03.05.1980
Sameinað þing: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

129. mál, nýting ríkisjarða í þágu aldraðra

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta í ljós stuðning minn við að sú könnun verði gerð, sem till. fjallar um, og vil jafnframt leyfa mér að benda á að ég er ekki allsendis sannfærður um að hún leiði til þess að það verði talið affarasælt að setja upp vistunarheimili fyrir aldrað fólk í sveitum landsins. Það hefur verið gerð tilraun með þetta, eftir því sem mér er lauslega kunnugt um, í Vesturlandskjördæmi, að hafa þar vistheimili fyrir gamalt fólk með tilteknu sniði, eins og flm. till., hv. þm. Helgi Seljan, ræðir um, og eftir því sem mér best skilst hefur það alls ekki gefið góða raun, hvorki rekstur vistheimilisins né heldur frá sjónarmiði þeirra dvalargesta sem þar hafa fengið inni.

En ég leyfi mér að benda á annað í þessu sambandi. Þó ekki þurfi endilega að vera að svona vistheimili sé rétt úrlausn, og þau dæmi, sem eru að vísu fá, sem við höfum fyrir okkur í þeim efnum, staðfesta þá hyggju mína, er engu að siður sjálfsagt að nota ýmsar ríkisjarðir og ríkiseignir í svipuðum tilgangi, t. d. til tímabundinnar vistunar eldra fólks og þá einkum og sér í lagi yfir sumartímann. Nú er alveg ljóst að á heimilum, þar sem eldra fólk dvelst, skapast oft sá vandi að heimilisfólkið, sem þarf að sinna hinu gamla fólki, sem e. t. v. er sjúkt, en þó ekki það sjúkt að það þurfi á sjúkrahúsvistun að halda, er ákaflega bundið og á erfitt með að komast frá í orlof eða annað slíkt vegna þessa gamla fólks. Það er léttir, bæði fyrir gamla fólkið og fyrir heimilisfólkið sem sinnir því, ef gamla fólkið getur fengið vistun við sitt hæfi um takmarkaðan tíma, nokkurs konar orlofsdvöl yfir sumarið í eða við sveitir eða í dreifbýlinu, t. a. m. eins og hv. flm. tekur fram. Nú vill svo til að íslenska ríkið hefur aðstöðu til að framkvæma slíkt. Íslenska ríkið á t. d. fjöldann allan af mjög vel búnum heimavistarskólum í dreifbýlinu, þar sem er mjög fullkomin aðstaða til að taka á móti fólki til skammtímavistunar sem þarf ekki á læknishjálp að halda sérstaklega. Ég held að það væri ráð að athuga hvort ekki mætti t. d. í dreifbýlinu nýta heimavistarskóla með fullnægjandi aðstöðu, eldhúsi, sjúkraaðstöðu að nokkru leyti o. s. frv., til þessara þarfa. Ég er sannfærður um að það yrði mjög vinsælt bæði hjá eldra fólkinu, sem hefur ferlivist, og eins hjá aðstandendum þess, sem hafa gamla fólkið heima hjá sér.

En ástæðan til þess, að ég bað um orðið, var nokkuð önnur en þessi till. gefur tilefni til. Á síðasta Alþ. flutti hv. þáv. þm. Gunnlaugur Stefánsson fsp., að mig minnir til þáv. fjmrh., þar sem hann óskaði eftir að fá samantekið hvaða jarðeignir ríkisvaldið ætti og hvernig þær jarðeignir væru hagnýttar. Það mun víst vera svo, að ríkið er stærsti jarðeigandi á Íslandi. Margar af þeim jörðum, sem ríkið á, hafa yfir mjög verulegum hlunnindum að ráða, t. d, laxveiðihlunnindum. Þeim, sem hafa kynnt sér eitthvað þau mál, er ljóst að nokkrir einstaklingar hafa komist upp með að leigja þessar jarðir, þ. á m. laxveiðihlunnindin, fyrir lítið fé af ríkissjóði, en endurleigja svo þessi verðmætu hlunnindi fyrir margfalt fé einstaklingum og félögum. Mér er nær að halda að ýmsir nokkuð hátt settir menn í ríkiskerfinu noti sér þá aðstöðu sem þeir hafa í störfum sínum til að fá leigðar fyrir sjálfa sig slíkar ríkisjarðir með hlunnindum eins og laxveiðileyfum og endurleigi þau svo fyrir ógrynni fjár öðrum aðilum.

Nú veit ég til þess, að það mun hafa verið búið að undirbúa svar við þessari fsp., sem óhjákvæmilega hlýtur að hafa tekið allmikinn tíma að vinna því að jarðeignir ríkissjóðs eru miklar og margvíslegar og hafa sjálfsagt aldrei verið teknar saman í eitt. Hins vegar vannst ekki tími til að taka fsp. fyrir og svara henni á síðasta Alþ. Ég tek fram, að ég er ekki alveg viss um að fjmrh. sé sá aðili sem stendur þarna í forsvari, það getur verið landbrn. sem fer með umsvif þessara jarða, en þar sem hæstv. fjmrh. er eini ráðh., sem viðstaddur er þessa umr., vil ég óska eftir því við hann, hvort hann mundi ekki vilja láta kanna í stjórnarráðinu hvort þetta svar væri ekki tilbúið síðan í fyrra. Ef svo væri vildi ég gjarnan fá því dreift hér sem skriflegu svari við fsp., þó svo sú fsp. hafi ekki komið fram í ár, heldur í fyrra. Ég vil sem sé nota þetta tækifæri til þess að óska eftir því við hæstv. fjmrh., að hann athugi þetta mál og reyni að verða við bón minni um að þm. fái að sjá þennan lista ef hann er tilbúinn.