30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um flugvallagjald, en það er gert ráð fyrir að flugvallagjald verði á árinu 1980 um það bil 1050 millj. kr. Langstærstur hluti þessa gjalds verður innheimtur af millilandaflugi, en tiltölulega lítill hluti er gjald af innanlandsflugi, en áætla má að það gæti orðið um 130–140 millj. kr. Gjaldið af innanlandsfluginu var samkv. þeim upplýsingum, sem við fengum í fjh.- og viðskn., 94 millj. kr. og þess vegna er það alrangt, sem segir í nál. 3. minni hl., að einkum sé seilst í vasa þeirra sem fjærst búa höfuðborginni um greiðslu þessa skatts.

Ég vil geta þess, að upphaf þessa máls var það, að söluskattur var felldur niður af fargjöldum í innanlandsflugi. Það var mjög veruleg upphæð á þeim tíma, en þá var söluskattur 20%, ef ég man rétt. Það þótti ekki fært á þeim tíma að fella algerlega niður þá skattheimtu og var þá tekið til bragðs að leggja á hið svokallaða flugvallagjald. Þessi réttarbót til handa þeim, sem þurfa á því að halda að fljúga landshluta á milli, var þá mjög veruleg. En síðan hefur þróun málsins verið sú, að flugvallagjaldið hefur ekki verið lagt niður, heldur notað til að auka og örva framkvæmdir í flugmálum.

Það er út af fyrir sig ljóst að niðurfelling á þessu gjaldi í innanlandsflugi skiptir engum sköpum um afkomu ríkissjóðs. Fjárupphæðin 100–150 millj. skiptir þar engum sköpum. Hitt er svo annað mál, að hún getur skipt nokkru máli varðandi nauðsynlegar framkvæmdir í öryggismálum og flugmálum, en það er öllum kappsmál, sem þar þekkja best til, að verulega verði úr bætt.

Jafnhliða því, að menn leggja niður þetta gjald, hljóta menn því einnig að verða að gera það upp, hvort ástæða sé til að minnka framkvæmdir í þessum málaflokki innanlands, sérstaklega í öryggismálum, en öryggi í flugmálum hefur verið mjög ábótavant í langan tíma. Það verður að koma til skoðunar hverju sinni. Að þessu sinni hefur það orðið niðurstaðan hjá 1. minni hl, n., að við leggjum til að gjaldið verði framlengt með þeim breytingum sem hér er lagt til, en 2. og 3. minni hl. skila um málið séráliti.