06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

149. mál, áfengiskaup ráðuneyta

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að bæta hér nokkrum orðum við, einkum og sér í lagi vegna aths. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, sem er að gera því skóna að svör mín séu ófullnægjandi, ég hafi verið spurður hér spurninga sem ég hafi alls ekki svarað. Og þegar hlustað er gjörla eftir því, hvað það á að vera sem á vantar, þá er það hvort verið geti að ráðherrar hafi misnotað þessar heimildir sem ráðuneytin hafa til áfengiskaupa. Ég er hræddur um að það stæði miklu nær fyrrv. dómsmrh. að svara spurningu af því tagi. A. m. k. er mér ekki nokkur leið að svara þeirri spurningu, hvort einstakir ráðherrar hafi misnotað þær heimildir, sem ráðuneytin hafa til áfengiskaupa, og hvort þeir hafi tekið með sér flösku heim eða ekki. Þar er ég hræddur um að fáir geti svarað nema að undangenginni nákvæmri rannsókn, sem aldrei verður sjálfsagt framkvæmd fyrir fortíðina.

Ég vil svo bara bæta því við vegna orða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og þess, sem hann sagði hér um opinbera starfsmenn, að það er alveg rétt, að opinberir starfsmenn hafa talið sig eiga rétt til þess að fá sem hlunnindi tvær flöskur af áfengi á niðursettu verði og þetta mun hafa viðgengist í marga áratugi. (SighB: Bara starfsmenn stjórnarráðsins.) Já, starfsmenn stjórnarráðsins. En sannleikans vegna held ég að rétt sé að það komi hér fram, að þessi siður hefur haldist og hann var við lýði á seinasta ári og hefur þegar verið framkvæmdur á þessu ári. Ég vildi að það kæmi fram, þannig að ekki væri neinn misskilningur á ferðinni hvað þetta snertir.