30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft frá því í gær til formlegrar meðhöndlunar frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, en n. hafði áður unnið að þessu máli með fjh.- og viðskn. Ed. Ég hafði hugsað mér að gera nokkra grein fyrir gangi þessara mála, en þar sem allir flokkar hafa hér á Alþ. skipti eftir skipti rætt þetta mál, ekki aðeins við meðhöndlun þessa máls, heldur við meðhöndlun allra annarra mála hér á Alþ., sem að mínum dómi hefur gengið út í miklar öfgar, og menn þrítekið sig og fjórtekið sig í þessum málum, þá ætla ég a. m. k. að reyna að gera mitt fyrir hönd míns flokks til þess að þetta mál geti hlotið afgreiðslu nú helst fyrir kvöldmat — ég á von á því, að allir aðrir flokkar hafi tjáð sig nægilega um málið til þess að hafa komið sjónarmiðum sínum til skila, m. a. í útvarpsumr. En ef það reynist ekki hægt, þá mun ég nota tækifærið síðar í kvöld til þess að gera frekari grein fyrir gangi þessara mála, en vildi aðeins ítreka það, að 1. minni hl. n. leggur til að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir frá Ed.