01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er fyrst svolítil leiðrétting. — Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að ég hefði einhverju sinni kallað sjálfan mig arkitekt að tilteknum kosningasigri á árinu 1978. Þetta er ónákvæmni sem hæstv. forsrh. er kannske leyfileg 29. des. eða síðar, en helst ekki fyrr. Þau ummæli, sem hér er vísað í, birtust í málgagni hæstv. forsrh., Morgunblaðinu, og orðin, sem féllu, voru: „Einn af arkitektum,“ sem ég vitaskuld var ásamt með öðrum frambjóðendum Alþfl. á þeim tíma svo og þeim hundruðum eða þúsundum manna sem unnu að þeim kosningasigri sem hæstv. forsrh. gat um. Þetta er lítil ónákvæmni sem hæstv. forsrh. gerir sig sekan um, sem venjulega hefur verið kennd við Þjóðviljann, enda má oftast lesa slíka tegund af ónákvæmni í því blaði, en mér þykir hann gerast fulldjarfur námsmaður ef hann ætlar að taka upp þessi vinnubrögð með litlu tilliti til staðreynda og nánast engum fyrirvara. Að vera einn af arkitektum er allt annað en að vera arkitekt. T. a. m. mætti segja að hæstv. forsrh. væri einn af arkitektum að Kröfluævintýrinu, en það hvarflar ekki að mér að segja að hann sé arkitektinn að því ævintýri, fleiri voru þar að verki. Sem sagt, lítil leiðrétting. Ónákvæmni er leyfileg eftir 29. des. n. k., en ekki fyrr.

Erindi mitt hingað í ræðustól er að vekja athygli á því fyrst og fremst, að hún er orðin grínaktug, framkoma þm. Sjálfstfl., sem svo er enn kallaður, í þessu máli sem raunar öðrum sem hér eru til umr. „Málgagn þjóðarinnar,“ í gæsalöppum sagt og hugsað, Morgunblaðið, sagði frá því í stórfréttum ekki alls fyrir löngu, að nýr félagi hefði bæst í þingflokk Sjálfstfl., þ. e. hv. þm. Eggert Haukdal. Það eru vissulega stórtíðindi þegar málgagn þjóðarinnar skýrir frá því, að í þingflokk þjóðarinnar hafi komið nýr liðsauki. Nú skyldi maður ætla að það, sem hefði gerst, væri að þetta samstillta fjörlið þjóðarinnar væri hálfu samstilltara eftir óneitanlega svolítinn óróa að undanförnu. Og nú skyldi maður ætla að þetta djarfa lið, þessi þingflokkur þjóðarinnar, stæði samstæður og samhuga og að þessir fáu undanvillingar, sem það slys hefur hent að styðja allt aðra stefnu en boðuð var fyrir kosningar, — maður skyldi halda að þeir yrðu þeim mun einangraðri sem blað þjóðarinnar notaði stærri fyrirsagnir um að þingflokkur þjóðarinnar væri orðinn stærri og sterkari. Svo eru greidd atkv. hér í kvöld og hvað gerir hv. þm. Eggert Haukdal, nýinntekinn í þingflokk þjóðarinnar? Hann segir auðvitað þetta sama já.

Og þá spyr maður: Hvað þýddi fréttin um það að hv. þm. Eggert Haukdal væri genginn í þingflokk Sjálfstfl.? Hafði sú frétt yfirleitt enga þýðingu? Er þetta grín og er verið að gera grín — látum vera hér innan húss, menn eru ýmsu vanir, en er verið að gera grín úti um þjóðfélagið allt?

Hér hefur fyrr í kvöld einnig verið vakin athygli á því, að einn hv. þm., að vísu óreyndur þm., en þm. engu að síður, sem kemur af Akranesi, hv. þm. Valdimar Indriðason, hefur farið á kostum. Og menn skyldu hafa ætlað að hann væri ekki liðsmaður undanvillinganna, heldur væri hann í þessum heilsteypta þingflokki þjóðarinnar. En svo er ekki aldeilis. Þvert á móti munar nákvæmlega einu atkv. að skattastefnan komist til framkvæmda. Og hver er það? Hv. þm. Valdimar Indriðason. Það er engin furða þó að ég spyrji, þó að fleiri þm. spyrji og þó að spurt sé úti um þjóðfélagið allt: Til hvers eru þingflokkar og hvað þýðir þetta kerfi yfirleitt sem við erum að byggja upp, ef á sama tíma og verið er að greina frá því í stórum fyrirsögnum í sjálfu málgagni þjóðarinnar, að t. d. hv. þm. Eggert Haukdal sé genginn í þingflokk Sjálfstfl., ef hann á sama tíma greiðir atkv. með allt öðrum hætti en þm. flokksins og þá nefni ég t. d. hv. þm. Geir Hallgrímsson? Hann lýsir því hér skýrum og sterkum orðum, að það sé stefna Sjálfstfl. að vera á móti þeim skattahækkunum sem hér er verið að leggja til. Hvað þýða þessi orð? Eða eru þessir menn fullkomnir ómerkingar orða sinna? Og hvernig ætlar þessi flokkur að ganga fram til kosninga? Hvað ætlar hann yfirleitt að bjóða næst? Hvað bauð hann síðast? Hvað ætlar hann að bjóða næst? Auðvitað ætti Sjálfstfl. að hafa það í flokkslögum sinum, að því viðbættu sem hann þegar hefur, að sjálfstæðismönnum sé fullkomlega frjálst að vera í öðrum stjórnmálaflokkum. Það væri hægt að þiggja það upp á þau býti að vera í þingflokki Sjálfstfl. með þeim réttindum sem því fylgja, ef það eru engar skyldur þar fyrir utan.

Það er auðvitað hörmungarsaga þegar verið er að stórhækka skatta á landsfólkinu. Það er auðvitað hörmungarsaga, að því viðbættu að það skuli gerast á alþjóðlegum hátíðisdegi verkalýðshreyfingarinnar í veröldinni, 1. maí. Harmsaga Alþb. er öllum svo kunn, að um hana þarf ekki að fara fleiri orðum. Það að þm. flokksins skuli, auðvitað af ásettu ráði, vera á öllum stöðum öðrum á landinu heldur en í þessum sal í kvöld er út af fyrir sig ýkjavel skiljanlegt. En hitt er sennilega enn þá grínaktugra, að hér á að heita þingflokkur sem er að tilkynna það með pomp og prakt að hann sé að auka kyn sitt í bókstaflegri merkingu þess orðs, m. a. með því að hv. þm. Eggert Haukdal er nýorðinn þátttakandi og meðlimur með réttindum og skyldum sem því fylgja í þessum þingflokki, og síðan falla atkv. hér í kvöld út og suður eins og auðvitað öllum þm. er ljóst.

Það hefur verið talað um það í kvöld, að það sé út af fyrir sig ekki þinglegt eða drengilegt að vera að níðast á hv. þm. Valdimar Indriðasyni með þeim hætti sem gert hefur verið hér í kvöld. Maðurinn er óvanur og sennilega þekkir hann ekki þær leikreglur sem hér hafa tíðkast. En hlýtur það ekki að koma fleirum en mér spánskt fyrir sjónir, að þessi nýi varaþm. Sjálfstfl. — skulum við segja — verði með atkv. sínu valdur að þeirri skattahækkun sem hér er verið að samþykkja, þrátt fyrir margítrekaða yfirlýsingu formanns flokksins, hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, um að hið gagnstæða sé stefna Sjálfstfl.?

Það er augljóst, að við öll þessi tíðindi verður að fara að breyta um tungutak í íslenskum stjórnmálum. Hvað þýðir stefna Sjálfstfl. ef ekkert er við það að athuga og enginn gerir við það aths., að hv. þm., nýinntekinn í þingflokk Sjálfstfl., Eggert Haukdal, að ég ekki tali um hv. varaþm. Valdimar Indriðason og þá fleiri sem hér sitja, ef menn greiða atkv. út og suður eins og gert hefur verið? Hverju á fólk yfirleitt að treysta og hverjar eru leikreglur stjórnmálanna ef ekkert er við þessa framkomu að athuga?

Það er óhætt að vísa ábyrgðinni af því, sem hér hefur verið að gerast, alfarið í fangið á Sjálfstfl. Flokkurinn er augljóslega stjórnlaus í alla staði. Forustumenn hans ráða ekki neitt við neitt. Það er ekki lengur hægt að segja að það sé þessum þremur mönnum, sem keyptir voru fyrir ráðherrastóla, einum að kenna hvernig komið er. Varaþm. hv. hefur hér í kvöld sýnt fram á að þetta er miklu flóknara mál, greinilega djúptækara og nær miklu víðar en þar er um að ræða. Og ég þarf að endurskoða eigin hugmyndafræði um metnaðinn í dr. Gunnari Thoroddsen, því að augljóst er að það mál er bæði flóknara og víðfeðmara en hér hefur áður verið greint frá í fræðilegum vangaveltum um þessi mál. En kostulegustu tíðindin af þessu öllu eru kannske þau, að tveimur eða þremur dögum eftir að frá því er greint, að hv. þm. Eggert Haukdal — sem bauð sig fram af L-lista og er auðvitað ekki sekur um að hafa svikið eitt eða neitt, því mér er ekki kunnugt um að hann hafi lofað einu eða neinu — sé kominn í þingflokk Sjálfstfl., að við héldum með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja, þá snúist hann gegn þingflokknum, aðeins tveimur kvöldum seinna, og í fyrsta skipti sem eitthvað reynir á. Væri nú ekki ráð fyrir þingflokk Sjálfstfl. að hætta þessum leikaraskap og leysa bara þingflokkinn upp? Það eru áreiðanlega nóg herbergi hér í húsinu, t. d. hér undir stiganum, sem hægt er að nota sem minni háttar þingflokksherbergi fyrir þennan þingflokk, alls konar smáherbergi þar sem þeir geta verið einn og tveir og þrír saman. Það er alveg augljóst, að það að kalla þetta þingflokk hefur enga merkingu. (Gripið fram í: Er símaklefi laus?) Til dæmis, það er eitt herbergið sem vel getur komið til greina.

Sjálfstfl. hafði tiltekna stefnu fyrir kosningar, það er rétt. Hv. þm. Eggert Haukdal bar enga ábyrgð á þeirri stefnu. Hann bauð sig fram fyrir allt annan flokk, L-listann á Suðurlandi. En Sjálfstfl. hafði tiltekna stefnu. Hann hafði þá stefnu m. a. að afnema hina 19 skatta vinstri stjórnarinnar. Það var stefna, rétt eða röng, við skulum láta það liggja milli hluta að sinni, en þetta var kosningastefnan sem Sjálfstfl. hafði á þeim tíma. Nú er alveg augljóst að flokkurinn er klofinn í frumeindir sínar um það, með hverjum hætti þessari stefnu skuli framfylgt. Og þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson kemur hingað í ræðustól og verður einbeittur í framan og segir að það sé stefna Sjálfstfl. að afnema þessa 19 skatta, þá er það einfaldlega ekki satt. Það er beinlínis ósatt, vegna þess að hv. þm. og hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson, hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson, þeir framfylgja alls ekki þessari stefnu. Því má svo bæta við, að hv. þm. Albert Guðmundsson, sem að vísu hefur öðrum hnöppum að hneppa um þessar mundir, hefur verið ærið óviss í þessari flatsæng, svo ekki sé meira sagt. En svo bætist grínið við, að maðurinn utan flokksins, hv. þm. Eggert Haukdal, er nýgenginn inn í flokkinn, eins og lesa má í málgagni þjóðarinnar, og notar fyrsta tækifærið til þess að sparka í þennan sama flokk og greiða atkv. gegn því sem hv. þm. Geir Hallgrímsson segir að sé stefna flokksins. Það er þessi ómynd af stjórnmálaflokki sem ber ábyrgð á því fyrst og síðast, hvernig þessum málum nú er komið. Það er auðvitað þessi ómynd af stjórnmálaflokki sem ber ábyrgð á því að skattarnir á fólki í landinu eru að snarhækka nú á þessari nóttu, og þegar morgunn, heiðríkur morgunn 1. maí, hins alþjóðlega baráttudags launafólks úti um gjörvallan heim, rennur upp, þá verður fólkinu í landinu gert að greiða miklum mun hærri skatta en áður hafði verið ákveðið. Það er þetta sundurtætta sundrungarlið að viðbættum hv. þm. Eggert Haukdal, sem ber á því fulla og alla ábyrgð. Ég vil í fullri vinsemd beina því til hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, þegar hann kemur andagtugur hér upp og lýsir því hver sé stefna Sjálfstfl. í þessum efnum, að gera þá heiðvirðu undantekningu, að ég veit ekki betur en að ráðherrarnir og hinir tveir a. m. k. séu í Sjálfstfl., en þetta er ekki stefna þeirra. Hann verður þá að segja: Þetta er stefna minna manna í Sjálfstfl. Þetta er stefna tætingsliðsins, sem í kringum mig er, sem ég er að tala fyrir. Maðurinn er ekki að tala fyrir stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum vegna þess að slík stefna er ekki til og hefur ekki verið til síðan dr. Gunnar fór að brölta á sinni tíð.

Það er fyrst og fremst einn stjórnmálaflokkur sem ber á þessu fulla og alla ábyrgð, vegna þess að ef kosningaúrslitunum hefði verið framfylgt nákvæmlega, þá værum við ekki að hækka skattana hér í kvöld. Kosningaúrslitin sögðu til um aðra meðferð mála að því er þetta varðar. En það að þeir hv. þm. Geir Hallgrímsson og Ólafur G. Einarsson hafa ekki nema mjög takmarkaða stjórn á sínu liði, það er auðvitað fyrst og síðast orsök þeirrar ógæfu sem hér er um að ræða.

Svo, herrar mínir, þegar þið lýsið því hver sé stefna Sjálfstfl. í þessum efnum, þá verðið þið — a. m. k. dr. Gunnars vegna, hæstv. ráðh. Pálma vegna og hæstv. ráðh. Friðjóns vegna og vegna mannsins sem er nýgenginn inn í þingflokkinn til ykkar og tekinn með pomp og prakt, að því er lesa má í málgagni þjóðarinnar, og hv. þm. Alberts Guðmundssonar vegna, sem að vísu hefur öðrum hnöppum að hneppa eins og kunnugt er, — en þið verðið að gera þessar heiðarlegu undantekningar, þið verðið að beita frádráttaraðferðinni áður en þið lýsið því hver sé stefna Sjálfstfl. í þessum efnum. Það er við Sjálfstfl. að sakast og þá staðreynd, að Sjálfstfl. er pólitískt flakandi sár. Það tekur mörg ár að brjótast út úr þeirri sjálfheldu, út úr þeim harmleik sem hér hefur verið að gerast. En haldið þið ekki áfram að blekkja þjóðina í þá veru, að hér sé um einn heildstæðan og heilsteyptan stjórnmálaflokk að ræða. Það er auðvitað ekki. Sjálfstfl. er klofinn í einn, tvo, þrjá, fjóra, fimm arma, það er staðreynd. Og því fyrr sem talsmenn Sjálfstfl. viðurkenna þessa staðreynd, þeim mun fyrr veit þjóðin að hverju hún gengur, hverjir raunverulegir valkostir í stjórnmálum eru. Og því fyrr sem þjóðin veit það, því fyrr sem þjóðin hefur réttari upplýsingar, líka frá þessum mönnum sjálfum, þeim mun fyrr eru valkostirnir skýrir. Þetta þurfum við að hafa skýrt fyrir okkur. Þessi sök er stór og það er rangt að reyna að breiða yfir hana.