06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það, að nauðsynlegt er að mínum dómi að byrja fljótt að ræða við Dani og athuga vel útfærsluna við Grænland. Það var gert mikið úr mikilvægi Jan Mayen málsins og ekki skal ég draga úr því, en hitt er ljóst, að fiskveiðihagsmunir Íslendinga við Grænland eru auðvitað miklu meiri en hagsmunirnir gagnvart Jan Mayen, það er alveg augljóst. Þar er um hafsvæði að ræða sem skiptir okkur verulega miklu máli og með margar mikilvægar fisktegundir, ekki aðeins loðnu — en það má geta þess, að mikill hluti þeirrar loðnu, sem við höfum verið að veiða á haustvertíð undanfarin ár, hefur einmitt fengist á svæði sem við mundum hugsanlega missa úr okkar höndum.

Ástæðan til þess, að ég bað nú um orðið, var það sem hæstv. sjútvrh. sagði, að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um breytingar á fiskveiðisamningunum og málin væru í ítarlegri skoðun. Hvar eru þessi mál í skoðun? Á að skoða þessi mál án þess að hafa samband við Alþingi? Ég vil skora á hæstv. sjútvrh. að ljúka ekki þeirri skoðun fyrr en samband hefur verið haft við okkur hér sem fáumst við sjávarútvegsmál á Alþingi, láta ekki embættismennina eina um þá skoðun.

Ég hef að vísu margsinnis farið fram á það hér í mörg ár, að veiðar Norðmanna og Færeyinga hér yrðu takmarkaðar eða jafnvel tekin af þeim þessi fiskveiðiréttindi, ósköp einfaldlega vegna þess að við höfum lagt mjög miklar takmarkanir á okkar flota í veiðum, og mér þykir ákaflega óeðlilegt að á sama tíma og verið er að draga úr veiðum Íslendinga, þeirra einu lífsbjörg, er óhætt að segja, séu 82 erlendum skipum leyfðar veiðar við landið. Við eigum rúmlega 80 togara sjálfir, en á sama tíma eru yfir 80 erlend skip hér að veiðum, að vísu takmarkaðan tíma og með önnur veiðarfæri, en þau draga sannarlega mjög verðmætan afla í land. Og það er bókstaflega fáránleg, ef ekki hlægileg staðhæfing í því skriflega svari sem kom frá ráðh., þegar talað er um að verðmætið á kg sé um 100 kr., eða 110 kr. Norðmenn segjast veiða hér 300 tonn af þorski og tekur auðvitað enginn mark á því, það er alveg óhætt að segja það- en þá eru líka eftir 1700 tonn af því sem þeir gefa upp, sem er vafalaust yfir 3000, af mjög verðmætum fiski, þar sem verðmætið er ekki 100 kr., heldur miklu nær 1000 kr. kg. Það er alveg óhætt að fullyrða það.

Ég vil ítreka það, herra forseti, — tíminn er of stuttur, — og segja það einu sinni enn, að ég legg til að samningunum við Færeyinga verði sagt upp og þeir fái ekki að veiða hér bolfisk áfram, og sömuleiðis samningunum við Norðmenn. Ég vil segja það hér, að fyrir tveimur vikum voru íslensku togararnir hér á skrapfiskiríi, voru komnir í þorskveiðibann hér við suðurströndina og þeir voru m. a. að veiðum hérna úti í kantinum utan Selvogsbanka. Þá lá íslenskt varðskip yfir þeim til að passa að þeir færu ekki yfir á svæði þar sem línubátarnir voru að veiðum, og þessir línubátar voru ekki íslenskir, heldur norskir. Norskir og færeyskir línubátar höfðu raðað sér í kantinn með allri suðurströndinni og gerðu íslenskum veiðiskipum erfitt um vik.