06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ástæðan fyrir þeirri fsp., sem liggur hér fyrir til umr., er sú, að mér hafa borist upplýsingar um að árið 1977 hafi rn. keypt áfengi hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem nemur tæplega 13 þús. flöskum. Það jafngildir því að á hverjum einasta degi ársins, 365 daga á ári, hafi rn. þessi keypt 35 flöskur. Þetta þykir mér nokkur ofrausn og taldi því eðlilegt að fá skýringar á þessum áfengiskaupum og jafnframt að benda á það, að þarna eru á ferðinni miklir fjármunir sem ríkissjóður tapar af. Flöskur eru keyptar á 300–400 kr., að mér skilst, ef um sterk vín er að ræða, en eitthvað ódýrari ef veik vín eru.

Ég vil í þessu sambandi minna á að það er skattgreiðandinn sem borgar brúsann í þessu sambandi, vegna þess að tekjur af sölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru ákveðnar á fjárlögum. Ég vil í þessari fsp. fá það skýrt fram, hverjir það eru sem kaupa þetta mikla magn áfengis. Fsp. er á þessa leið, með leyfi forseta:

1. Hve mikið magn áfengis hafa einstök ráðuneyti keypt hjá ÁTVR s. l. 10 ár, sundurliðað eftir árum og ráðuneytum? Spurt er um allar tegundir áfengis.

2. Hvaða verð greiða ráðuneytin fyrir einstakar áfengistegundir, miðað við 1. janúar 1980?

3. Eru aðgreind kaup ráðherra og ráðuneyta á áfengi? Svar við þessari spurningu vil ég fá einkar skýrt, hvort það geti verið, að einstakir ráðherrar kaupi áfengi beint, eða hvort það er gert á vegum ráðuneyta, þar eð mér skilst að bein áfengiskaup ráðherra séu ekki heimil.