30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Óskarsson:

Herra forseti. Það er fróðlegt og athyglisvert að fylgjast með því hér á hv. Alþ., með hverjum hætti þm. stjórnarflokkanna ætla að efna kosningaloforð sín. Þessir hv. þm., sem hér hafa innan þessarar stofnunar bakað saman það skattpíningarfrv. sem hér er til umræðu, eru á einkennilegan hátt, vægast sagt, að efna loforð sín við hv. kjósendur í þessu landi.

Ef ég man rétt hafa sumir stuðningsmenn þessarar hæstv. ríkisstj. og talsmenn þeirrar skattbólgustefnu, sem hér er rætt um, talið sig ákafa og einlæga verndara láglaunafólks í þessu landi. Verndunarstefnan virðist þó fyrst og fremst fólgin í árásum á kjör launafólks, m. a. með því frv. sem hér er til umr. Þingmenn Framsfl. og Alþb. og nokkrir aðrir hv. þm. með óvissar stjórnmálaskoðanir eru hér og nú að neyða upp á láglaunafólk í landinu mesta skattpíningarfrv. sem komið hefur til umræðu á Alþ. Já, það er ekkert annað.

Það verður athyglisvert að sjá, þegar gengið verður til atkv.umr. þessari lokinni, að heyra og sjá hvort sjálfskírðir láglaunafólksverndarar samþykkja að hver fimm manna fjölskylda í landinu skuli greiða að meðaltali 650 þús. kr. hærri skatta á þessu ári en því síðasta. Þessi skattpíning er nú fyrirhuguð af fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi sem hétu því fyrir síðustu alþingiskosningar að standa vörð um kjör launafólks á Íslandi. Og það eru bág örlög, sem þeir hv. þm. hafa búið sjálfum sér, sem með þessum hætti launa verkafólki á Íslandi það umburðarlyndi sem það hefur sýnt hæstv. valdhöfum á síðustu misserum óverðskuldað.

Nú stefnir í 15–20 milljarða halla á viðskiptajöfnuði við útlönd. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum á þessu ári mun nema 16–17% af útflutningstekjum og mun þyngjast samkv. nýjum útreikningum Seðlabankans. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði tekin ný erlend lán að upphæð 90–100 milljarðar kr. Áætlanir Þjóðhagsstofnunar benda til þess, að framfærsluvísitala hækki um 13% I. maí, um 9% 1. ágúst og ekki undir 10% 1. nóvember. Þetta þýðir tvöfalt meiri verðbólgu en núverandi hæstv. ríkisstj. þykist stefna að.

Ég vil ekki óska þeim til hamingju með ákvarðanatöku sína sem telja sig fulltrúa launafólks hér á hv. Alþ. og greiða atkvæði með því skattpíningarfrv. sem hér er lagt fram. Íslenskir launþegar munu á morgun, 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins, vita hverjir það eru hér á Alþ. sem stuðla að allt að 20% kaupmáttarskerðingu hjá lág- og millitekjufólki í landinu í stað þeirrar kaupmáttartryggingar sem þeir lofuðu hv. kjósendum fyrir síðustu alþingskosningar. Það verður gjörla fylgst með því, hverjir ljá hæstv. ríkisstj. lið í þessu kaupránsmáli við afgreiðslu hér á Alþ. í kvöld.

Ég vil að lokum segja það, að ég trúi því ekki að fulltrúar launafólks hér á hv. Alþ., þm. sem telja sig fulltrúa launafólks og eru það í raun og veru á borði, en ekki bara í orði, muni greiða þessu frv. atkv. Ég á ekki von á að sjá þá gera það og trúi því ekki að það traust, sem verkalýðshreyfingin hefur sýnt þeim, verði launað með þeim hætti. En það kunna að vera til þm. sem fórna hugsjónum sínum fyrir æðstu embætti, hafa gert það og eru að gera það. En ég á ekki von á því, að fulltrúar innan samtaka verkalýðshreyfingarinnar muni lúta svo lágt.

Mér virðist því miður meiri áhugi hjá ýmsum innan hæstv. ríkisstj. nú á því að telja ýmsa liðsmenn sína á að fylgja sér — trega þó í þessu máli — en að bæta kjör þess fólks sem engan veginn lifir í dag af launum sínum fyrir dag- og yfirvinnu. Verkafólk á Íslandi í dag, sem með samanlögðum dagvinnu- og yfirvinnutekjum vinnur naumlega fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, hefur sýnt hæstv. ríkisstj. trúnað eða umburðarlyndi með því að gera ekki óhóflegar kröfur, heldur sanngjarnar kröfur.

Og það hefur ekki verið farið út í átök á vinnumarkaðnum. En verkafólk þolir ekki þetta ástand lengur, einfaldlega vegna þess að það getur ekki lifað af launum sinum eins og þau eru í dag.