05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

173. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Núgildandi lög um eyðingu refa og minka eru frá árinu 1957. Var þá upphæð verðlauna fyrir unnin dýr ákveðin 350 kr. fyrir hvern ref og 200 kr. fyrir hvern mink. Vegna verðbreytinga hefur reynst nauðsynlegt að breyta lögum þessum hér á hv. Alþ. á nokkurra ára fresti til hækkunar á verðlaunum, fyrst 1964, síðan 1971 og síðast 1975. Auk þessa hafa komið fram á hv. Alþingi brtt. til hækkunar við þessar lagagreinar án þess að hljóta afgreiðslu.

Þrátt fyrir lagabreytingar þessar hefur upphæð verðlauna ekki haldið upphaflegu verðgildi sínu. Sem dæmi má nefna að samkv. útreikningi Hagstofu Íslands ættu verðlaun, sem svöruðu til 350 kr. og 200 kr. árið 1957, að vera núna 19 þús. kr. fyrir ref og 10 800 kr. fyrir mink. Samkv. núgildandi lögum frá 1975 eru verðlaunin fyrir ref, þ. e. hlaupadýr, 2500 kr. og 1500 kr. fyrir fullorðið grendýr, 800 kr. fyrir yrðlinga, en 1500 kr. fyrir mink. Veiðistjóri hefur þráfaldlega frá árinu 1977 bent á að hin lágu verðlaun samkv. núgildandi lögum geti ekki talist hvatning til þeirra fjölmörgu veiðimanna sem stundað hafa loðdýraveiðar sem áhugamenn og eiga drýgstan þátt í því að tekist hefur að halda þessum villtu dýrum í skefjum.

Eins og sjá má af framangreindu hefur núgildandi fyrirkomulag reynst nokkuð þungt í vöfum, þar sem leggja þarf fram tillögur um lagabreytingar á nokkurra ára fresti til þess eins að hækka upphæð verðlauna. Er því lögð fram hér tillaga um breytingu á 8. og 9. gr. þessara laga, sem í sér felur að hámark verðlauna fyrir að vinna grendýr, hlaupadýr og mink skuli ákveðið ár hvert af landbrh., að fenginni umsögn veiðistjóra.

Þetta frv. er samið í landbrn. og hefur rn. farið þess á leit við landbn. Nd. að flytja þetta frv. sem önnur frv. á undanförnum árum um breytingar á þessum lögum. Legg ég til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til landbn.