06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hér hafa tveir hæstv. ráðh. gert grein fyrir lánsfjáráætlun ríkisstj. Þegar lánsfjáráætlun var fyrst samin 1975 fyrir árið 1976 og þá lögð fram við 3 umr. fjárl. kom strax gagnrýni fram af hálfu þeirra sem þá skipuðu stjórnarandstöðu. Þeir sögðu réttilega að lánsfjáráætlunin væri of seint á ferðinni og stefna þyrfti að því að lánsfjáráætlun yrði lögð fram með fjárlagafrv. Mér var þetta alveg ljóst og hugsaði að það gæti tekist þegar fram í sækti. Árið 1977 tókst að leggja lánsfjáráætlunina fram við 2. umr. fjárl. Það var þó örlítil bót, en einhvern veginn vannst þetta verk ekki nægjanlega vel, kannske vegna þess að hér var um nýsmíði að ræða fyrir árin 1976 og 1977 og menn voru að læra af reynslunni. En vitanlega hlaut það að verða markmið í framtíðinni að lánsfjáráætlun yrði lögð fram með fjárlagafrv.

Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar setti lög um stjórn efnahagsmála. Henni tókst ekki að koma þessum málum þannig fyrir að lánsfjáráætlun yrði lögð fram með fjárlagafrv. fyrir 1979, en þeim, sem þá sátu í ríkisstj., fannst ástæða til að lögfesta það að lánsfjáráætlun yrði lögð fram með fjárlagafrv. Hvorki tókst ríkisstj. Benedikts Gröndals né hefur núv. ríkisstj. að leggja fram lánsfjáráætlun með fjárlagafrv., og við erum í dag, örfáum dögum áður en Alþingi lýkur, að ræða þessi mál og gera okkur grein fyrir því, hvernig þessi þáttur efnahagsmálanna kemur til með að líta út.

Ég verð að benda á það, að lánsfjáráætlunin eða lög þau, sem Alþ. samþykkir með lánsfjáráætlun, voru samþykkt á svipuðum tíma og fjárlög árið 1975, þ. e. fyrir fjárlög 1976, og fyrir árin 1977 og 1978, einfaldlega til þess að fá heildarstefnu í efnahags- og fjármálum ríkisins, en haga ekki málunum eins og síðasta ríkisstj., þ. e. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, gerði og þessi ríkisstj. gerir, að koma með lánsfjáráætlun mörgum mánuðum eftir að fjárlög hafa verið afgreidd og inn í lánsfjáráætlun eru settir þeir pöntunarlistar ráðh. sem Alþ. féllst ekki á að afgreiða þegar fjárlög voru afgreidd. Það er einmitt til þess að fyrirbyggja slík vinnubrögð sem afgreiða þarf samtímis fjárlög og lánsfjáráætlun. Það skiptir kannske ekki höfuðmáli hvort lánsfjáráætlunin er lögð fram á sama degi og fjárlögin, þ. e. fyrsta degi þings, en hún þarf að sjálfsögðu að koma til umfjöllunar bæði á þingi og í fjvn. áður en meginstefna fjárlagafrv. er mótuð af fjvn. og Alþ., svo að samræmi sé á milli fjárlaga ríkisins og lánsfjáráætlunar.

Afsökun fyrir því, að ekki hafi unnist tími til að leggja fram lánsfjáráætlun, er ekki að mínum dómi til þess að bera á borð. Við heyrðum hins vegar mjög skýrt í ræðu hæstv. fjmrh. í hverju það lá, að lánsfjáráætlunin kom ekki fyrr fram. Það var verið að skera niður. Mennirnir voru komnir töluvert á annað hundrað milljarða í erlendum lántökum, eins og hann réttilega kom fram með áðan, en hann gerði líka grein fyrir því, hvaða patentlausn þeir fundu svo að lokum til þess að koma sér saman og til þess að geta yfirleitt lagt lánsfjáráætlunina fram áður en þingi lauk. Það var ein allsherjar 10% niðurskurðarregla, þ. e. að framkvæmdirnar skulu eiga sér stað, en það skal bara dregið að greiða lánin fram yfir áramót, þannig að bókhaldslega séð verði það ekki fært undir árið 1980, heldur í jan. og febr. á árinu 1981. Þetta eru bókhaldsleikir, sem forustumenn þjóðfélagsins eru að leika þegar verið er að móta að hluta til efnahags- og fjármálastefnu þjóðarinnar.

Ég sakna hæstv. fjmrh. úr salnum. Ég hafði ætlað að beina til hans spurningum varðandi ríkissjóð og afkomu hans 1979. Okkur er ljóst að verðbólgan varð meiri á árinu 1979 en nokkru sinni fyrr, eða tæp 62%. Alþ. hefur hins vegar ekki verið gerð grein fyrir stöðu ríkissjóðs um s. l. áramót. Sú venja hafði skapast, að fjmrh. gerði Alþingi grein fyrir stöðu ríkissjóðs í febrúar- eða marsmánuði samkv. bráðabirgðatölum ríkisbókhaldsins, en það hefur ekki verið gert enn þá. Sjálfsagt getur hæstv. fjmrh., áður en þingi lýkur, komið með einhverja slíka stutta grg., en ég hefði hins vegar átt von á því, að unnt hefði verið að halda þessari venju, enda þótt hún væri ekki lögfest, og menn virðast ekki heldur fara eftir því þó að þeir hafi staðið að lögfestingu um að leggja fram hitt og þetta hér á Alþ. til þess að gera þm. grein fyrir þessum málum. Ég minni á að um nokkuð langt skeið, allt frá 1965 að lögin um ríkisbókhald voru sett, hefur fjmrn. og þeir, sem veittu því forstöðu á þessu tímabili, reynt að starfa með þeim hætti að Alþ. fengi grg. um stöðu ríkissjóðs eins fljótt og mögulegt væri, og það tókst á árinu 1976 að leggja fram ríkisreikninginn fyrir alþm. áður en þeir fóru heim af þingi, ríkisreikning árið á undan. Þetta hafði ekki tekist áður, og það merkilega var, að þegar menn voru að semja fjárlög í fjmrn. voru ekki til ríkisreikningar næstliðins árs til þess að þeir gætu gert sér grein fyrir því, hvernig þessum málum væri yfirleitt háttað. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Eiga þm. von á því, að þeirri venju verði haldið að A-hluti ríkisreikningsins verði lagður fram á borð þm., að vísu að sjálfsögðu óendurskoðaður, en fullgerður frá ríkisbókhaldinu, áður en þeir fara af þingi? Þar sem ég veit að ráðh. mun segja nokkur orð með því frv., sem hér verður tekið fyrir í Nd., er það af minni hálfu ástæðulaust að hann geri annað en svara mér við þá umræðu.

Hæstv. forsrh. vék að lögum um efnahagsmál og las upp úr þeim hvað í lánsfjáráætlun ætti að standa. En það er eitt sem mig langar til að spyrja hann að sérstaklega. Í II. kafla þessara laga er þess nefnilega getið, að haft skuli samráð við ákveðna hópa þjóðfélagsins þegar fjallað er um þjóðhags-, fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir, tekjustefnu og forsendur þeirra. Mig langar til þess að fá svar við því, hvort þetta hefur verið gert eða hvort hér er að gerast enn á ný það sama og gerst hefur áður á þingi, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram þýðingarmikil frv., en alls ekki farið að þeim lögum sem sett voru á síðasta þingi að miklu leyti sem starfsreglur fyrir ríkisstj. til að vinna eftir. Annars var það að vissu leyti nýmæli, að hæstv. forsrh. kom hér og mælti fyrir lánsfjáráætluninni, hvort sem hann þar með vildi ljúka af hluta stefnuræðu sinnar, sem ekki hefur enn verið haldin, eða hann treysti ekki hæstv. fjmrh. til þess að koma málum til skila, nema hvort tveggja hafi verið. Það er hans mál. En ég vek nú athygli á þessu, því að hér er um að ræða nýmæli í sambandi við meðferð þessa máls.

Þegar við ræðum lánsfjáráætlunina er rétt að rifja upp nokkrar setningar úr þeirri bláu bók sem samin var þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. (BGr: Er það áritaða eintakið?) Ég er ekki með áritaða eintakið, ég geymi það, því að það verður að sjálfsögðu ekki til þess að nota daglega. Í þessari bláu bók er sett fram með margs konar orðskrúði hvað ríkisstj. hyggst gera, stefna að, beita sér fyrir o. s. frv. En ég sagði við sessunaut minn áðan að sumt af þessu væri þannig samansett, að það hvarflaði að mér að það hefði verið leitað til hennar til að fá sumar setningarnar, þ. e. í síðari hlutanum, til þess að þurrka út það sem sagt var í fyrri hluta bókarinnar.

En lítum á kaflann um verðlagsmál. Ég rifja þetta upp, því að innan tveggja daga á ríkisstj. þriggja mánaða afmæli og það er ekki úr vegi að menn átti sig á því, hvernig það, sem þar var prentað, hefur staðist, og sér í lagi beri það saman við þá lánsfjáráætlun sem við erum hér að fjalla um. Um verðlagsmálin segir í stjórnarsáttmálanum að 1. maí skuli efri mörkin vera 8%. Í peningamálunum er tekið fram sérstaklega, að peningamagn í umferð verði í samræmi við markmið í efnahagsmálum. Á eftir gæti verið setning þar sem hefði staðið: Í efnahagsmálum skal farið eftir því peningamagni sem er í umferð.

Þegar kemur svo að fjárfestingarmálunum stendur þar: „Heildarfjárfestingu á árunum 1980–1981“ — allt er þetta nú lesið upp með leyfi hæstv. forseta — „verði haldið innan þeirra marka, sem ákvarðast af eftirspurn, viðskiptajöfnuði og atvinnuöryggi, og nemi fjárfestingin um fjórðungi af þjóðarframleiðslu.“ Svo kemur nr. 2: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum. Efri mörk erlendrar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.“

Nú höfum við fengið upplýst að þessi 15% voru byggð á miklum misskilningi á milli ríkisstj. og hagfræðinganna. En það skiptir ekki máli hversu stórt hlutfall af útflutningsframleiðslunni fer til þess að greiða þessa hluti. Atriðið er: Var misskilningur eða var ekki misskilningur að dómi hæstv. fjmrh.? Ef menn hafa metið svo fyrir þremur mánuðum að 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar væru hámark þessarar greiðslubyrðar, þá er það enn í dag. Það skiptir engu máli hvort um var að ræða misskilning eða ekki. Hér er verið að leggja mat á hlutina, en ekki verið að setja niður tölur vegna einhverra atriða sem áður höfðu gerst erlendis, þ. e. í sambandi við hækkun á vöxtum. En ég spyr: Hafi menn haldið að vaxtakjörin yrðu 1980 með þeim hætti, að 15% af útflutningstekjum dygðu til að greiða þetta, var þá ekki ástæða til að kippa að sér hendinni þegar menn gerðu sér grein fyrir að vextirnir höfðu hækkað? Á þá bara að afsaka þetta með því, að það hafi verið misskilningur milli hagfræðinga og ríkisstj., menn hafi reiknað vitlaust eða ekki spáð rétt um framtíðina? Ég veit að það var einhvers staðar sagt að það væri erfitt að vera spámaður, sér í lagi um framtíðina.

Þegar þessi lánsfjáráætlun er hér til umr. hlýtur það að liggja í augum uppi, að fyrirheit ríkisstj. og það, sem í henni stendur, er borið saman. En áður en við höldum lengra skulum við virða fyrir okkur hver staða efnahagsmála okkar er í dag, áður en að sjálfri lánsfjáráætluninni er vikið. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að í þeim málum er allt annað en bjart um að lítast. Við getum látið formann Framsfl. ræða þessi efni. Í Tímanum 26. apríl gerir hann grein fyrir stöðu mála að sínum dómi. Það eru ekki hrakspár stjórnarandstöðunnar sem þar er um að ræða, heldur eru það ummæli formanns Framsfl. Hann segir að markmið niðurtalningarinnar, sem ríkisstj. setti sér 1. júní, náist ekki, mistakist. Það er rétt. Þjóðhagsstofnun hefur gert fjvn. grein fyrir því, hvernig þetta kemur út. Vísitala framfærslukostnaðar frá 1. febr. til 1. maí mun hækka um 13.18% að hennar dómi og er þó ekki allt þar með talið. Ef við tökum aðeins töluna 13, þá er það verðbólga upp á 63%. Ef við lítum hins vegar á þróun mála seinustu sex mánuði, þ. e. frá 1. nóv. til 1. maí, þá er hækkun framfærsluvísitölunnar 23.3% og þá er verðbólguhraðinn 52%. En ef við berum þetta saman við árið í fyrra, þá kemur í ljós að verðbólguhraðinn á sama tíma var miklu minni, hann var 38%. Vísitala framfærslukostnaðar hafði frá 1. nóv. til 1. maí hækkað um 17.7% á móti því að reiknað er með nú að hún hækki um 23.3%. En verðbólgan í fyrra frá upphafi árs til loka varð 61.8%. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur það, að verðbólguhraðinn er enn þá meiri nú en í fyrra og við þurfum enn þá betur að gæta að okkur.

Ef við lítum á viðskiptajöfnuðinn, hvað segir formaður Framsfl. um hann? Hann getur þess, sem rétt er, að viðskiptajöfnuðurinn sé mjög neikvæður og hafi verið miklu neikvæðari fyrstu þrjá mánuði þessa árs en áður. Og það kemur í ljós, að vöruskiptajöfnuðurinn er neikvæður um 17.7 milljarða fyrstu þrjá mánuði ársins. Það mundi hins vegar ekki þýða 17.7 milljarða í viðskiptajöfnuði, það er alveg rétt. Það má draga frá þeirri upphæð sjálfsagt nærri helming. En hér er um að ræða breytingar til hins verra frá því í fyrra.

Ef við lítum á peningamálin, þá kemur í ljós hver staðan er þar. Sparifjáraukningin í ár er í krónutölu nákvæmlega sú sama, að vísu 700 millj. minni en í fyrra fyrstu þrjá mánuðina. Hún var 19 milljarður 891 millj. í fyrra, hún er 19 milljarðar 135 millj, núna. Ef sparifjáraukningin hefði orðið sú hin sama að magni til árið 1980 og 1979, þá hefði hún átt að vera 32 milljarðar. Það skortir 13 milljarða á að sparifjáraukningin í ár sé hin sama og á s. l. ári.

Ef við skoðum stöðu bankanna kemur í ljós að lausafjárstaða þeirra fyrstu þrjá mánuði ársins hefur versnað um 16 milljarða og þeir hafa til ráðstöfunar af sparifjáraukningunni frá upphafi ársins 6.7 milljarða í ár í staðinn fyrir 14 milljarða á s. l. ári.

Þessar lýsingar, sem ég hef hér dregið fram, eru eftir ræðu formanns Framsfl., að vísu með útfyllingu á tölum frá þeim stofnunum sem um þessi mál fjalla.

Þá er spurningin um vaxtastefnuna. Hver hefur hún verið? Það er tekið skýrt fram í efnahagslögunum hver hún eigi að vera. Hefur verið farið eftir henni? Það hefur ekki verið gert.

Þá er spurt: Hvernig standa gjaldeyrismálin? Hér deildu menn um hvort það, sem gerðist, væri gengissig eða gengisfall. Þeir, sem vildu leysa málið, fundu út að þetta hefði verið gengissigfall, þar með var samkomulag um það. Spurningin er: Er breytingin á verði gjaldeyrisins í dag ekki orðin meiri en gert hafði verið ráð fyrir? Ég er hræddur um að þegar það er skoðað, þá sé staðan sú, að þar séum við líka komnir út fyrir þau mörk sem menn settu sér.

Þannig lítur dæmið út hjá okkur, þegar hæstv. forsrh. og, hæstv. fjmrh. tala fyrir lánsfjáráætluninni fyrir 1980. En hvað segir þá það skjal okkur sem hér liggur fyrir? Gerir það grein fyrir því, að það sé bati fram undan? Það er siður en svo. Og þegar skoðað er það sem frá þessum stofnunum hefur komið, þá kemur í ljós að þjóðarframleiðsluspáin er reist á mjög veikum grunni. Þar stendur að niðurstaða þjóðhagsspár verði sá, að þjóðarframleiðsla vaxi um 1.5% í ár eða nm 0.5% á mann, en vegna versnandi viðskiptakjara muni þjóðartekjur í heild standa í stað og reyndar minnka um 1% á mann. Verði sjávarafli meiri en hér er reiknað með og komi ekki til frekari rafmagnsskömmtunar til stóriðju í haust gæti þjóðarframleiðsluaukningin orðið nær 2%. Meiri takmarkanir á afla og minni framleiðsla stóriðjufyrirtækjanna en hér er gert ráð fyrir gæti aftur á móti falið í sér að þjóðarframleiðsluaukningin yrði nær 1%, en ekki 1.5%. Þegar talað er um þjóðarframleiðsluna í þessari skýrslu er gert ráð fyrir að þorskveiðar fari þó nokkuð mikið fram úr því sem sérfræðingar hafa lagt til. Það er ljóst af þeim fjórum mánuðum, sem liðnir eru, að botnfisksaflinn er meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Í þessari skýrslu er gert ráð fyrir 400 þús. tonnum, en vísindamenn höfðu lagt til töluvert lægri upphæð ef við á annað borð vildum byggja upp hrygningarstofninn á næstu tveimur árum. Það liggur því alveg ljóst fyrir að þjóðartekjur á árinu 1980 verða ekki með þeim hætti sem spáð hafði verið af núv. ríkisstj. Dæmið kemur öðruvísi út. En það á ekki að taka tillit til þess, heldur á að spenna bogann eins og mögulegt er, með þeim afleiðingum sem við öll vitum hverjar eru.

Verðlagsþróunin samkv. þessari skýrslu verður ekki eins og ríkisstj. hefur sett sér. Ég vék að því áðan, að niðurtalningin, sem gert var ráð fyrir að yrði 8% 1. júní, verður töluvert miklu hærri. Það er enn fremur gert ráð fyrir því af Þjóðhagsstofnun, að verðlagsþróunin síðari hluta ársins verði öðruvísi og töluvert óhagstæðari en gert er ráð fyrir í sáttmála ríkisstj. En í skýrslunni segir:

Takist þetta, þ. e. að halda niðurtalningunni sem ríkisstj. hefur sett á prent, verður verðhækkun frá upphafi til loka árs innan við 40%, en meðalhækkun verðlags milli 1979 og 1980 væntanlega 50% vegna mikillar verðhækkunar á síðari hluta ársins í fyrra. Ef við flettum upp á bls. 20, þá er örlítið varlegar farið í orðalagið og þar er sagt: „Miðað við fyrirsjáanlega hækkun framfærslukostnaðar til 1. maí og leyfðar verðhækkanir fram undan verður verðlagshækkun frá upphafi til loka árs naumast undir 40%. Þannig ber ekki saman því, sem sagt er í upphafi skýrslunnar og svo í henni miðri. Kannske eru hér ekki sömu pennarnir sem skrifa, kannske er hér um að ræða mismunandi sjónarmið tveggja stofnana. En ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, að verðlagsþróunin á þessu ári frá upphafi árs til loka verður nær 50% en 30%. Það held ég að liggi alveg ljóst fyrir í dag. En fjárlögin gerðu ráð fyrir að verðlagsbreytingar frá upphafi árs til loka næmu um 30%. Og þegar við erum hér í maímánuði að ræða þjóðhagsspá vegna lánsfjáráætlunar, þá byggir þjóðhagsspáin á því sama og gert var á s. 1 ári í okt., nóv. og des., enda þótt mönnum sé ljóst að verðbólgan verður miklu meiri en þar var gert ráð fyrir.

Í sambandi við þessa skýrslu og forsendur hennar er engin grein gerð fyrir gengismálum. Hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. væru kannske reiðubúnir til þess að upplýsa þingheim um það, hverjar væru forsendur gengismála á árinu 1980 fyrir þeirri lánsfjáráætlun sem verið er að fjalla um á Alþingi. Hvað er gert ráð fyrir mikilli hækkun á meðalgengi frá árinu 1979 til meðalgengis 1980? Einhver útreikningur hlýtur að hafa verið gerður í þeim efnum. Það hlýtur að vera ákveðin forsenda í sambandi við gengismálin.

Ég vil bæta við spurningu varðandi vaxtamálin. Hvaða vaxtastefnu hyggst ríkisstj. hafa? Hún framfylgdi ekki lögunum um efnahagsmál 1. mars á þeim forsendum að niðurtalningin ætti að koma fram. Nú er það upplýst af formanni Framsfl., ekki af stjórnarandstöðunni, að niðurtalningarleiðin hefur ekki tekist fyrir 1. júní. Hvað hyggjast menn þá gera í sambandi við vaxtamálin? Ég vildi gjarnan að þessir tveir hæstv. ráðh. upplýstu Alþ. um það, hverjar væru forsendur í þessum efnum.

Þá vil ég gjarnan spyrja: Hverjar eru launaforsendur, þ. e. grunnlaunaforsendur lánsfjáráætlunar? Liggur ljóst fyrir að þær séu hinar sömu og fjárlaga? Það er aðeins til undirstrikunar, því að annað kemur ekki fram en að launaforsendurnar séu þær hinar sömu og í fjárl. Ég held að þessi atriði þurfi að upplýsa fyrir Alþingi.

Hver er svo spáin um viðskiptajöfnuðinn í lánsfjáráætluninni? Það liggur ljóst fyrir, að það er þegar farið að síga á ógæfuhliðina í þeim efnum. Viðskiptajöfnuðurinn reyndist neikvæður á árinu 1979 um 7 milljarða eða 0.9% af þjóðarframleiðslu og það er gert ráð fyrir að hallinn aukist á árinu 1980 og verði 60 milljarðar eða 1.3% af þjóðarframleiðslu. Jafnframt er bent á það hér í skýrslunni á bls. 4–5, að svo geti farið að hallinn ágerist síðar á árinu og kynni þá að reynast nauðsynlegt að draga úr framkvæmdum.

Þegar kemur fram á árið kann að reynast nauðsynlegt að draga úr framkvæmdum. Ég hélt nú að aðalframkvæmdatíminn hjá okkur hér á Íslandi væri sumarið, þannig að þær framkvæmdir, sem við hygðumst fara í, væru þegar hafnar, og ég þekki það a. m. k. af reynslu minni í fjmrn., hversu erfitt er að ætla sér að stöðva framkvæmdir sem þegar eru hafnar, einfaldlega vegna þess að um þær hafa verið gerðir samningar sem ríkið verður að sjálfsögðu að standa við. Þær framkvæmdir, sem geta gengið fram eftir hausti og fram að áramótum, og þær framkvæmdir, sem menn vilja reyna að ljúka sem mest yfir sumartímann, eru þá auðvitað búnar.

Ég get ekki séð annað en þessi lánsfjáráætlun sé öll með þeim hætti, að hún sé nú þegar orðin skjal sem ekki er marktækt. Hún byggir á röngum forsendum. Ég held að það hefði verið skynsamlegra að finna einhverja skýringu á lögunum um efnahagsmál eða þingsköpum til þess að gera mönnum grein fyrir því, að það hefði ekki verið nokkur möguleiki á því að spá fram í tímann núna og þess vegna hafi ríkisstj. þótt réttara að birta ekki lánsfjáráætlunina fyrr en í haust. Skjal eins og þetta er marklaust og það sem verra er: það stefnir í mun meiri vanda en við erum þó að glíma við í dag og er hann þó ærinn.

Ríkisstj. hyggst ekki draga saman. Það eru gerðar kröfur til þess að einstaklingarnir og félagasamtök þeirra dragi saman þegar þjóðfélagið þarf á því að halda. En það er engin ástæða til þess að hið opinbera dragi saman, það er ekki einu sinni ástæða til þess að hafa framkvæmdirnar í sama magni á árinu 1980 og 1979. Á því ári, sem við erum með mesta verðbólgu, er talin ástæða til þess að auka framkvæmdir hins opinbera.

Mér er ljóst að hér eru mörg verkefni sem bíða framkvæmdar. En einmitt vegna þess að við erum að afgreiða fjárlög á öðrum tíma en lánsfjáráætlun hafa menn ekki heildardæmið fyrir sér og geta valið og hafnað innan ákveðins ramma sem ríkisstj. telur að hún þurfi að setja sér til þess að ná fram þeim markmiðum sem a. m. k. voru prentuð í stjórnarsáttmálanum þegar ríkisstj. var mynduð. Við sáum þetta í fyrra. Við sáum meira að segja þá, að í lánsfjáráætlun voru — ég man ekki hvort það var í milljörðum — framkvæmdir sem fjvn. hafði hafnað. En ráðh. ákváðu að úr því að Alþ. hafnaði því, úr því að alþm. höfðu ekki vit á því að halda þessum framkvæmdum áfram eða koma þeim fram, þá skyldu þeir gera það með lánsfé. Ramminn var þá settur 25%, en hann var auðvitað sprengdur þegar til kom og lánsfjárlögin voru afgreidd og það urðu nærri tveir tugir milljarða sem lánsfjáráætlunin 1979 fór úrskeiðis fyrir. Nákvæmlega sömu vinnubrögðin eru endurtekin á þessu ári og svo er bætt við. Það er gert ráð fyrir að heildarfjárfestingin nemi 26.5% af þjóðarframleiðslu. Jú, það var talað um það í sáttmálanum, að hún skyldi verða um fjórðungur. Það getur auðvitað verið upp og niður um nokkuð mörg prósent þegar talað er um fjórðung, en ríkisstj. tókst ekki að koma sér betur saman en það, að fjórðungur, sem var þó viðmiðunarstærðin, þ. e. 25%, fer hér upp í 26.5% og er að magni til aukning upp á 21.3%. Það er ekki, eins og ég sagði áðan, aðeins sama magn og var í fyrra, mesta verðbólguárið sem við höfum lifað, heldur eykur ríkisstj. enn á opinberar framkvæmdir.

Með hvaða hætti á svo að fjármagna opinberu framkvæmdirnar? Jú, það er aukin erlend lántaka. Samt sem áður segir í stjórnarsáttmálanum að dregið skuli úr og greiðslubyrðin skuli ekki fara fram úr 15%. En það hafði verið misskilningur á milli hagfræðinganna og ríkisstj., sagði hæstv. fjmrh. Hvort greiðslubyrðin var að verða 16, 17 eða 18% þegar ríkisstj. ræddi við hagfræðingana eða fulltrúa þingflokkanna þegar ríkisstj. var mynduð, það skiptir engu máli. Það er mat manna hvað greiðslubyrðin getur og má vera mikil. Og sú prósenta, sem hér var sett, hefur sjálfsagt verið það mat sem menn höfðu þá. Þó að allar tölur séu löngu orðnar úreltar, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, og allir hér inni eru sammála honum um það, — tölur frá því fyrir áramót, — þá er hlutfall af útflutningsframleiðslu í greiðslubyrði vegna erlendra lána dálítið annað en beinar tölur. Hlutfallið úreldist að vísu ef um verður að ræða mikla þjóðarframleiðsluaukningu, en hún sýnist ekki ætla að verða samkv. þeirri skýrslu sem hér er um að ræða. Hæstv. fjmrh. upplýsti að þeir hefðu verið með hugmyndir um erlenda lántöku eitthvað á annað hundrað milljarða, en fundu síðan patentregluna til þess að skera niður og færa á milli, eins og ég sagði áðan — hreinn bókhaldsleikur sem þar er um að ræða — til þess að ná meira fjármagni í þetta allt saman og auka ekki á erlendu skuldirnar meira en hér er þó lagt til. Frekar en að draga úr er áformað að þrengja á innlenda markaðinum, lánsfjármarkaðinum. það er ætlast til þess, að bankakerfið láti meira fjármagn í opinberar framkvæmdir á árinu 1980, og það á beinlínis að lögfesta hækkanir á skyldukaupum lífeyrissjóðanna úr 20% í 40%.

Eins og málið er hugsað varðandi bankakerfið, með bindiskyldu bankanna, með kaupum á verðbréfum ríkissjóðs, byggt á 95 milljarða kr. sparifjáraukningu 1980, þá liggur ljóst fyrir að bankarnir munu hafa, þegar kemur fram á árið, miklu minna fé til að lána atvinnuvegunum heldur en þeir þurfa með tilliti til þeirrar verðbólgu sem er í landinu. Það er gert ráð fyrir útlánum bankakerfisins upp á 83 milljarða að frádreginni endursölu til Seðlabanka, 68 milljarða. Útlán bankanna eru í dag þegar orðin 40 milljarðar. Og það er ljóst að þeir hafa ekki fjármagn til að lána atvinnuvegunum það sem þeir þurfa til þeirrar starfrækslu sem okkur er nauðsynleg til að koma þó fram þeirri þjóðarframleiðslu sem við getum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessari lánsfjáráætlun og það staðfest í frv. til lánsfjárlaga, að lífeyrissjóðirnir skuli skuldbundnir til að kaupa fyrir a. m. k. 40% af ráðstöfunarfé sínu bréf af ríkissjóði. Allt frá 1970 hafa lífeyrissjóðirnir með samkomulagi keypt bréf af ríkissjóði, Framkvæmdasjóði eða Byggingarsjóði, og í lögum nr. 82/1977 var lífeyrissjóðunum gert skylt að ráðstafa 40% af ráðstöfunarfé sínu þannig að um væri að ræða verðtryggð lán. Um þetta mál urðu töluverðar umr. á Alþ. og sýndist þá sitt hverjum. Það lá ljóst fyrir, að sú krafa varð háværari að eftirlaun úr lífeyrissjóðum yrðu verðtryggð og með einum eða öðrum hætti varð að tryggja það að lífeyrissjóðirnir hefðu sín útlán verðtryggð, og í þessum lögum var fyrst og fremst verið að tryggja það, en vitaskuld var það ríkissjóður eða stofnanir hans með einum eða öðrum hætti sem höfðu slík bréf á boðstólum. Um þetta ákvæði laganna frá 1977 urðu töluverðar umr. hér. M. a. tók þátt í þeim umr. flokksbróðir hæstv. fjmrh., formaður Dagsbrúnar Eðvarð Sigurðsson. Hann sagði þá m. a., með leyfi forseta:

„Af því, sem ég nú hef sagt, lýsi ég fyllstu andstöðu í fyrsta lagi við að það skuli vera fyrirhugað að lögbinda meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna, en með því er ríkisstj. að sölsa undir sig yfirráð yfir stórum hluta þess fjármagns sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða. Þetta er grundvallarafstaða. Ég álít að Alþ. eigi alls ekki að setja löggjöf varðandi lífeyrissjóðina á þennan hátt.“

Hvað skyldi þessi hv. þm. segja í dag, ef hann sæti á Alþ., undir því að flokksbróðir hans, hæstv. fjmrh., leggur fram frv. — ekki um ráðstöfun, ekki um með hvaða hætti lífeyrissjóðirnir skuli ráðstafa fjármagninu, heldur af hverjum þeir skuli kaupa, um skyldu. Ég held að það ákvæði, sem var í lögum nr. 82/1977, eigi að gilda í þessum efnum. Þessu breytti fyrrv. ríkisstj., fór þá í 20%, og nú er það hækkað um 100, upp í 40%.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé þessu sammála. Hann stóð að löggjöfinni frá 1977 með öðrum þeim ráðh. sem þá sátu í ríkisstj. Hann hefur skipt um skoðun ef hann samþykkir þessa tillögu.

Ég vil lýsa því yfir, að við sjálfstæðismenn munum flytja brtt. við þessa grein, brtt. sem verður samhljóða þeirri grein sem var í lögum nr. 82 frá 1977. Við viljum fá að láta reyna á það, hverjir hafa skipt um skoðun í þessum málum.

Það liggur ljóst fyrir, að þessi ákvæði verða að sjálfsögðu til þess að minnka getu lífeyrissjóðanna til að lána húsbyggjendum. Þetta á eftir að koma niður þar. Ég trúi því, að þessi brtt., sem við munum flytja, nái fram að ganga, því að hér er um að ræða eign þeirra manna sem til lífeyrissjóðanna hafa greitt, og það er þeirra að ráðstafa þessu. Það liggur ljóst fyrir, að hingað til hafa þeir a. m. k. gert samkomulag við ríkissjóð, við þær stofnanir sem eru á vegum ríkisstj., til þess að tryggja þarflegar framkvæmdir í landinu hvort heldur um er að ræða á vegum Byggingarsjóðs ríkisins eða á vegum Framkvæmdasjóðs ríkisins.

Her-.a forseti. Ég vil að lokum segja þetta: Lánsfjár- og framkvæmdaáætlunin, sem hér er til umr., byggir á þjóðhagsspá sem gerð er á verðlagsforsendum fjárlaga. Það er hins vegar ljóst og kemur fram í grg. Þjóðhagsstofnunar til fjvn., að verðhækkanir frá upphafi árs til loka verða nær 50%, en ekki 30% eins og fjárlög gera ráð fyrir. Þjóðarframleiðsluspáin fyrir 1980 er reist á mjög ótraustum grunni, svo að ekki sé meira sagt. Efnahagsstaða okkar í dag er með þeim hætti, að ríkisstj. hefði þurft að semja og leggja fyrir Alþ. lánsfjár- og framkvæmdaáætlun þar sem aðhalds væri gætt. Þvert á móti hyggst ríkisstj. auka opinberar framkvæmdir, ekki aðeins í krónutölu, heldur að magni um 21.3%. Til þess að fjármagna þessa spennu eru erlendar lántökur auknar, þannig að greiðslubyrðin 1980 fer í 16–17% af útflutningsverðmæti, þrengt er mjög að lánamöguleikum atvinnuveganna hjá bönkum landsins og möguleikar einstaklinga til húsbyggingarlána hjá lífeyrissjóðunum eru stórlega skertir.

Ríkisstj., sem nú hefur setið í um þrjá mánuði, hefur gersamlega gefist upp við að stjórna landinu. Hún hefur ekki mátt vera að því að gera til Alþingis tillögur til lausnar aðsteðjandi vanda, heldur horfir á viðskiptajöfnuð verða óhagstæðari, lánsfjárstöðu bankanna versna stórlega og stuðlar að aukinni þenslu í þjóðfélaginu. Allt veldur þetta áframhaldandi óðaverðbólgu, er teflir atvinnuvegunum í stórhættu og rýrir lífskjör fólksins í landinu.