05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

174. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég get verið sammála hv. síðasta ræðumanni um að öll lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð þarfnist endurskoðunar. En hér er óneitanlega eitt afmarkað mál sem lítill vandi er að breyta. Það hlýtur að vera hróplegt óréttlæti að allir þeir, sem iðgjöld greiða til sjóðsins, skuli ekki hafa úr honum rétt til atvinnuleysisbóta.

Það var kannske ekki alveg nákvæmt hjá síðasta ræðumanni að í grg. segði að þetta yrði lítill kostnaðarauki vegna þess að lítið væri um synjanir. Það stendur reyndar ekki, heldur stendur þar að erfitt sé að vita hve synjanir eru miklar vegna þess að um það liggja engar skýrslur fyrir. Ef við gerum ráð fyrir svipuðu ástandi og verið hefur, þá hefur sem betur fer ekki verið alvarlegt atvinnuleysi í landinu um langt skeið og mikill hluti af útgjöldum sjóðsins hefur farið til margumrædds fæðingarorlofs. Mér er auðvitað fullkomlega ljóst að kostnaðarauki verður þegar framlag vegna eftirlauna aldraðra kemur inn, ef lög um fæðingarorlof verða samþykkt. En hér verður að leggja á það megináherslu að hver sá sjóðfélagi, sem iðgjöld greiðir, hljóti bætur í atvinnuleysi og ekki sé gerður munur þar á hvort sjóðfélagi er kvæntur eða ókvæntur, auk þess sem ég tel að ákvæðið um sambúð sé gersamlega út í bláinn eftir umræddan hæstaréttardóm og gæti hver sambúi sem væri höfðað svipað mál og verið öruggur um að vinna það fyrir Hæstarétti. Ég held því að greinin þarfnist óumdeilanlega breytingar og að mínu viti einfaldlega þeirrar breytingar að g-liður falli niður.

Ég skal játa að ég skildi ekki alveg aths. hv. 5. þm. Suðurl. um aðra liði 16. gr. Ég vænti þess að það sé alveg skýrt fyrir hv. þm., að hér er um að ræða að g-liður 16. gr. falli niður, og hann nær ekki nema til þeirra orða sem ég las hér áðan. Það sem á eftir kemur í 16. gr. er augljóslega almennara efnis og ekki hluti af umræddum lið.

En ég legg á það mikla áherslu að við getum fallist á að styðja þetta frv. Ég hygg að þetta baráttumál komi upp í komandi kjarasamningum, og ég treysti því að þm. skoði þetta vel áður en þeir treysta sér til að vera á móti þessu.

Ég leyfi mér svo að fara þess á leit að frv. verði sent til meðferðar hv. heilbr.- og trn. deildarinnar.