06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjútvrh. svör hans við þessari fsp. minni. Ég held að það sé vissulega ástæða til að endurskoða stefnuna í þessum málum, ekki kannske hvað síst að því er snýr að Norðmönnum, sem við færum núna veruleg verðmæti á meðan má segja að þeir séu að reyna að troða af okkur skóinn á öðrum vettvangi.

Í svari ráðh. kom fram að erlend veiðiskip voru hér 4668 veiðidaga í fyrra. Þetta held ég að sé allt of mikið, um það geti menn verið sammála. En um það, hversu raunhæfar þær aflatölur eru sem koma fram í hinu skriflega svari, skal ég ósagt láta, en víst er að sjómenn draga þær tölur mjög í efa. Ég held að það, sem til þarf að koma hér, sé langtum raunhæfara eftirlit með veiðum hinna erlendu skipa en verið hefur. Ég held t. d. að það væri ekki úr vegi að sjútvrn. tilkynnti vikulega hve mörg erlend skip eru hér að veiðum og hvernig þau afla. Sömuleiðis mætti taka til athugunar að skylda þessi erlendu veiðiskip til að koma við í íslenskri höfn — það ætti ekki að vera þeim ofverk — áður en þau halda af miðunum.

Enn var spurt um aflaverðmæti erlendu skipanna. Ég held að þær tölur, sem nefndar eru í hinu skriflega svari, að hvert kg af fiski leggi sig á 110–130 kr., séu gersamlega út í hött. Ég held að rauntölur þar séu a. m. k. helmingi hærri, þannig að hið raunverulega aflaverðmæti, sem þessi skip flytja héðan, sé kannske á bilinu 5–7 milljarðar. Það þarf ekki annað en að hugsa til þess, að verðið á bæði þorski og ýsu hér upp úr sjó er yfir 200 kr. og á lúðu langtum, langtum hærra. Ég held því að þessar tölur séu gersamlega út í bláinn.

Að því er varðar veiðar Norðmanna, þá var greint frá því í norska blaðinu Fiskaren 25. apríl s. l., að 18 norskir bátar mundu stunda hér veiðar. Þessir bátar eru kallaðir línuveiðarar, en eru engir línuveiðarar, þetta eru fljótandi frystihús sem hefur verið laumað hér inn í landhelgina á þeirri forsendu að þetta séu línuveiðarar. Í þessari grein í Fiskaren eru tilmæli til þessara skipa um að flytja sig þegar í stað af þeim miðum þar sem þorskur veiðist, því að norsku bátarnir séu þegar búnir að veiða upp í þennan 300 tonna kvóta. Hann er búinn. Halda menn að þessir 18 bátar, sem eru að veiða núna hér suðvestur af landinu, fái engan þorsk? Halda menn það?

Í öðru lagi má svo á það benda, að þessir norsku bátar, sem þarna veiða lúðu, hafa boðið niður verðið fyrir okkur á þeirri lúðu sem við höfum verið að reyna að selja erlendis. Talið er fullvíst að afli þessara norsku báta hafi leitt til þess, að verðið á þeirri lúðu, sem við höfum verið að selja, hefur lækkað. Það er margt sem kallar á að þessum málum sé gaumur gefinn núna, en ég held að nú sé orðið tímabært að segja þessum samningum upp, endurskoða stefnuna í þessu frá grunni, afnema sumar þessar heimildir erlendra skipa og þrengja þær allar mjög verulega frá því sem nú er.