05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það markar veruleg þáttaskil í íslenskri löggjöf og ég tel mikilvægt að Alþ. afgreiði frv. N. hefur lagt mikla vinnu í frv. og fengið umsagnir um það, og ég stóð í þeirri meiningu að það væri almenn samstaða í n. um afgreiðslu frv. og þær brtt. sem n. vildi gera. Ég vil segja í fullri hreinskilni við hinn ágæta formann n., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, sem nú var að ljúka máli sínu, að út af fyrir sig er allt í lagi að hafa þær efasemdir arm frv. sem hann lýsti að hann og hans flokksmenn hefðu, en ég skildi þó ræðu hans þannig að þeir ætluðu að greiða frv. atkv. Það kom ekki skýrt fram í ræðunni, eftir því sem ég hlustaði. Ef ekki kemur önnur skoðun fram skil ég ræðuna svo, að þeir ætli að greiða frv. atkv. Ég held að það væri einkar undarlegt ef svo verður ekki, ef horft er til þeirra brtt. sem þessir ágætu fulltrúar Sjálfstfl. í n. flytja á þskj. 413 og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson lýsti í löngu máli, vegna þess að ég var þeirrar skoðunar að það væri ekki ágreiningur í n. um nánast neitt af því sem þessir hv. þm. Sjálfstfl. hafa hér flutt.

Þegar ég var síðast á fundi í n., áður en ég vék af þingi, með hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni stóð ég í þeirri meiningu að n. hefði öll náð samkomulagi um ýmis af þeim atriðum sem þm. Sjálfstfl. flytja hér. Ég býst við því t. d., að ég verði sammála um. að BSRB fengi fulltrúa í stjórn Vinnueftirlitsins.

Ef ég man rétt var ég uppástungumaður um að Samband ísl. sveitarfélaga kæmi þá inn á móti. Ég skal að vísu ekki fullyrða það, en það er eins og mig minni að ég hafi stungið upp á því í nefndinni. Sama gilti um síðustu brtt. á þskj. 413, um endurskoðun málsins. Mig minnir að ég hafi fyrstur hreyft í n. þeirri hugmynd að því ákvæði yrði bætt aftan við frv. Og sama gildir um deildaskiptinguna. Það finnst mér sjálfsagt að styðja.

Mér er ekki alveg ljóst hvað liggur hér að baki hjá hinum ágætu fulltrúum Sjálfstfl. í n. Ég get þó lýst því yfir að ég er samþykkur öllum þeim brtt., sem þeir hafa flutt, og mun greiða þeim öllum atkvæði, enda taldi ég, að n. hefði öll ætlað sér að flytja margt af þessu, síðast þegar ég fylgdist með umræðum þar. Svo hefur ekki orðið. En ef ætlunin var að taka upp sérstakar brtt. um þetta, sem gert er á þskj. 413, hefði ég kosið að n. hefði gert það öll. Það skiptir þó engu höfuðmáli, aðalatriðið er að samþykkja þetta. Ég fagna því að fulltrúar Sjálfstfl. í n. skuli hafa lagt þessar brtt. fram. Á þskj. 413 eru a. m. k. tvær eða þrjár brtt. sem ég hefði talið nauðsynlegt að flytja sjálfur, ef ekki hefðu aðrir gert það, og ætlaði að boða það við þessa umr. En þær liggja hér fyrir og ég lýsi því yfir að bæði þær brtt., sem koma frá n. allri á þskj. 404, og eins þær, sem koma frá Þorv. Garðari Kristjánssyni og fleiri á þskj. 413, tel ég einsýnt að deildin eigi að samþykkja og geti þá staðið öll að því að afgreiða frv. einróma sem lög frá Alþ. Ég skildi hv. þm. Þorv. Garðar þannig, eins og ég sagði áðan, að Sjálfstfl. ætlaði þrátt fyrir efasemdir sínar að greiða frv. atkv. — ég tala nú ekki um ef allar brtt. þm. verða samþykktar.

Það er alveg rétt að hér er um mjög flókið mál að ræða og það er verið að vinna að endurskoðun annarra þátta í hliðstæðri og tengdri löggjöf. Sú endurskoðun tekur langan tíma. Ég tel að ekki þyrfti að skemma fyrir þó að þessi lög tækju fyrst gildi. Í okkar þjóðfélagi hljóta óhjákvæmilega að eiga sér stað veigamiklar breytingar varðandi framkvæmd og eðli laga á þessu sviði, og lög um þetta efni að verða sífellt í endurskoðun. Sú röksemd ein sér er þá ekki nægileg til að geyma afgreiðslu málsins. Ég held að rétt sé að hafa í huga að þetta frv. var lagt fram vorið 1979 til kynningar og hagsmunasamtök og aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi hafa þess vegna haft u. þ. b. ár til að kynna sér málið. Það er ærinn tími. Við skutum vona að þessi hv. d. geti þannig einróma staðið að því að afgreiða frv. sem lög og það verði til þess að marka þau þáttaskil í framkvæmd vinnuverndar og öryggis og aðbúnaðar á vinnustöðum sem efni þess gefur tilefni til að ætla.