06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Páll Pétursson:

Herra forseti. Fjmrh. flutti okkur hér stórfróðlega skýrslu. Það er eðlilegt að svona mál beri á góma á öld rannsóknarblaðamennskunnar, og svar við þessari fsp. þarf náttúrlega að vera skriflegt. Að vísu höfum við fengið hér aðkenningu að skriflegu svari, en það er, eins og ráðh. réttilega tók fram, allt of stutt og nær ekki yfir nægilega langan tíma. Ég held að það megi ekki minna vera en gá að þessu svona 20 ár aftur í tímann. Og það má hafa menn í því í sumar í Áfengis- og tóbaksversluninni að telja þetta saman.

Ég sé nú strax í hendi minni að það er fyrirhafnarsamt að flytja mjöðinn í flöskum. Mér fyndist búmannlegra að taka upp kúta- og jafnvel ámu systemið, sem Íslendingar bjuggu við lengi, það sé miklu þjóðlegra fyrir þá að fá þetta í stærri ílátum í ráðuneytin.

Hvað varðar janúarkenderiíð, þá sé ég nú að rækilega hefur verið hnekkt metinu frá 1977. Ég vona nú að það verði ekki haldið svo fram allt árið, en þarna hefur sýnilega verið slegið glæsilegt met. Og það er ekki að undra þó að ýmsar skyssur hafi orðið á landsstjórninni í janúar úr því að lífernið hefur verið svona.

Hvað varðar aths. hv. 4. þm. Austurl., Sverris Hermannssonar, þá vil ég segja það sem mína reynslu, að ef menn drekka mjög mikið af sterku víni, þá verða þeir enn þá vitlausari heldur en ef þeir drekka mjög mikið af léttu víni.