06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. sjútvrh. segði að viðræður við Efnahagsbandalagið væru hafnar eða að hefjast. Þetta kom mér mjög á óvart, því að það er vissulega stórmál, þegar við Íslendingar hefjum aftur viðræður við Efnahagsbandalagið, vegna þess, hver forsagan er, og svo hins, að Efnahagsbandalagið mun fá mikil fiskveiðiréttindi þegar Danir færa út við Grænland. Það er vitað mál, að ekki mun þýða fyrir okkur að tala við

ráðamenn í Brüssel á öðrum grundvelli en þeim, að það verði jöfn skipti á afla. Þeir munu ekki leyfa okkur að veiða eina bröndu Grænlandsmegin við línuna, án þess að þeir fái jafnmikil veiðileyfi hérna megin. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta hafi verið rétt skilið hjá mér, og biðja hann um að gera svo vel að gefa á þessu nánari skýringar. Það var síðast í gærmorgun haldinn fundur í utanrmn., þar sem hæstv. utanrrh. var mættur, og var rætt fram og aftur um öll þessi mál, m. a. mikið um Grænland og samband okkar við Dani til upplýsingaöflunar í þeim efnum. Var ekki á honum að heyra að nein ákvörðun hefði verið tekin um að hefja viðræður við Efnahagsbandalagið í Brüssel. Ef við teljum okkur neydda til þess að taka slíka ákvörðun, þá er það stórmál. Við þurfum að hafa að því góðan aðdraganda og vera vel undirbúnir, og ég vænti þess, að engin ríkisstj. stigi slíkt skref án þess að hafa um það samráð við alla flokka þingsins.