30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. 3. minni hl. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. og leggst meiri hl. n. gegn frv. eins og það er úr garði gert, enda þótt hann sé ekki samferða í áliti og afgreiðslu að öðru leyti.

Við þrír undirritaðir, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Reykn. auk mín, leggjum til að þetta frv. verði fellt. Eins og segir í grg. okkar og nál. er þetta einn þátturinn í þeirri gegndarlausu skattheimtu sem hæstv. ríkisstj. beitir sér nú fyrir. Og þetta er auðvitað með því lágkúrulegasta. Þarna er seilst til tekna með mjög óeðlilegum hætti. Menn vilja reyna að verja þetta með því að aðrir hafi fundið þennan skatt upp. Hv. 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, hafði mjög á orði sem afsökun fyrir því, að þessi skattheimtuaðferð væri notuð nú, að aðrir hefðu fundið hana upp. Ég held að ég hafi minnt á það áður, að það liggur ekkert fyrir um að hann megi nota púðrið eins og honum sýnist, enda þótt hann hafi ekki fundið það upp. Þetta var auðvitað neyðarúrræði á sínum tíma og mistök, rétt er það, það er rétt að segja það eins og það er, að hafa lagt þetta á. Þetta var fljótfærni á sínum tíma og hefði aldrei átt að leggja á þessa lífsnauðsynlegu þjónustugrein skatta með þessum hætti.

Hv. 3. þm. Austurl. segir að það sé rangt, sem segir í okkar nál., að strjálbýlisfólk borgi mestan hlutann af þessu. Hvað ætli muni miklu t. d. hjá hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmasyni, á því sem hann borgar í þennan skatt, hvort heldur hann fer innanlands eða utan, sem fer kannske 20 ferðir á milli Bolungarvíkur og Reykjavíkur og aldrei út til Kaupmannahafnar? Það þarf að taka þetta með í reikninginn. Og svo þarf að gá að því, að þegar Raufarhafnarmenn fara til Mallorka fljúga þeir fyrst frá Raufarhöfn og svo áfram út. Þetta eru því auðvitað reikningar sem ekki standast ef að því er gáð. Auðvitað er miklu meiri fjöldi sem ferðast innanlands en til útlanda og þess vegna bera þeir mestan hluta og þyngstan part skattsins.

Þetta er, eins og ég sagði, einn þátturinn í þessari ástríðu hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir gefin loforð þeirra sjálfstæðisflokksmanna, sem að þessari ríkisstj. standa, fyrir kosningar um að afnema alla vinstristjórnarskattana. Þetta er tryggð þeirra við kjósendur Sjálfstfl. F,f Sjálfstfl. hefði lýst því yfir að hann ætlaði að viðhalda og hækka alla vinstristjórnarskattana hefði Sjálfstfl. fengið þrem til fjórum þm. færra, því munaði þeim mönnum sem standa að og mynda núv. hæstv. ríkisstj. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Þetta er um milljarður kr. Svo koma byltingarsinnarnir og skattaálögumennirnir og tala um að þetta megi menn ekki hafa á hornum sér af því að það bráðliggi á að búa vel í haginn fyrir flugvallagerð og að öryggistæki séu reist. Það er hægt að tala svona og spyrja eins og gert var hér á dögunum: Eru menn á móti því að flugvellir séu betur úr garði gerðir og þeim sé fjölgað? Ætli þeir fari ekki að flytja bráðum frv. um sérskatt, sjúkrahúsbyggingargjald, og spyrja, ef menn snúast gegn slíku háttalagi: Eru menn á móti því að byggja sjúkrahús? Eða þeir vilji leggja á sérstakt hafnabyggingargjald og spyrja: Eru menn á móti höfnum? Svona er að sjálfsögðu hægt að halda áfram með því að draga þessa þætti úr sjálfu fjárlagadæminu, þar sem þeir eiga heima, og mynda sérskatt, til nauðsynjamála að vísu, og spyrja svo hvort menn séu að snúast með þessum hætti gegn nauðsynjaframkvæmdum.

En við skulum þá líta á hvernig hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðinu fer úr hendi ráðstöfun þessa fjár. Maður skyldi halda að með því að leggja milljarða á með þessum hætti mundi ríkið leggja meira á sig í þessum framkvæmdum. En hvað kemur á daginn? Framlag ríkissjóðs til flugmála sem hlutfall af fjárlögum lækkar úr 0.53% 1979 í 0.43% 1980. Flugvallagjaldið hverfur allt inn í ríkissjóðshítina og um leið og hún dregur til sín það fé, ríkissjóðshítin, lækkar stjórnarliðið framlag til flugmála úr ríkissjóði úr 0.53% í 0.43%. Þetta er nú öll rausnin. Sem sé alveg öfugt að farið.

Ég hef hér upplýsingar um að framlag ríkissjóðs til flugmála sem hlutfall af heildarútgjöldum til þess málaflokks lækkar úr 47% árið 1979 í 40% árið 1980. Í öðru lagi, eins og ég sagði, lækkar framlag ríkissjóðs til flugmála sem hlutfall af niðurstöðutölu fjárlaganna úr 0.53% árið 1979 í 0.43% árið 1980. Sjá nú allir menn hver rausnin er — eða hitt þó heldur — að hafa ráðstafað til þessara lífshagsmuna okkar 0.53% á árinu 1979. En jafnframt því sem lagður er á þessi skattur, sem nemur á annan milljarð kr., er stórlega dregið úr fjárveitingum í þessu skyni miðað við heildarniðurstöðutölu fjárlaga.

En það er fleira í þessu sambandi sem þarf að taka til athugunar og sýnir rausnar- og myndarskapinn — eða hitt þó heldur. Sé tekið tillit til nettótekna ríkissjóðs af fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, sem voru 460 millj. kr. árið 1979 og áætlað er að verði 624 millj. 1980, þá er raunverulegt framlag ríkissjóðs á árinu 1980 0.25% og lækkar úr 0.31% árið 1979. (Gripið fram í: Þetta eru aðeins tekjur af Fríhöfninni.) Þetta liggur ljóst fyrir. Þessar upplýsingar, sem ég hef í höndum, liggja skjalfestar fyrir. Þetta eru nettótekjur ríkissjóðs af Fríhöfninni, sem rekin er vegna flugmála okkar og hefði sjálfsagt aldrei risið upp ef sú samgöngutækni hefði ekki haldið innreið sína í þetta þjóðfélag. (Gripið fram í.) Svona er nú upplitið á þessu. Þar við bætist, eins og ég hef áður sagt, að þarna er ákaflega lítilmótleg aðferð viðhöfð um skattaálögur.

Við leggjum sem sé til, fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn., að þetta verði fellt, enda — eins og ég hef marglýst yfir og geri enn að marggefnu tilefni — hafði Sjálfstfl. lýst því yfir og gefið um það heilagt kosningaloforð í okt. og nóv. s. l. og alveg fram til 3. og 4. des. að hann ætlaði að beita sér fyrir afnámi allra vinstristjórnarviðbótarskattanna sem á höfðu verið lagðir á stjórnartímanum 1978–1979. Forsenda kosningar allra þm. Sjálfstfl. var sú, að almenningur og kjósendur flokksins treystu því að þm. hans mundu standa við loforð sín.