyta þær samkv. 2. gr. þessa lagafrv. Hins vegar koma allmargar undantekningar fram í 1. gr. frv. Þó hygg ég að þær undantekningar séu varla tæmandi taldar og þurfi að skýra betur hvað við er átt.

En ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. flm., að það er ákaflega mikilvægt að listskreytingar skóla og annarra opinberra bygginga verði meira tíðkaðar en verið hefur. Eins og hv. flm. réttilega sagði er það fyrst og fremst tvennt sem menn hafa þá í huga, þ. e. að fegra umhverfið, búa mönnum fallegt umhverfi yfirleitt, og svo hitt, sem segja má að sé mikils virði líka og ekki minna virði kannske, að aukinn markaður verði fyrir vinnu listamanna. Undir þetta get ég sannarlega tekið og að þessu leyti til held ég að það sé mjög gott að við ræðum þessi mál, og ég get fallist á að eðlilegt sé að menntmn. þessarar d. taki þetta mál til umfjöllunar. Þó að stuttur tími sé til þingslita trúlega og ekki líkur á að hægt sé að ljúka þessu máli á þeim tíma er áreiðanlega bót að því að þn. fái þetta mál til umfjöllunar. En samt sem áður geri ég ráð fyrir að það megi finna ýmsa annmarka á þessu frv. þegar til kastanna kemur og þegar til framkvæmdanna á að koma.

Ég er því mjög meðmæltur að þær lagaheimildir, sem nú eru fyrir hendi um listskreytingar skóla, séu notaðar meira en verið hefur, en satt að segja hafa reynst nokkrir agnúar á framkvæmd þeirra mála frá því að grunnskólalögin voru sett. Það er næstum að segja fortakslaust þannig í sambandi við listskreytingarnar, að sveitarstjórnirnar hafa frumkvæðið í þeim málum. Það má segja að það sé algerlega augljóst hvað snertir grunnskólana að þar hafa sveitarstjórnirnar frumkvæði, og að því leyti til er erfiðara fyrir ríkisvaldið að hafa þau beinu áhrif á sem æskilegt væri. En að sjálfsögðu eru skólabyggingar sameiginlegt verkefni sveitarstjórna og ríkisvalds og einhvers staðar verður frumkvæðið í þessu að liggja. Það fór þannig í meðförum Alþingis þegar grunnskólalögin voru til meðferðar, að frumhugmyndunum, sem fram komu í frv. um grunnskóla, var breytt í þá átt að sveitarstjórnirnar fengju alfarið frumkvæðið í þessum málum. Þessu mætti að sjálfsögðu mín vegna breyta, og ef Alþ. hefur aukist frjálslyndi síðan fyrir sex árum eða svo væri það mjög gott. Á það kann kannske að reyna þegar þessi mál verða frekar rædd í menntmn.

Það er einnig vísað til 10. gr. í skólakostnaðarlögunum, en sú grein er að verulegu leyti úrelt og naumast framkvæmanleg eftir að lógin um grunnskóla voru sett og 26. gr. grunnskólalaganna var samþ. um þetta efni. Hún gerir þá heimild, sem er að finna í 10. gr. skólakostnaðarlaga, að verulegu leyti óframkvæmanlega og að sumu leyti, eins og ég hef reyndar áður haldið fram hér, tel ég að það sé naumast hægt að framkvæma þá grein eins og nú er. Við verðum sem sagt að una við þá lagaheimild sem um þetta er, sem er að finna fyrst og fremst í 26. gr. grunnskólalaganna.

Í þessu frv., sem hér er til umr., er vissulega að finna mjög verulega stefnubreytingu frá því sem verið hefur. Ég held að út af fyrir sig væri mjög æskilegt ef við gætum náð því marki sem frv. gerir ráð fyrir, en þó hygg ég að það mætti vel við una þó að hin ríka skylda til listskreytinga, sem fram kemur í 2. gr. frv., væri ekki fyrir hendi. En sjálfsagt er að kanna þetta allt vel og rækilega. Ég held að það þurfi að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvaða mannvirki það eru, sem við er átt, og hvaða mannvirki það eru, sem ekki kynnu að heyra undir lög af þessu tagi. Maður gæti t. d. spurt sig hvort brýr heyrðu undir þessi ákvæði. Þar er oft um mjög dýr mannvirki að ræða, og höfum við í því sambandi Borgarfjarðarbrúna. Hún verður mjög dýrt mannvirki. Ekki veit ég hversu kostnaðarsamt það verður, hvort það kostar 10 milljarða eða 12. En þá geri ég ráð fyrir að jafnvel þó að menn séu listelskir og unni listinni hið besta og vilji vinna listinni allt hið besta og listamönnum mundi þeim þykja það nokkuð há upphæð ef skylt væri að listskreyta t. d. Borgarfjarðarbrúna sem næmi 2% af kostnaði og þó ekki væri nema 1%. Ég held að það sé hægt að vinna þessu máli gagn án þess að skjóta yfir markið.

Ég held sem sagt að að mörgu leyti sé þetta mjög athyglisvert frv. og ágætt að hreyfa þessu máli hér. En ég vil líka taka það fram, að ég hef ævinlega litið svo á að menntamálaráðherrar eigi að beita sér sem mest í þessum efnum. Ég mun gera það og hef þegar reynt að hafa afskipti af þessum málum, þó í litlu sé, m. a. með því að hafa áhrif á að sótt verði ráðstefna af hálfu rn. og listamanna í Noregi sem fjallar um skreytingar opinberra bygginga. Sú ráðstefna verður haldin í Noregi innan ekki mjög langs tíma, á þessu sumri. Þetta er norræn ráðstefna. Ég hygg að það sé mjög gagnlegt að fylgjast með því, hvað fram kemur á þeirri ráðstefnu. Þar er ætlunin að gera grein fyrir þessum málum eins og þau standa á Norðurlöndum. Er eðlilegt að við fylgjumst með því og reynum að móta okkar stefnu svo sem fært er og kannske að öllu í samræmi við það sem frændur okkar á Norðurlöndum gera best í þessum efnum. Ég held að mjög æskilegt sé að við fylgjumst með því, sem þar er að gerast, og bíðum þess að þessi ráðstefna verði haldin svo við getum tekið mið af henni þegar kæmi til frekari framkvæmda á þessu sviði og e. t. v. hugsanlega með því að breyta þeim lagaákvæðum sem um þetta er að finna, m. a. í lögum um skólakostnað og ekki siður í lögum um grunnskóla.

En ég tel að þetta sé merkilegt mál og sannarlega þess virði að ræða það í hv. Alþ. Ég vænti þess, að hv. menntmn. líti á þetta mál, skoði það frá öllum hliðum og m. a. kynni sér það, ef hún hefur möguleika á, hvernig þessum málum er fyrir komið annars staðar í heiminum og þá ekki síst á Norðurlöndum.