30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

168. mál, listskreytingar opinberra bygginga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi mínum við frv. um listskreytingar opinberra bygginga. Það er enginn vafi á því, að land okkar er því miður allt of fátækt af listaverkum miðað við það sem gerist hjá öðrum þjóðum og þess vegna er allt, sem stuðlar að því að á þessu verði breyting, mjög til bóta. Ég held að það sé ljóst að skilningur fer mjög vaxandi á þörfinni á því að listskreyta opinberar byggingar. Mér er kunnugt um að eftir að ákvæði um slíkt voru sett í grunnskólalögin hefur a. m. k. orðið veruleg stefnubreyting hjá sveitarstjórnarmönnum. Mér er kunnugt um að í samtökum sveitarfélaga er að finna mikinn áhuga á þessu máli og þau hafa reynt að hvetja sveitarstjórnir til að nýta þau ákvæði í lögum í sambandi við nýjar skólabyggingar.

Hins vegar tel ég rétt að vekja athygli á því, að mér finnst að samtök listamanna í landi okkar, sem vissulega hafa innan sinna vébanda marga ágæta listamenn, hafi raunverulega ekki sýnt nægan skilning á því að gera list sína nógu aðgengilega fyrir þá aðila sem hafa áhuga á því að skreyta opinberar byggingar, sérstaklega skólana. Á þessu þyrfti að verða breyting.

Ég vil vekja athygli á því, og sjálfsagt hafa margir tekið eftir því, að áhugi á listskreytingum bygginga er orðinn nokkuð almennur. Víða er það þannig í skólum landsins, að nemendur skólanna hafa tekið frumkvæði að því leyti að reyna að skreyta skólabyggingar og jafnvel aðrar byggingar í sínu umhverfi. Þetta sýnir að þörfin á þessu er mjög brýn. Ég get einnig bent á að víða um land má sjá stefnubreytingu hjá þeim sem ráða fyrir atvinnufyrirtækjum. Í mörgum tilfellum eru eigendur mannvirkja í fiskiðnaði nú í vaxandi mæli að listskreyta þau húsakynni. Það er öruggt að það örvar áhuga fólks á að hafa slíka listskreytingu fyrir augum og bendir til þess að þarna sé mikið verk óunnið.

Ég vænti þess, miðað við það sem kom fram hjá hæstv. menntmrh., að hann kynni sér vel þessi mál og veiti vissa forustu eða stuðningur komi frá menntmrn. til þess að hér geti orðið um framfarir að ræða. Ég endurtek, að miðað við aðrar þjóðir er land okkar mjög fátækt af listaverkum og allt, sem getur orðið til að bæta þar úr, horfir til bóta. Þess vegna styð ég þetta frv.