05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

6. mál, tímabundið vörugjald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur þeirri afstöðu sem síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Reykn., mælti fyrir. En ég kem hér í ræðustól til að flytja eina skriflega brtt. við frv. við þessa umr.

Í 3. gr. frv. er tillaga um að úr hinum hærra gjaldflokki vörugjalds skuli nokkur tollskrárnúmer fatla brott. Við nánari athugun kemur í ljós að hér er fyrst og fremst um að ræða hljóðfæri. Ég er fyllilega samþykkur þeirri breytingu, enda vakti það mikla athygli og reyndar furðu á sínum tíma að sú ríkisstj., sem þá sat, skyldi leggja slíkt ofurgjald á hljóðfæri eins og raun bar vitni um með því að setja þan í hinn hærra flokk vörugjalds. Það mun enn fremur gert ráð fyrir að úr hærra gjaldflokki falli niður hljómplötur með íslensku efni. Þetta tel ég góðra gjalda vert, en ég vil ganga lengra. Brtt. mín gengur út á það, að hljómplötur almennt falli einnig út úr þessum gjaldflokki, þ. e. að við 3. gr. bætist ákveðið tollskrárnúmer, 92.12.29, en það tollskrárnúmer mun ná almennt yfir hljómplötur.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till. Ég held að hljómplötur séu slíkur menningarmiðill að ríkissjóður eigi ekki að seilast jafnlangt og nú er með gjaldtöku af hljómplötum. Hljómplötur eru reyndar einnig mjög mikilvægt tæki til tómstundaiðkunar fyrir ungt fólk. Það er sennilega fátt sem ungt fólk notar í jafnríkum mæli til að stytta sér stundir, því það hlustar mikið á hljómplötur. Þess vegna finnst mér mjög óeðlilegt að ríkið skuli á þennan hátt seilast til þessarar vörutegundar með sérstakri gjaldtöku.

Mér er tjáð af þeim, sem annast sölu á hljómplötum, að þrátt fyrir að mikil samkeppni hafi komið upp í þessari verslunargrein og auglýsingar aukist mjög hafi sala á hljómplötum dregist saman og það sé mjög áberandi að sala á hljómplötum sé í mjög ríkum mæli að flytjast úr landi. Það fólk, sem hefur aðstöðu til þess að ferðast til annarra landa, notfærir sér það af því að hljómplötur eru nú svo miklu ódýrari í flestum nágrannalöndum okkar. Þetta er orðin sú vörutegund sem menn hvað helst leitast við að kaupa á ferðalögum sínum erlendis og koma með inn í landið. Ég held að það sé þess vegna ekki beinn tekjuauki af þessari hækkun. Ég held að þarna hafi komið á móti samdráttur í sölu og alla vega væri hægt að auka þessa sölu verulega ef ríkið gerði sér ekki leik að því að taka svo hátt gjald fyrir þennan vöruflokk.

Ég vil því, herra forseti, leggja fram brtt. þessa efnis við þessa umr.