05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

174. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Pétri Sigurðssyni leyft mér að leggja hér fram frv. til l. um breyt. á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 57 frá árinu 1973, með síðari breytingum. Frv. er stutt og laggott.

1. gr. þess gerir ráð fyrir að g-liður 16. gr. laganna falli niður, en í grg. er skýrt hvernig hann hljóðar. Síðari greinin er: „Lög þessi taka gildi 1. jan. 1981, og reglugerð nr. 221/1973 verði breytt samkv. þeim.“

16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjallar um þá sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta, svo sem þá sem taka þátt í verkfalli, njóta slysa- eða sjúkradagpeninga, misst hafa vinnu vegna óreglu, sviptir eru frelsi með opinberri íhlutun, ófærir eru til vinnu eða neita vinnu, stunda vinnu í eigin þágu eða loks, eins og segir í g-lið greinarinnar, en það er einmitt sá liður sem gert er ráð fyrir að falli burt, en hann hljóðar svo, með leyfi forseta: „eiga maka, sem á síðustu 12 mánuðum hefur haft og hefur hærri tekjur en sem svarar tvöföldum dagvinnutaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Regla þessi um hjón gildir einnig um karl og konu, sem búa saman og eru bæði ógift, ef þau hafa átt saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, eða sambúð hefur varað í samfleytt tvö ár.“

Ég vil strax vekja athygli á því, að nýlega féll dómur í Hæstarétti í máli sem höfðað var á hendur almannatryggingakerfinu eða nánar til tekið Tryggingastofnun ríkisins, þar sem gerð var aths. við að mæðralaun væru felld niður þegar sambúð hæfist. Stofnunin tapaði því máli á þeim forsendum að um sambúð eru engin lög til, þannig að lagalega séð sýnist mér að þetta sé meira en hæpið ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar. En þetta ákvæði veldur því að fjöldi kvenna hefur ekki rétt til atvinnuleysisbóta vegna tekna maka, þó að iðgjöld séu greidd vegna þeirra eftir sömu reglum og annarra. Sama gildir raunar um hvort kynið sem er, en oftast bitnar þetta óréttlæti þó á konum vegna hærri launa karlmanna. Er nærtækt að benda á það sem gerðist á Ísafirði nýlega þegar fjöldi manns varð atvinnulaus vegna verkfalls sjómanna, en þá kom þetta réttleysi hart niður á konum á staðnum.

Þegar lög um atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi tóku gildi kom fljótlega í ljós að ótækt var að láta þetta ákvæði gilda, þar sem fjöldi kvenna varð af bótunum vegna þess. Var ákvæði g-liðar 16. gr. því tekið út þegar um atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi var að ræða. En enn þá er ákvæðið í gildi, þegar um bætur vegna atvinnuleysis er að ræða, með áðurnefndum afleiðingum.

Benda má á að frv. þetta gerir ráð fyrir gildistöku 1. jan. 1981, en einmitt þá má gera ráð fyrir að lög um atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi verði úr gildi numin. Í samræmi við nýsamþykkt lög um eftirlaun aldraðra, eða nánar til tekið ákvæði til bráðabirgða sem í þeim lögum eru, og frv. það, sem fyrir þinginu liggur á þskj. 146 um fæðingarorlof, er gert ráð fyrir að létta greiðslum vegna fæðingarorlofs af Atvinnuleysistryggingasjóði og flytja þær yfir á almannatryggingar.

Þá má benda á að mál þetta nýtur stuðnings verkalýðshreyfingarinnar allrar, enda eitt af baráttumálum hennar í komandi kjarasamningum.

Í rekstrarreikningi Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir árið 1978 kemur fram, að af kostnaði sjóðsins það ár voru atvinnuleysisbætur 389 002 901 kr., kauptrygging í fiskvinnu 70 204 635 kr., en atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi 522 318 256 kr. Engar tölur er að fá nákvæmlega um kostnaðarauka sjóðsins vegna þessarar lagabreytingar, þar sem skrá um synjanir liggja engar fyrir. En ljóst er að hann gæti aldrei farið fram úr þeirri upphæð sem nú fer í atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi, enda þyrfti þá að vera um fleiri synjanir að ræða en samþykktar bætur og hefur framkvæmdastjóri sjóðsins, Eyjólfur Jónsson, staðfest að slíkt sé fráleitt við venjulegar aðstæður. Það liggur í augum uppi, að komi til allsherjar atvinnuleysis á landsmælikvarða þyrfti að sjálfsögðu að styrkja sjóðinn verulega þar sem hann réði ekkert við slíkt.

Að lokum skal á það bent, og það er kannske grundvallaratriði þessa frv., að atvinnuleysistryggingar eiga ekki að byggjast á framfærslusjónarmiðum, heldur eru þær tryggingamál og hluti af rétti hvers einstaklings til að vinna fyrir framfærslu sinni sjálfur, en vera tryggður ella, ef þeim rétti er ekki sinnt. Það er megininntak allra trygginga, að tryggingar séu bætur fyrir eitthvert tjón. Þá sér hver sjálfur að það er auðvitað á engan hátt sanngjarnt að manneskja, hvort sem það er karl eða kona, sem unnið hefur fyrir verulegum tekjum og verður af þeim án þess að eiga sök á því sjálf, njóti ekki eðlilegra atvinnuleysisbóta.

Ég vil biðja hv. þdm. að styðja þetta frv. Hér er um ósköp einfalda leiðréttingu að ræða, sem m. a. einn af stjórnarmönnum Atvinnuleysistryggingasjóðs, hv. þm. Pétur Sigurðsson, stendur að. Ég vænti þess að svo einfalt leiðréttingamál geti átt stuðning þm. allra flokka.