30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm.1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef ekki ætlað mér að lengja þessa umr., en koma hér með nokkrar aths. varðandi það sem hér hefur komið fram.

Grundvallaratriðið fyrir þeim skattstiga, sem hér er lagður fram, er sú staðreynd, að ríkisstjórnarflokkarnir komu sér saman um það í upphafi að standa að svipaðri skattheimtu og var árið áður í formi tekjuskatts. Tekin höfðu verið í gildi ný skattalög sem veruleg óvissa ríkti um. Þessi skattalög fólu að sjálfsögðu í sér, sem alltaf var vitað, allverulega breytingu á skattbyrði einstakra skattþegna. Á sumum hækkaði hún, en lækkaði á öðrum. Lagður var fram skattstigi sem gerði ráð fyrir að lægsta skattþrep væri 20% og hæsta skattþrep 50%. Við nánari athugun kom í ljós að ýmsir voru óánægðir með þennan skattstiga. Í fyrsta lagi fannst mönnum vera of mikið bil á milli hæsta skattþreps og hins lægsta. Það væri of mikill munur á því, hvort hjónanna aflaði teknanna. Ef þessi munur er minnkaður og persónuafsláttur hækkaður á móti hlýtur það að koma við skatta einstaklinga. Þetta er út af fyrir sig ekkert flókið mál. Það leiðir af eðli málsins að svo hlýtur að verða. Eins er það líka ljóst, að við það að taka upp hinn svokallaða 10% frádrátt verður um allverulegan tilflutning að ræða milli þeirra, sem engan frádrátt höfðu áður, og þeirra, sem verulegan frádrátt höfðu. Hér er því um margs konar breytingar að ræða sem verka sumpart til lækkunar og sumpart til hækkunar.

Það hefur einkennt þá umr., sem orðið hefur undanfarið um þessi mál, að mikið hefur verið gumað af alls konar dæmum um það þegar um hækkun er að ræða, en lítið talað um að einnig geti orðið lækkun. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvað menn hafa í huga, þegar menn leggja aðaláherslu á slíkan málflutning. Ég ætla þó að vona — því að ég veit að mál eru viðkvæm á vinnumarkaði — að það sé a. m. k. ekki hugmynd hv. stjórnarandstæðinga að reyna að gera sitt til að efna þar til mikilla átaka, eins og gerðist á Alþ. fyrir nokkrum árum, að menn notuðu hvert tækifæri til þess að reyna að ýta undir slík átök. Sú umr., sem hér hefur verið að undanförnu, bendir í mínum huga til þess, að það séu ýmsir hér inni sem vilji hafa slíkt í frammi. En ég hélt satt best að segja að menn hefðu lært það mikið af þeirri reynslu sem þjóðin fékk af slíkum vinnubrögðum, að menn mundu ekki leika sér að slíku nú.

Auðvitað er skattheimta aldrei vinsæl hjá þeim aðilum sem eiga að greiða skattana. Og við verðum vör við það, að þeir, sem þurfa að greiða þessa skatta, heimta einnig aukin framlög af hendi ríkisins. Við fengum síðast fyrir tveimur dögum bréf frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda — sem eru út af fyrir sig ágæt samtök og ég er félagi í — sem er eitt það ósvífnasta sem við höfum fengið hér á Alþ., þar sem við erum krafðir sagna um skoðanir okkar á alls konar málum. Þetta er dæmigert kröfugerðarbréf sem alþm. fá og ég fyrir mitt leyti ætla mér ekki að svara, og ég vænti þess að flestir hv. þm. séu sömu skoðunar. En þarna rekst ýmislegt á og það fer eftir því, frá hvaða sjónarhorni maður lítur á skattheimtuna, hvort mönnum þykir hún of mikil eða of lítil. Ég þykist vita að flestir séu sammála um að skattheimtan sé ekki svo mikil, að þjónustan, sem veitt er á móti, sé of mikil. Ég held að flestir geti út af fyrir sig samþykkt það. Og ég held að menn geti líka samþykkt það, að það er frekar á þann veg að of miklar framkvæmdir eru fjármagnaðar með lánsfé fremur en að fjármagna þær með skattheimtufé. Hvaða vit er í því að fjármagna t. d. þjóðarbókhlöðu með erlendum lánum? Mér finnst það a. m. k. ekki skynsamlegt, og ég veit að fleiri eru á því máli. Slíkar framkvæmdir á að sjálfsögðu að fjármagna með skattheimtu. Ekkert bendir því til þess, að skattheimtan vegna þessa sé of mikil.

Hins vegar geta allir verið sammála um það, að skattheimtan rýrir að sjálfsögðu ráðstöfunarfé heimilanna og er að því leyti of mikil. En þá útreikninga, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lagði hér á borð áðan um skerðingu ráðstöfunartekna, vil ég leyfa mér að draga mjög í efa. Ég veit að vísu að gert er ráð fyrir því í þjóðhagsspá, að einkaneysla dragist saman á árinu 1980 um 1.5%. En það er jafnframt gert ráð fyrir að samneyslan aukist um 2%. Þessi tilfærsla er að því leyti ekki skynsamleg, að hún getur orðið til þess að spilla eitthvað fyrir kjarasamningum, vegna þess að það er reynsla áranna að menn eru ekki tilbúnir að meta það mikils sem gert er í samneyslunni. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vona að slíkt leiði ekki til átaka hér í þjóðfélaginu sem ekki yrðu til annars en að eyðileggja fyrir öllum þjóðfélagsþegnum.

Það, sem hefur fyrst og fremst orðið til aukningar, er að sjálfsögðu útsvarsbreytingin, eða heimildin til að auka útsvarið úr 11% í 12.1%, og síðan söluskattshækkunin. En ég fellst ekki á það, að um sé að ræða hækkun á tekjuskatti milli ára. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan að það væri hreint bull sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason hefði sagt um þau mál. Ég ætla mér ekki að kalla það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan bull, mér finnst það út af fyrir sig ekki vera viðeigandi. Hins vegar má vel vera að ýmsir hefðu tilhneigingu til þess að kalla margt af því, sem hann sagði, þvílíku nafni. Það liggur að vísu fyrir frá Þjóðhagsstofnun, að breyting atvinnutekna á milli ára sé sennilega um 46–47%, en það kemur einnig fram í þessu áliti Þjóðhagsstofnunar, að hún hefur ekki treyst sér til að gera grein fyrir því, hvaða breyting yrði á skattstofninum. Það er t. d. vitað mál, að 10% frádráttarreglan verður til þess að skattskyldar tekjur verða lægri en atvinnutekjur, og það kemur skýrt fram í bréfi Þjóðhagsstofnunar, að hún hefur eingöngu reynt að meta breytingu atvinnutekna.

Það kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að afkoma atvinnuveganna eða þeirra aðila, sem atvinnurekstur stunda, væri síst verri á árinu 1979 en á árinu 1978. Það má t. d. nefna, að það voru lagðir á ýmsir skattar á árinu 1979. Aðstöðugjald var hækkað í sveitarfélögum, það var lagður á skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og ýmislegt fleira sem gaf tekjur á því ári. En þessi skattlagning gerir það að sjálfsögðu að verkum, að tekjuskattur lækkar árið á eftir, því að þessi gjöld eru frádráttarbær. Hækkun aðstöðugjalds í Reykjavík á árinu 1979 leiðir að sjálfsögðu til lækkunar tekjuskatts hjá ríkinu árið eftir, og ég er þess fullviss að þetta hefur nokkur áhrif. Það liggur einnig fyrir að afkoma bænda var mjög góð á árinu 1978 miðað við það sem oft hefur áður verið. Hins vegar er afkoma bænda mun lakari á árinu 1979 og tekjuskattur þessara aðila mun lækka verulega. Það er því mjög mikil óvissa í kringum tekjubreytinguna milli ára, enda segir í lok umsagnar Þjóðhagsstofnunar: „Hér er enn um áætlun að ræða, sem að vísu er studd úrtaksathugun á nokkrum stöðum, sem yfirleitt hefur gefið nokkuð góða raun.“ Ég get ekki séð ástæðu til þess, að menn byggi miklu frekar á þessum 47% en 45%. Það stendur hér að þetta hafi yfirleitt gefið nokkuð góða raun. En við erum komin með allt önnur skattalög, allt annað skattkerfi, við höfum enga reynslu af því. Samt vilja menn rjúka til og taka þessar prósentur sem einhverja heilaga tölu. Ég ætla mér ekki að fullyrða að 45% tekjubreyting á milli ára sé það eina rétta. Þetta er nokkuð sem verður að koma í ljós, eins og alltaf hefur verið. Þarna hefur alltaf verið um áætlun að ræða, og það hefur brugðið til beggja vona. Það hefur yfirleitt verið nokkru hærra en gert var ráð fyrir. Hitt er svo annað mál, að ég veit ekki dæmi þess, að það hafi orðið til þess að um afgang hafi verið að ræða hjá ríkissjóði sem hafi valdið verulegum erfiðleikum.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sagði að þessi tekjuskattur gæfi 2.5 milljörðum meira en gert væri ráð fyrir í fjárlögum, og það er náttúrlega miðað við það að tekjubreytingin verði 47%. Það hefur einnig farið fram samanburður hér á skattinum sem hlutfalli af brúttótekjum heimilanna. En það kemur fram í áætlun Þjóðhagsstofnunar, að þetta muni verða um 14.2% af tekjum greiðsluárs, miðað við það að helmingurinn af útsvarsheimildinni verði notaður. Og þess hefur verið getið hér, að þetta hafi verið 10.6% 1977. Nú verða menn einnig að gæta þess, að þessi tala fyrir árið í ár er að sjálfsögðu áætluð, en talan fyrir 1977 og 1978 er raunveruleg niðurstaða. Þessar áætlunartölur hafa ávallt verið hærri en raunveruleg niðurstaða af þeirri einföldu ástæðu að á undanförnum árum höfum við reiknað með því í upphafi árs, að verðbólgan yrði mun minni en raun ber vitni, vegna þess að ásetningur okkar — eða hvernig skal orða það: það, sem menn hafa ætlað sér, hefur mönnum ekki tekist að standa við, þannig að þegar þessar tölur eru bornar saman, eins og gert var af hv. sjálfstæðismönnum, og reiknuð út hækkun upp á 25 milljarða, þá er það langt frá því að vera sanngjarn samanburður. Það ætti þá a. m. k. að nota áætluðu töluna fyrir fyrri ár miðað við áætluðu töluna fyrir árið í ár. Það munar ekki nema eins og 10–12–13 milljörðum hvort sem menn nota þetta eða eitthvað annað. Þess vegna spyr ég: Mönnum gengur vonandi ekkert illt til þegar menn eru að stunda þessar reikningskúnstir hér á Alþ. Ég ætla ekki að biðjast undan því að menn beri þetta saman og reikni það rétt út. En mér finnst það vera lágmarkskrafa að menn geri það eftir sambærilegum forsendum.

Það hefur verið sagt hér, sérstaklega af þeim Alþfl. mönnum, að þeir hafi viljað létta tekjuskatti af almenningi um 7.2 milljarða. Og rétt er það, þeir gerðu till. um slíkt. En þeir gerðu líka till. um að ýmislegt kæmi þar á móti sem þeir hafa kallað niðurskurð, og það gæti verið að eitthvað af þeim niðurskurði mundi rýra kaupmátt tekna almennings. Niðurskurður á niðurgreiðslum um 3.4 milljarða hefur t. d. væntanlega einhver áhrif á kaupmátt almennings. Menn vita að niðurgreiðslur um 3000 millj. vega sama og 1% í kaupgjaldsvísitölu. Og niðurskurður á Lánasjóði ísl. námsmanna um 2 milljarða mundi náttúrlega breyta eitthvað kaupmætti þess fólks. Og það mætti telja upp fleiri liði. Þessar niðurskurðartillögur eru því ekki alveg eins saklausar og menn vilja vera láta hér í ræðustól. Menn skyldu gera launþegum grein fyrir því einnig í sínu máli á morgun, hv. þm. Karvel Pálmason, að þetta hafi verið með í pokanum í þessum niðurskurðartillögum. (KP: Að sjálfsögðu.) Það þykir mér vænt um að heyra.

Herra forseti. Ég ætla að verða við þeim tilmælum að hafa hér ekki langt mál, enda hefur forseti hlustað hér á mál manna af einstakri þolinmæði. En ég veit að hann hyggst ekki gera það lengi nætur og þess vegna vil ég verða við tilmælum hans. Ég vil aðeins ítreka það, að veruleg óvissa er í kringum alla tekjuskattsálagninguna, sem nú er fram undan. Sérstaklega er það varðandi félögin. Menn vita alls ekki hvað þar kemur út. Í fyrsta lagi valda því breytt skattalög og í öðru lagi virðist afkoma atvinnuveganna vera verri á árinu 1979 en hún var á árinu 1978. Allt þetta hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Og það er að mínu mati ekki rétt að auka þessa óvissu enn meir með því að fara að reikna með t. d. 47% tekjuhækkun milli ára, sem menn hafa enga vissu fyrir, enda er Þjóðhagsstofnun með alla fyrirvara varðandi það og það er hrein rangtúlkun að taka það sem hreina og beina skoðun Þjóðhagsstofnunar. Þjóðhagsstofnun er ráðgjafarstofnun ríkisstj. og Alþingis, en því miður ber mikið á því, þegar þessi stofnun lætur eitthvað frá sér fara með alls konar fyrirvörum, að þess er ekki getið hér á Alþ. Menn taka þetta sem bókstaflega tölu, sem getur að sjálfsögðu brugðist eins og allt annað, og það er hrein rangtúlkun á þessum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar að taka þessa tölu svona bókstaflega.