06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herraforseti. Ríkisstj. samþykkti hinn 29. apríl s. l. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980. Áætlunin var lögð fram á Alþingi laugardaginn 3. maí. Mun ég gera hér nokkra grein fyrir efni þessarar áætlunar.

Í lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o. fl., segir að leggja skuli fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn. Þá segir þar enn fremur, að með fjárfestingar- og lánsfjáráætlun skuli lagt fram frv. til l. um lántöku- og ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til fjáröflunar vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða, að því marki sem slík ákvæði eru ekki í frv. til fjárl. eða fjárlögum. Í samræmi við þetta var frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980 lagt fyrir Alþ. samtímis þessari skýrslu.

Þingrofið í okt. 1979, alþingiskosningarnar í des. og hin langvinna stjórnarkreppa, sem fylgdi í kjölfarið, hafa á ýmsan hátt raskað eðlilegum gangi þingmála. Af þessum sökum var ekki kleift að leggja fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í heild fyrir Alþ. samtímis fjárlagafrv. eins og lög um stjórn efnahagsmála gera ráð fyrir. En sérstakt fskj. ásamt grg. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir ríkisframkvæmdir á árinu 1980 var lagt fram fyrir 3. umr. um fjárlagafrv. Þessi skýrsla um áætlunina í heild fylgir nú svo fljótt á eftir samþykkt fjárlaga sem kostur hefur verið við þessar aðstæður.

Í lögunum um stjórn efnahagsmála eru ákvæði um viðfangsefni fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar. Þar segir að í áætlunum þessum skuli m. a. eftirtalin atriði koma fram:

1. Heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra með framlögum á fjárlögum, eigin fjármögnun opinberra fyrirtækja og lánsfé, enn fremur um framkvæmdir annarra aðila.

2. Framlög til framkvæmda atvinnuvega og einstaklinga.

3. Framlög til fjárfestingarlánasjóða.

4. Útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða og fjármögnun þeirra.

5. Útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða.

6. Áætlun um erlendar lántökur opinberra aðila.

Þá skal gera grein fyrir þróun og horfum um fjárfestingu í einstökum atvinnuvegum, fyrir áætlunum um þróun peninga- og lánamála og áætlun um erlendar lántökur. Enn fremur skal setja fram mat á atvinnuástandi og atvinnuhorfum svo og mannaflaþörf og umsvifum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sérstaklega.

Allt frá árinu 1963 hafa verið samdar árlega framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir vegna þeirra ríkisframkvæmda sem fjármagnaðar eru af lánsfé. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 er fimmta árlega heildaráætlun um lánastarfsemi og fjárfestingarmál, en hin fyrsta sem lögð er fyrir Alþingi eftir setningu lagaákvæða um gerð slíkra áætlana. Lagasetningin er í veigamiklum atriðum staðfesting og formbinding á starfsvenju, sem verið hefur í mótun um langt skeið í því skyni að Alþingi eigi þess kast að fjalla um fjárhagsmálefni hins opinbera og landsins alls á heildstæðan hátt.

Að þessu sinni hafa atvikin ráðið því, að tímabil undirbúnings hefur ekki verið svo rúmt sem skyldi og því ekki reynst unnt að fjalla samtímis um fjárlög og lánsfjáráætlun að öllu leyti, eins og æskilegast er.

Áætlunin er samin á vegum ríkisstj. og hafa Þjóðhagsstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnun, Seðlabanki Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins í samvinnu við einstök rn. annast undirbúning.

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er mörkuð meginstefna í fjárfestingarmálum. Þar segir að heildarfjárfestingu á árunum 1980 og 1981 skuli haldið innan þeirra marka sem ákvarðast af eftirspurn, viðskiptajöfnuði og atvinnuöryggi og nemi fjárfestingin um fjórðungi af Þjóðarframleiðslu. Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er. Áhersla skuli lögð á framkvæmdir á sviði orkumála. Til þess að tryggja næga atvinnu og koma í veg fyrir ofþenslu á vinnumarkaði er félmrn. og Þjóðhagsstofnun ætlað að fylgjast náið með atvinnuástandi og horfum í öllum greinum atvinnulífs og opinberum framkvæmdum um allt land. Komi í ljós að hætta sé á atvinnuleysi eða ofþenstu í einhverri grein skal ríkisstj. gert aðvart til þess að unnt verði í tæka tíð að gera nauðsynlegar ráðstafanir með ákvörðun ríkisstj. og samkomulagi við aðra aðila.

Þjóðhagsstofnun hefur lagt drög að nýrri þjóðhagsspá fyrir árið 1980. Niðurstaða hennar er að þjóðarframleiðslan verði um 1230 milljarðar og fjárfesting 327 milljarðar kr. Hlutfall fjárfestingar af þjóðarframleiðslu er því rúmlega fjórðungur eða um 26.5%. Ástæðan til þess, að farið er lítið eitt fram úr fjórðungsmarkinu, er hin brýna nauðsyn að efla innlenda orkuframleiðslu og dreifingarkerfi bæði rafveitna og hitaveitna.

Í þjóðhagsspánni felst að þjóðarframleiðsla aukist um 1.5% á árinu 1980, en þjóðartekjur standi í stað vegna rýmandi viðskiptakjara. Utanríkisviðskiptin eru ákaflega snar þáttur í íslenskum þjóðarbúskap. Niðurstöðum þeirra er lýst með þrenns konar tölum. Fyrst er vöruskiptajöfnuður, en hann er jöfnuður útflutnings og innflutnings á vörum. Sé jöfnuðurinn hagstæður, þá er afgangur á vöruskiptunum við útlönd. Það merkir að við höfum flutt út meira af vörum en við höfum flutt inn. Sé jöfnuðurinn óhagstæður hefur meira verið flutt inn en út og þá er talað um halla á vöruskiptunum.

Annar mælikvarði á utanríkisviðskiptin er þjónustujöfnuður, en hann er niðurstaðan af þeim reikningi sem sýnir annars vegar andvirði seldrar þjónustu til útlanda, en hins vegar útgjöld til kaupa á ýmiss konar þjónustu frá útlöndum. Af helstu þáttum þessara viðskipta má nefna tekjur og útgjöld af samgöngum við útlönd, sölu og kaup á vátryggingum til og frá útlöndum, vaxtatekjur og vaxtagjöld af erlendum viðskiptum og lánum, auk ýmissa annarra liða, eins og t. d. útgjöld ferðamanna. Séu þessir tveir reikningar, þ. e. vöruskiptajöfnuður og þjónustujöfnuður, dregnir saman, þá fáum við þriðja mælikvarðann, viðskiptajöfnuðinn, en hann sýnir heildarniðurstöðu utanríkisviðskiptanna, þ. e. andvirði seldrar vöru og þjónustu til útlanda, útflutningstekjur okkar — á móti andvirði aðkeyptrar vöru og þjónustu frá útlöndum. Sé afgangur af viðskiptajöfnuði, eða sé hann hagstæður m. ö. o., höfum við selt meira þaðan til útlanda af vörum og þjónustu en við höfum keypt þaðan, og sé jöfnuðurinn óhagstæður, m. ö. o. viðskiptahalli sé, þá þýðir það að útgjöld okkar til kaupa á innflutningi og erlendri þjónustu eru meiri en tekjurnar af sölu vöru og þjónustu til útlanda.

Vöruskiptajöfnuður í ár er talinn verða hallalaus og jafnvel með nokkrum afgangi. Hins vegar er hætta á miklum halla á þjónustujöfnuði. Á undanförnum áratug hefur þjónustujöfnuður yfirleitt verið hallalaus, þar til í fyrra að halli varð um 16.5 milljarðar kr. Þessi halli stafar fyrst og fremst af þrennu: Mikilli hækkun vaxta af erlendum lánum, halla vegna erfiðleika í flugrekstri og auknum útgjöldum vegna ferðalaga erlendis. Á árinu 1980 eru horfur á að halli á þjónustujöfnuði verði ekki minni að raunverulegu verðgildi en á liðnu ári. Því er þess vegna spáð, að verulegur halli verði á viðskiptajöfnuði. Ríkisstj. mun vinna að því með öllum tiltækum ráðum að viðskiptahallinn fari minnkandi á næstu misserum.

Niðurstaða lánsfjáráætlunar er að erlendar skuldir þjóðarinnar muni aukast um 39 milljarða á árinu 1980. Erlendar lántökur í heild verða um 85.5 milljarðar kr., en endurgreiðslur eldri lána alls um 46 milljarðar. Samkv. áætlun Seðlabankans verður greiðslubyrði af erlendum skuldum á þessu ári væntanlega rúmlega 16% af útflutningstekjum. Greiðslubyrðin í þessum skilningi ræðst af almennum lánskjörum, hæð vaxta á alþjóðalánamarkaði og útflutningstekjum. Vextir eru afar háir á lánamarkaði um þessar mundir og ætti að vera nokkur von til þess að þeir fari lækkandi á næstu árum. Útflutningshorfur á komandi árum virðast fremur vænlegar, ef vel tekst til um hagnýtingu fiskstofna og eflingu orkuframleiðslu. Ástæða er því til að ætla að greiðslubyrði fari ekki hækkandi úr hófi fram á næstu árum ef rétt er á haldið.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að greiðslubyrði á mælikvarða útflutningstekna er ekki alls kostar heppileg viðmiðun þegar um er að ræða erlendar skuldir sem stofnað er til vegna framkvæmda sem spara innflutning á eldsneyti. En um þessar mundir er einmitt miklu fé varið til slíkra framkvæmda. Hlutfall erlendra skulda af þjóðarframleiðslunni mun hins vegar haldast óbreytt.

Áætlunin felur í sér rúmlega þriðjungsaukningu framkvæmda í orkumálum frá fyrra ári. Framkvæmdir við rafvirkjanir og rafveitur aukast um 46% og ber þar hæst Hrauneyjafossvirkjun. Framkvæmdir við hitaveitur aukast um 17%. Í heild verður hlutfall orkuframkvæmda af þjóðarframleiðslu tæp 6% og er það með því allra mesta á síðustu áratugum. Á næstu árum munu þessar framkvæmdir skila sér í auknum útflutningstekjum og innflutningssparnaði.

Skráð atvinnuleysi á fyrsta fjórðungi 1980 er 0.4% að mannafla eða færri en 450 menn að meðaltali. Þetta eru lægstu atvinnuleysistölur í byrjun árs frá því heildarskráning hófst 1969. Nýlega hefur verið gert könnun á atvinnuástandi og horfum í byggingariðnaði. Niðurstöður hennar virðast í aðalatriðum þær, að í ársbyrjun 1980 muni atvinnuástand í byggingarstarfsemi hafa verið svipað og undanfarin ár, en horfur taldar nokkuð óvissar, ekki síst vegna þess að ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og starfsemi fjárfestingarlánasjóða lágu ekki fyrir.

Fjárfestingaráætlunin felur í sér aukningu á umsvifum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 4–5% frá árinu 1979, en á því ári dróst þessi starfsemi saman um 2% . Að þessu athuguðu og með samanburði við fyrri ár er talið að atvinnuástand verði gott á árinu 1980 í þessari grein og yfirleitt í landinu. Þetta er þó vitaskuld háð því að atvinnuvegirnir gangi snurðulaust.

Þegar lítið er yfir þau atriði, sem ég hef nú sérstaklega fjallað um, verður ekki annað sagt en fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin fyrir 1980 nái með viðunandi hætti fyrrgreindum markmiðum stjórnarsáttmálans.

Í skýrslunni er gerð allítarleg grein fyrir efnahagshorfum þessa árs. Þess vegna ætla ég aðeins að stikla á helstu atriðum í þeirri þjóðhagsmynd sem nú blasir við.

Ef svo fer sem horfir er útlit fyrir að þorskafli verði meiri á þessu ári en í fyrra, en loðnuaflinn hins vegar minni. Gangi þessar áætlanir eftir og sé jafnframt gert ráð fyrir að annar afli verði svipaður í ár og í fyrra, gæti framleiðsla sjávarafurða aukist um 2% á þessu ári. Stækkun álverksmiðjunnar lýkur á þessu ári og við það eykst afkastageta hennar um 13%. Framkvæmdum við síðari áfanga járnblendiverksmiðjunnar lýkur einnig seint á árinu og eykst afkastagetan þá úr 25 þús. tonnum í 50 þús. tonn. Ef næg raforka fengist fyrir verksmiðjurnar yrði framleiðsla álverksmiðjunnar um 7% meiri í ár en í fyrra og framleiðsla járnblendiverksmiðjunnar um tvöfalt meiri.

Að undanförnu hefur dregið úr orkusölu til þessara fyrirtækja vegna vatnsskorts og útlit er fyrir að í haust verði aftur að skammta rafmagn til þessara fyrirtækja og e. t. v. fleiri stórra rafmagnsnotenda. Af þessum sökum eru horfur á að framleiðsla áls og járnblendis verði minni í ár en afkastageta verksmiðjanna leyfir. Önnur iðnaðarframleiðsla en til útflutnings gæti aukist nokkuð á árinu.

Að öllu samanlögðu virðist mega gera ráð fyrir a. m. k. 4% aukningu útflutningsframleiðslunnar í heild á árinu. Útflutningsframleiðsla jókst hins vegar á síðasta ári um 13%, enda var aukning framleiðslu sjávarafurða þá um 14%.

Útflutningsverðlag hækkaði á síðasta ári um 8% í erlendri mynt miðað við árið á undan, en undir lok ársins dró úr hækkuninni. Verðlag vöruinnflutnings hækkaði um 19% þannig að viðskiptakjör rýrnuðu um 9%. Viðskiptakjörin fóru versnandi eftir því sem á árið leið. Meginástæðan var hin gífurlega hækkun olíuverðs. Gengislækkun Bandaríkjadollars átti og nokkurn þátt í rýrnun viðskiptakjaranna í fyrra. Sé gert ráð fyrir að innflutningsverð á olíu verði á síðari hluta ársins líkt og verð á Rotterdammarkaði um miðjan apríl lætur nærri að innflutningsverð olíu á þessu ári verði að meðaltali um 25% hærra í erlendri mynt en í fyrra. Í þessum efnum er þó engin spá trygg. Annað innflutningsveð er talið munu hækka heldur meira en í fyrra eða um 10% í erlendri mynt. Útflutningsverðlag hækkar aftur á móti að líkindum líkt og á liðnu ári eða um 8% í erlendri mynt.

Á þeim forsendum, sem nú hafa verið greindar, verða viðskiptakjörin í ár um 5% lakari en á síðasta ári, en þó heldur betri en þau voru á síðasta fjórðungi ársins 1979. Þessa spá um viðskiptakjör verður að telja óvissa og e. t. v. reista á nokkurri bjartsýni.

Niðurstaða fjárfestingaráætlunar fyrir árið 1980 er sú, að heildarútgjöld til fjárfestingar aukist um 4.7% að raungildi frá fyrra ári. Fjármunamyndunarspáin er reist á þeirri forsendu, að byggingarkostnaður hækki að meðaltali um 45% milli áranna 1979 og 1980. Á þessum forsendum eru fjárfestingarútgjöldin í heild talin verða 327 milljarðar kr. eða, eins og getið var áður, um 26.5% af þjóðarframleiðslu. Samkv. bráðabirgðatölum fyrir árið 1979, sem eru að nokkru áætlaðar, námu heildarútgjöld til fjármunamyndunar á því ári röskum 217 milljörðum kr. eða um 26% af þjóðarframleiðslu.

Sú aukning opinberra framkvæmda, sem fram kemur í þessari áætlun, stafar mest af aukinni áherslu á orkuframkvæmdir og einkum vega framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun hér þungt, m. a. af því að þeim virkjunarframkvæmdum var frestað nokkuð á s. l. ári. Áætlað er að alls verði 31 milljarði kr. varið til framkvæmda við Hrauneyjafossvirkjun á þessu ári, en framkvæmdaáform miðast við að unnt verði að taka fyrsta áfanga virkjunarinnar í notkun haustið 1981.

Fjárfestingarútgjöld atvinnuvega á árinu 1980 eru í heild talin verða 3.5% minni en á árinu 1979. Af einstökum greinum má nefna, að reiknað er með 10% samdrætti í fjárfestingu í landbúnaði. Í fiskiskipakaupum er í heild reiknað með 18% samdrætti. Innlend skipasmíði og endurbætur voru með mesta móti á s. Í. ári, og líklegt er að nýting afkastagetu skipasmíðastöðva, sem annast nýsmíði, hafi verið óvenjugóð. Innlend nýsmíði og endurbætur eru samtals metnar til yfir 10 milljarða kr. árið 1979, en á þessu ári eru horfur á að nýsmíði verði litlu minni. Ákveðið hefur verið að fjármagna innlenda skipasmíði beint með erlendum lánum, sem koma í stað smíðalána Fiskveiðasjóðs, en þessi lánstilhögun er ekki fullfrágengin og getur hún ráðið nokkru um framkvæmdahraða.

Fjárfesting í fiskvinnslu jókst um fimmtung á árinu 1979. Enda þótt útlán fjárfestingarlánasjóðs til vinnslustöðva aukist verulega á þessu ári má gera ráð fyrir að erfið staða frystihúsanna í ársbyrjun haldi nokkuð aftur af framkvæmdum, en reiknað er þó með að framkvæmdir á árinu 1980 verði svipaðar og á s. l. ári. Framkvæmdir við álverksmiðju er áætlað að verði röskum fimmtungi meiri í ár en í fyrra. Stækkun verksmiðjunnar lýkur um mitt ár og jafnframt er unnið að uppsetningu hreinsitækja. Framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna verða heldur minni í ár en á s. l. ári, en byggingu verksmiðjunnar verður að mestu lokið á árinu. Fjárfesting í öðrum iðnaði jókst um 3% á árinu 1979 og stafaði sú aukning af fjárfestingu í vinnslustöðvum landbúnaðarins. Úr þeim framkvæmdum mun draga á þessu ári, en á hinn bóginn benda útlánaáætlanir lánasjóða iðnaðarins til nokkurrar aukningar að raungildi. Því þykir líklegast að iðnaðarfjárfestingin í heild aukist um 3–4%.

Framkvæmdir við verslunar-, skrifstofu- og gistihús eru taldar hafa dregist saman um 18% á s. l. ári. Vitneskja um framkvæmdaáform 1980 er af skornum skammti, en spáð er 5% samdrætti frá fyrra ári.

Bráðabirgðatölur fyrir árið 1979 benda til þess, að íbúðabyggingar hafi verið um 2% minni en árið áður. Íbúðabyggingar hafa í raun verið svipaðar að magni allt frá árinu 1974. Verkefni við smíði íbúðarhúsa í byrjun þessa árs eru talin hafa verið svipuð og árið áður.

En víkjum nú aftur að fjárfestingu hins opinbera. Framkvæmdir við byggingar og mannvirki hins opinbera á árinu 1979 voru svipaðar og árið áður, en í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ársins var gert ráð fyrir 5% samdrætti. Talsverð aukning var í raforkuframkvæmdum, hitaveituframkvæmdir voru svipaðar og árið áður, en aðrar opinberar framkvæmdir voru minni. Í fjárfestingaráætlun ársins 1980 er gert ráð fyrir að 127 milljörðum kr. verði varið til opinberra framkvæmda. Þessi fjárhæð er tæplega 39% af heildarútgjöldum til fjármunamyndunar samkv. fjárfestingaráætlun, en var 33% á árinu 1979. Aukning opinberra framkvæmda stafar að langmestu leyti af framkvæmdum á sviði orkumála sem beinlínis eru forsenda aukinnar framleiðslu og athafna á vegum einstaklinga og samtaka þeirra. Hér á landi eru þessar framkvæmdir á vegum opinberra fyrirtækja, en í raun og veru má líta á þær margar hverjar sem hina arðvænlegustu atvinnuvegafjárfestingu.

Raforkuframkvæmdir eru taldar aukast um 46% og er gert ráð fyrir að til þeirra verði varið um 50 milljörðum kr. á árinu. Framkvæmdir við hitaveitur hafa verið mjög miklar undangengin ár. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir verulegum lánveitingum til hitaveitna sveitarfélaga og er áætlað að þessar framkvæmdir aukist að raungildi um 17% á árinu. Áætluð útgjöld vegna hitaveituframkvæmda á þessu ári nema rösklega 20 milljörðum kr. Stærstu verkefnin á því sviði eru Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveita Akureyrar, Hitaveita Suðurnesja og Hitaveita Reykjavíkur. Áformað er að leita heimildar til erlendrar lántöku fyrir bæjar- og sveitarfélög er nemi rösklega 6.5 milljörðum kr. Þar af renna 5 milljarðar til hitaveituframkvæmda, 1.1 milljarður til raforkuöflunar í Svartsengi og 1/2 milljarður til ýmissa annarra verkefna á þessu sviði. Síðar verður vikið að hitaveituframkvæmdum og mikilvægi þeirra fyrir þjóðarbúskapinn á tímum hinna miklu umhleypinga á olíumörkuðum erlendis sem orðið hafa á síðustu árum.

Framkvæmdir við samgöngumannvirki hafa dregist saman nokkur undanfarin ár, en á þessu ári er gert ráð fyrir að þær verði auknar í heild um 5%. Vegaframkvæmdir aukast þó mun meira eða um þriðjung. Framkvæmdir við flugvelli aukast um fimmtung, en á hinn bóginn verður samdráttur í fjárfestingarútgjöldum Pósts og síma, enda er byggingu jarðstöðvar að mestu lokið.

Samkv. fjárfestingaráætlun fyrir árið 1980 verður fjármunamyndunin 6.8% meiri að raungildi í ár en í fyrra. Niðurstaðan af spám er sú, að þjóðarútgjöld aukist um 1% eða svipað og á s. l. ári, að þjóðarframleiðsla vaxi um 1.5% í ár eða um 0.5% á mann, en vegna versnandi viðskiptakjara munu þjóðartekjur í heild standa í stað eða minnka um 1% á mann. Verði sjávarafli meiri en hér er reiknað með og komi ekki til frekari rafmagnsskömmtunar til stóriðju í haust gæti aukning þjóðarframleiðslu orðið nær 2%. Meiri takmarkanir á afla og minni framleiðsla stóriðjufyrirtækjanna en hér er gert ráð fyrir gætu aftur á móti falið í sér að aukning þjóðarframleiðslu yrði nær 1%.

Forsendur fjárlaga um kauplags- og verðlagsbreytingar voru þær, að kauplag hækkaði um 42% að meðaltali milli áranna 1979 og 1980, vísitala byggingarkostnaðar um 45% og neysluverðlag um 47%. Þessar forsendur voru reistar á áætlun fyrir fyrri hluta ársins og markmiðum niðurtalningarstefnu ríkisstj. um hækkanir á síðari hluta ársins. Þetta fól í sér að hækkunin frá upphafi til loka árs 1980 yrði rúmlega 30%. Hins vegar horfir nú svo, að verðlag hækki meira á fyrri hluta ársins en gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv.

Nú er áætlað að hækkun framfærsluvísitölu frá febr. til maí verði vart undir 12–13% og gætu laun þá hækkað um 11–11.5% 1. júní, en í fjárlagaforsendum var gert ráð fyrir 8% hækkun. Markmið ríkisstj. er að halda verðbreytingum innan við 7% frá maí til ágúst og innan við 5% frá ágúst til nóv. Takist þetta yrði verðhækkun frá upphafi til loka árs innan við 40%, en meðalhækkun verðlags milli ára 1979 og 1980 væntanlega nálægt 50%. Verðhækkanir að undanförnu gera það að verkum, að nú er mjög brýnt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að hamla gegn verðbólgu á síðari hluta ársins. Í þessu sambandi er mikilvægt að fjárhæðir fjárveitinga og lánveitinga til framkvæmda verði ekki rýmkaðar vegna þessara verðlagshækkana, og þess vegna er fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin í aðalatriðum miðuð við verðlagsforsendur fjárlaga óbreyttar. Ástæðan er einnig sú, að svo mikil tengsl eru milli fjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar að óhjákvæmilegt er að hvort tveggja sé á sama verðlagi. Þetta tryggir rétta samsvörun milli fjárlaga og lánsfjáráætlunar og auðveldar heildaryfirsýn yfir stefnumörkun ríkisstj. í opinberum fjármálum og lánsfjármálum. Á hinn bóginn eru verðlagsforsendurnar ein af meginviðmiðunum í peningamálum og nauðsynlegt að við ákvörðun þeirra sé tekið nokkurt tillit til breyttra verðlagshorfa.

Ný útlán stofnlánasjóðanna eru áætluð 57.5 milljarðar kr. og er það tæplega 30% aukning frá fyrra ári. Þetta er töluvert minni aukning en svarar áætluðum verðbreytingum. Slíkt aðhald er óhjákvæmilegt vegna aukningar á raforku- og hitaveituframkvæmdum. Lán íbúðarlánasjóða munu þó aukast að raungildi, en á hinn bóginn verður nokkur samdráttur í útlánum atvinnuvegasjóða. Þrátt fyrir það er áætlað að útlán til einstakra mikilvægra málaflokka verði aukin. Má hér einkum nefna lán til iðnaðar og fiskiðnaðar.

Fjár til útlánastarfsemi fjárfestingarlánasjóða er aflað með þrennum hætti: a) með eigin fé, b) opinberum framlögum og lögboðnum skatttekjum og c) með lántökum. Hluti lánsfjár í heildarútlánum sjóðanna var um helmingur á árinu 1978, fór í 60% á s. l. ári og verður svipaður á þessu ári. Fjárfestingarlánasjóðirnir gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í fjármögnun fjárfestingar hér á landi. Það er skoðun ríkisstj., að nauðsynlegt sé að efla starfsemi sjóðanna og auka útlánagetu þeirra. Jafnframt verður að leggja á það ríka áherslu, að sjóðirnir styrki fjárhag sinn og þá jafnframt útlánagetu með raunsærri ávöxtun fjárins. Í þessum efnum hefur þegar náðst verulegur árangur þar eð verðtrygging nær nú til þorra nýrra útlána. Eldri óverðtryggð lánskjör vega þó enn þungt og veldur verðbólgan mikilli skerðingu þess fjár. Loks er nauðsynlegt að útlánakjör verði samræmd frekar en nú er og er að því unnið.

Áætlað er að lífeyrissjóðir láni fjárfestingarlánakerfinu 15.5 milljarða kr. auk þess sem þeir verji 6 milljörðum til kaupa á skuldabréfum ríkissjóðs. Óhætt mun að fullyrða að kjör á þessum lánum lífeyrissjóðanna eru hin hagstæðustu sem völ er á. Sjóðunum er nauðsynlegt að tryggja sem besta ávöxtun lífeyrisiðgjalda og þar með lífeyrisgreiðslur þegar fram í sækir. Lán lífeyrissjóðanna skiptast á Byggingarsjóð og Framkvæmdasjóð, en aðrar lántökur Byggingarsjóðs ríkisins eru innkomið skyldusparnaðarfé og frá Atvinnuleysistryggingasjóði eins og verið hefur undanfarin ár.

Gert er ráð fyrir að viðskiptabankarnir láni til Framkvæmdasjóðs 4% af innlánsaukningu ársins 1980 eins og á liðnu ári. Þessi viðskipti milli Framkvæmdasjóðs og bankanna hafa verið í föstum skorðum undanfarin 13 ár og allt fram til ársins 1978 var hér um að ræða 10% af innlánsaukningu bankanna. Á þennan veg taka bankarnir þátt í uppbyggingu atvinnuveganna með lánveitingum til langs tíma. Samkv. áætluninni mun Framkvæmdasjóður lána alls 18 050 millj. kr. á árinu 1980, þar af 17 050 millj. kr, til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Er sú fjárhæð miðuð við að lágmarksútlánageta viðkomandi fjárfestingarlánasjóða sé tryggð. Til þess að ná því marki mun Framkvæmdasjóður þurfa að taka erlend lán er nemi 5050 millj. kr. Þá er og um að ræða erlend lán til Byggðasjóðs, 1500 millj. kr., og er það lán tekið með í áætlun um lánsfjáröflun ríkissjóðs. Auk þess og alveg utan síns reglubundna starfssviðs mun Framkvæmdasjóður annast útvegun 3000 millj. kr. láns til Framleiðsluráðs landbúnaðarins með ábyrgð ríkissjóðs og Byggðasjóðs.

Sem fyrr sagði er í útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs, sem ríkisstj. hefur fjallað um, gert ráð fyrir 5050 millj. kr. erlendum lántökum til endurlána til atvinnuvegasjóðanna. Ríkisstj. hefur samþykkt þessa útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs með þeirri breytingu, að hinni erlendu lántöku verði skotið á frest að hálfu leyti til fyrstu mánaða ársins 1981. Þessari frestun verður síðan skipt niður á sjóðina eftir nánari ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins í samráði við ríkisstj. Ástæðan fyrir þessari frestun er auðvitað sú þörf sem á því er að halda erlendum lántökum í heild í skefjum, ekki síst þegar lánskjör á alþjóðlegum lánamarkaði eru jafnþung og nú er, en einnig má á það benda, að greiðslustaða fjárfestingarlánakerfisins var betri í upphafi árs 1980 en verið hefur undanfarin ár.

Þær áætlanir um peningamál, sem fram eru settar í lánsfjáráætlun ársins 1980, eru eins og aðrar stærðir áætlunarinnar reistar á fjárlagaverðlagi. Ég hef þegar fjallað um verðlagshorfurnar og bent á að stefnt yrði að því að verðlagshækkun frá upphafi til loka þessa árs yrði ekki meiri en 40%. Í þessu mundi felast veruleg hjöðnun verðbólgunnar, því að vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 61% á árinu 1979. Á þessum verðlagsforsendum mundu nafnvextir vaxtaaukainnlána og útlána að líkindum haldast lítt breyttir á árinu, en gera verður ráð fyrir endurskoðun vaxta á öðrum tegundum innlána og útlána þannig að vaxtakerfið myndi skipulegri heild. Með hjöðnun verðbólgu verður þannig stefnt að verðtryggingarmarkinu. Slík þróun stuðlar að auknum peningalegum sparnaði einkaaðila og eykur möguleika á þátttöku innlánsstofnana í fjármögnun opinberra framkvæmda, sem annars krefjast erlends lánsfjár. Áformað er að semja við innlánsstofnanir um verðbréfakaup í þessu skyni, eins og áður var nefnt. Afstaða sparifjáreigenda til ávöxtunarkjara innlána ræður miklu um getu banka og sparisjóða til að veita langtímalán.

Það er stefnt að því, að aukning almennra útlána innlánsstofnana fari ekki fram úr 37% á árinu. Standist jafnframt áætlanir um greiðsluafkomu ríkissjóðs og endurkaup afurðalána munu heildarútlán bankakerfisins aukast um 29% á árinu. Er þetta raunar sú hámarksútlánaaukning sem samrýmist settum markmiðum við gefnar forsendur. Breyttar forsendur, t. d. um innlánsaukningu, breyta að sjálfsögðu útlánagetu innlánsstofnana.

Áætlað er að innlán á vaxtaaukareikningum og öðrum uppsagnarreikningum aukist um 49% eða um 10 prósentustigum meira en verðlag. Í samræmi við reynslu síðustu ára má hins vegar búast við nokkru hægari aukningu annarra innlána og er gert ráð fyrir 40% aukningu peningamagns í víðri merkingu, þ. e. samtölu heildarinnlána seðla og myntar í umferð. Þegar frá eru taldar innstæður á uppsagnarreikningum er áætlað að peningamagnið aukist um 35%.

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. segir að í peningamálum skuli mörkuð stefna er stuðli að hjöðnun verðbólgu. Eins og hér hefur verið lýst verður í þessu skyni beitt stjórntækjum sem í senn efla sparifjármyndun og koma í veg fyrir óhóflegt peningaútstreymi úr bankakerfinu.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að erlendar lántökur verði 85.5 milljarðar kr., en það er áætluð fjárþörf vegna fyrirhugaðra framkvæmda umfram það fé sem afla verður innanlands. Þetta er rösklega 13 milljörðum kr. hærri lánsfjárþörf en ef eingöngu væri litið til greiðslujafnaðarsjónarmiða. Til þess að skýra þetta nánar má minna á að þörf fyrir erlendar lántökur má annars vegar miða við þarfir fyrir erlendan gjaldeyri út frá greiðslujafnaðarhorfum og hins vegar þörf á að fjármagna nauðsynlegar og arðbærar framkvæmdir sem ekki reynist unnt að fjármagna með innlendum sparnaði. Frá greiðslujafnaðarsjónarmiði miðast þörfin fyrir erlendar lántökur á árinu 1980 við endurgreiðslu á eldri lánum að viðbættum halla á viðskiptajöfnuði, sem þjóðhagsspá áætlar um 16 milljarða kr., og því, sem telja má æskilegan bata á gjaldeyrisstöðu. Þörfin fyrir erlendar lántökur umfram það sem nauðsynlegt er til að halda viðunandi greiðslujöfnuði stafar að sjálfsögðu að mestu leyti af hinum umfangsmiklu orkuframkvæmdum.

Á móti 85.5 milljarða kr. nýrri erlendri lántöku eru afborganir af löngum eldri lánum áætlaðar 46.3 milljarðar kr., nettóaukning þeirra þá 39.2 milljarðar. Er það 7% af áætluðum útflutningstekjum og 3.2% af áætlaðri þjóðarframleiðslu og er ívið hærra en samsvarandi hlutfall 1979, sem var 6.6% og 3%. Í heild er áætlað, að fjármagnsjöfnuður verði hagstæður um 30.4 milljarða kr., sem rynni til þess að jafna halla á viðskiptajöfnuði og bæta gjaldeyrisstöðuna um 14–15 milljarða kr.

Erlendar langtímalántökur opinberra aðila eru áætlaðar 49.8 milljarðar kr., þar af vegna A- og B-hluta fjárlaga 11.3 milljarðar, fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs 30.4 milljarðar og er Landsvirkjun þar hæst með 28.7 milljarða. Auk þess er gert ráð fyrir að Landsvirkjun muni breyta um það bil 1.8 milljarða kr. skammtímalánum í lán til langs tíma. Loks eru lántökur á vegum bæjar- og sveitarfélaga áætlaðar 8 milljarðar kr. Löng erlend lán námu 334 milljörðum kr. í árslok 1979, og fært til meðalgengis er það um 35% af vergri þjóðarframleiðslu ársins. Að meðtöldum lántökum ársins 1980 er áætlað að hlutfallið haldist svipað og á s. l. ári. Benda má á að hlutfallið er háð því að afstöður verðlags og gengis standist samkvæmt spá.

Greiðslubyrði vegna afborgana og vaxta af löngum erlendum lánum hefur þrjú s. l. ár verið sem hlutfall af útflutningstekjum sem hér segir: 1976 13.8%, 1977 13.7%, 1978 13.3%. Á árinu 1979 er áætlað, að hlutfallið verði um 14.2%, en á árinu 1980 er greiðslubyrðin áætluð rúmlega 16%. Þessi aukning á greiðslubyrðinni stafar bæði af hækkun lána og versnandi vaxtakjörum erlendis. Hér þarf svo auðvitað að hafa í huga, eins og ég nefndi áður, að greiðslubyrði mæld sem greiðslur afborgana og vaxta í hlutfalli við útflutningstekjur er ekki fullnægjandi mælikvarði þegar um er að ræða greiðslur af erlendum lánum sem tekin hafa verið til framkvæmda sem spara innflutning. Þetta kemur glöggt í ljós þegar bornar eru saman greiðslur af lánum til raforkuframkvæmda og hitaveituframkvæmda. Raforkuframkvæmdir skila sér fyrst og fremst í auknum útflutningstekjum og greiðslur af lánum til þeirra valda því ekki sömu hækkun á greiðslubyrði og lán til hitaveitna sem auka ekki útflutning, heldur spara innflutning og hafa því hagstæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn á þann hátt. Til þess að sýna um hvaða stærðir hér er að ræða má geta þess, að sú breyting, sem orðið hefur á fjölda íbúa í olíukyntum húsum frá því á árinu 1970 svarar til þess, að 74 þús. manns færri búi á þessu ári við olíukyndingu en hefði verið ef við á þessu ári stæðum í sömu sporum með húsakyndingu og við gerðum á árinu 1970. Láta mun nærri að þetta jafngildi olíusparnaði að fjárhæð um 11 milljarða kr. fob. á árinu 1980, og er þá eingöngu metinn sá sparnaður sem stafar af breytingum á húsakyndingu heimila. En breytingin hefur einnig náð til fyrirtækja, og lauslega má áætla að sá innflutningssparnaður geti numið 4 milljörðum kr. á árinu 1980. Þessar tölur, 11 + 4 milljarðar kr., gefa hugmynd um hversu mikilvæg aukin innlend húshitun er á sviði gjaldeyrissparnaðar.

Í ljósi þessara staðreynda leggur ríkisstj. kapp á framkvæmdir við hitaveitur og fjarvarmaveitur á þessu ári. Hæstv. fjmrh. mun gera grein fyrir því frv. til lánsfjárlaga, sem lagt hefur verið fram á Alþ., og fjalla þar nánar um fjáröflun til þeirra framkvæmda sem áætlunin tekur til.

Ég vil hins vegar að lokum gera nokkra grein fyrir heildarstefnu ríkisstj. í fjárfestingar- og lánamálum eins og hún birtist í þessari áætlun.

Kjarni stefnunnar í fjárfestingar- og lánamálum kemur fram í opinberri öflun lánsfjár innanlands og utan og ráðstöfun þess til opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða. Þetta er að sjálfsögðu aðeins hluti af heildarfjármögnun framkvæmda í landinu. Við þetta bætast erlendar lántökur einkaaðila sem hið opinbera heimilar og hefur hliðsjón af við áætlunargerðina, enn fremur opinber framlög og löggiltir tekjustofnar fjárfestingarlánasjóðanna svo og þeirra eigið fé. Um almenn markmið þessarar áætlunargerðar hef ég þegar fjallað. Þó vil ég nefna að miklar og brýnar framkvæmdaþarfir, einkum í orkumálum, en einnig á öðrum sviðum, kalla á strangt aðhald að öðrum greinum framkvæmda. Hins vegar var naumur tími til áætlunarstarfsins, ýmsar ákvarðanir þegar teknar og því torveldara en ella að koma skipulegu aðhaldi við á þeim skamma tíma sem ríkisstj. hefur starfað. Þannig var sýnt að ef ekki kæmi til talsvert meiri innlend fjáröflun en áformuð var í fyrstu stefndu erlendar lántökur úr hófi fram. Þess vegna er lögð á það rík áhersla að auka innlenda fjáröflun, sem hefði tvennt í för með sér: annars vegar að draga úr erlendum lánum og þar með greiðslubyrði síðar meir og hins vegar, sem ekki er síður mikilvægt, að með því yrði spornað gegn þensluáhrifum innanlands sem óhjákvæmilega fylgja miklum framkvæmdum.

Ríkisstj. hefur ákveðið að leita ekki heimildar til erlendrar lántöku á árinu 1980 í jafnríkum mæli og samþykkt framkvæmdaáform ýmissa fyrirtækja ríkissjóðs í B-hluta fjárlaga miðast við. Í þessu felst nokkur frestun framkvæmda.

Þá er þess að geta, að útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1980, sem ríkisstj. fjallar um, gerir ráð fyrir 5050 millj. kr. erlendum lántökum til endurlána til atvinnuvegasjóðanna. Ríkisstj. hefur samþ. þessa útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs með þeirri breytingu, að hinni erlendu lántöku verði skotið á frest að hálfu leyti til fyrstu mánaða ársins 1981. Þessari frestun yrði síðan skipt niður á sjóðina eftir nánari ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins í samráði við ríkisstj. Ástæðan fyrir þessari frestun er auðvitað sú þörf sem er á því að halda erlendum lántökum í heild í skefjum, ekki síst þegar lánakjör á alþjóðlegum lánamarkaði eru jafnþung og nú er. En einnig má á það benda, að greiðslustaða fjárfestingarlánakerfisins, eins og ég gat um áðan, var betri í upphafi árs 1980 en verið hefur að undanförnu.

Lánsfjáráætlunin, sem hér liggur fyrir, ber því merki um aðhaldsviðleitni, en þó er ljóst að það þarf að fylgja þessari stefnu fast eftir, ekki síst með því að efla enn innlendan sparnað. Til þess að það verði unnt er brýnt að haldið sé áfram á þeirri braut að verðtryggja sparifé landsmanna, en með því fæst aukinn innlendur sparnaður og þar með innlent lánsfé til framkvæmda.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin snertir flest svið efnahagsmála. Ríkisstj. hefur frá upphafi sett sér það mark að draga úr verðbólgu í áföngum. Verðbólgan er enn mesta vandamál íslenskra efnahagsmála og hún getur riðlað jafnvel traustustu áætlunum. Til þess að draga úr verðbólgu þarf verulegt átak. Um áramótin síðustu var verðlag í landinu þegar orðið 26% hærra en ársmeðaltalið 1979. Ríkisstj. hefur sett sér það markmið að halda verðbreytingum á síðari hluta ársins svo í skefjum að verðlagshækkanir frá upphafi til loka árs verði innan við 40%. Þótt þetta yrði vissulega að teljast skref í rétta átt miðað við fyrra ár, þegar verðlag hækkaði um meira en 60% frá upphafi til loka árs, þá er engu að síður ljóst að þetta er aðeins fyrsti áfanginn á þeirri braut að koma verðbólgunni niður á svipað stig og gengur og gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Mælt í meðaltölum milli ára yrði verðlagið samkv. þessu næstum 50% hærra 1980 en á árinu 1979. Skýringin á þessum mun er sú, að verðbólgan magnaðist mjög á síðari helmingi ársins 1979.

Með hliðsjón af þessum verðlagshorfum og jafnframt til þess að unnt sé að ráðast í allar þær þjóðþrifaframkvæmdir, sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir, er nauðsynlegt að ríkisfjármálin séu tryggð og aðhalds gætt í ákvörðun kaupgjalds og verðlagsákvörðunum öllum. Í stjórnarsáttmálanum hefur ríkisstj. sett sér það meginmarkmið að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þessi fjárfestingaráætlun er liður í framkvæmd þeirrar stefnu. Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgu með aðhaldsaðgerðum er snerta verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingarmál og ríkisfjármál. Á það verður lögð höfuðáhersla, að beitt sé samstilltum aðgerðum á öllum þessum sviðum og jafnan þannig að atvinnuöryggi sé tryggt. Varanlegur árangur í þessum efnum næst ekki með skyndilausnum, heldur þrotlausu starfi þar sem fylgt er ákveðinni og sanngjarnri aðhaldsstefnu samfellt um alllangt skeið.