30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur þegar gert grein fyrir brtt. þeim sem hann flytur í nafni Alþfl. við þessa umr., og tel ég þarflaust að fara frekar út í þá sálma, enda gerði hv. þm. rækilega grein fyrir þeim, auk þess sem þær eru mjög vandlega skýrðar í nál. hans, sem liggur frammi sem prentað þskj. á borðum þdm.

Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á því, að eftir því sem fram hefur komið, bæði nú á síðustu dögum og eins þegar gengið var til kosninga hér í haust, þá á hæstv. ríkisstj. ekki að hafa þingmeirihluta fyrir þessu skattstigafrv. sínu hér í Nd. Alþingis. Ég held að það séu nú liðnar rétt um þrjár vikur síðan hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson kvaddi sér hljóðs, þegar var verið að afgreiða söluskattshækkun frá þessari hv. d., til þess að lýsa því yfir að hæstv. ríkisstj., sem hann styður, hefði ekki lengur sinn stuðning við frekari aðgerðir til þess að hækka skatta. Hv. þm. ítrekaði þetta á Alþ. í ræðu sinni nokkrum dögum síðar og hefur látið það koma ótvírætt í ljós í viðtölum við blöð og aðra fjölmiðla á undanförnum dögum, þannig að ef marka má orð hv. þm. — og ég dreg þau ekki í efa — þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki atfylgi hans til þeirra athafna sem hún er að framkvæma. Hv, þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur lýst því yfir, að hann fylgi ríkisstj. ekki í frekari hækkun skatta en hún hefur þegar fengið afgreidda á Alþ. og hér er um að ræða skattahækkun.

Þá liggur það einnig ljóst fyrir, að a. m. k. þrír yfirlýstir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., núv. hæstv. ráðh., gáfu um það fyrirheit þegar þeir voru kjörnir til þings og leituðu eftir atkvæðum frá kjósendum sínum til þess að ná kosningu til þings, að þeir mundu ekki aðeins sporna við frekari skattahækkunum, heldur jafnframt afnema þá skatta sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar lagði á á s. l. vetri. Þessir ráðh. eru að sjálfsögðu hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson og hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson. Þetta loforð þeirra hæstv. ráðh. liggur fyrir, bæði munnlegt á framboðsfundum í kjördæmum þeirra og skriflegt á síðum þeirra blaða sem þeir skrifuðu í eða gáfu út fyrir kosningar. Greiði þessir hæstv. ráðh, atkvæði með því skattstigafrv., sem hér er til meðferðar, eru þeir því að ganga á bak orða sinna, og ég held að það væri engum ætlandi, a. m. k. ekki þessum hæstv. ráðh., að gera slíkt fyrr en þeir þá sýna það hér með handauppréttingu á hinu háa Alþingi, að það séu ekki liðnar nema nokkrar vikur frá því að þeir gáfu tiltekin loforð þar til þeir síðan svíkja þau við fyrsta tækifæri.

Aðrir hv. þm., eins og hv. þm. Eggert Haukdal, sem hafa verið orðaðir við þessa ríkisstj., hafa líka náð kjöri til Alþingis út á loforð um sama efni, út á loforð um að standa gegn frekari skattahækkunum, — og ekki aðeins að standa gegn frekari skattahækkunum, — heldur að afnema þá skatta sem lagðir voru á á s. l. ári. Það mun því liggja alveg ljóst fyrir, að ef þessir hæstv. ráðh. og hv. þm. Eggert Haukdal greiða atkv. með þessu skattstigafrv., þá eru þeir að ganga á bak orða sinna við það fólk sem veitti þeim traust í síðustu alþingiskosningum. Ég held að þessir hæstv. ráðh. og hv. þm. ættu a. m. k. að skoða hug sinn tvisvar áður en þeir gerast svo mjög brotlegir við yfirlýsingar sínar frá því í kosningabaráttunni að þeir ekki aðeins láti það vera að afnema þá skatta, sem lagðir voru á af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, heldur bæti um betur.

Ég þarf ekki að ræða um hv. þm. Albert Guðmundsson, því ég hef ekki litið svo á um nokkra hríð, að hann væri stuðningsmaður ríkisstj., hvernig svo sem því máli hefur verið farið á fyrstu dögum ríkisstj. hér á Alþingi.

Ræðutími minn getur ekki orðið langur að þessu sinni vegna þess að við höfum gefið ríkisstj. fyrirheit um það, að hún geti fyrir 1. maí, baráttudag verkalýðshreyfingarinnar, afhent henni þá gjöf í tilefni dagsins sem hún telur við hæfi. Mun ég því ekki gerast mjög langorður, en láta mér nægja að drepa á nokkur atriði sem komið hafa fram í ræðum hæstv. ráðh. á undanförnum dögum varðandi skattamálin.

Í fyrsta lagi liggur það nú fyrir, að hækkun á tekjum milli ára verður ekki 45%, eins og gengið er út frá við áætlun um það hvað þessi skattstigi ríkisstj. gefur, heldur er talið líklegt samkv. nýjustu gögnum að tekjur á milli ára muni hækka um 47%. Verði sú raunin á, sem niðurstöður úrtakskannana á framtölum einstaklinga hafa bent til, mun sá skattstigi, sem hér er til meðferðar, skila a. m. k. tveimur milljörðum kr. í ríkissjóð umfram það sem látið er í veðri vaka. Ég hef heyrt það, m. a. hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni, að það er reynt að komast fram hjá þessu með því að láta í veðri vaka að þetta úrtak sé ekki marktækt þar sem það nái aðeins til framteljenda sem ekki hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, þ. e. framteljenda sem þiggja laun sín hjá öðrum. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason hefur haldið því fram, að þetta úrtak sé ekki marktækt vegna þess að upplýsingar skorti um þá aðila sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri. Þessi viðbára er hreinasta bull og algjörlega út í loftið. Í fyrsta lagi eru þeir framteljendur, sem aðeins hafa tekjur af eigin atvinnurekstri og eru að skila framtölum sínum nú um þessar mundir, aðeins 10% af heildarhópnum, þannig að til þess að mjög verulegt frávik yrði frá þeirri 47% tekjuaukningu milli ára, sem Þjóðhagsstofnun áætlar á grundvelli úrtaks úr þeim framtölum einstaklinga sem þegar eru fram komin, þyrfti mjög verulegt frávik að verða niður á við frá þeim framtölum einstaklinga, sem þegar liggja fyrir, og til framtala þeirra einstaklinga sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, en þau eru að berast til skattstofanna um þessar mundir. Hópurinn er svo lítill, að til þess að mjög veruleg frávik gætu orðið þyrfti tekjuaukabilið á milli þeirra, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, og hinna, sem hafa tekjur sem launatekjur, að vera mjög mikið til þess að færa 47% tekjuaukningu niður í 45%, eins og reiknað er með í áætlun hæstv. ríkisstj. Í sambandi við þetta skattstigafrv. mættu tekjur einstaklinga, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, þannig ekki hafa hækkað á milli ára um meira en 30%. Og það sér auðvitað hver heilvita maður, að það getur ekki gerst, að á sama tíma og tekjur einstaklinga í landinu, sem eru launþegar, hækka á milli ára um 47%, þá hækki tekjur þeirra, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, aðeins um 30%. Þessi viðbára er sem sé hreint bull og algjörlega út í loftið.

Í öðru lagi er því til að svara við þessari röksemd þeirra stjórnarsinna, að tekið hafa gildi nýjar reglur um hvernig skattleggja skuli þá einstaklinga sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri. Þar er nú í fyrsta sinn búið að setja ákveðið lágmark sem er þess eðlis, að áætla skuli þessum aðilum tekjur sem eru a. m. k. jafnmiklar og ætla má að þeir hefðu fengið ef þeir hefðu verið launþegar hjá öðrum. Þetta þýðir að sjálfsögðu að þarna er verið að setja ákveðið lágmark um skatttekjur þessara tilteknu einstaklinga og lágmarkið er sami tekjuauki og aðrir hafa fengið í sinn hlut, sem vinna sambærileg störf, en taka fyrir það laun hjá öðrum. Það er því alveg sama hvernig maður skoðar þessa viðbáru þeirra stjórnarliða, hún er algjörlega út í loftið. Það eru miklu meiri líkur á því, vegna þessara nýju reglna, að tekjur þeirra einstaklinga, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, hafi hækkað meira á milli ára en hinna. Samkv. þessu eru meiri líkur á því, þegar heildarhópurinn verður skoðaður, þegar allir hafa talið fram, að tekjuaukningin milli ára verði meiri en 47% en að hún verði minni. Ég vil aðeins taka það fram — og ég vænti þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gæti staðfest þær upplýsingar mínar ef hann væri hér staddur — að athuganir, sem gerðar hafa verið á vegum Verkamannasambands Íslands og aðildarfélaga þess á inngreiðslum í orlofs- og sjúkrasjóði á árinu 1979 benda til að tekjuaukning milli áranna 1978 og 1979 hafi orðið 47.5–48%. Reynslan undanfarin ár af þessum útreikningum Verkamannasambandsfélaganna bendir til þess, að þær séu mjög nálægt sanni. Allar þær upplýsingar, sem fyrir liggja, benda í þá átt að ekki sé rétt að miða við 45% tekjuaukningu milli ára, eins og hæstv. ríkisstj. gerir í áætlunum sínum um hvað hún fái í sinn hlut af þessum skattstiga, heldur sé nær að miða við 47 eða jafnvel 48% tekjuaukningu milli ára. Það mun auka tekjur ríkisins af þessum skattstiga og þar með skattbyrðina í landinu um milli 2 og 3 milljarða kr.

Út af fyrir sig er ekkert við því að segja og það er alkunnugt hagfræðilegt lögmál, að ráð til þess að draga úr þenslu og spennu í þjóðfélaginu sé að hækka skatta til að minnka ráðstöfunarfé fjölskyldnanna svo þær hafi úr minna að spila. Þetta er alkunnugt skólabókarráð úr hagfræðivísindum. Ef hæstv. ríkisstj. hefði ætlað sér að gera þetta, hefði ætlað sér með skattstiga sínum að hækka tekjuskattinn meira en hím telur sig þurfa til að ná endum saman í ríkisfjármálunum, að beita skattstiganum með þessum hætti til að rýra ráðstöfunartekjur heimila og draga þannig úr þenslu í þjóðfélaginu, þá ætti ríkisstj. að sjálfsögðu að hafa hug til að segja frá því undanbragðalaust, en láta ekki líta út fyrir að hún sé að taka minna fé af skattborgurunum með skattstiga sínum en allar líkur benda til. Og það er alveg fáránlegt að halda áfram að miða alla útreikninga við 45% tekjuhækkun á milli ára þegar fyrir liggur eftir öllum fáanlegum lýsingum, að sú tekjuspá sé allt of lág. Það er svipað og þegar hæstv. ríkisstj. var að afgreiða hér á dögunum fjárlagafrv. sitt, miðað við 31% verðbólguþróun á árinu, þegar fyrir lá að verðbólgan mundi vaxa um a. m. k. 47 55% á árinu, eftir því hvort menn nota viðmiðunina frá upphafi til loka árs eða samanburðinn á meðalverðhækkun ársins 1980 miðað við meðalverðhækkun ársins 1979.

Þá hefur hæstv, ríkisstj. haldið því fram, að með þessum skattstiga væri hún ekki að hækka skatta. Við skulum láta vera að ræða frekar um það en gert hefur verið, því að það er ekki langt þangað til skattseðlar verða sendir út til hvers og eins, og ætli sé ekki best að láta skattseðlana dæma og skera úr í þessu deilumáli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hitt er alveg ljóst, og það liggur fyrir í upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, að þessi skattstigi og skattaáform ríkisstj. í sambandi við tekjuskattinn munu auka skattbyrðina í hlutfalli af tekjum greiðsluárs úr 13.4%, eins og skattbyrðin var á árinu 1979, í 14.2–14.6% af tekjum, eins og talið er að skattbyrðin muni verða á árinu 1980, og að halda því fram frammi fyrir þessum tölum, sem kynntar eru Alþingi af ríkisstj. sjálfri, að ekki sé um skattahækkun að ræða, er að sjálfsögðu að berja höfðinu við steininn.

Þá liggur það jafnframt fyrir samkv. upplýsingum þessa sama ráðunautar ríkisstj., Þjóðhagsstofnunar, að áhrif þessarar skattbyrðaraukningar úr 13.4% af tekjum greiðsluárs í 14.2–14.6% muni ein út af fyrir sig rýra kaupmátt launþega á árinu 1980 um 1.6%. Þetta eru einnig upplýsingar sem hafa verið sendar Alþ. af hæstv. ríkisstj. og fyrir milligöngu hennar, og þegar fyrir liggur samkv. þessum upplýsingum, sem alþm. hafa í höndum frá sérfræðingum og ráðunautum ríkisstj. sjálfrar, að skattbyrðin milli ára muni aukast úr 13.4% af tekjum í 14.2–14.6% og sem afleiðing af því muni kaupmáttur rýrna um 1.6% á árinu, hvernig í ósköpunum geta stjórnarsinnar og hæstv. ríkisstj. haldið því þá fram að hér sé ekki um skattaaukningu að ræða? Slíkt er að sjálfsögðu alveg fráleitt og þar stangast yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. á við upplýsingar sem hæstv. ríkisstj. gefur þm. og starfsnefndum þingsins.

Það liggur auðvitað ljóst fyrir, og ég held að um það þurfi ekki að deila, að til eru þau áföll sem íslenska þjóðarbúið verður fyrir, eins og áföll vegna versnandi viðskiptakjara og olíuverðhækkana erlendis, sem hljóta óhjákvæmilega að hafa í för með sér kjararýrnun. Hæstv. ríkisstj. áætlaði í fjárlagafrv. sínu, og setti það fram sem eina meginforsendu fjárlagagerðar sinnar, sem allar tölur fjárlaganna grundvallast á, að kaupmáttur launþega muni á árinu 1980 rýrna um 4.5%. Hæstv. ríkisstj. tók það sérstaklega fram í aths. með fjárlagafrv., að það byggðist á þeirri forsendu, að á sama tíma og verðlag mundi hækka í landinu um 46.5% ætti kaupmáttur ekki að vaxa um nema 42%. Þetta var ein af meginforsendum fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Þessi meginforsenda þýðir það auðvitað, að í fjárlagafrv. sínu gerir hæstv. ríkisstj. ráð fyrir að kaupmáttur í landinu skerðist á árinu 1980 um 4.5%. Á sama tíma óskar hæstv. ríkisstj. eftir því, að launþegar sýni biðlund og þolinmæði og fari ekki fram á kauphækkanir eða aukinn kaupmátt þrátt fyrir þessar staðreyndir. Hvað gæti ríkisstj. hugsanlega gert til að tryggja það, að launþegasamtökin tækju vel í þessi tilmæli hennar? Að sjálfsögðu hefði ríkisstj. átt, eins og við Alþfl.-menn lögðum til, að reyna að taka á þessu máli með þeim hætti að beita ríkisfjármálum og skattamálum á móti þessari kaupmáttarrýrnun sem hæstv. ríkisstj. taldi óhjákvæmilega vegna ytri aðstæðna. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert þetta. Hún hefur ekki reynt að beita skattamálum og ríkisfjármálum gegn þeirri kaupmáttarskerðingu sem hún telur að muni hljótast af versnandi viðskiptakjörum. Þvert á móti hafa allar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. miðað að því að auka enn á kaupmáttarrýrnunina frá því sem hún sjálf taldi óhjákvæmilegt. Aðgerðir hæstv. ríkisstj. hafa miðast við það að bæta ofan á kaupmáttarskerðinguna, en ekki reyna að draga úr henni. Þannig áætlar Þjóðhagsstofnun að áhrifin af hækkun útsvars, sem nýlega hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi, muni ein út af fyrir sig rýra kaupmátt á árinu 1980 um 0.9%. Sennilega mun þessi aðgerð rýra kaupmátt launa nokkru meira, þar sem líklegt er að tólfta prósentið verði notað af fleiri sveitarfélögum en gert var ráð fyrir þegar Þjóðhagsstofnun áætlaði kaupmáttarskerðingaráhrif útsvarshækkunarinnar. Sennilega lætur nærri að áhrif útsvarshækkunarinnar til að rýra kaupmátt verði frekar 1% en 0.9%.

Eins og ég sagði áðan telur Þjóðhagsstofnun að kaupskerðingaráhrif þeirrar tekjuskattshækkunar, sem hér er ráðgerð, muni á árinu 1980 nema 1.6%. Þjóðhagsstofnun áætlar að kaupmáttarskerðingaráhrif þeirrar 8% gengisfellingar, sem ríkisstj. ákvað í sambandi við fiskverð, muni rýra kaupmátt launa á árinu um 0.2–0.3%. Og þegar inn í dæmið er síðan reiknaður hækkaður söluskattur, hækkað flugvallagjald og fleiri smásporslur hér og þar, þar sem ríkisstj. hæstv. hefur verið að teygja sig í meira fé úr vösum hins almenna launamanns, þá lætur nærri að áhrifin af aðgerðum ríkisstj. ein út af fyrir sig til að rýra kaupmátt nemi 3.5–4%. Þetta bætist ofan á þá kaupmáttarrýrnun sem hæstv. ríkisstj. boðaði í fjárlagafrv. sínu, þannig að samanlagt er hæstv. ríkisstj. að boða kaupmáttarskerðingu á árinu 1980 um 8–8.5%. Þannig kemur ríkisstj. ekki til liðs við verkalýðinn og verkalýðshreyfinguna, heldur til liðs við verðbólguna með athöfnum sínum. Hún dregur ekki úr kaupmáttarskerðingu sem verður af óviðráðanlegum ytri aðstæðum og versnandi viðskiptakjörum, heldur bætir hún við og eykur kaupmáttarskerðinguna úr 4.5%, eins og hún hefði orðið ef ríkisstj. hefði hvergi komið nálægt, hvorki til né frá, — eykur þá kaupmáttarskerðingu úr 4.5% í 8–8.5%. Og það er kannske nokkuð vel við hæfi, að stærstu einstöku kaupmáttarskerðinguna samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar, tekjuskattshækkun sem rýrir almennan kaupmátt í landinu um 1.6%, ætli Alþb., flokkur fjmrh., flokkur félmrh. og flokkur iðnrh. og flokkur hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að afgreiða kl. rúmlega 12 á miðnætti, þegar baráttudagur verkalýðshreyfingarinnar er runninn upp. Þá held ég að væri við hæfi, þegar kröfur verkalýðshreyfingarinnar verða kynntar síðar þann dag, þ. á m. krafan um kjarabætur í formi skattalækkana, að það kröfuspjald bæru hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson í kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar hér í Reykjavík og stæðu sitt undir hvorum enda. Hins vegar gætu þessir tveir hv, þm. að sjálfsögðu bundið fyrir augun, svo að þeir þyrftu a. m. k. ekki að horfast í augu við félagsmenn sína í verkalýðshreyfingunni um leið og þeir ganga undir því kröfuspjaldi utan dyra Alþingis sem þeir snúa baki við innan sala þingsins. Ég er ansi hræddur um að ýmsum kjósendum hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur þætti lítið leggjast fyrir kappann, þegar hv. þm. gerir sér lítið fyrir hér innan veggja Alþingis og greiðir með hægri hendi atkvæði með skattahækkunum og kaupmáttarrýrnun á móti félögum sínum sem hún þykist styðja með þeirri vinstri í kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar á morgun, nokkrum klst. eftir að hv. þm. er búinn að samþykkja hér á Alþ. að rýra kaupmátt láglaunafólksins, þ. á m. félagsmanna sinna í BSRB, um 1.6%. Þetta kallar maður nú að bera kápuna á báðum öxlum, og ég er sannfærður um að ef samviska hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur svæfi ekki fastar en samviska hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, þá hefði hún líka verið heima í dag.

Svo verður víst hver að liggja sem hann hefur um sig búið, en það er nokkuð fróðlegt að vita að einn og sami maðurinn skuli geta varið það fyrir samvisku sinni að ganga hér um innan veggja Alþingis og greiða atkv. með skattahækkunum og kaupmáttarrýrnun nokkrum klukkutímum áður en sami einstaklingur býr sig undir að taka þátt í kröfugöngu Alþýðusambandsins og BSRB á morgun, þar sem krafan er lægri skattar, hærri laun. (GHelg: Það eru allir sammála þessu í BSRB.) Stjórn BSRB gaf út álit, mjög harðort, þegar hér var til afgreiðslu á Alþingi hækkun söluskatts um 1.5%. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir á sæti í þeirri stjórn sem gerði þá samþykkt. Ég hef ekki enn þá fengið upplýst hvort hv. stjórnarmaður í BSRB og hv. þm. Guðrún Helgadóttir var á þeim stjórnarfundi eða ekki. Hafi hv. stjórnarmaður í BSRB og hv. þm. Guðrún Helgadóttir verið á þessum fundi, þá veit ég ekki betur en hún hafi greitt atkv. gegn þeirri afstöðu sem hún tók síðar hér í þingsölunum, vegna þess að álit stjórnar BSRB var samþykkt samhljóða. Hafi hins vegar hv. þm. ekki setið stjórnarfund þann sem afgreiddi viðkomandi umsögn, þá hlýtur hv. þm. að vera andvíg umsögninni sem kom frá BSRB og mótmælunum við því athæfi sem hv. þm. síðan gerði sig seka um í atkvgr. hér á Alþingi. Og þá held ég nú að hv. þm. Guðrún Helgadóttir skuldi félögum sínum og samstarfsmönnum í BSRB a. m. k. að gera þeim opinberlega grein fyrir afstöðu sinni, en það hefur verið mjög einkennandi hér í umr. um kauplækkunaráform hæstv. ríkisstj., að einn af helstu verkalýðsforingjum Alþb. að eigin mati, stjórnarmaður í BSRB, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, hefur ekki sagt eitt einasta aukatekið orð um þau mál og hefur ekkert haft til þeirra mála að leggja. (Fjmrh.: Veit þm. ekki hvaða mál við erum að tala um?) Jú, jú, ég veit það. (Gripið fram í.) Þetta er allt í lagi, hæstv. farseti þarf ekki að skaka skellu sína. Það er bara einhverjum mönnum ómótt hér í kvöld, enda fer nú að nálgast baráttudagur verkalýðsins, þegar þeir Alþb.menn ætla að færa láglaunafólkinu sérstaka kveðju frá sér í tilefni dagsins.

Hinu held ég að menn verði að gera sér grein fyrir um leið og þeir ræða þessi skattamál, að eins og mál standa á Íslandi í dag er ekki — eins og hæstv. fjmrh. hefur raunar tekið fram — grundvöllur fyrir því að veita öllum launþegum almennar kauphækkanir. Og til þess að vernda kaupmátt þeirra lægst launuðu er aðeins eitt ráð til. Það er ráðið sem Verkamannasambandið og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafa bent á, að ríkisvaldið komi þar til skjalanna og reyni m. a. með skattalækkun að koma til móts við láglaunafólkið og verja það með þeim hætti fyrir kaupmáttarskerðingu sem það ella yrði fyrir.

Auðvitað hefur þetta það í för með sér að ríkisvaldið verður að sníða sér stakk eftir vexti. Ríkisstj. verður að skilja að hún verður að kunna og þora að segja nei. Hún verður að kunna og þora að láta á milli sér í eyðslunni. En það er mjög athyglisvert, að þeim till., sem Alþfl.gerði í fjárlagafrv. því sem lagt var fram fyrr í vetur um 7 milljarða kr. sparnað í ríkisrekstrinum, hafnaði núv. hæstv. ríkisstj. flestöllum, en skildi þó tvær eftir, sparnað á vettvangi Landhelgisgæslu og sparnað á vettvangi Hafrannsóknastofnunar. Hæstv. fjmrh. hrósaði sér síðan af því í útvarpsumr. á dögunum, að þetta væri til dæmis um þann sparnað sem ríkisstj. viðhefði við afgreiðslu fjárlaga. Bæði þessi atriði voru hins vegar beint tekin upp úr fjárlagafrv. Alþfl., og þó að við köllum ekki eftir höfundarréttinum, Alþfl.-menn, þá hefði þó verið ástæða til þess að hæstv. fjmrh. léti þess getið, að þarna væri hann að samþykkja tvær till. um aðhald í ríkisrekstrinum frá okkur komnar, þó ekki skili þær umtalsverðum peningum til sparnaðar.

Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað haldið því fram í umr. hér á Alþ., að ýmsar þær kjaraskerðingaraðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur orðið að grípa til að undanförnu, hafi stafað af aðgerðaleysi ríkisstj. Alþfl., á tímabili ríkisstj. Alþfl. hafi hlaðist bak við mikla stíflu óafgreidd mál sem hafi síðan dunið yfir þjóðina af illri nauðsyn eftir að ríkisstj. Alþfl. fór frá.

Í Alþýðublaðinu í morgun gerir formaður Alþfl. nokkra grein fyrir úttekt sem gerð var á vegum Þjóðhagsstofnunar að beiðni þingflokks Alþfl. á starfstímabili minnihlutastjórnar Alþfl., hvernig mál þá stóðu og hvaða mál voru þá afgreidd. Ég vil aðeins í örstuttu máli drepa á nokkur þau atriði.

Í fyrsta lagi hækkaði framfærsluvísitalan frá októberbyrjun 1979 til febrúarloka 1980, í starfstíð minnihlutastjórnar Alþfl., aðeins um 16–17%, þannig að verðbólgan á eins árs grundvelli, hefði þeirri stefnu verið fylgt lengri tíma, hefði aðeins orðið 45% . Jafnlangan tíma áður, frá maíbyrjun til septemberloka 1979, hækkaði verðbólgan hins vegar um 27%, sem samsvarar 80% verðbólgu í landinu á ári. Á þessum tíma, frá okt. 1979 til febrúarloka 1980, hafði sem sé tekist að breyta 80% verðbólgu í 45% verðbólgu með samræmdum aðgerðum. Niðurtalningin var sem sé hafin í okt.–febr., en þeirri niðurtalningu hefur síðan verið breytt í upptalningu, eins og allir vita. Síðustu þrjá mánuði af starfstímabili minnihlutastjórnar Alþfl. varð verðbólgan um 2% kúnni en búist var við að hún yrði. Á fyrstu þremur mánuðum núv. hæstv. ríkisstj. varð verðbólgan hins vegar 2% meiri en búist var við að hún yrði. Þannig hefur núv. hæstv. ríkisstj. byrjað að telja verðbólguna upp þegar ríkisstj. Alþfl. taldi hins vegar verðbólguna niður.

Frá okt. 1979 til febr. 1980 námu gengisbreytingar aðeins ígildi 15% gengislækkunar íslensku krónunnar. Mánuðina þar áður, júní–okt. 1979, námu gengisbreytingar hins vegar sem samsvaraði 33% gengislækkun íslensku krónunnar. Gengisbreytingar í tíð minnihlutastjórnar Alþfl. voru því helmingi minni en á jafnlöngum tíma þar á undan. Gengisbreytingarnar á s. l. þremur mánuðum hafa numið yfir 11%, þannig að einnig á þessu sviði hefur ríkisstj. byrjað að telja upp. Hún er einnig byrjuð að telja gengislækkunina upp, ef svo er hægt að segja.

Það kemur fjöldamargt annað fróðlegt fram í þeirri úttekt sem Þjóðhagsstofnun gerði að beiðni Alþfl., t. d. í sambandi við gjaldeyrisstöðuna og afkomu ríkissjóðs. Afkoma ríkissjóðs varð á tímabilinu okt. 1979 — febr. 1980 hagstæð um 7.9 milljarða kr., en var einu ári áður yfir sömu mánuði óhagstæð um 7.2 milljarða kr. Þessi úttekt, sem Þjóðhagsstofnun vann, og samanburður, sem hún hefur gert annars vegar á fjögurra mánaða valdatíð minnihlutastjórnar Alþfl. og hins vegar á næstu fjórum mánuðum á undan og eftir í gengismálum, í verðlagsmálum, í afkomu ríkissjóðs, í vaxta- og lánskjaramálum, í gjaldeyrisstöðu og í vöruskiptajöfnuði, sýnir svo að ekki verður um villst að niðurtalning verðbólgunnar hófst í okt. 7 979, en henni lauk 6. febr. 1980 þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum.

Þá mun einnig liggja fyrir í viðskrn. — og eiga þar að vera hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðh. — listi yfir allar verðhækkunarbeiðnir, sem bárust minnihlutastjórn Alþfl. á þeim tíma sem hún sat, og jafnframt listi yfir hvernig þessar verðhækkunarbeiðnir voru afgreiddar. Mundi ég gjarnan vilja óska eftir því, ef hæstv. viðskrh. væri hér, að hann legði þennan lista fyrir Alþingi svo menn gætu séð hvað það var sem Alþfl. átti ekki að hafa afgreitt í þessu sambandi. Fram kemur af þessum listum að þær verðhækkunarbeiðnir, sem borist höfðu til ríkisstj. á þessu tímabili, höfðu verið afgreiddar eftir ákveðnum reglum sem ríkisstj. hafði sett sér. Þær höfðu að sjálfsögðu ekki verið afgreiddar þannig, að menn segðu já við öllum beiðnum frá opinberum stofnunum og einstaklingum um verðhækkanir, enda er það ekki leið til að telja niður verðbólgu. Þær höfðu hins vegar allar fengið afgreiðslu eftir tilteknum reglum sem ríkisstj. hafði búið sér til, þannig að það er hrein fölsun, sem er vonandi byggð á ókunnugleika, en ekki vísvitandi ósannindum, að verðhækkunarbeiðnir, sem bárust til ríkisstj. mánuðina okt. 1979–febr. 1980, hafi ekki verið afgreiddar og einhver langur listi af slíkum beiðnum hafi beðið óafgreiddur í rn. Þetta er ósatt, þetta eru helber ósannindi, og ég skora á hæstv. viðskrh. að staðfesta þau orð mín með því að leggja fram listann sem til er í viðskrn. um þær verðhækkunarbeiðnir sem bárust á þessum mánuðum, leggja jafnframt fram samþykktina, sem ríkisstj. gerði um það, eftir hvaða reglum skyldi starfað við afgreiðslu þessara beiðna, og jafnframt lista, ef hann skyldi vera til, yfir hvaða mál voru óafgreidd af þessu tagi þegar ríkisstj. Alþfl. fór frá 6. febr. s. l.

Ég held að ég fari ekki öllu lengra út í þessa sálma nú. Ég vil aðeins vekja athygli á mjög athyglisverðri og eftirtektarverðri þróun þau tíu ár sem kennd hafa verið við Framsfl. og kölluð framsóknaráratugurinn. Árið 1971, þegar Framsfl. komst til valda á Íslandi eftir 12 ára útlegð með Alþb. í eftirdragi, var söluskattur hér 7%. Núna, tíu árum síðar, er söluskattur 23.5% . Það skal fram tekið í þessu sambandi, að nokkur hluti þessarar söluskattshækkunar stafar af þeim tollalækkunum sem gerðar voru samkv. samningunum við EFTA og síðar samkomulaginu við Efnahagsbandalag Evrópu og þær þjóðir sem að því standa. Hins vegar skýrist ekki nema brot af þessari söluskattshækkun með þessum tollalækkunum. Og það er mjög athyglisvert, að vorið 1971, þegar þáv. ríkisstj. sá fram á að líklega væri óhjákvæmilegt að hækka söluskatt eitthvað á næstu árum vegna þessara tollalækkana, þá lagði sú ríkisstj. fram hér á Alþ. till. um breyt. á innheimtukerfi söluskatts, þannig að innheimta söluskatts á síðasta stigi viðskipta yrði lögð niður, en þess í stað tekinn upp virðisaukaskattur, sem er miklu betri í framkvæmd, ekki síst þegar söluskattur er orðinn svona hár, og auk þess miklu auðveldari tekjustofn fyrir ríkissjóð. Það er harmsefni, að á s. l. 10 árum þegar söluskattur hefur undir forustu Framsfl. verið hækkaður úr 7% í 23.5%, skuli engar umbætur hafa verið gerðar á söluskattskerfinu til þess að tryggja það og festa það betur í sessi sem réttlátan tekjustofn fyrir ríkissjóð.

Það er líka athyglisvert að gefa því gaum, að árið 1970 voru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu 22.5%, en nú tíu árum síðar eru skatttekjur hins opinbera, mældar á sama mælikvarða, 30%. Meginhlutinn af þessari hækkun hefur orðið vegna tekjuþarfa ríkissjóðs, því að hluti sveitarfélaganna í þessari skattlagningu hefur minnkað og hlutur ríkissjóðs vaxið að sama skapi. Árið 1970 var skattbyrði beinna skatta í prósentum af tekjum greiðsluárs 13.3%. Árið 1980, tíu árum síðar, mun skattbyrði í prósentum af tekjum greiðsluárs nema 15.5%, þegar búið er að taka tillit til þeirrar kerfisbreytingar sem gerð hefur verið í millitíðinni, að fjölskyldubæturnar voru felldar niður sem sérstaklega útgreiddar bætur, en teknar inn í skattakerfið.

Þá er einnig vert að hugleiða að árið 1968, eftir að Íslendingar höfðu misst 40% af útflutningstekjum sínum svo til á einni nóttu, var greiðslubyrði þjóðarinnar vegna erlendra skulda aðeins 16% af gjaldeyristekjunum þó að gjaldeyristekjurnar hefðu minnkað um 40%. Núna, eftir tíu ára framsóknarforustu, mun greiðslubyrði erlendra skulda nema um eða yfir 16% af útflutningstekjum. Og ímyndið ykkur þá hvað yrði hér á Íslandi ef eitthvað svipað áfall dyndi yfir okkur á árinn 1981 eins og gerðist árið 1968 þegar 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar hurfu á einni nóttu. Þá er ég hræddur um að ömurlegt yrði um að lítast í atvinnulífi landsmanna. Þegar greiðslubyrðin er orðin um eða yfir 18% af gjaldeyristekjunum miðað við blómlegasta árferði, hvað halda menn þá að mundi gerast ef svipað áfall dyndi yfir íslensku þjóðina árið 1981 og gerðist árið 1968?

Í hvað hafa svo þessar auknu skatttekjur farið, sem ég var að lýsa hér áðan? Hafa þær farið í að auka almannatryggingar og tekjutilfærslur fyrir milligöngu almannatrygginga á þeim áratug sem Framsfl. og Alþb. hafa ráðið ferðinni í stjórnmálum hér á Íslandi? Nei, millifærslur samkv. almannatryggingakerfinu eru ekki meiri á árinu 1980 en þær voru árið 1970. Hin aukna skattbyrði hefur því ekki farið í að jafna tekjur manna hér á landi fyrir tilverknað aukinna framlaga í tryggingakerfið. Hafa þessar auknu skatttekjur ríkisins þá farið til þess að auka opinberar framkvæmdir? Nei, opinberar framkvæmdir, kostaðar úr ríkissjóði, eru ekki meiri á árinu 1980 en þær voru á árinu 1970. Hins vegar hafa hinar stórauknu erlendu lántökur að mjög verulegu leyti farið til aukinna framkvæmda, en þar hefur engra skynsamlegra arðsemissjónarmiða verið gætt, eins og best sést af hinni mjög umtöluðu Kröfluframkvæmd, sem er nokkurs konar einkabarn núv. hæstv. ríkisstj., því að Kröflunefndarráðherrann er forsrh., Kröflunefndarvaraformaðurinn er æðsti yfirmaður vísindarannsókna á Íslandi, og Kröflunefndarmaðurinn Ragnar Arnalds er æðsti yfirmaður fjármála íslenska lýðveldisins. Og þessi mikla framkvæmd, kostuð af erlendu lánsfé, skilar þjóðinni engum arði, en kostar þjóðarbúið árlega álíka útgjöld og ríkissjóður þarf að leggja til rekstrar Háskóla Íslands. Og það sem kannske er langalvarlegast við þennan svokallaða framsóknaráratug er sú staðreynd, að kaupmáttur launa eftir þessi tíu ár er nákvæmlega 10% minni en hann hefði verið ef fylgt hefði verið áfram þeirri jafnvægisstefnu í efnahagsmálum sem ríkti á sjöunda áratugnum.

Ýmsir þóttust ekki sjá mikið gott við stefnu viðreisnarstjórnarinnar, fundu á henni marga annmarka. Og vissulega er það rétt, að margt mátti þar betur fara. En hvílík óskapleg óstjórn er það þá ekki hjá framsóknarmönnum og Alþb., sem gagnrýndu viðreisnarstjórnina og viðreisnarstefnuna, að sumu leyti með réttu,-hvílík óskapleg óstjórn er það þá ekki hjá þessum tveimur flokkum að skila eftir áratuginn 10% lakari kaupmætti en orðið hefði ef fylgt hefði verið hinni voðalegu viðreisnarstefnu. Hversu miklu verri er þá ekki framsóknarkommúnismi áttunda áratugarins heldur en viðreisnarstefna sjöunda áratugarins. Og það er nokkuð einkennandi, að einmitt á þessum tímamótum þegar verið er að gera upp þennan áratug og þegar þrír ágætir sjálfstæðismenn — kannske eru þeir fleiri — hafa tekið að sér að ganga undir það ok, sem aðrir fengust ekki til eftir þessa tíu ára reynslu hér á Alþ., að framlengja þessa framsóknarkomma — óstjórn, þá er mjög lærdómsríkt fyrir þm. og þjóðina að sá maður, sem enn hefur einhver tengsl við hina gömlu hugsjónastefnu Alþb., einasti verkalýðssinni og verkalýðsforustumaður í þingflokki Alþb., Guðmundur J. Guðmundsson, hann sést ekki hér í þingsölum. Hann er sjöundi maður í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. og er þar fulltrúi flokks síns. Á þeim fundum að undanförnu, þar sem skattstigafrv. hefur verið til umr., hefur hv. þm. ekki mætt. Á fundi n., þegar málið var afgreitt frá n. og nál. voru skrifuð, var hv. þm. ekki viðstaddur. Þó var hann sama dag á ferð hér í Alþingishúsinu, svo að það voru ekki veikindaforföll sem töfðu hann frá setu í n. Það var annað sem kom til.

Hv. þm., fulltrúi Alþb. í fjh.-og viðskn. þessarar d., vill ekki taka þátt í að afgreiða málið, hvorki frá n. sem hann á sæti í, né hér í þingdeildinni í dag, því að hv. þm. hefur ekki heldur sést í sæti sínu í þessari þingdeild í dag eftir að málið var þar tekið fyrir. Og flokkur hans, Alþb., á engan málsvara í fjh.- og viðskn. í þessu máli hér í deildinni í dag. Það væri kannske ástæða til þess að spyrja formann fjh.- og viðskn. Nd., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hvort ekki megi gera ráð fyrir því, að sjöundi fulltrúinn í fjh.- og viðskn. hafi eitthvað til málanna að leggja. Er hv. þm., formanni fjh.- og viðskn., kunnugt um að það sé ekki fjórða nál. á leiðinni? Hefur hv. formaður fjh.- og viðskn. kynnt sér það hjá þeim sjöunda nm., sem ekki hefur skilað áliti, hvort verið geti að hann hafi hug á að skila slíku áliti? Ég tel nauðsynlegt að fá að vita þetta, og það er auðvitað formaður fjh. og viðskn. sem á að ganga eftir þessu áður en málið verður afgreitt hér, til þess að ekki sé verið að afgreiða mál út úr Alþ. án þess að nm. í fjh.- og viðskn. hafi aðstöðu til að koma túlkun sinni á framfæri við þd.

Vill nú ekki hv. þm. Halldór Ásgrímsson vera svo góður að kanna það hjá nm. sínum, hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, hvort sá nm. í fjh.- og viðskn. Nd. hefur í hyggju að skrifa undir eitthvert þeirra nál. sem fram eru komin, skila sjálfur séráliti eða láta það vera að koma nálægt afgreiðslu málsins með einum eða öðrum hætti?

Herra forseti. Ég fékk upphringingu um kvöldmatarleytið í kvöld. Það var kunningi minn, gamall sósíalisti, sem hefur allt sitt líf ekki kosið annað en fyrst Sameiningarflokk alþýðu sósíalistaflokkinn og svo Alþb. Og hann hefur ekkert mjög mikið álit á krötum frekar en svo fjölmargir aðrir, þessi ágæti kunningi minn, þó okkur sé vel til vina. En hann bað mig að koma skilaboðum á framfæri við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, ef hann skyldi mæta til þings hér í kvöld. Það gerir hv. þm. hins vegar ekki og ég hef því miður ekki komist að honum til að flytja honum skilaboðin, þó ég hefði feginn viljað, því að hv. þm. hefur ekki sést hér í allan dag. En skilaboðin voru þau, að nú væri hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson staddur á krossgötum. Nú yrði hann að gera það upp við sig, hvort hann vildi halda tryggð við sinn gamla flokk og sínar gömlu hugsjónir eða labba yfir á hinn breiða veginn og taka undir með þeirri nýju stétt sem komið hefur til valda í þeim ágæta flokki Alþb. og metur meira aðstöðu og völd en hugsjónir og stefnu.