05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil í flestu taka undir með síðustu ræðumönnum. Það verður að segjast eins og er, að þegar ég las frv., sem hér er til umræðu, fyrst yfir og gætti að greinafjölda þess datt mér helst í hug að það hefði verið ákveðið í upphafi að hafa greinarnar hundrað og síðan hefði verið unnið samkvæmt því. En sennilega hefur það ekki verið. Þetta var fyrsta hugsun mín þegar ég barði frv. augum.

Það verður að segjast eins og er, reyndar hefur það komið fram, kom fram í máli hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að fjárlaga- og hagsýslustofnun treystist ekki til að segja fyrir um þann kostnað sem hlytist af samþykkt þessa frv. Ég tel það vera miður. Það er nú einu sinni svo, að þegar við erum að samþykkja eitt og annað á hv. Alþ. vilt brenna við að við eigum erfitt með að ráða í þann kostnað sem fylgir iðulega þeim samþykktum.

Ég vil taka undir það, að nauðsynlegt er að koma á þeirri löggjöf, sem hér um ræðir, og að flestu leyti vil ég í mínum orðum skrifa undir það sem hér stendur. Hins vegar fannst mér við lestur frv. fjallað um hluti í e. t. v. of mörgum greinum. Mér finnst í upphafi frv. tíundað svo að segja hið sama hvað eftir annað. Nú er mér sagt og ég veit það raunar, að samviskusamt fólk á sæti í félmn. og það hefur farið vel ofan í saumana á þessu. Eftir því sem ég hef heyrt varð niðurstaðan sú, að erfitt væri að fella atriðin saman, þetta yrði að standa svona.

Varðandi kostnaðinn má kannske geta um samþykkt hliðstæðra laga í Noregi. Er mér tjáð að samþykkt hliðstæðrar löggjafar og hér um ræðir hafi kostað norsku vegagerðina 900 millj. norskra kr. Nú er að vísu erfitt að gera svona samanburð á milli landa, en þetta gefur óneitanlega vísbendingu um að samþykkt frv. muni leiða af sér allmikinn kostnað.

Svo er það varðandi þátt landbúnaðar að þessu frv. Ég hygg að menn hefðu gjarnan orðið að athlægi ef þeir hefðu samþykkt frv. eins og það lá fyrir með tilliti til landbúnaðar, án þess bráðabirgðaákvæðis sem hér hefur verið lagt til. Sannleikurinn er sá, að við stöndum iðulega frammi fyrir því, þegar gerðar eru hinar ýmsu breytingar og lagðar eru til hinar ýmsu reglur í þessu þjóðfélagi, að landbúnaðurinn hefur sérstöðu. Hann hefur það í þessu tilliti ekki síður en í svo mörgum öðrum.

Umsögn um þetta frv., eins og hér hefur verið sagt, barst frá Stéttarsambandi bænda. Þar hefur væntanlega verið farið yfir frv. samviskusamlega, ef ég þekki rétt. Í þessari umsögn er tekið fram að ekkert samráð hafi verið haft við Stéttarsamband bænda um gerð frv. Raunverulega var ekki haft samband, eins og hér hefur komið fram, við neinn sérstakan aðila sem slíkan eða hliðstæða aðila og Stéttarsambandið. Það hefur komið fram.

Með leyfi forseta, stendur í umsögninni:

„Í grg. er einnig sagt að samráð hafi verið haft við Búnaðarfélag Íslands. Samkvæmt upplýsingum Búnaðarfélagsins var starfsmaður þess nokkrum sinnum boðaður á fund undirnefndar til viðræðna um eftirlit með bújörðum. Annað samráð var ekki haft við Búnaðarfélagið og málið ekki sent Búnaðarþingi til umfjöllunar, sem eðlilegt hefði verið.

Stjórn Stéttarsambands bænda er vel ljóst að mikil þörf er á að auka öryggi og eftirlit við landbúnaðarstörf. Á síðustu árum hafa komið til sögunnar margs konar hættuleg efni, sem notuð eru við búvöruframleiðsluna, og fjöldi búvéla sem hættulegar geta verið ef ekki er gætt fyllsta öryggis. Lítið eftirlit er nú með þessum vélum.“

Ég vil taka undir þetta. Enn fremur stendur í umsögn Stéttarsambandsins:

„Nauðsynlegt er að slíku eftirliti verði komið á og um það sett löggjöf. Slík löggjöf verður hins vegar ekki samin án staðgóðrar þekkingar á landbúnaðarstörfum og á hinum sérstöku staðháttum sem bústörf eru unnin við.“

Eins og fram hefur komið hefur verið nokkuð naumur tími til að athuga frv. Ég hygg að ekki hafi verið nógsamlega um það fjallað í þingflokkum yfirleitt. Ég lýsi því hér yfir að a. m. k. hefur, að mér finnst, ekki verið nóg að því gert í mínum flokki.

Með tilliti til þess bráðabirgðaákvæðis, sem gerð er till. um á ákveðnu þskj., lýsi ég fylgi við frv. með öllum þeim brtt. sem fram hafa komið. Ég vil geta þess og taka undir með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að mér hefði þótt eðlilegra að n. hefði tekið til sérstakrar umfjöllunar allar brtt. Mér finnst það eðlilegri gangur þegar við erum að fjalla um lagasetningu sem allir eru raunverulega sammála um. Mér finnst nokkru máli skipta að nefndir skrifi undir sameiginlegt álit og flytji sameiginlega brtt. þegar að því er að gá að það hefur ekki komið fram neinn meiningarmunur í sjálfu sér.

Það vill svo til að því er mig varðar, að við upphaflegan lestur á þessu frv. var ég einmitt búinn að krossa við ýmislegt af því sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson flutti áðan brtt. um. Ég skal ekki um það segja, en ég hygg að betur athuguðu máli að óþarfi sé að athuga málið í þingflokkum frekar. Ég var með þá hugsun áðan að e. t. v. þyrftu menn að ræða það í sínum hópi, en ég er kominn á þá skoðun núna að slíks sé ekki þörf. Ég ætla að vona að samþykkt þessa frv. leiði gott af sér.