05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

6. mál, tímabundið vörugjald

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það kom fram við 1. umr. þessa máls hver er afstaða sjálfstæðismanna. Við erum andvígir þessu frv. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. sem gefin voru út af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og voru endurútgefin af ríkisstj. Benedikts Gröndals. Við 1. umr. málsins og reyndar þegar lögin voru sett lýstu sjálfstæðismenn andstöðu við þau og þar á hefur ekki orðið nein breyting.

Formaður fjh.- og viðskn. lýsti hér brtt. og gat þess réttilega að í n., þegar þetta mál var rætt, gerðum við ekki athugasemdir við þær, enda um að ræða brtt. til að veita ráðh. heimild til lækkunar og til samræmingar á vörugjaldi í sambandi við tollflokkun.