05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu og hef ekki ástæðu til að ræða miklu frekar um þetta mál. Ég vil þó aðeins víkja að því sem kom fram hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, hv. 11. þm. Reykv., og hv. 3. landsk. þm. Það kom fram í máli þeirra að þeir hefðu ekki búist við brtt. þeim sem ég ásamt samflokksmönnum mínum hef flutt. Þeir töluðu eins og það hefði verið gert ráð fyrir að ekki gætu komið neinar till. nema þær sem höfðu verið afgreiddar í n. Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þetta. Og ég ætla ekki að fara að afsaka neitt í þessu efni ef þessir hv. þm., telja að ég og mínir félagar hafi tekið eitthvað ófrjálsri hendi með því að bera fram þessar till. En það kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. að hann hefði átt hugmyndir sem hefðu komið fram í þessum till. Ég ætla ekkert að fara hér að deila um hver á fyrst hugmyndir í þessu efni. En ég lagði áherslu á það í frumræðu minni að það hefði engin togstreita verið milli flokka í n. um þetta mál. Það, sem ákveðið var við afgreiðslu málsins í félmn., var að n. bæri fram till. í heild sem fram hefðu komið og engin aths. hefði verið við í n., en það væri hverjum og einum nm. að sjálfsögðu frjálst að bera fram aðrar till. Eftir þessu hefur verið farið.

Það er kannske rétt að geta þess hér, að þó að ég sé formaður þessarar hv. n. var ég ekki formaður n. þegar þessi afgreiðsla fór fram vegna þess að þá var varamaður minn inni á þingi. Þetta starf n. var síðasta spölinn undir ágætri forustu hv. 5. þm. Norðurl. e., þó ég sæti þá nefndarfundi sem áheyrandi með tillögurétti.

Ég fagna því, sem hér hefur komið fram, bæði hjá hv. 11. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm., að það má vænta þess að þeir — og þeir lýstu því reyndar yfir — muni styðja brtt. okkar þremenninganna.

Ég skal svo aðeins víkja að því, sem hv. 11. þm. Reykv. spurði mig um, hvort ég ætlaði að greiða atkv. með þessu frv. Hann lét orð falla á þá leið, að ég hefði talað á þann veg að það mætti helst ætla að ég ætlaði að standa á móti og greiða atkv. gegn þessu frv. Ég verð að segja að mig furðar á þessu vegna þess að meginhlutinn í ræðu minni var eiginlega óður til þessa máls, þar sem ég var að lýsa því á marga vegu, hve þýðingarmikið og mikilvægt það væri, og talaði oft í nafni okkar sjálfstæðismanna. Og fulltrúar sjálfstæðismanna í hv. félmn. skrifuðu undir nál. þar sem lagt er til að frv. verði samþ. Þessi misskilningur er því furðulegur.

Allt eru þetta smáatriði og hefði naumast verið ástæða til að standa hér upp og leiðrétta þetta. Og ekki er ástæða til að ítreka neitt af því sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Það hefur ekki verið deilt á það efnislega eða því mótmælt.