05.05.1980
Efri deild: 74. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

148. mál, Lífeyrissjóður bænda

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta sem ráðh. sagði í framsögu sinni. Ég vil leggja áherslu á að frv. fái skjóta afgreiðslu frá þessari deild. Frv. var afgreitt athugasemdalaust frá Nd.

Hvað varðar 1. gr., þ. e. heimild sjóðsins til að taka í tölu sjóðfélaga launþega í landbúnaði, lýsi ég því yfir að það er afskaplega mikilsvert ákvæði sem þarna kemur fram. Þetta er mikilsverð breyting. Þetta er rýmkun á þeim reglum sem hingað til hafa gilt. Það eru fjölmargir, sem verið hafa starfandi að landbúnaði sem launþegar; sem ekki hafa átt aðild að lífeyrissjóðum. Í þessu sambandi er þess að vísu getið í athugasemdum með lagafrv. að þarna hafa menn gjarnan í huga forfalla- og afleysingaþjónustuna sem nú kemur til framkvæmda. Hins vegar skil ég þessa grein svo, að þarna muni miklu fleiri koma inn í.

Samkv. gildandi lögum er gert ráð fyrir að sjóðstjórninni sé heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn á lögbýlum sem ráðnir eru til eins árs eða lengur, enda komi beiðni um slíkt frá hlutaðeigandi vinnuveitanda. Er augljóslega um rýmkun að ræða samkv, því frv. sem hér er til umfjöllunar.

Varðandi lífeyrissjóðinn er mönnum kunnugt um að innheimta á ársiðgjöldum sjóðfélaga hefur verið í höndum framleiðsluráðs. Á þessu ári er fyrirhuguð breyting í því efni, þ. e. að lífeyrissjóðurinn sjálfur taki við innheimtunni alfarið, að vísu fyrst í stað a. m. k. með aðstoð framleiðsluráðsins. Það sakar ekki að geta þess hér, að iðgjöld sjóðfélaga á árinu 1979 voru u. þ. b. 1.31% af brúttóverðmæti landbúnaðarafurða. Á þessu án eru þau talin verða um 1.23% af brúttóverðmæti landbúnaðarafurðanna. Hámarksiðgjaldagreiðsla kvænts sjóðfélaga verður á þessu ári 284 059 kr. Hámark vegna ókvænts sjóðfélaga verður eins og kunnugt er 1/3 lægra. Lífeyrissjóður bænda er orðinn allverulegur að umfangi. Til marks um það vil ég geta þess að á síðasta ári fengu 1632 aðilar greiðslur úr lífeyrissjóðnum.

Að lokum vil ég geta þess, að það er í ráði að taka upp nýjan lánaflokk. Ég hygg að það verði um 600 millj. kr. sem koma þar til ráðstöfunar. Þetta er eins konar frjáls lánaflokkur að því leyti að lán innan þessa flokks er ekki bundið verkefnum. Þau munu verða að hámarki til 15 ára. Að vísu mun mönnum gefast kostur á því, að því er ég best veit, að ráða lánstíma. Ég tel þetta mjög þarft ef til framkvæmda kemur. Þessi lán verða með fullri verðtryggingu, líklega samkv. lánskjaravísitölu, og með hálfs annars prósents vöxtum. Er gert ráð fyrir að samkv. þessu verði lánað þeim sem hafa greitt iðgjöld frá upphafi, en hafa ekki notið lánsfyrirgreiðslu úr Stofnlánadeild að því leyti sem lífeyrissjóðurinn kemur inn á fjármögnun lána.

Ég vil að endingu æskja þess, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu svo að lögum verði.