01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil nú aðeins leiðrétta það hjá hæstv. forsrh., að ég hafi leitað til hans í sambandi við leiftursóknina. Ekki man ég nú eftir að ég hafi nokkurn tíma haft orð á því, að hæstv. forsrh. hafi frætt mig mikið um þau efni, enda er mér satt að segja ókunnugt um hvort hann skildi í hverju hún var fólgin. Hins vegar er það ekkert launungarmál, að við, sem vorum ungir sjálfstæðismenn í kringum 1960 og fylgdumst með þeirri ríkisstj. sem kennd var við viðreisn, við lásum með mikilli athygli þá stefnu sem boðuð var í skattamálum í sambandi við þá viðreisn. Þaðan hafði ég þann lærdóm sem ég var að lýsa áðan. Til að rifja þetta upp, skal ég nú lesa, með leyfi hæstv. forseta, nokkuð af því sem ég fræddist um á þessum árum.

Gunnar Thoroddsen, þáv. fjmrh., núv, hæstv. forsrh., sagði m. a. á landsfundi Sjálfstfl. á árinu 1961:

„Það er auðvitað öllum ljóst, að það ástand í skatta- og útsvarsmálum, sem hér hafði ríkt um langan aldur, var ekki aðeins óviðunandi, heldur hættulegt fyrir alla velmegun og lífskjör þessarar þjóðar. Þetta skattaástand hefur verið til niðurdreps fyrir atvinnureksturinn, meinað atvinnufyrirtækjum að endurnýja sig, efla og auka starfsemi sína og afköst. Og í fjölda tilvika hafa þessir skattar dregið úr framtaki og orku einstaklinganna. Þess eru mörg dæmi sem við þekkjum með sanni. Þess eru dæmi, að þegar sjómenn hafa verið orðnir alltekjuháir og óskað var eftir eiginkonum þeirra til vinnu í frystihúsum, hafa menn þeirra amast við því vegna þess að skatturinn tæki kúfinn af tekjunum. Þannig hefur skattafarganið ekki aðeins verið til óþurftar fyrir atvinnuvegina, heldur og dregið úr dugnaði og vinnusemi einstaklinganna.

En auk þessa hefur skattaáþjánin haft þau áhrif, að skattsvik hafa verið orðin almennari á Íslandi heldur en í nágrannalöndum okkar. Í rauninni var svo komið, að þorri manna taldi eðlilegt og réttlætanlegt að draga undan skatti það sem mögulegt var. Þetta skapaði svo aftur hið mesta misrétti og ranglæti. Þeir þjóðfélagsborgarar, fyrst og fremst launamenn, sem urðu að telja fram allar tekjur sínar, töldu oft með réttu að skattar þeirra væru í hinu argasta ósamræmi við skatta nágrannans, sem hafði hagrætt sínu framtali betur. Það er orðið þjóðfélagsvandamál, þjóðfélagsböl, ef það er komið inn í almenningsálitið, að sjálfsagt sé að draga undan eins og frekast er fært.“

Þetta er kafli úr landsfundarræðu hæstv. forsrh. á árinu 1961. Og það er athyglisvert, að sá stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. sem fjarverandi er, Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, sagði í sjónvarpsþætti í gærkvöld að hann óttaðist að við yrðum að flytja inn 4000 Ástralíustúlkur til þess að vinna í frystihúsunum af því að skattarnir væru orðnir svo háir, nákvæmlega það sama og hæstv. forsrh. var að lýsa að verið hefði í tíð vinstri stjórnarinnar áður en hann varð fjmrh. í upphafi viðreisnar. Nákvæmlega það sama.

Tveim árum síðar sagði þáv. hæstv. fjmrh. á landsfundi Sjálfstfl., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef við víkjum að fyrsta meginatriðinu, tekjuöflun ríkisins, komum við strax að grundvallaratriði, sem er viðhorfið til beinna og óbeinna skatta. Áður fyrr var mikill ágreiningur um það milli sjálfstæðismanna annars vegar og hins vegar sósíalista og kommúnista, hvort ætti að afla tekna fyrst og fremst með beinum sköttum eða óbeinum. Sósíalistar og kommúnistar héldu fram hinum beinu sköttum, þeir ættu að greiða hina stighækkandi tekjuskatta sem breiðust hefðu bökin, en tollar og aðrir óbeinir skattar ættu að vera sem allra lægstir, því að þeir kæmu þyngst niður á alþýðu.

Sjálfstæðismenn héldu því fram, að háir beinir skattar væru skaðsamlegir á marga lund, drægju úr framkvæmdum, framtaki og vinnusemi manna, sköpuðu margvíslegt ranglæti og leiddu til skattsvika ef skattstigar færu úr hófi.

Nú á síðustu árum hefur orðið gjörbreyting á viðhorfi manna í þessu efni. Margir þeirra, sem áður héldu fram ágæti hinna beinu skatta fram yfir þá óbeinu, hafa horfið frá fyrri skoðunum. Þetta hefur gerst bæði hér og í nágrannalöndum okkar. Það eru bráðum komin sex ár síðan haldinn var hér þingmannafundur Norðurlanda þar sem þáv. fjmrh. Norðmanna, Bratteli, einn af forustumönnum jafnaðarmanna í Noregi, flutti stórfróðlegt og athyglisvert erindi um beina og óbeina skatta. Hann hafði látið fara fram í Noregi rækilegar athuganir á þessum málum. Niðurstöður hans brutu í bág við fyrri kenningar jafnaðarmanna. Við eigum að draga úr hinum beinu sköttum, en taka í staðinn upp óbeina skatta, fyrst og fremst söluskatta. Hann færði fyrir þessu sterk rök.

Sú hefur orðið raunin á þar sem jafnaðarmenn ráða mestu á Norðurlöndum, að teknir hafa verið upp óbeinir skattar í æ ríkari mæli. Það sama hefur gerst hér á þessu kjörtímabili.

Við fyrstu sýn munu vafalaust margir segja: Það er meira réttlæti í því að ná ríkistekjum inn með beinum sköttum af þeim sem hafa háar tekjur, það er rétt að þeir borgi meira en hinir, í stað þess að tollar og söluskattar lenda einnig á fátæka fólkinu. Þetta lítur eðlilega út við fyrstu sýn. En reynslan sýnir og sannar allt annað. Þegar beinir skattar eru komnir úr hófi, eins og þeir voru komnir ekki aðeins hér heldur í flestum nágrannalöndum okkar, þá draga þeir úr framtaki manna. Ekki aðeins draga þeir úr uppbyggingu og eflingu atvinnulífsins, heldur voru þess mörg dæmi að launamenn, sem voru komnir sæmilega hátt í tekjum, höfðu ekki áhuga á því að leggja á sig meiri vinnu og afla meiri tekna vegna þess hve mikið hlutfallslega fór þá í skatta. Fyrir fáum árum fór ég í sjávarpláss hér úti á landi. Þar voru mér sögð dæmi þess, að þegar sjómenn hefðu aflað mikilla tekna, komið var fram á haust og eiginkonurnar vildu fara að vinna í frystihúsum og afla sér aukatekna, þá var það illa séð af eiginmönnunum. Þetta gat hækkað skattana verulega og þegar ætti að fara að greiða þá væri erfiðara að fá konurnar til þess að borga af sínum tekjum þeirra part af skattinum. Og það er athyglisvert, að þar sem atvinnuleysi er eitthvað að ráði nú, t. d. í Bandaríkjunum og Bretlandi, er fyrsta ráðið, sem menn gripa til, að lækka hina beinu skatta.

Framsóknarmenn hafa mjög reynt að koma óorði á Kennedy Bandaríkjaforseta með því að kenna hann og flokk hans við Framsókn. En þegar hann leggur fram till. til að draga úr atvinnuleysinu er fyrsta ráðið að lækka hina beinu skatta á atvinnurekstrinum til þess að skapa atvinnufyrirtækjunum möguleika á að færa út kvíarnar, efla starfsemi sína, endurnýja hana og auka og þar með skapa aukna atvinnu.

Hinir háu beinu skattar hafa jafnan leitt til undandráttar undan skatti. Þar komum við að öðru atriði. Þetta skipulag leiðir oft til þess, að verulegur þungi skattabyrðarinnar lendir einmitt á hinum efnaminni launamönnum. Meðan skattarnir voru hér sem hæstir þurftu launamenn, sem urðu að borga háa skatta, oft að horfa upp á það, að nágranni þeirra, sem hafði aðstöðu til þess að telja ekki allt fram, greiddi ekki nema brot af þeim skatti sem á launamanninn var lagður. Þetta skapaði svo mikið ranglæti milli manna innbyrðis að til vandræða horfði. Ég held að flestir menn muni kjósa heldur að borga það, sem á að fara til ríkisins, jafnóðum í vöruverði, um leið og þeir kaupa vöruna, heldur en að þurfa að snara út þúsundum kr. í beinan skatt. Þar við bætist að álagning og innheimta hinna óbeinu skatta, tolla og söluskatts, eru miklu ódýrari og handhægari heldur en hinna beinu skatta. Það var eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. að lækka verulega beinu skattana, fella tekjuskattinn með öllu niður af almennum launatekjum og síðan að endurskoða allt skattkerfið með það fyrir augum að gera atvinnurekstrinum kleift að byggja sig upp og endurnýjast.“

Svo mörg voru þau orð. Það er athyglisvert, að núv. ríkisstj. velur hátíðisdag verkalýðsins til þess að hækka hlutfallslega beina skatta af atvinnutekjum verkamanns, meðalatvinnutekjum verkamanns frá því sem áður var. Það er líka annað athyglisvert í þessu sambandi. Hæstu skattar eru núna 64–65%. Sumir af talsmönnum hæstv. ríkisstj. hafa reynt að verja þessar drápsklyfjar með því að verðbólgan verði gífurlega mikil á þessu ári. Að vísu hefur hæstv. forsrh. sagt í sjónvarpi að það sé algjör misskilningur. En sumir halda því fram, að verðbólgan verði jafnvel 55% og það réttlæti 65% í beinum sköttum af því að þeir séu greiddir eftir á.

Ég vil nú ekki trúa því, að hæstv. forsrh. sé haldinn þeirri vinstri villu að bera þvílíkan rökstuðning á borð fyrir hinum háu beinu skattþrepum. Ef við fylgjum þessum hugsanagangi, og það miklu fremur nú en endranær þar sem samningar eru lausir, þá erum við að kalla á að launþegarnir sjálfum sér til bjargar síðari hluta ársins spenni kaupkröfurnar upp til þess að lifa skattahækkanirnar af. Það eru þess vegna ekki rök, að í mikilli verðbólgu sé réttlæting fólgin í því að hækka beinu skattþrepin eins og nú er gert, vegna þess að það kallar á andsvar launafólksins. Launamaðurinn á ekkert annað svar en að krefjast þeim mun hærri grunnkaupshækkana sem tekjuskattstiginn er píndur upp. Þetta er augljóst öllum mönnum.

Ég veit ekki hvort ég á að endurtaka það, það er nú hálfþreytandi, en gaman væri að fá gleggri upplýsingar um hvernig það má vera, að tekjuskattsálögurnar á þjóðina í heild minnki þegar tekjuskattsinnheimtan vex meira en verðbólgunni nemur. Hæstv. forsrh. gerði ekki tilraun til að svara þessu áðan, sem ekki er von, frekar en annarri þeirri réttmætu gagnrýni sem fram hefur komið á það skattalagafrv. sem meiningin er að samþykkja nú á næstu stundum.

En það var ein spurning sem ég spurði hæstv. sjútvrh. um áðan og hann skaut sér undan að svara, og það var hvort hann væri sammála forsrh. um að 1% launahækkun þýddi 1% verðbólgu. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: er hann sammála þessari kenningu? Það hefur stundum komið fyrir að Alþb. hefur haldið því fram, að launakjörin hafi engin áhrif á verðbólguna. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir í sjónvarpi, að 1% launahækkun þýði 1% hækkun verðbólgu þegar ár sé liðið. Hvað segir hæstv. félmrh. um þetta? Er hann sammála þessum skilningi? Ef það fólk, sem lægstar hefur tekjurnar, fær 1% hækkun sinna launa, þýðir það þá undir þeirri ríkisstj., sem nú situr, að verðbólgan þurfi endilega að hækka um 1%? Það væri afskaplega fróðlegt að fá þetta upplýst. Þetta kom fram í sjónvarpsþætti í gær. Frekari skýringar voru ekki á þessu gefnar af hæstv. forsrh. (Forsrh.: Má ég skýra þetta fyrir þér?) Ég fékk nú ekki að skýra mikið út þegar hæstv. forsrh. var að tala í sjónvarpið og skrökva því að þjóðinni að skattar lækkuðu á meðaltekjum. (Forsrh.: Má ég skýra það fyrir hv. þm., að þetta er ekki pólitískt mat, heldur hagfræðilegt mat, sem ég skýrði frá í gær.) Hvaða hagfræðingur er sammála hæstv. forsrh.? (Forsrh.: Þjóðhagsstofnun Íslands.) Er hún sammála því? (Forsrh.:Já.) Það er nefnilega það, það er fróðlegt.

Það væri gott að fá það frá Þjóðhagsstofnun þá, að 1% hækkun á almennum launatekjum þýddi 1% hækkun verðbólgu. Það væri mjög fróðlegt. (Gripið fram í: Er forsrh. sammála því mati?) Hann skýrði frá þessu sem sinni skoðun í sjónvarpsþætti. En ég er að spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann segi um málið. Og hvað segir hæstv. félmrh.? Eru þeir sammála þessu? Eða láta þeir það bara vera gott og gilt? (Forsrh.: En ræðumaður sjálfur, hvað segir hann?) Ég tel það sama og m. a. Ólafur Björnsson sem hæstv. forsrh. var einu sinni kunnugur. Og það hittist nú þannig á, að við höfum spurt um þetta í verkalýðsráði Sjálfstfl., einmitt um þetta atriði. Og hann var nú ekki þessarar skoðunar. En annars býst ég við því, að hæstv. forsrh. geti sjálfur rætt þetta við hann. Þeir voru einu sinni kunnugir. (Forsrh.: Ég var að spyrja um álit ræðumannsins.) Ég er ekki sammála þessu, nei. Ég er ekki sammála þessu, hæstv. forsrh., frekar en ýmsu öðru. (Gripið fram í: Er þetta flokksfundur í Sjálfstfl. eða hvað?) Það kom einu sinni fyrir að hér var utan dagskrár lesin upp, ef ég man rétt, flokkssamþykkt Alþfl. Var það ekki?

Ég vil svo í tilefni af þessum degi aðeins rifja upp leiðara Þjóðviljans þegar núv. hæstv. heilbr.- og félmrh. var ritstjóri, í tilefni af 1. maí 1978. Þessi leiðari bar fyrirsögnina: „Kjósum ekki kaupránsflokkana“ — og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Iðnnemasambands Íslands í fyrra var lögð áhersla á að fram undan væru þáttaskil: eftir samfellt varnarstríð í tvö ár væri tímabil sóknarinnar hafið. Í ávarpinu var því lýst yfir, að reykvísk alþýða væri staðráðin í „að berjast til sigurs gegn óbilgjörnu ríkisvaldi og auðstétt landsins, sem á fáeinum misserum hafa efnt til hrikalegrar kjaraskerðingar, þannig að Ísland er nú orðið láglaunasvæði.“

Þess var krafist í ávarpinu, að ríkisstj. færi frá, og lögð áhersla á að afstaða hennar til tillagna verkalýðshreyfingarinnar í efnahagsmálum væri prófsteinn á viðhorf ríkisstj., skilning hennar eða skilningsleysi. Í þessum tillögum bentu verkalýðssamtökin á efnahagslegar ráðstafanir sem hefðu skapað svigrúm til kjarabóta án þess sem kalla mætti grundvallarbreytingar á gerð þjóðfélagsins. Í lok ávarpsins í fyrra sagði á þessa leið: „1, maí 1977 fylkir reykvísk alþýða liði til sóknar fyrir bættum lífskjörum gegn fjandsamlegri auðstétt og ríkisvaldi. Hún heitir á hvern einasta einn að ganga fram og gerast virkur í baráttunni.“

Ég get skotið því hér inn, að í þessum leiðara er talað um samfellt varnarstríð í tvö ár. Hvað er það sem verkalýðshreyfingin er búin að vera að heyja síðan þessi hæstv. ráðh. settist í fyrsta skipti í stjórnarráðið? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá honum um það til dæmis, hvað lífskjör verkamanns hafa versnað mikið á síðari helmingi ársins 1979 og fyrri helmingi þessa árs? Ætli kjaraskerðingin frá áramótum sé ekki 2–3%, bara frá áramótum. Og hvernig var það síðasta ársfjórðunginn 1979? Ég ætla að lesa þetta áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki verður annað sagt en launamenn á Íslandi hafi tekið þessum heitu áskorunum vel. Í sjö vikur í fyrravor stóð yfirvinnubann, svæðaverkföll og starfsgreinaverkföll, og þær aðgerðir báru svo góðan árangur, að seint í júní voru undirritaðir samningar sem staðfestu það, að vörn hafði verið snúið í sókn, og verkalýðshreyfingin sótti fram á kostnað auðstéttanna. Nokkrum mánuðum síðar fóru opinberir starfsmenn í sitt fyrsta verkfall og tryggðu sér allmyndarlegar kjarabætur eftir eldskírn stéttabaráttunnar.

Þannig var ljóst að verkalýðshreyfingin hafði faglegt afl til þess að knýja fram kjarabætur, jafnvel þó að í landinu sitji fjandsamleg ríkisstj.

Þessi ríkisstj. svaraði opinberum starfsmönnum þegar þeir settu fram sínar kaupkröfur, þessi fjandsamlega ríkisstj. En hvað hefur nú gerst? Hvar er svar þeirrar ríkisstj., sem nú situr, við kröfum opinberra starfsmanna? Það hefur ekki borist enn. Skyldi það standa í ávarpi verkalýðshreyfingarinnar á morgun eða í dag, að ríkisstj. sé fjandsamleg? Skyldi Benedikt hafa samþykkt það og Snorri? Það verður fróðlegt að fylgjast með því. Hér segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„En varla var blekið þornað á undirskriftum kjarasamninga opinberra starfsmanna þegar öllum samningum var rift með lagaboði. Ríkisstjórn landsins braut sjálf gegn þeim lýðræðislegu og lagalegu grundvallarreglum sem samningar verkalýðs og atvinnurekenda hvíla á. Verkalýðshreyfingin lýsti sig þá óbundna af ólögunum, efndi til allsherjarverkfalls 1. og 2. mars s. l., nú stendur yfir útskipunarbann Verkamannasambands Íslands og Iðja í Reykjavik hefur boðað verkfall eftir mánaðamótin. Verkalýðshreyfingin ætlar að sækja sinn rétt, en reynslan sýnir hins vegar að þó henni tækist það skortir hana pólitískt afl til þess að verja rétt sinn þegar á herðir. Í því ljósi ber að lesa 1. maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, BSRB og Iðnnemasambands Íslands sem birt er landsmönnum í dag. Í því ávarpi segir einmitt:

„Verkalýðshreyfingin hafði faglegt afl til þess að knýja fram kauphækkanir 1977, en skorti pólitískan styrk til þess að standa vörð um ávinning kjarasamninganna. (PS: Var þetta ekki samið með krötum, maður?) Eigi að nást varanlegur árangur verður pólitísk og fagleg barátta verkalýðssamtakanna að haldast í hendur. Með því einu móti er unnt að gjörbreyta íslenska þjóðfélaginu, valda straumhvörfum. Við þessar aðstæður fylkir íslensk alþýða liði l. maí 1978.“

Það er augljóst hér hvað átt er við. 1. maí ávarpið er faglegt og pólitískt ákall til launafólks um að læra af reynslunni, læra af þeirri staðreynd að faglegt afl dugir ekki eitt sér, pólitískt afl verður að slá skjaldborg um verkalýðshreyfinguna, árangur hennar og baráttu. 1. maí ávarpið er ákall til launafólks um að kjósa ekki kaupránsflokkana, Sjálfstfl. og Framsfl., eins og launafólk hefur óneitanlega gert þúsundum saman í kosningum undanfarinna ára. Sú afstaða mikils fjölda launamanna hefur sprottið af margvíslegum ástæðum sem ekki verða gerðar að umtalsefni hér að sinni, en þessi afstaða hefur orðið öllum launamönnum dýr og sársaukafull vegna kauplækkana og kjaraskerðingar sem þessir flokkar bera ábyrgð á. Krafa dagsins og ákall er því: Kjósið ekki kaupránsflokkana, tryggið pólitískt afl verkalýðsins, því eftir kosningar tekur annars við kauprán og réttindaskerðing.

Í þessari forystugrein var í upphafi minnst á sóknarhvatningu verkalýðssamtakanna 1977. Sú sóknarhvatning hlaut hljómgrunn í víðtækri faglegri baráttu, sem bar mikinn árangur með sólstöðusamningunum og samningum BSRB s. l. haust. Vorið 1978 þarf einnig að verða sóknarvor, pólitískt sóknarvor alþýðunnar, sem skynjar þá möguleika sem nú eru til þess að valda straumhvörfum, þáttaskilum í sögu íslenskrar alþýðuhreyfingar. Látum það tæki ekki úr greipum ganga!

Fram til sigurs í kjarabaráttunni! Fram til sigurs í stjórnmálabaráttunni! Til baráttu á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 1978!“

Svo mörg voru þau orð núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. meðan hann var ritstjóri Þjóðviljans. En hvað hefur hann nú gert til þess að reyna að standa við þessi orð? Hvað skyldi hann vera búinn að standa oft að löggjöf hér á Alþingi sem skerti kjarasamningana frá 1977? Ég kann ekki að rifja það upp í fljótu bragði. Og hvað skyldi skerðing kaupgjaldsvísitölunnar vera mikil þegar allt er talið? Hann hafði orð á því hér um daginn, að það mætti búast við að kaupgjaldsvísitalan mundi ekki skerðast meira í bili, mestöll skerðingin væri komin fram. Ætli hæstv. félmrh. hafi reiknað þetta út? Það væri gaman að sjá.

Það er líka svolítið skemmtilegt að fylgjast með því, að þegar þessi ríkisstj., sem meira að segja hæstv. forsrh. er viðkvæmur fyrir nú, ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, lét af völdum var það samdóma álit allrar verkalýðshreyfingarinnar, eða þeirra fulltrúa sem skipuðu Alþfl. og Alþb., að ástandið í þjóðfélaginu væri þannig að atvinnuvegirnir og þjóðfélagið gætu risið undir þeim kjarabótum, sem fólust í samningunum 1977, þá um vorið. Það var mat þessara manna, forustumanna Alþýðusambands Íslands, forustumanna BSRB og forustumanna BHM. Síðan hefur vinstri stjórn verið við völd í hálft annað ár, og hvernig er ástandið þá? Álögur ríkisvaldsins á launþega og atvinnureksturinn hafa stóraukist. Því er lýst yfir og það er gefið út af Þjóðhagsstofnun, að þjóðartekjur á mann muni minnka um 1%. Verkalýðshreyfingin heldur að sér höndum, hver mánuðurinn liður á eftir öðrum án þess að raunverulega sé sest að samningaborðinu, og þær grunnkaupshækkanir, sem farið er fram á, eru um 5%. Það rifjar upp að á árinu 1977 var samið um 44% grunnkaupshækkun á einu og hálfu ári, svo það er aldeilis ólíku saman að jafna. Og ég verð að segja það, að þeim mönnum, sem mest og best treystu mönnum eins og núv. hæstv. félmrh. á því herrans ári 1978, getur ekki verið gerð meiri háðung fyrir sína barnalegu trúgirni heldur en sú skattpíningarlöggjöf sem á að samþykkja á þessari nóttu, á hátíðisdegi verkalýðsins. Það er líka, vil ég segja, hálfbroslegt, þegar maður flettir þessum gömlu blöðum, að sjá það, að nokkrum dögum fyrir 1. maí á árinu 1978 var þessi sami hæstv. ráðh., þá sem ritstjóri Þjóðviljans, að hreykja sér yfir því, að Sósíalistaflokkurinn hefði fyrst fengið fylgi vegna þess að Alþfl. og Sjálfstfl. stóðu að gerðardómslögum á sjómenn árið 1942. En hvað var fyrsta verk þeirrar ríkisstj. sem þessi hæstv. ráðh. sat í, síðustu vinstri stjórnar? Á fyrsta árinu var settur gerðardómur á sjómenn sem hann stóð að ásamt öðrum Alþb.-mönnum sem þá sátu á þingi. Og ég verð að segja að það var hálfraunalegur endir fyrir Eðvarð Sigurðsson, sem fyrst komst í stjórn Dagsbrúnar í kjölfar gerðardómsins á sjómenn á árinu 1942, að sú síðasta ríkisstj., sem hann studdi, skyldi einnig verða til þess að setja gerðardóm á sjómenn. En það sýnir svo eitt með öðru þann galla sem á þingræðinu er, að þetta frv., þessi brbl. um gerðardóminn á sjómenn, þau runnu úr gildi um síðustu áramót, þannig að þau koma ekki til afgreiðslu hér á Alþ. né umfjöllunar. Hefði þó vissulega verið fróðlegt og skemmtilegt að skiptast á skoðunum um þá atburði sem þar gerðust í sambandi við sjómenn, og einnig mætti tala langt mál um það, hvernig að sjómönnum hefur verið vegið æ ofan í æ nú á síðustu misserum.