06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér fannst óneitanlega svolítið kynlegt að hv. þm. Árni Gunnarsson skyldi vera að agnúast út í þá flöskuskýrslu sem ég hef hér gefið. Hún var eins nákvæm og hægt var að ætlast til, og vissulega hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað hægt er að leggja mikla vinnu á herðar starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar. Og enn frekar eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að leyfa sér að lesa langar skýrslur af þessu tagi upp á Alþingi. Auðvitað er sannleikur málsins sá, að hér er um mál að ræða þar sem átti auðvitað að biðja um skriflegt svar, en ekki munnlegt, og ég mun reyna að bæta úr því með því að þær viðbótarupplýsingar, sem enn vantar, komi hér sem skriflegar upplýsingar. En ég get upplýst að ef ég hefði átt að lesa upp allan verðlista Áfengis- og tóbaksverslunarinnar, þá hefðum við verið að því til kl. hálffjögur og það þykir mér fullilla með tímann farið hér á Alþ. En ég mun gera ráðstafanir til þess að þessum merka verðlista Áfengisverslunarinnar verði dreift til allra þm.