30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen) [frh.]:

Herra forseti. Þegar ég lauk ræðu minni rétt fyrir kl. 7 var minni hluti ræðunnar eftir og ég mun að sjálfsögðu, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, virða það samkomulag sem gert var um afgreiðslu þessa máls.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 384, sem er flutt af stærsta minni hl. fjh.- og viðskn., þremur sjálfstæðismönnum, er þar gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum og skírskotað til nál. sem frá sjálfstæðismönnum í hv. fjh.- og viðskn. Ed. kom. Þær till., sem þeir þar fluttu, brtt. við 3. umr., eru fluttar af 2. minni hl. á sérstöku þskj., þskj. 380, og mun ég gera nokkra grein fyrir þeim, að vísu ekki eftir númeraröð, heldur efni.

Í fyrsta lagi er gerð till. um breytingu á skattstiganum. Það er ljóst mál og kemur fram í dæmum sem lögð hafa verið fram og birt sem fskj. með nál., að sá skattstigi, sem ríkisstj. hyggst beita við álagningu skatta árið 1980 fyrir tekjuárið 1979, þyngir mjög skatta á fólki í landinu, sem að sjálfsögðu kemur mest við þá sem lægstu launin hafa. Við gerum till. um breytingu á skattstiganum til þess að koma í veg fyrir þetta. Að vísu voru þessar till. felldar í hv. Ed., en við væntum þess, að þegar nú fer fram atkvgr. um málið hér í Nd. hafi menn áttað sig á því, að enn er mikil skekkja í þeim útreikningum sem ríkisstj. hefur gert varðandi skattstigana, ef hún hugsar sér að koma fram skattalækkunum. Það var öllum ljóst að það yrði tilfærsla í sambandi við skattana vegna þeirrar skattkerfisbreytingar sem lög nr. 40/1978 gera ráð fyrir. En að ríkisstj. mundi nota þetta tækifæri og koma með slíka skattstiga, að skattar mundu hækka almennt á fólki, datt engum í hug. Við gerum því með brtt. okkar tilraun til þess að ná fram réttlæti í þessu máli og að tekjur ríkissjóðs af þessum skattalögum, miðað við rétta tekjubreytingu á árunum 1978–1979, ekki 45% heldur 47.5%, verði með þeim hætti að vinstristjórnarskattarnir falli niður. Auk þessa eru brtt. fluttar á þessu þskj. varðandi námsmenn, en með lögum nr. 40/1978 var gerð breyting sem horfið var frá aftur að hluta til með breytingunni á skattalögunum sem gerð var fyrr á þessu þingi. Sú breyting náði ekki að öllu leyti til þess sem áður hafði verið fellt út og til samræmis og með tilliti til eðlis málsins leggjum við til að þeir námsmenn, sem ekki geta nýtt sér námsfrádráttinn eins og hann er ákvarðaður, geti geymt hann þar til þeir hafa lokið námi og nýtt hann þá, miðað við þá verðlagsþróun sem átt hefur sér stað frá þeim tíma, sem þeim bar námsfrádrátturinn, þar til þeir hafa lokið námi og geta nýtt hann.

Þá er einnig gerð till. um að þeir, sem hafa lágar tekjur, geti ekki aðeins nýtt persónuafslátt til greiðslu á útsvörum, heldur einnig til greiðslu sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda. Þetta þýðir að sjálfsögðu lægri útgjöld þess fólks sem lægstu launin hefur.

Þá er í þriðja lagi lagt til að sparifé og spariskírteini verði alfarið undanþegin eignarskatti, en í lögunum, eins og þau gilda í dag, er það að frádregnum skuldum. Frá því að lögin voru samþykkt hafa orðið það miklar breytingar í sambandi við verðtryggingu og vexti, að okkur flm. sýnist eðlilegt og rétt að þeir, sem hafa safnað sparifé, geti verið öruggir um að það verði ekki eignarskattsskylt.

Þetta eru í stórum dráttum þær brtt. sem við leggjum til. Við leggjum til að skattstigarnir verði af fyrstu 2.5 millj. kr. 20%, af næstu 3 millj. 30% og af tekjuskattsstofni yfir 5.5 millj. 40% og að persónufrádrátturinn verði 525 þús. kr.

Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum stærsta minni hl. fjh.- og viðskn., 2. minni hl., bæði um vinnubrögð varðandi þetta frv. svo og um skattbyrðina sem slíka. Þar fer ekkert á milli mála, eins og ég vék að, samkv. þeim gögnum sem óhlutdræg stofnun, Þjóðhagstofnun, hefur látið frá sér fara. Ég vék að því líka í upphafi, að það væri ekki komið fram nál. frá öllum nm. fjh.- og viðskn. þessarar d., það væri ekki komið nál. frá fulltrúa Alþb., flokks hæstv. fjmrh. En þegar frv. var flutt fyrr á þessu þingi um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt kom einmitt þessi ágæti hv. þm. hér upp í ræðustól og sagði að þessar breytingar allar saman væru þess eðlis, að hann hefði það á tilfinningunni að hann hefði farið heljarstökk út í náttmyrkrið og vissi ekki hvar hann kæmi niður. Má vel vera að heljarstökki hans sé enn ekki lokið og hann sé ekki kominn niður og þess vegna ekki tilbúinn að láta frá sér heyra í þessu máli. En sjálfstæðismenn hafa í nál. gert grein fyrir afstöðu sinni.