01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst beina örfáum orðum til hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og þeirra Alþfl.-manna sem hafa áhyggjur af okkur sjálfstæðismönnum og Sjálfstfl. Ég hef einnig ákveðnar áhyggjur og þakka þeim samúð í því sambandi. En sannleikurinn er sá, að það skýtur skökku við þegar þessir hv. þm. berja sér á brjóst og telja að Sjálfstfl. hafi gengið erinda skattpíningar í þessu landi. Alþfl. gekk til kosninga 1978 með ákveðna stefnuskrá. Eftir kosningar sveik hann þá stefnuskrá svo gersamlega, að hann var í sífelldri vörn, sífelldri upplausn, sífelldri sundrungu, sífelldum upphlaupum á þingi á 13 mánaða stjórnarferli þeirrar ríkisstj. sem hann kom saman á haustmánuðum 1978. Alþfl. ber ekki sitt barr síðan. Það, sem er ógæfa, ekki Sjálfstfl. heldur þeirra sjálfstæðismanna, sem gengu undir ok Alþb. og Framsfl., eins og Alþfl. 1978, og gerðu það kleift að mynda núv. ríkisstj. og tengja saman þessa ríkisumsvifaflokka sem Framsfl. og Alþb. eru, — það sem er ógæfa okkar félaga er að taka að sér þetta „veglega og göfuga“ hlutverk Alþfl. — innan gæsalappa og með háðsmerki á eftir! Það er ömurlegt hlutskipti, verð ég að segja. Og ég hefði unnt hæstv. forsrh., hæstv. landbrh., hæstv. dómsmrh. og þeim öðrum úr okkar flokki, sem stuðlað hafa að myndun þessarar stjórnar, veglegra hlutverks en að ganga í fótspor vesalings kratanna, ganga í fótspor þeirra krata, sem komu á fót vinstri stjórn númer þrjú, þeirri skattpíningarstjórn sem lagði á landsmenn 25–30 milljarða kr. auknar skattaálögur, og létu ekki þar við sitja, létu sér það ekki nægja. Þetta er ömurlegt hlutskipti, að láta Alþb. og Framsfl. teyma sig lengra út í fenið en jafnvel vesalings kratarnir létu teyma sig. Ég verð að játa það, að þetta er mér áhyggjuefni. Þetta er okkur sjálfstæðismönnum áhyggjuefni. En Sjálfstfl. ber ekki ábyrgð á því, vegna þess að Sjálfstfl. hafði ákveðna stefnuskrá fyrir kosningar, hefur ákveðna stefnuskrá og hefur tekið ákveðna afstöðu til núv. ríkisstj. og málefnasamnings og aðgerða núv. ríkisstj. Fyrir kosningar var það stefna Sjálfstfl. að lækka skatta og álögur um 35 milljarða kr., þar af 20 milljarða kr. til lækkunar á fjárlögum og 15 milljarða kr. til lækkunar á lánsfjáráætlun eða lánsfjáröflun til ríkisframkvæmda. Ég skal segja ykkur að einn helsti málsvari okkar fyrir kosningar skrifaði grein í Morgunblaðið 28. nóv. þar sem m. a. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki lengur hægt að hækka skatta, þeir eru þegar orðnir allt of háir. Þetta verður að gerast með því að lækka ríkisútgjöldin. Hvernig á að fara að því? Taka þarf upp ný vinnubrögð við gerð fjárlaga.“ Og enn fremur: „Til dæmis mætti ákveða að fjárlögin skuli á næsta ári vera 10% lægri en fjárlagafrv. sem vinstri stjórnin lagði fram í okt. og hljóðaði upp á 350 milljarða.“ Og hvernig átti að ná þessum niðurskurði fram? Jú, m. a.: „Niðurgreiðslur úr ríkissjóði á landbúnaðarvörum kosta nú 20–30 milljarða á ári og eru komnar úr hófi. Hér má spara milljarða.“

Þetta eru allt skynsamleg orð. Ég vildi gjarnan hafa skrifað þau. En því miður get ég ekki tileinkað mér höfundarréttinn, þó að ég hafi kannske sagt eitthvað svipað á sama tíma. Höfundurinn er skráður Gunnar Thoroddsen, hæstv. núv. forsrh. (Gripið fram í: Góð grein. ) Já, sammála, mjög góð grein. En hvernig hefur nú hæstv. forsrh. staðið við eigin orð? „Það er ekki lengur hægt að hækka skatta, þeir eru þegar orðnir allt of háir.“ Hann hefur hækkað skattana um 25 eða 30 milljarða kr. umfram sömu upphæð sem vinstri stjórnin hækkaði þá áður.

Orð hæstv. forsrh. voru: „Þetta verður að gerast með því að lækka ríkisútgjöldin.“ Hvar sjáum við lækkunarinnar stað? Fjárlagafrv. hefur hækkað frá því í haust og þar að auki margir útgjaldabálkar teknir út úr fjárlögunum og varpað yfir í lánsfjáráætlun eða beinlínis huldir, þannig að við fáum halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári. Þá segir hæstv. forsrh. fyrir kosningar að t. d. mætti ákveða að lækka fjárlögin á þessu ári um 10%, að þau eigi að vera 10% lægri en fjárlagafrv. sem vinstri stjórnin lagði fram í okt. og hljóðaði upp á 350 milljarða. Við erum með fjárlög upp á 350 milljarða, þó að búið sé að taka alls konar útgjaldaþætti út úr fjárlögunum. Hvar er 10% niðurskurðurinn sem hæstv. forsrh. boðaði fyrir kosningar? Og má ég spyrja: Hefur hann staðið við það að lækka niðurgreiðslur úr ríkissjóði af landbúnaðarvörum, sem hann nefndi sérstaklega sem aðferð til þess að lækka útgjöld á fjárlögum? Nei, því miður. Hæstv. forsrh. hefur ekki staðið við neitt af þessu. Og það er harmsaga út af fyrir sig.

Það er áhyggjuefni, ekki bara Sjálfstfl., það er áhyggjuefni þjóðarinnar í heild, að örfáir sjálfstæðismenn skyldu ganga erinda Alþb. og Framsfl. En Sjálfstfl. sem slíkur ber ekki ábyrgð á því. Samþykktir hans fyrir og eftir kosningar hnigu í allt aðra átt. Sjálfstfl. fyrir og eftir kosningar er samkvæmur sjálfum sér, þótt einstaka menn hafi því miður brugðist því trausti sem menn báru til þeirra fyrir kosningar.

Hæstv. forsrh. sagði að í þeim till., sem ég hefði borið fram, eða hugmyndum við stjórnarmyndun hefði ekki verið minnst á skattalækkanir. Ég vil leiðrétta þessi ummæli. Í þeim hugmyndum, sem ég bar fram í sambandi við þjóðstjórnarmyndun, kom það greinilega fram, að aðalinntak þeirra var að draga úr ríkisútgjöldum samkv. fjárlögum um 17–25 milljarða kr., þ. e. um u. þ. b. sömu upphæð og gert var ráð fyrir í stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna fyrir kosningar. Í þeim tilgangi að mæta andstæðingum okkar og til þess að fá þá inn á þá þjóðstjórnarhugmynd, sem ég var þá og er enn þeirrar skoðunar að er fyrst og fremst til þess fallin að koma á þjóðarsátt og ná einhverjum árangri í baráttunni gegn verðbólgu, þá var það innifalið í þessari lækkun ríkisútgjalda um 17–25 milljarða, að hún skyldi fólgin í lækkun beinna skatta eða hækkun tekjutryggingar, svo að unnt væri að ná samkomulagi við launþega í landinu og taka úr sambandi vísitöluskrúfuna er næmi 10–15 prósentustigum. Á þennan veg hefðum við náð verðbólgunni niður þegar í septembermánuði nú í ár í 26% til 30%, í stað þess að við horfum fram til 50–60% verðbólguvaxtar á þessu ári. Þarna var um raunhæfa stefnu að ræða, samkvæma stefnu okkar sjálfstæðismanna fyrir kosningar, en þó með þeirri aðlögun, þeirri sáttfýsi og málamiðlun sem nauðsynleg var til að ná samstöðu með öðrum flokkum.

Aðrir flokkar vildu ekki taka á verðbólguvandanum. Aðrir flokkar en Sjálfstfl. heyktust á að takast á við vandamálið. Núv. ríkisstj. var mynduð eingöngu vegna þess að menn tókust ekki á við vandann, en hlupu saman í keppni eftir valdastólum.

Þessi ömurlegi sannleikur er að koma dag frá degi fram í dagsljósið, að ríkisstj. stendur ráðvana frammi fyrir öllum vanda. Hún lætur verðbólguna geisa áfram. Hún lætur hallast á í vöruskiptajöfnuði, í viðskiptajöfnuði, í lausafjárstöðu bankanna, í stöðu ríkisfjármála. Hvergi er veitt viðnám.

Ríkisstj. slær sér á brjóst og segir: Gott og vel, við höldum niðri verðlagi í landinu. En með hvaða hætti heldur þessi ríkisstj. niðri verði í landinu? Með því að horfast ekki í augu við raunveruleikann. T. d. með því að heimila ekki nauðsynlegar verðhækkanir á hitaveitunni eða Landsvirkjunartöxtum, sem leiðir aðeins til þess að Landvirkjun þarf að taka meiri erlend lán, Hitaveitan þarf að taka meiri erlend lán. Greiðslubyrði erlendra skulda er komin langt upp fyrir það sem nokkru sinni hefur átt sér stað. Og hver er afleiðingin af þessari stefnu? Jú, hún er sú, að í stað þess að sú skynsamlega stefna sem var áður uppi höfð, að Hitaveita Reykjavíkur kostaði — ef ekki að öllu leyti nýframkvæmdir, þá að mestu leyti. Nú þarf hún að leita á náðir erlendra lánadrottna. Þetta leiðir til þess að Landsvirkjun, sem hafði það að markmiði að fjármagna Hrauneyjafoss 27–30% af eigin fé, verður að öllu leyti að leita á náðir erlendra lánardrottna.

Nú andvarpar ríkisstj. og ráðh. vegna þess að Hrauneyjafossvirkjun krefst 30–32 milljarða í lánsfjáráætlun. En er það nokkuð undarlegt þegar menn vilja ekki viðurkenna raunveruleikann og það verðlag sem leiðir af því að menn vilja ekki takast á við verðbólguna, eins og þessi ríkisstj. hefur ekki viljað, eins og fyrrv. ríkisstj. kratanna vildi ekki, eins og fyrrv. vinstri stjórn vildi ekki og gat ekki. Þessir flokkar, sem nú standa að ríkisstj., eru eingöngu Alþb. og Framsfl. Okkur er það ömun og vonbrigði að félagar okkar skuli ganga undir þeirra vagni. Og að sumu leyti skil ég að kratarnir skuli hlakka yfir því, að þessir félagar okkar skuli vera í sömu klípu og stöðu og þeir voru, bandingjar Alþb. og Framsfl.

En þetta er út af fyrir sig aukaatriði. Aðalatriði málsins er það, að við náum því hér innan þessara þingsala með stuðningi heilbrigðra þjóðfélagsafla utan þessara þingsala að skapa nýtt viðhorf til þess að koma á nýjum ráðstöfunum í baráttunni við verðbólguna. Þessi ríkisstj. hefur ekki sýnt nein merki til þess að gera það. Og því miður mun ferill hennar verða í samræmi við feril fyrri stjórnar Alþfl. og vinstri stjórna áður.

Það hefur verið nefnt m. a. af hæstv. forsrh., að allt sé krötum að kenna og kratastjórninni. Það er síst mitt hlutverk að bera blak af þeirri stjórn og raunar ekki heldur af krötunum almennt. En ég held að enginn hafi gefið þeirri stjórn meiri eða betri syndakvittun en hæstv. forsrh. þegar hann bæði í útvarps-, sjónvarps- og blaðaviðtölum sagði, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, að ekki væri þörf á neinum sérstökum ráðstöfunum, t. d. til þess að atvinnuvegir landsmanna væru reknir með eðlilegum hætti. Þetta var þvílík syndakvittun fyrir fráfarandi stjórn að engin fráfarandi stjórn hefur fengið aðra slíka. Það er þess vegna of seint til þess ráðs gripið af hálfu núv. stjórnarherra að kenna fráfarandi stjórn um þá erfiðleika sem við eigum nú við að glíma. Sannleikurinn er sá, að við höfum við að glíma erfiðleika frá tíð vinstri stjórnarinnar, sem lét af völdum í októbermánuði, og af völdum Alþfl.-stjórnarinnar, en því miður eru þessir erfiðleikar vaxandi af völdum núv. ríkisstj. Ég harma það. Og það frv., sem nú er verið að afgreiða, er til þess fallið að auka þá erfiðleika. Það er til þess fallið að torvelda samninga og koma í veg fyrir vinnufrið. Það er til þess fallið að auka spillingu í þjóðfélaginu. Það er til þess fallið að draga úr verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu. Og þar með er það til þess fallið að koma í veg fyrir bætt kjör landsmanna. Það er ömurlegur boðskapur 1. maí 1980.