06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir utan þau athyglisverðu tíðindi, sem gerðust aðfaranótt 1. maí, að leiðir skildu milli Alþb. og láglaunahreyfingarinnar í landinu með eftirminnilegum hætti með fjarveru Guðmundar J. Guðmundssonar og neitun hans á því að taka þátt í að afgreiða það skattstigafrv. sem þá fór í gegn á atkv. sjálfstæðismanna, hefur helst verið merkileg í stjórnmálasögu síðustu vikna sú stökkbreyting sem skyndilega hefur orðið á afstöðu Alþb. og forustumanna þess. Um langan aldur hefur Alþb. haft talsverða sérstöðu í pólitík, sem hefur greint það frá öðrum flokkum og gert það að verkum, að oft hefur verið erfitt að ræða með skynsamlegum hætti við Alþb.-menn um efnahagsmál. Þeir Alþb.-menn kölluðu sérstöðu sína ýmsum fínum nöfnum, sem voru til þess fallin að gabba einfaldar sálir, en í stórum dráttum var þessi sérstaða Alþb. fólgin í því að viðurkenna ekki ýmis mjög einföld lögmál í efnahagslífi, eins og við þekkjum hér á Vesturlöndum. Það má segja að þessi sérstaða Alþb. hafi verið fólgin í því að viðurkenna ekki ýmis undirstöðuatriði sem þeir mundu kalla borgaralega vestræna hagfræði. Þeir vildu ekki viðurkenna jafneinfaldar staðreyndir í efnahagslífi og þær í hinu daglega lífi, að dagur kemur á eftir nótt, og við slíka menn var tilgangslítið að ræða. Það var eins og að ræða um stærðfræði við mann sem neitar að viðurkenna tilvist margföldunartöflunnar.

En nú hafa orðið snögg umskipti, svo snögg umskipti í afstöðu Alþb. að miklum tíðindum sætir, og þeir hafa, forustumenn Alþb., hin nýja stétt, pappírstigrarnir, ekkert hálfverk þar á. Þeir eru nú orðnir borgaralegastir allra þeirra borgaralegu eins og sjá má af því, að forseti borgarstjórnar Reykjavíkur með sinn gróssérasígar og sínar rosabullur mundi hvergi geta sómt sér betur en á forsíðu amerísks bisnestímarits um fiskveiðar og hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson er hin ameríska ímynd „The young executive“, eins og kallað mundi vera, og eðlilegt er að innrætið dragi nokkurn dám af útlitinu.

Hér í eina tíð var það t. d. eitt af boðorðum Alþb., að aldrei bæri að viðurkenna gengisbreytingu sem tæki til hagstjórnar. En hvað hafa þeir nú gert? Nú hafa þeir beitt þessu tæki sínu og ákveðið með öðrum ráðh. í ríkisstj. að fella gengi í einu vetfangi um 8% og gera það jafnvel án þess að bóka neina sérstöðu, eins og þeir þó voru að myndast við að gera áður og fyrri þegar þeir áttu aðild að ríkisstj. sem til slíkra úrræða greip. Það er ekki lengra síðan en í fyrra að átök mikil urðu á Alþ. og í stjórnarliðinu vegna þess að það átti að gera tilraun til þess að þáv. ríkisstj. hefði einhverja stefnu í launamálum sem væri þess eðlis að fjárlagafrv., sem hún lagði fram, yrði byggt á þess konar stefnu. Alþb. harðneitaði því, sagði að það væri siðlaust að ríkisvald hefði launamálastefnu. Og í desembermánuði í fyrra varð að rjúka til og umreikna hverja einustu tölu í fjárlagafrv. þáv. ríkisstj. til verðlags á desembergrundvelli vegna þess að í orðabók Alþb. var neitað að viðurkenna jafnaugljósa staðreynd og þá, að ef menn ætluðu sér að ná árangri í ríkisbúskap, þá yrðu menn að gefa sér einhverja launaforsendu til þess að styðjast við.

Nú er þessi afstaða ekki lengur fyrir hendi. Nú hefur fjárlagafrv. verið lagt fram með ákveðinni launamálastefnu. Og hver er sú launamálastefna? Jú, hún byggist á því, að kaup hækki á árinu 1980 um 4.5% minna en verðlag. Þetta stendur orðrétt sem aðalforsenda fjárlagafrv. Alþb.-mannsins Ragnars Arnalds. Þetta er hin nýja leið hinnar nýju stéttar.

Það var líka skoðun Alþb. og margfaldlega haldið fram, m. a. af hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, að launaákvarðanir í landinu hefðu ekkert með verðbólgumál að gera, laun og launaákvarðanir annars vegar og verðbólguþróun hins vegar væru gersamlega óskyld mál sem ekkert kæmu hvort öðru við. En hvað segir hæstv. fjmrh. nú um þessi mál? Hann segir að ef eigi að ná árangri í verðbólguslag, þá sé ekki á það hættandi að grunnkaupshækkanir verði í landinu á árinu 1980 vegna þess að það muni hafa stórkostleg áhrif til hvatningar verðbólgunni. Er þetta ekki ný lína, hæstv. forseti, sem manni kemur nokkuð á óvart að heyra frá Alþb. núna?

Einu sinni sögðu þeir Alþb.-menn, að ástæðan til þess, að ekki væri samið við launafólk, þegar kjarasamningar eru lausir og margar vikur hafa liðið án þess að nokkuð hafi hreyfst í launasamningaátt, ástæðan til þess væri bara illvilji atvinnurekenda. Nú er fyrrverandi formaður Alþb. stærsti atvinnurekandi á Íslandi, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds. Hann fer alfarið með samningsvaldið fyrir öflugasta atvinnurekenda í íslensku þjóðlífi, sjálft ríkisvaldið. Maður skyldi ætlað að hann sýndi nú viljann í verki og gerði það sem hið vonda íhald í atvinnurekendasamtökunum vill ekki gera, nú brytist hann fram, þessi baráttuglaði og tápmikli baráttumaður láglaunafólks, og hyggi á hnútinn og semdi við sína starfsmenn svo að aðrir gætu komið á eftir. En hvað segir hæstv. ráðh. núna? Hann segir: Mér er ekki óhætt einu sinni að hafa skoðun á þessum málum. Ég ætla að bíða eftir því, hvað íhaldinu í atvinnurekendasamtökunum þóknast að segja, og síðan ætla ég að bjóða mínu starfsfólki það sama og íhaldið í atvinnurekendasamtökunum býður fólkinu hans Guðmundar J. við samningaborðið. Kemur hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni þessi afstaða ekkert á óvart? Er hann ekkert hissa á þessu, hv. þm.? Ég sagði við hv. þm. áðan að hann skyldi gæta vandlega að því, hvort fært væri til Stykkishólms vegna aurbleytu, því að aldrei er að vita hvenær menn þurfa að hafa hraðar hendur þegar menn heyra röksemdafærslur eins og þær sem nú koma úr munni þeirra ágætu Alþb.-manna.

Hvað sögðu þeir í fyrra um samráðið við launþegahreyfinguna? Þeir stóðu hér í slag dögum saman til þess að ákveða með svokölluðum Ólafslögum, hvaða hátt þeir vildu hafa á þessu samráði, og sá háttur var samþykktur. En hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, kom af fjöllum, þegar honum var bent á það í vetur, að lög væru í landinu um að slíkt samráð skyldi viðhaft, því að honum hafði ekki komið til hugar að lesa þessi lög sem hann samþykkti fyrir einu ári og tæplega það, hvað þá að fara eftir þeim. Þetta er hin nýja skoðun hinnar nýju stéttar, mannanna með stórsígarinn og rosabullurnar, mannanna sem eru ímynd hinnar amerísku hugmyndar að „the young executive“ og ráða nú ferðinni í Alþb. Það er von að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þurfi af og til að bregða sér afbæjar, þegar hann er búinn að fá nóg af samverunni við þessa nýju stétt hér uppi í Hlaðbúð, og sennilegt að hann þurfi oft á næstu dögum og vikum að skreppa til Stykkishólms og jafnvel miklu, miklu lengra, jafnvel alla leið austur á Norðfjörð. Það væri kannske helst að hann fyndi þar enn þá einhverjar taugar, einkanlega í gömlum mönnum.

Þessi þróun heldur síðan áfram, þessi sinnaskipti Alþb., þessi myndbreyting þessa flokks sem einu sinni var róttækastur allra stjórnmálaflokka á Íslandi, en er nú orðinn uppvakningur og varðhundur kerfisins. Þessi sinnaskipti birtast hér í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1980, því að þetta er fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hæstv. fjmrh. þó svo að hæstv. forsrh. hafi hlaupið í skarðið fyrir hann og flutt hér framsögu fyrir þessari áætlun áðan, vegna þess að hæstv. forsrh. er farinn að finna til þess, að hann hefur ekkert verkefni í þessari ágætu ríkisstj. annað en að mynda hana. En þetta er eitt af meginviðfangsefnum hæstv. fjmrh., annað af tveimur, að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, og auðvitað hans verk og hans stefna sem hér kemur fram.

Hvaða stefnubreytingu ber þessi áætlun með sér? Á bls. 21 í áætlun hæstv. fjmrh. stendur, að ein forsendan fyrir því, að hann fái það fé frá bankakerfinu sem hann ætlar sér að fá inn í ríkissjóð til þess að fjármagna þau útgjöld sem hann hefur ráðgert, sé að vaxtakerfið myndi skipulega heild. „Að framangreindum forsendum gefnum,“ segir hæstv. fjmrh., „mundu nafnvextir vaxtaaukainnlána og útlána að líkindum haldast lítt breyttir á árinu. . . . Með lækkandi verðbólgu væri þannig stefnt að verðtryggingarmarki efnahagslaganna.“ M. ö. o. er það allt í einu orðin stefna hæstv. fjmrh. að halda nafnvöxtum óbreyttum á meðan hann ætlar að lækka verðbólguna, og hann lýsir yfir að þetta sé hvorki meira né minna en forsenda þess, að aðgerðir hans í efnahagsmálum gangi upp. Kemur þetta mönnum ekkert á á óvart, sem hafa heyrt hæstv. ráðh. og flokksbræður hans þenja sig hér fyrir ári út af hinni vitlausu raunvaxtastefnu Alþfl.? Nú er það helsta forsendan fyrir þessari lánsfjáráætlun að nafnvöxtum verði haldið óbreyttum á sama tíma og verðbólgan sé þvinguð niður, svo að náð verði verðtryggingarmarkmiði efnahagslaganna. Þetta segir hæstv. ráðh. að sé forsenda fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Kemur þá allt í einu hæstv. fjmrh. að vestan í bókstaflegum skilningi eftir að vera búinn að vera alla sína tíð hér á þingi á háaustan? Og þá er bara ein lítil spurning eftir: Hvað ætlar þá hæstv. ráðh. að gera ef verðbólgan næst ekki niður? Ég hefði áhuga á að fá að vita það ef hann væri hér viðstaddur. Ef hæstv. fjmrh. ætlar að halda sig við þær forsendur, sem hann boðar hér, og það tekst ekki vegna þess að hann nær ekki verðbólgunni niður, þá hlýtur hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu að láta hækka nafnvextina til þess að verðtryggingarmarkmiði efnahagslaganna verði náð. Öðruvísi gengur þessi stefna hans ekki upp. Og ef svo er, eins og hlýtur að vera ef nokkuð er að marka það sem stendur í þessari skýrslu, þá er hæstv. ráðh. kominn á þveröfuga skoðun í vaxtamálum við það sem hann var fyrir einu ári. Þá er heldur betur hægt að fara að tala við hæstv. ráðh. með tveimur hrútshornum, þegar hann er kominn í hálfhring í afstöðu sinni og öll stóryrðin, sem hann lét falla í garð vaxtastefnu Alþfl., eru fokin og farin fyrir bí á einni nóttu.

Hann segir meira, hæstv. fjmrh., í þessari skýrslu sinni. Hann segir um bindiskyldu fjár innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands: „Er nú áætlað að bilið minnki enn á þessu ári, þ. e. að endurkaup aukist um 15 milljarða kr.“ Síðan segir hæstv. ráðh.: „Frekari ráðstafanir þurfa þó til að koma ef endurheimta á svigrúm til að beita bindiskyldunni til þess að hafa áhrif á útlán bankanna.“ Hæstv. ráðh. er kominn á skoðun á Alþfl. um að beita og auka bindiskyldu hjá innlánsstofnunum og Seðlabankanum til þess að ná árangri í efnahagsmálum. Öðruvísi mér áður brá.

Ég verð nú að segja eins og er, að þegar hæstv. fjmrh. nú opnar munninn, þá er það ekki lengur Alþb.-maður sem talar út um þann munn. Nei, það eru efnahagssérfræðingarnir í Þjóðhagsstofnun og fjmrn. Hæstv. fjmrh. talar aðeins fyrir hönd þeirra. Skoðun hans er orðin þveröfug við þá skoðun sem hann hafði í fyrra. Hann er orðinn sammála Alþfl. í vaxtastefnunni og hann er orðinn sammála Alþfl. í því, að auka beri svigrúm Seðlabankans til að binda innistæður lánastofnana til þess að ná megi árangri í aðhaldsátt, til þess að ná árangri í verðbólgumálum. (GS: Það er ljótt að heyra.) Já, það er ljótt að heyra. Það er von að hv. þm. komi þetta á óvart, hv. flokksleysingja Garðari Sigurðssyni. Það er von að honum komi það á óvart. Hann er sjálfsagt ekki vanur því að heyra svona umr. hér uppi í Hlaðbúð, kannske ættu þeir að verða samferða til Stykkishólms næst, hv. þm. Garðar Sigurðsson og hv. þm. Guðmundur J. (Gripið fram í: Hann er í gáfumannafélaginu, er það ekki?) Aukafélagi, aðeins aukafélagi, að eigin sögn. Og síðan tekur nú í hnúkana, því að neðst á bls. 21 segir hæstv. ráðh. að hann ætli nú heldur betur að taka til hendi, því að hann ætli að sjá til þess, segir hann orðrétt, „að peningamagnið aukist um 35%,“ að peningamagn í umferð aukist miklu minna en gert er ráð fyrir að verðbólguþróunin verði á árinu. Þetta gæti verið tekið beint út úr munni hv. þm. Vilmundar Gylfasonar fyrir einu ári, þegar við stóðum hér uppi í ræðustól til þess að slást við þessa Alþb.-menn um að viðurkenna jafneinfalt grundvallarlögmál í efnahagslífinu og hér hefur verið sett fram. En nú eru það ekki við sem erum að tala, nú eru það ekki við sem erum að benda á slíkt auðskiljanlegt efnahagslögmál, nú er það Alþb. sjálft. (GS: Það stenst ekki þó það standi þarna á blaðsíðunni.) Nei, það stenst ekki þó að það standi á blaðsíðunni. E. t. v. hefur hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem ekki á lengur heima uppi í Hlaðbúð, — e. t. v. hefur gleymst að lesa þetta yfir honum. Það stenst ekki, segir hann svo. Þetta er forsendan fyrir lánsfjáráætluninni. Og hvað skyldu menn nú segja í sambandi við lífeyrissjóðina hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson? Hver er skoðun Alþb. á því? Kjarnagrein í frv. því sem fylgir þessari áætlun hér, frv. hæstv. fjmrh., — ætli hann sé ekki í salnum, forseti? (GS: Jú, jú.) Það fer nú lítið fyrir honum, ef hann er þar. Ég sé hann ekki, en kannske hv. þm Garðar Sigurðsson hafi hann í skúffunni hjá sér. Ég vildi þá gjarnan óska eftir því, að hv. þm. hleypti honum út, ellegar ef hann finnur hann ekki í skúffunni, að forseti geri tilraun til þess að sækja hæstv. ráðh. (GS: Þetta er óþinglegt tal, endavið hæfi. — Gripið fram í: Hann er á fundi.) Hæstv. fjmrh. á fundi. Ætli hæstv. forsrh. sé á fundi líka? (Gripið fram í.) Það er gott að sjá hann, það gleður mitt gamla hjarta að sjá hæstv. fjmrh.

Hér í eina tíð — ég held að það hafi verið árið 1969 — lagði þáv. ríkisstj. fram frv. til l. um nýsköpun á húsnæðismálakerfinu í landinu. Þessi nýsköpun miðaði að því, að stórauknar yrðu félagslegar framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsnæðis. Gert var ráð fyrir að hluti af fjármagni til þessara nýmæla kæmi frá lífeyrissjóðunum í landinu, með því að lífeyrissjóðirnir yrðu skikkaðir til að verja 25% af ráðstöfunarfé sínu til þess að kaupa verðtryggð skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins. Þá var Alþb. á allt annarri skoðun en það er í dag. Sá vel gerði maður, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hafði þá orð fyrir Alþb. og Framsfl. eins og hann gerir nú yfirleitt í mörgum málum. Þá sagði hv. þm. orðrétt um þessar aðgerðir í þingræðu 9. apríl 1970, með leyfi forseta:

„Er ekki verið að fara út á hæpna braut í þessu efni að hefja eignaupptöku einkasjóða ýmissa félaga á þennan hátt? Er ekki á sama hátt hægt að seilast í fleiri sjóði ýmissa félaga, verði farið út á þá braut á annað borð að taka umráðarétt af eigendum einkasjóða, þótt eigendur þeirra þurfi á þeim að halda til eigin nota? Hvers virði er þá í raun og veru eignarrétturinn? Er ekki búið að ganga nógu langt í því á undanförnum árum að rýra framkvæmdamátt þessara sjóða vegna þeirrar verðbólgustefnu og stjórnleysis, sem ríkt hefur í landinu síðustu árin, þótt þetta sé ekki kórónað með því að taka líka af eigendunum umráðaréttinn?“

Það er nú ekki oft sem ég vitna í Stefán Valgeirsson, það verð ég að segja. En þetta var skoðun hans fyrir 10 árum og þar talaði hann fyrir sína hönd og annarra vandamanna, fyrir hönd sína og Alþb. Ég man hins vegar eftir því, því, að ég tók sjálfur þátt í þeim umr. þegar íhaldsstjórn Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar gerði tilraun til þess að koma fram 40% lögþvingun á lífeyrissjóðina í nákvæmlega eins frv. og hæstv. fjmrh., fyrrv. formaður Alþb., leggur nú fram. Þá stóðum við saman, Alþfl.-menn og Alþb.-menn, að andæfa þeirri ráðagerð eins og flestu því sem sú íhaldsstjórn gerði og núv. íhaldsstjórn hefur tekið upp. Það er mjög athyglisvert, að hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, leggur nú út á nákvæmlega sömu braut og þáv. fjmrh. í íhaldsstjórninni árið 1977 gerði við sömu aðstæður og í dag. Hvað sögðu Alþb.-menn þá um þennan meginkjarna lánsfjárlaga hæstv. fjmrh.?

Eðvarð Sigurðsson sagði í ræðu á Alþingi 15. des. 1977, með leyfi forseta: „Af því, sem ég nú hef sagt, lýsi ég fyllstu andstöðu í fyrsta lagi við að það skuli vera fyrirhugað að lögbinda meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna, en með því er ríkisstj. að sölsa undir sig yfirráð yfir stórum hluta þess fjármagns sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða. Þetta er grundvallarafstaða. Ég vil enn fremur taka það fram,“ sagði hv. þm., „að þetta ákvæði, sem er í þessu frv. varðandi lífeyrissjóðina, er sett án samráðs við lífeyrissjóðina“ — nákvæmlega eins og núna — „það eru engir samningar við lífeyrissjóðina“, — það er ekki heldur í dag — „að baki þessu ákvæði í því frv. sem hér liggur fyrir.“

Lúðvík Jósepsson, þáv. formaður þingflokks Alþb., en núverandi starfsmaður hans, mælti 19. des. fyrir nál. sem þeir fluttu saman, hann sem fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sem fulltrúi Alþfl. í sömu n. Nál. var á þá leið, að samkv. eindregnum tilmælum lífeyrissjóðanna og verkalýðshreyfingarinnar yrði þessari atlögu hrundið, atlögu íhaldsstjórnarinnar, með því að fella þetta lykilákvæði laganna um lögþvingun á lífeyrissjóðina. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði þá, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er svo um það að ræða, að frv. gerir ráð fyrir því, að lífeyrissjóðir, sem viðurkenndir hafa verið af fjmrn., skuli skyldaðir til að verja 40% af ráðstöfunarfé sínu á næsta ári til skuldabréfakaupa með fullri verðtryggingu. Það er sérstaklega þetta ákvæði frv. sem er í 3. gr. þess,“ — nákvæmlega sömu grein og nú, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds hermir nákvæmlega eftir fjmrh. íhaldsstjórnarinnar á árinu 1977. — „Það er sérstaklega þetta ákvæði frv., sem er í 3. gr. þess, um skyldu sem lögð er á lífeyrissjóðina, sem hefur valdið ágreiningi,“ segir hv. þm. Lúðvík Jósepsson. „Ég tel því að þetta mál snúi þannig við,“ segir hv. þm. áfram, „ að það, sem eðlilegast væri að gera af hálfu stjórnvalda, væri að fara sömu leið og áður og leita eftir samningum“ — en ekki lögþvingun. „Ég tel hins vegar mjög óhyggilegt að halda þannig á málinu af hálfu ríkisstj. að byrja fyrst á því að setja lög um málið, sem ganga mjög á móti vilja lífeyrissjóðanna, og ætla síðan að ná einhverjum árangri með samkomulagi. Ég held að slík vinnubrögð séu mjög óheppileg og muni ekki skila árangri. Af því er það, sem við í minni hl., ég og hv. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, leggjum til að 3. gr. frv. verði einfaldlega felld niður.“

Nú er hv. þm. Lúðvík Jósepsson fjarri góðu gamni. En það eru fleiri sem töldu ástæðu til þess að láta frá sér fara ýmis ummæli um þessar fyrirætlanir íhaldsstjórnarinnar sem núv. íhaldsstjórn ætlar að endurtaka. Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði í ræðu í Nd. 19. des. 1977, með leyfi forseta:

„Það er allt annað að ganga til samninga á frjálsum jafnréttisgrundvelli heldur en hitt, að fá á sig þvingunarlög. Og svo mikið í sálarfræði veit ég að allir hæstv. ráðh. kunna, að mannleg viðbrögð fara að sjálfsögðu eftir því, hvernig fram er komið við menn.“

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson ætlaðist til þess að ráðh. íhaldsstjórnarinnar skildu þessi sannindi, þeir kynnu það mikið í sálarfræði að þeir vissu að mannleg viðbrögð færu eftir því, hvernig fram er komið við menn. En flokksbróðir hans, þáv. formaður þingflokks hans, fyrrv. formaður flokks hans, núv. fjmrh. hans, kann ekki svona mikið í sálarfræði, vegna þess að hann leggur það nú til í umboði flokks síns sem flokkur hans krafðist að fellt yrði fyrir tveimur árum.

Það voru fleiri, sem höfðu sitthvað um þetta að segja. Ég vitna aftur í hv, þm. Lúðvík Jósepsson. Hann sagði um íhaldsstjórnina út af þessu máli í þingræðu 19. des.:

„Það er ekki ein báran stök hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Það virðist vera, að hún velji í öllum greinum þá leiðina sem er vitlausust.“ Þetta sagði hv. þm. Lúðvík Jósepsson um ríkisstj. íhaldsflokkanna árið 1977, þegar hún lagði það til sem fjmrh. og ráðh. Alþb. leggja nú til í umboði síns flokks. Þá sagði formaður þingflokks Alþb.: „Það er ekki ein báran stök hjá hæstv. ríkisstj. Það virðist vera, að hún velji í öllum greinum þá leiðina sem er vitlausust.“

Hv. þm., núv. hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, hafði líka skoðun á þessum málum þá. Hann var frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. Alþingis og lagði þar til ásamt fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn. að þetta ákvæði um 40% lögþvingun á lífeyrissjóðina yrði fellt. Hv. þm. hafði sjálfur framsögu fyrir þessu nál., hvorki meira né minna. Hvað sagði hv. þm. Ragnar Arnalds þá um þá aðgerð sem hann nú ber fram í nafni flokks síns? Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt. Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá nokkuð af launakröfum sínum, fórna nokkru til þess að þetta spor yrði stigið . . . . . En hitt er jafnljóst, að verkalýðshreyfingin lætur sig miklu skipta hvað verður um þetta fjármagn og það er ekki eðlilegt að þetta fjármagn sé af henni tekið nema að undangengnum frjálsum samningum við þá sem raunverulega eiga þetta fjármagn og hafa ráðstöfunarrétt á því lögum samkvæmt. Lágmark væri að þeir samningar gengju út á það, til hvaða þarfa þetta fjármagn verði notað.“

Þetta sagði hv. þm. Ragnar Arnalds, núv. hæstv. ráðh., á Alþingi 20. des. árið 1977, þegar hann hafði forustu um það í nafni síns flokks að heimta að felld yrði sú lögþvingun sem hann nú í nafni síns flokks krefst að Alþ. samþykki á lífeyrissjóðina umræðu- og samningalaust.

Þetta er sú stórkostlega myndbreyting sem orðið hefur á Alþb. Hvert dæmið á fætur öðru. Þetta er skoðun og stefna hinnar nýju stéttar, hinna ungu framkvæmdamanna, pappirstígranna, hlaupastrákanna úr Framsfl., gáfumannafélagsins, sem hrakið hefur hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson á vergang til Stykkishólms og haft þau áhrif á hv. þm. Garðar Sigurðsson, að hann kannast ekki einu sinni við orð flokksbræðra sinna sem prentuð eru í þinggögnum Alþingis. Ég tel það út af fyrir sig að verja vel peningum að gera Alþb. mælandi máli varðandi það sem Alþb.-menn mundu kalla borgaralega vestræna hagspeki með því að borga þremur alþm. ráðherralaun. Hins vegar datt mér aldrei í hug að þeir mundu kokgleypa svo þessa svokölluðu borgaralegu vestrænu hagfræði að þeir væru eiginlega þeir málsvarar þeirra kenninga efnahagssérfræðinganna í fjmrn. og Þjóðhagsstofnun sem lengst gengju á Íslandi í dag í því að berjast fyrir kenningum þeirra um hvaða úrræðum eigi að beita til þess að ná árangri í stjórn peningamála, í sambandi við úrræði í vaxtamálum, í sambandi við framkomuna gagnvart verkalýðshreyfingunni og í sambandi við afskipti ríkisstj. og löggjafarvaldsins af lífeyrissjóðum hinna frjálsu verkalýðsfélaga í þessu landi. En það koma nýir siðir með nýjum herrum.

Herra forseti. Í því ágæta plaggi, sem við höfum hér á borðunum fyrir framan okkur og kallað er stjórnarsáttmáli ríkisstj. Gunnars Thoroddsens og minnir mann helst á boðorðin — ekki vegna þess hvað ákvæði sáttmálans séu merkileg, heldur vegna þess hve oft þau eru brotin — stendur ýmislegt mjög skýrum stöfum um tilgang ríkisstj , hvað hún ætli að gera við sitt fyrsta tækifæri í fjárlagagerð, í lánsfjáráætlunargerð o. s. frv. Þar stendur m. a. orðrétt á bls. 6 að „heildarfjárfestingu á árunum 1980 og 1981 verði haldið innan þeirra marka, sem ákvarðast af eftirspurn, viðskiptajöfnuði og atvinnuöryggi, og nemi fjárfestingin um fjórðungi af þjóðarframleiðslu.“ Þetta var upphaflega stefnan. Hvað er fjárfesting, sem nemur fjórðungi af þjóðarframleiðslu, 25% af vergri þjóðarframleiðslu? Það er fjárfesting sem mundi standa undir erlendum lántökum er næmu um það bil 70 milljörðum kr., en það var talið hámark þess, sem óhætt væri að taka að láni erlendis frá, í bréfi sem Seðlabanki Íslands sendi frá sér um s. l. áramót. Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar lagt fram plagg, lánsfjáráætlun sína, sem gerir ráð fyrir að fjárfestingin, sem hún boðaði í málefnasáttmálanum að ætti að vera um 25%, verði 26.5%. 1.5% í sláturtíðinni, manni finnst það ekki muna miklu. En hvað er þetta 1.5% í peningum? Það er um það bil 16 milljarðar kr. M. ö. o.: þarna fer hæstv. ríkisstj. í fjárfestingu um það bil 16 milljörðum kr. fram úr því marki, sem hún sjálft setti sér í málefnasamningi sínum, og það er keppur í sláturtíð sem um munar, hæstv. forsrh., vegna þess að sá keppur er kostaður með erlendu lánsfé, verðtryggðu erlendu lánsfé, sem ég veit að hæstv. forsrh. þarf ekki að svara spurningum um hvernig eigi að borga. Það mun koma á þá sem sitja hér á Alþingi Íslendinga eftir næstu kosningar.

Í málefnasamningnum er einnig talað um að erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þetta var sú tala, sem Framsfl. hamraði sýknt og heilagt á í haust í stjórnarmyndunarviðræðunum og var nokkurs konar heilög tala í hans augum. Hver er niðurstaðan? Hvað eru erlendu lántökurnar miklar, hvað þýða þær mikla greiðslubyrði á árinu 1980? 15% og ekki meir, sagði Framsókn í haust. Á bls. 5 í lánsfjáráætluninni segir orðrétt, að á árinu í ár verði greiðslubyrðin rúm 16%. Á bls 22 í lánsfjáráætluninni segir að greiðslubyrðin á árinu 1980 verði 16–17%. Hún er hærri á bls. 22 í áætluninni en á bls. 5. Hún hefur hækkað frá bls. 5 úr 16% til bls 22 í 16–17%, og það er ekki annað en fyrirboði um hvað koma skal, því að á næsta ári, ef hæstv. ríkisstj. sendir þá frá sér sína hvítu bók, mun greiðslubyrðin að öllu óbreyttu verða um 18% og hefur aldrei meiri verið í sögu lýðveldisins.

Árið 1968, þegar íslenska þjóðin varð af 40% af gjaldeyristekjum sínum vegna verðhruns á útflutningsafurðum Íslendinga á erlendum mörkuðum og aflabrests við sjávarsíðuna, á einni nóttu missti íslenska þjóðin 40% af gjaldeyristekjum sínum svo að segja, þá var greiðslubyrðin af erlendum skuldum rétt um 16%. Núna, í einhverju blómlegasta árferði sem um getur, þegar að eigin sögn ríkisstj. er stefnt í þá átt að auka þorskafla á árinu upp í 380–400 þús. lestir, þá er greiðslubyrði af erlendum skuldum samkv. bls 22 í lánsfjáráætluninni 16–17%, meiri en hún var á mestu erfiðleikatímabilum í sögu íslenska lýðveldisins. Og hvernig halda menn þá að muni fara ef eitthvað bjátar á, annað hvort í verðlagi á útflutningsafurðum okkar eða í aflabrögðum? Hvar halda menn þá að það muni enda? Þeir hafa áhyggjur af því, sem hafa áhyggjur af framtíðinni, hæstv. forsrh. Þeir hafa minni áhyggjur af því sem hugsa aðallega um fortíðina.

Hvað segir síðan í þessari ágætu bók? Það mætti halda að sumir kaflar þessarar bókar hefðu verið skrifaðir vestur í Reykholti, þeir eru slíkur samsetningur. Ég hef ekki séð annað eins, eins og ég skal vitna í nú á eftir á nokkrum stöðum. Það er eins og þeir, sem þetta skrifuðu, hafi annaðhvort verið að gera grín að sjálfum sér eða lesendunum. Annaðhvort eru þeir menn, sem þessa bók hafa skrifað, heimskir eða þeir ætla að þeir, sem lesa bókina, hljóti að vera heimskir. Á bls. 5. segir, með leyfi forseta, í þessari ágætu skýrslu:

„Útflutningshorfur á komandi árum virðast fremur vænlegar ef vel tekst til um hagnýtingu fiskstofna.“ Það er allt í lagi að taka áhættu um að greiðslubyrði í ár verði 16–17% og á næsta ári 18%, vegna þess að útflutningshorfur virðast fremur vænlegar á næstu árum ef vel tekst til um hagnýtingu fiskstofna. En hvað segir hér nokkrum setningum neðar? Jú, þar er sagt að í ár verði þorskaflinn 380–400 þús. tonn, þó að fiskifræðingar hafi lýst því yfir, að ef hann verður svo mikill muni stórlega draga úr þorskafla á næstu árum. Þannig rekst hvað á annars horn. Annaðhvort eru þeir menn, sem þessar tvær setningar skrifa, hreinlega heimskir eða þeir halda að þeir sem þetta lesa, séu svo heimskir, að þeir muni ekki hvað á miðri síðunni stendur þegar þeir eru komnir niður síðuna. Lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir að farið verði langt fram yfir það mark í ár, sem fiskifræðingar telja óhætt til þess að standa undir fjárfestingaræði ríkisstj., vitandi að þar með taka þeir þá áhættu að þorskafli landsmanna muni stórkostlega minnka á næstu árum. Og svo segja þeir í sömu setningunni svo til að engin ástæða sé til að óttast neitt, þetta geti allt verið í stakasta lagi ef rétt verði á haldið. Og nákvæmlega sama segja þeir í áframhaldinu: „Ástæða er því til að ætla að greiðslubyrði fari ekki hækkandi úr hófi fram á næstu árum, ef rétt er á haldið.“ Er nú hæstv. ríkisstj. að gera grín að sjálfri sér? Eða er hún að gera grín að okkur sem lesum þetta „pródúkt“?

Í stjórnarsáttmálanum segir að eitt af meginatriðum í efnahagsstefnu ríkisstj. sé að spyrna gegn ofþenslu. Nú þenur hún svo út framkvæmdir í landinu með þessari lánsfjár- og framkvæmdaáætlun sinni að framkvæmdastig hefur aldrei verið hærra í sögu landsins nema eitt ár, árið 1973, þegar við vorum í mikilli uppsveiflu, — aldrei verið hærra. Þetta gerir hún á sama tíma og mikil þensla er á vinnumarkaðinum. Hvaða áhættu halda menn að hæstv. ríkisstj. sé að taka með slíkri stefnu? Hvaða áhrif halda menn að það muni hafa á þensluástand í íslenskum efnahagsmálum að ákveða nú á þessari stundu að framkvæmdastig á Íslandi skuli vera með því hæsta sem nokkurn tíma hefur orðið og kostað með erlendu lánsfé?

Þá lýsti hæstv. forsrh. því í mörgum og fögrum orðum, að það væri meginstefna ríkisstj. að tryggja hallalaus viðskipti við útlönd. Í þessari bók er því spáð, að viðskiptahallinn við útlönd verði a..m. k. 16 milljarðar kr. Menn skyldu halda að ríkisstj. væri það ljóst, að sérstök ástæða væri til að fara varlega í sambandi við erlendar lántökur í slíku árferði. En það er ekki aldeilis gert, heldur stendur hér: „Ríkisstj. mun vinna að því með öllum tiltækum ráðum að viðskiptahallinn fari minnkandi á næstu misserum.“ M. ö. o.; ríkisstj. lýsir því yfir, að hún ætli sér ekki að takast á við þetta vandamál að þessu sinni, ekki í ár. En hún sé alveg staðráðin í því, hæstv. ríkisstj., að takast mjög alvarlega á við vandann, kannske á næsta ári, alla vega á næstu misserum, en í ár, nei, það sé of fljótt. Þetta er eins og niðurtalningin hjá Framsfl. Það er alls ekki hægt að byrja á henni á þessu þriggja mánaða tímabili. Nei, það er ekki hægt. En þeir eru að hugsa um að gera það á næsta þriggja mánaða tímabili og enn frekar þriðja og síðasta þriggja mánaða tímabili ársins. Þetta er eins og félagsmálapakkarnir sem hæstv. forsrh. fékk verkalýðshreyfingunni. Þegar hann var spurður að því í sjónvarpi rétt eftir að hann var kominn til valda hvernig hann ætlaði að kosta það, þá sagði hann: Ja, það er nú ekki endilega víst að það þurfi að standa við loforðið á þessu ári. En kannske næsta ári eða allténd fyrir lok kjörtímabilsins. (Gripið fram í.) Það er nú varla hægt að ráðast í umtalsverðar framkvæmdir, hv. þm., án þess að borga fyrir þær. A. m. k. væri mér sem ég sæi Verkamannafélagið Dagsbrún og Verkamannasamband Íslands taka við félagsmálapökkum sem ekki ættu að kosta neitt. Slíkir félagsmálapakkar hafa að mínu viti ekki verið fundnir upp enn þá. En það má vera að hæstv. fjmrh., flokksbróðir Guðmundur J. Guðmundssonar, hv. þm., finni slíkan pakka upp og ætti þá hv. þm. ekki að þurfa að fara miklu oftar til Stykkishólms. En svona er þetta í einu og öllu. Í þessari lánsfjáráætlun stendur að gjaldeyrislántökuþörf til þess að viðhalda gjaldeyrisstöðu óbreyttri sé 72.3 milljarðar kr. Miðað við að reisa sér ekki hurðarás um öxl og miðað við 15% greiðslubyrðina, sem Framsfl. boðaði í haust, hefði ekki mátt fara í erlendum lántökum fram úr 70 milljörðum kr. Miðað við þann viðskiptahalla, sem boðaður er í þessari lánsfjáráætlun, hefði ekki mátt fara fram úr 70 milljörðum kr. í erlendum lántökum, ef nokkurt vit ætti að vera í stefnunni. Samt sem áður er það gert. Það er farið 15 milljörðum fram yfir. Ég spyr: Hver er ástæðan?

Og svo kemur hér stórkostleg setning á bls. 27, sem er einhver merkilegasta útlistun, sem ég hef séð í nokkru þskj. á því, hvernig hægt er að koma saman þeirri stefnu, sem hæstv. forsrh. boðaði fyrir kosningar, og því plaggi sem hann leggur fram hér eftir kosningar. Eins og menn muna eftir, þá er það og hefur verið þangað til nú loforð hæstv. forsrh. og flokks hans, Sjálfstfl., að það ætti að draga úr opinberum umsvifum, draga úr notkun hins opinbera á því fé sem til ráðstöfunar er í landinu, til þess að framtak einstaklinganna, eins og þeir kalla það geti notið sín. Þetta hefur verið helsta boðorð Sjálfstfl. og hæstv. forsrh.

Nú er náttúrlega farið alveg öfugt að. Ef við flettum upp á bls. 29 kemur í ljós, að á sama tíma og atvinnuvegirnir eiga að fjármagna framkvæmdir sínar með eigin fé upp á 54% af framkvæmdakostnaði ætlar ríkið að fjármagna framkvæmdir sínar með 60% lánsfé. Til þess að þetta sé hægt verður ríkisvaldið, samkv. töflu sem fram kemur á bls. 19, að taka til sín 6 milljarða kr. frá lífeyrissjóðum í landinu — sem ríkissjóður fékk ekki eina krónu frá í fyrra, heldur runnu þeir peningar út til atvinnulífsins — og 3.9 milljarða úr bankakerfinu — sem ekki lagði ríkissjóði eina krónu til í fyrra, heldur varði sínu fé til atvinnulífsins, til framtaks einstaklinganna, hæstv. forsrh. Og á bls. 40 og 41 í þessari dæmalausu skýrslu kemur það einnig fram, að til þess að þetta sé hægt að framkvæma, til þess að ríkissjóður geti dregið sér þetta fé lífeyrissjóðanna, þá verða hinir frjálsu lífeyrissjóðir í landinu að fella niður fjármögnun til Iðnlánasjóðs, sem í fyrra var 348 millj., til Verslunarlánasjóðs, sem í fyrra var 738 millj., til Stofnlánadeildar samvinnufélaga, sem í fyrra var 940 millj., og til veðdeildar Iðnaðarbankans, sem í fyrra var 231 millj. Allt þetta fé tekur ríkissjóður núna til sín og skilar út í atvinnulífið nákvæmlega engu á móti.

Hvernig skyldi hæstv. forsrh. koma þessari pólitík heim og saman við þá stefnu sem hann hefur þóst vera að boða? Sú stórkostlega setning kemur á bls. 27. Það ætti að gera þessa setningu ódauðlega í þingtíðindum, það ætti að hafa þetta sem einkunnarorð fyrir hæstv. forsrh. og málaliða hans í þessari ríkisstj. Hvað stendur þarna? Með leyfi hæstv. forseta stendur orðrétt: „Í sambandi við aukningu opinberra framkvæmda 1980 er rétt að benda á að hún stafar að langmestu leyti af framkvæmdum á sviði orkumála, sem beinlínis eru forsenda aukinnar framleiðslu og athafna á vegum einstaklinga og samtaka þeirra. Ýmsar aðstæður hafa orðið þess valdandi, að hér á landi eru þessar framkvæmdir á vegum opinberra fyrirtækja, en í raun og veru má líta á þær margar hverjar sem hina arðvænlegustu atvinnuvegafjárfestingu.“

Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi heyrt annað eins bull og vitleysu. Hæstv. forsrh. er með þessu að rökstyðja það, að aukin opinber umsvif séu í raun og veru ekki aukin opinber umsvif, heldur til þess að leggja grundvöllinn að auknum umsvifum einstaklinganna, hins frjálsa einkaframtaks í landinu. Þeim mun meiri sem aukning opinberu umsvifanna er, þeim mun blómlegra hlýtur þá að verða fyrir einkaatvinnureksturinn. Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi séð aðra eins röksemdafærslu.

Við skulum taka eitt mjög einfalt dæmi á mæltu máli. M. ö. o.: það er forsenda fyrir blómlegum rekstri hjá Bílaleigu Akureyrar á árinu 1980 að hið opinbera stórauki arðlaus umsvif sín við Kröflu. Ef Bílaleiga Akureyrar ætlar að koma út með gott ár á árinu 1980, þá verður það ekki gert með öðrum hætti en þeim, að hið opinbera stórauki fjárfestingu sína við arðlausa Kröfluvirkjun. Þetta er röksemdafærslan hjá hæstv. forsrh. Hún er stórkostleg og makalaus og ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi í svona skýrslu séð jafnrakalausa vitleysu og þessa. Þegar hæstv. forsrh. ætlar að sanna það, að með því að draga fjármagn frá bönkunum, sem áður rann til atvinnulífsins, frá lífeyrissjóðunum, sem áður rann til atvinnulífsins, til þess að auka umsvif hins opinbera, en draga að sama skapi úr umsvifum einkaframtaksins, þá sé það ekki gert til þess að auka opinber umsvif, síður en svo. Það er verið að gera þetta til þess að auka umsvif hins frjálsa framtaks í landinu. Það er hvorki meira né minna en meiri háttar pólitísk uppgötvun, sem hlýtur að sæta stórtíðindum, og ætti hæstv. forsrh. með þessari setningu sinni að komast í sögu vísinda á Íslandi, ekki síst þar sem æðsti maður allra vísindarannsókna í landinu er hvorki meira né minna en fyrrv. varaformaður Kröflunefndar, hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason. Það fer ekki illa á því, að á sama tíma sem varaformaður Kröflunefndar er orðinn æðsti yfirmaður allra vísindarannsókna á Íslandi, þá finni hæstv. forsrh., Kröflunefndarráðherrann, upp slík hagfræðivísindi sem hér er gerð grein fyrir. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að vera svo vinsamlegur að gefa okkur þessar setningar áritaðar. Þær verða sjálfsagt verðmætar þegar tímar líða fram.

Þá er einnig mjög athyglisvert að gefa því gaum, sem stendur á bls. 26. Það lýsir vinnubrögðunum við gerð þessarar skýrslu. Á bls. 26 í lánsfjáráætluninni stendur að í fiskiskipakaupum sé reiknað með 18% samdrætti. Í forsendum fyrir þessari lánsfjáráætlun og erlendri lánsfjáröflun er þannig reiknað með innflutningi þriggja togara sem ákvarðanir hafa verið teknar um, en ekki reiknað með frekari kaupum fiskiskipa á árinu. Hvaða þrír togarar eru þetta? Jú, þetta eru Portúgalstogararnir þrír. Hæstv. ríkisstj. er fyrir allnokkru búin að taka ákvörðun um að fleiri togarar komi til landsins á þessu ári. Hún bara lætur í þessari skýrslu eins og sú ákvörðun hafi alls ekki verið tekin. Það er eins og hún kannist ekki nokkurn skapaðan hlut við eigin samþykktir. Þetta sýnir tvískinnungsháttinn sem ræður ríkjum hjá þessari hæstv. ríkisstj. Það er ekki vinsælt að beita sér gegn frekar innflutningi fiskiskipa erlendis frá á sama tíma og fiskiskipaflotinn er talinn þriðjungi of stór, og hæstv. ríkisstj., sem enga viðspyrnu hefur gegn þrýstihópum, er bæði kjarklaus, viljalaus og getulaus, hún auðvitað gerir það sem vandaminnst er, hún heimilar slíkan innflutning. Slíkur innflutningur byggist á erlendum lántökum fyrir hluta af kaupverði skipanna. Það er ekki gott í lánsfjáráætluninni að gera ráð fyrir því að erlendar lántökur stóraukist vegna þessarar afstöðu ríkisstj. Hvað gerir hún þá? Þá lætur hún eins og hún hafi ekki tekið þessa ákvörðun. Þannig er hægt að starfa eftir þeirri gullvægu reglu að láta aldrei hægri höndina víta hvað sú vinstri gerir. Gagnvart útgerðarmönnum og þeim, sem hafa áhuga á því að flytja inn fiskiskip frá útlöndum, hefur ríkisstj. ákveðið sig. Jú, við ætlum að heimila frekari innflutning skuttogskipa frá útlöndum en gert hefur verið ráð fyrir. Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem er viðkvæm fyrir slíkum ráðstöfunum, segir ríkisstj.: Það er ekki reiknað með frekari innflutningi á fiskiskipum frá útlöndum. — Þannig rekur sig eitt á annars horn. Þegar hæstv. ríkisstj. talar við útgerðarmenn, þá segir hún já, já, vegna þess að þar er óvinsælt að standa gegn þrýstingi frá þeim. Þegar hún talar um erlenda lánsfjáráætlun við Alþ., þá segir hún nei, nei, vegna þess að hún vill ekki sýna í verki hvaða áhrif ákvörðun hennar um að auka innflutning á fiskiskipum hefur á erlendar lántökur. Svona blekkingavef er þyrlað upp í þessari lánsfjáráætlun. Hún byggist öll á svona blekkingavef, svona gagnsæjum blekkingavef þar sem ekkert af því, sem áætlunin er byggð á, er í samræmi við raunveruleikann, — ekki neitt. Þetta er eitt dæmið af mörgum og ég skal rekja þau hvert á fætur öðru, nákvæmlega svona augljósar gagnsæjar blekkingar, nákvæmlega svona barnaleg og forheimskuleg töfrabrögð sem hvert barn sér í gegnum.

Ég hef þegar rætt um flest atriði í sambandi við forsendurnar sem þessi lánsfjáráætlun er byggð á. Ég er búinn að benda á viðskiptahallann. Ég er búinn að benda á það, að þeir gera ráð fyrir að auka þorskveiðar úr 300 þús. lestum í 380–400 þús. lestir, en vinna það síðan bara upp með því að vera ákveðnari næst. Á bls. 6 í þessari skýrslu stendur orðrétt, sem er ein af mörgum forsendum, að gert sé ráð fyrir að innflutningsverð á olíu verði á síðari hluta ársins líkt og verð á Rotterdammarkaði um miðjan apríl s. l. Verðið, sem við borguðum fyrir innflutta olíu um miðjan apríl s. l., er fyrir löngu orðið úrelt. Við borgum miklu hærra olíuverð núna en við borguðum um miðjan apríl. En það er ekki gott fyrir lánsfjáráætlun að geta um það. Þess vegna reiknar hæstv. ríkisstj. með því í forsendum áætlunarinnar, að í árslok, eftir verðbólgu sem í umheiminum er um 10–15%, muni olíuverðið lækka frá því sem er í dag. Hún lætur eins og ekkert hafi gerst í sambandi við olíuviðskipti landsins síðan um miðjan aprílmánuð s. l., vitandi þó að olíuverðið hefur stórhækkað á þeim tíma.

Ég vildi gjarnan óska eftir því, hæstv. forseti, að fjmrh. yrði sóttur, því að ég hef ákveðið að leggja fyrir hann eina tiltekna spurningu sem ég óska eftir að fá svar við. — Ekki nægir þetta, hæstv. forseti, þó að ánægjulegt sé að sjá flokksbróður hæstv. fjmrh. Ég skal ekki ónáða hæstv. fjmrh. lengi, heldur hef ég ákveðna spurningu til hans að gera.

Meðal forsendna framkvæmda- og lánsfjáráætlunar, sem fram koma á bls. 7, er að gengið er út frá því í áætluninni, að verðlagsforsendur séu hinar sömu og lagðar voru til grundvallar fjárlagagerð, sem gengið var frá eða fram voru lagðar, eins og menn vita, fyrir allmörgum vikum, þegar ekki lá jafnljóst fyrir og nú hver raunveruleg verðlagsþróun mundi verða á árinu. Nú er vitað að verðlagsforsendur fjárlagafrv. og verðlagsforsendur fjárlaga- og lánsfjáráætlunar, sem eru hinar sömu, standast ekki. Okkur er þetta öllum ljóst, það reynir enginn að bera á móti þessu, vegna þess að þegar er auðséð að verðlagshækkun verður allmiklu meiri á árinu 1980 heldur en forsendur fjárlaga gengu út frá og heldur en forsendur fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar ganga út frá. Hæstv. fjmrh. hefur þegar viðurkennt þetta. Þetta er staðreynd sem öllum er ljós og enginn mótmælir. Það er því út í hött að gera ráð fyrir því, að verðlagsforsendur lánsfjáráætlunar séu aðrar en öllum er ljóst að þær eru í raun, nema eitt komi til, og það er út af fyrir sig virðingarverð tilraun af hálfu hæstv. fjmrh. og ríkisstj. ef það er það sem fyrir þeim vakir. Tilraunin er virðingarverð, að halda sér við þessar ákveðnu forsendur fjárlagagerðar, sem öllum er ljóst að eiga ekki við rök að styðjast lengur, ef ríkisstj. ætlar að framkvæma þá stefnu að þær fjárhæðir, sem fram koma í lánsfjáráætlun og fjárlögum, séu fastar tölur sem ekki verði breytt þó að verðlagsforsendur breytist. Sé það ætlun ríkisstj., þá er það virðingarverð tilraun og ákveðin til þess að reyna að halda í við verðlagsþróunina í landinu þó hún verði óhagstæðari en fjárlög og lánsfjáráætlun gera ráð fyrir. En það er líka erfið ákvörðun, því það kostar kjark og vilja til þess að segja nei við þrýstihópa eins og hæstv. iðnrh, á sínum tíma.

Og þá spyr ég hæstv. fjmrh.: Án tillits til þess hver raunveruleg verðbólga verður í landinu, án tillits til þess, hve miklu meiri hún verður en forsendur fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar miðast við mun hann þá geta ábyrgst það hér og er hann reiðubúinn til þess að þær tölur, sem í lánsfjáráætlun eru um framkvæmdir og annað slíkt, séu fastar krónutölur sem ekki verði breytt þó að verðbólga verði meiri en forsendurnar benda til? Ef hæstv. ráðh. svarar þessu játandi, þá er það virðingarverð tilraun af hans hálfu og hæstv. ríkisstj. til þess að reyna að beita aðhaldi, og það skal ég vera fyrstur manna til að viðurkenna. Ef svar hæstv. fjmrh. er hins vegar loðið þannig að það liggi ekki ljóst fyrir hvað hann hyggist fyrir, þá er það gersamlega út í hött að vera að miða við verðlagsforsendur sem ekki eru lengur raunhæfar. Og þá ætti það að vera sjálfsögð krafa, að lánsfjáráætlun yrði ekki afgreidd fyrr en fyrir lægi við hvaða forsendur í raun ríkisstj. ætlar að miða. Það þýðir ekki að leggja fram svona plagg, með forsendum sem ekki standast, öðruvísi en að menn séu þá staðráðnir í því að láta þær upphæðir, sem hér er rætt um, vera fasta krónutölu, en ekki hækka með aukinni verðbólgu eins og oftast hefur verið gert á umliðnum árum. Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. geti svarað þessari einföldu spurningu afdráttarlaust, en ég vek athygli á því, að ef hann svarar henni afdráttarlaust játandi, þá verður hann að svara afdráttarlaust neitandi hæstv. ráðh. og þrýstihóp, Hjörleifi Guttormssyni, eftir örfáar vikur. (Gripið fram í: Er hann þrýstihópur?) Gott ef hann er ekki tveir, a. m. k. einn.

Fleira þarf ég ekki að spyrja fjmrh. beinlínis um á þessu stigi málsins, svo að þess vegna þarf hæstv. fjmrh., ef hann er vant við látinn, ekki að dvelja hér lengur að sinni. En ég vildi ekki sleppa því tækifæri að koma þessari spurningu á framfæri við hæstv. ráðh.

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég á eftir að víkja að í þessari umr. og þá fyrst að benda á að hæstv. ráðh. hefur sjálfur sagt að framkvæmdaáform ríkisstj., sem hæstv. ríkisstj. var að vinna með áður en hún afgreiddi þær till. sínar sem í þessari áætlun felast, hefðu ígilt um 100 milljarða erlendum lántökum. Þetta er rétt. Mér reiknast til að raunverulegar erlendar lántökur, sem samkv. þessari lánsfjáráætlun eru sagðar vera 85.5 milljarðar kr., séu milli 99 og 100 milljarða kr. erlendri lántöku, — það, sem gert hefur verið af hæstv. ríkisstj. þegar frammi á borðum hæstv. ráðh. lá sú staðreynd, að framkvæmdaáform ríkisstj. gátu ekki gengið upp við þær aðstæður, sem þá voru, nema með 100 milljarða kr. erlendri lántöku, — það, sem hefur gerst, er ekki að hæstv. ríkisstj. hafi skorið niður framkvæmdaáform sín til að ná þessari tölu niður í 85.5 milljarða. Nei, hæstv. ríkisstj. hefur gripið til fjögurra tiltekinna sjónhverfinga. Eitt blekkinganetið enn, einn blekkingavefurinn enn til þess að færa raunverulega lántökuþörf úr 100 milljörðum kr. niður í 85.5 milljarða. Ég skal rekja þessi töfrabrögð. Þau koma fram í þessari skýrslu, eitt af öðru.

Í fyrsta lagi kemur það fram á töflu á bls. 19 í þessari lánsfjáráætlun, að gert er ráð fyrir að ríkissjóður sæki sér 6 milljarða kr. til lífeyrissjóðanna með skyldukvöð á hendur sjóðunum um kaup á verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs, þar sem lífeyrissjóðirnir lögðu ekkert til á s. l. ári. Þetta er fyrsta bragðið, að gera ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir, sem ekki lögðu neitt til ríkissjóðs á síðasta ári, leggi til 6 milljarða kr. á árinu 1980, og þeir 6 milljarðar kr. lækka pappírstölu erlendrar lántöku um jafnmikla upphæð. Af hverju er þetta gervilausn? Vegna þess að í þessari sömu áætlun, í annarri töflu, kemur fram að gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir fjármagni á sama tíma fjárfestingarlánasjóðina um allmiklu hærri upphæð en þeir gerðu í fyrra. Það er sem sé fyrst gengið út frá því, að lífeyrissjóðirnir auki fjárstreymi sitt til fjárfestingarlánasjóðanna svo að dæmið gangi upp hjá fjárfestingarlánasjóðunum eins og engin breyting hefði verið gerð síðan í fyrra. Síðan eru teknir 6 milljarðar til viðbótar frá lífeyrissjóðunum til þess að fjármagna ríkissjóð. Slík ráðstöfun gengur ekki upp, lífeyrissjóðirnir geta ekki á sama tíma byrjað að fjármagna ríkissjóð upp á 6 milljarða kr. og aukið jafnharðan fjármögnun lífeyrissjóðakerfisins um 3 milljarða. Annaðhvort hlýtur undan að láta. Það, sem undan lætur, er auðvitað pappírslausnin, sú lausn að lífeyrissjóðirnir verði skyldaðir til að kaupa skuldabréf af ríkissjóði fyrir þessa fjárhæð. Ég er sannfærður um að hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, neyðist til að breyta 3. gr. í lánsfjárlögunum um skyldukaup lífeyrissjóða. Þetta var fyrsta bragðið.

Annað bragðið hjá hæstv. ríkisstj. kemur fram með svipuðum samanburði. Hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir því, að á sama tíma og stórkostlega hefur dregið úr innlánum í innlánsstofnunum auki innlánsstofnanirnar fyrst fjármögnun til fjárfestingarlánasjóðakerfisins úr 2.1 milljarði, eins og innlánsstofnanir fjármögnuðu fjárfestingarlánasjóðakerfið í fyrra upp í 2.8 milljarða eða 700 millj. kr., og leggi þar að auki fram 3.9 milljarða í ríkissjóð, en lögðu ekkert til hans í fyrra.

Hæstv. ríkisstj. gengur sem sé út frá því, að það sé hægt að nota sömu krónurnar tvisvar, það sé fyrst hægt að nota peninga lífeyrissjóðanna til að auka fjármögnun fjárfestingarlánasjóðanna og síðan að taka þessar sömu krónur til að færa niður erlendar lántökur hjá ríkissjóði með því að nota þetta sama fé til að kaupa verðtryggð skuldabréf af ríkissjóði og ríkisstj. ætlar sér að nota til þess að auka fjármögnun fjárfestingarlánasjóðanna. Nákvæmlega sama aðferð er notuð gagnvart bankakerfinu. Fyrst er ákveðið að eðlileg aukning verði á fjármögnun bankakerfisins á fjárfestingarlánasjóðunum með því að 2.1 milljarðs fjármögnun frá bönkunum í fjárfestingarkerfið verði hækkuð í 2.8 og síðan kaupi bankarnir til víðbótar 3.9 milljarða kr. af verðtryggðum skírteinum frá ríkissjóði. Þetta á að gerast á sama tíma og vaxtastefna ríkisstj. hefur haft þau áhrif, að innlánsfé bankastofnana hefur stórlega rýrnað, en útlán þeirra aukast og allir bankar í landinu, e. t. v. að Alþýðubankanum einum undanskildum, mér er það ekki alveg fyllilega ljóst, allir aðrir viðskiptabankar í landinu eru nú stórskuldugir við Seðlabanka Íslands. Þetta var bragð nr. 2, sjónhverfing nr. 2.

Sjónhverfing nr. 3 kemur fram á bls. 9 í þessari lánsfjáráætlun. Þar segir á bls. 9, í kaflanum um ráðstöfun lánsfjár, að ríkisstj. hafi ákveðið að leita ekki heimildar til erlendrar lántöku á árinu 1980 í jafnríkum mæli og samþykkt framkvæmdaáform ýmissa B-hlutafyrirtækja ríkissjóðs miðast við. Hvað þýðir það? Þetta þýðir að fyrir örfáum vikum samþykktum við hér á Alþ. fjárlög þar sem m. a. var gert ráð fyrir tilteknum framkvæmdum hjá B-hlutastofnunum sem Alþ. og fjvn. höfðu fallist á og afgreitt lið fyrir lið. Nú nokkrum vikum síðar kemur hæstv. ríkisstj., bregður töfrasprota sínum á loft og segir: Til þess að færa niður erlendar lántökur á pappírnum höfum við ákveðið að framkvæma ekki það sem Alþ. var að samþykkja fyrir örfáum vikum við afgreiðslu fjárlaga að framkvæma skuli. — Á bls. 10 kemur síðan í ljós hvað þetta töfrabragð skilar stórri lausn á pappírnum. Samtals skilar það niðurfærslu á framkvæmdum B-hlutastofnana upp á 1662 millj. kr. og minnkar erlenda lántökuþörf á pappírnum um sömu upphæð. En hæstv. ráðh., hvað er á bak við þessa tölu? Alþ. hefur ákveðið tilteknar framkvæmdir. Nú segist ríkisvaldið ekki ætla að afla lánsfjár eins og ráð var fyrir gert við fjárlagaafgreiðslu til þess að framkvæma það sem Alþ. samþykkti fyrir nokkrum vikum. Í þessari töflu á bls. 10 er þannig gert ráð fyrir því, að ekki verði framkvæmt við Ríkisútvarpið nema fyrir 270 millj. af 300 millj. sem Alþ. samþykkti, ekki verði unnið að framkvæmd hjá þjóðarbókhlöðu fyrir nema 360 millj. af þeim 400 millj. sem Alþ. samþykkti, ekki verði framkvæmt hjá RARIK nema fyrir 4.2 milljarða af þeim 4.7 milljörðum sem Alþ. samþykkti o. s. frv., o. s. frv. Hvað er á bak við þetta? Hvaða framkvæmdir eru það, sem þið eruð að tala um í hæstv. ríkisstj. að ekki verði unnar, af þeim framkvæmdum sem Alþ. samþykkti að beiðni ykkar fyrir nokkrum vikum? Ef ekki kemur svar við því, þá er auðvitað augljóst að þetta er ekki annað en þriðja gervilausnin til þess að færa á pappírnum erlenda lántökuþörf niður úr því 100 milljarðamarki sem hæstv. ríkisstj. sjálf hefur viðurkennt að framkvæmdaáform hennar stendur í hvað varðar erlendar lántökur.

Og fjórða bragðið, fjórða broslega töfrabragðið í þessum leikfimiæfingum hæstv. ríkisstj., er á bls. 16. Þar kemur fram sú skemmtilega hókus-pókus-lausn til þess að flytja nú lántöku okkar erlenda á pappírnum enn neðar, að ríkisstj. segist þar hafa samþykkt útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs með þeirri breytingu, að hinni erlendu lántöku verði skotið á frest að hálfu leyti fram yfir næstu áramót. Þannig ætlar hæstv. ríkisstj. að fresta lántökum, erlendum lántökum Framkvæmdasjóðs sem þegar hafa verið samþykktar, um nákvæmlega helming, um 2525 millj. kr., fram yfir áramótin. En þá skyldi maður nú ætla að hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir því, að sú frestun kæmi einhvers staðar fram á árinu 1980. Einhvers staðar hlýtur þess að sjá stað, að útvega eigi minni peninga í erlendar lántökur Framkvæmdasjóðs en hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Hvað er Framkvæmdasjóður? Hann er banki annarra fjárfestingarlánasjóða. Í töflunum aftast í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir að skipta upp þeim erlendu lánum, sem Framkvæmdasjóður á að taka, til hinna einstöku sjóða á árinu 1980. Og þar skiptir hæstv. ríkisstj. allri fjárhæðinni. Hún skiptir allri fjárhæðinni, 5050 millj. kr., hjá Framkvæmdasjóði niður á hina einstöku fjárfestingarsjóði á árinu 1980, en segir svo á öðrum stað í þessu sama plaggi að helmingurinn af þessari lántöku eigi að frestast fram yfir áramótin. Hvernig er hægt í einni og sömu andránni að útdeila peningum á árinu 1980, útdeila 5050 millj. kr. á árinu 1980, afhenda þá til tiltekinna sjóða til að ráðast í tilteknar framkvæmdir sem ríkisstj. hefur ákveðið, en svo á ekki að útvega peningana í þessa áætlun fyrr en árið 1981? Hvaða peningum ætlar hæstv. ríkisstj. að útdeila? Hvernig stendur á því, að þess sér ekki stað í þessari áætlun að þeir peningar, sem rætt er um að fresta lántöku á fram yfir áramótin séu ekki til í ár? Hvernig getur hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, afhent fjárfestingarlánasjóðum peninga á árinu 1980 sem hann ætlar ekki að útvega fyrr en á árinu 1981? Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað sjá allir menn að þetta er dæmigerð gervilausn í anda Lúðvískunnar og Alþb. að segja á einni blaðsíðunni að það eigi að framkvæma fyrir sem nemur 5050 millj. kr. til tiltekinna þarfa á árinu 1980, en segja svo þrem, fjórum blaðsíðum framar að það eigi að fresta að afla helmings þessa fjár þangað til eftir áramótin 1980–1981.

Annaðhvort hlýtur að gerast, að hæstv. ríkisstj. standi við frestunina, og þá verður hún auðvitað að skera niður við sjóðina, og eftir hverju er verið að bíða með það, af hverju er ekki skorið niður í þessum upplýsingum hæstv. ríkisstj.? — annaðhvort verður það að gerast ellegar þá hitt, að hæstv. ráðh. stendur við framkvæmd sína. Og hvað þýðir það að fresta tiltekinni lánsfjáröflun, sem á að eyða í ár, fram til næsta árs? Það hlýtur auðvitað að þýða það, að vandinn í sambandi við erlenda lántöku hlýtur að verða þeim mun meiri á næsta ári — ekki satt? Og það er skammgóður vermir í þessu sambandi að pissa með þeim hætti í skóinn sinn. En það er nú eins og víðar í þessari lánsfjáráætlun, að hæstv. ríkisstj. segir: Ég ætla ekki að takast á við vandann á þessu ári. En næsta ár, alla vega næstu misseri, skuluð þið fá að sjá hvar Davíð keypti ölið.

Með þessum hætti, með þessum töfrabrögðum hefur hæstv. ríkisstj. falið raunverulega lántökuþörf í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem er 99.5 milljarðar. Hæstv. ríkisstj. hefur falið þessa lántökuþörf með því í fyrsta lagi að gera ráð fyrir fé frá lífeyrissjóðunum sem líka á að nota til þess að fjármagna fjárfestingarlánasjóðakerfið. Það á að nota þessar sömu krónur tvisvar, bæði fyrir fjárfestingarlánakerfið og ríkissjóð. Þar eru 6 milljarðar. Í öðru lagi með því að nota hluta af ráðstöfunarfé bankanna, sem stöðugt fer minnkandi vegna vaxtastefnu ríkisstj., með sama hætti tvisvar. Með því að nota fyrst um 3 milljarða króna af þessu fé til að auka fjármögnun bankakerfisins á fjárfestingarlánasjóðunum, og það er talsverð aukning frá því í fyrra, og nota svo sömu peningana aftur til þess að kaupa ríkisskuldabréf af ríkissjóði. Bakhliðin á krónunni á að renna til ríkissjóðs, en framhliðin á að renna til fjárfestingar lánasjóðanna. Þannig býr hæstv. fjmrh. til tvær krónur úr einni. Samtals nemur þetta gerviniðurfærslu á erlendum lántökum upp á 9.9 milljarða. Þriðja töfrabragðið er síðan að fresta ótiltekið framkvæmdum, sem Alþ. er búið að samþykkja hjá B-hluta stofnunum og engar skýringar hafa verið gefnar á hverjar eru, um 1662 millj. kr., sem auðvitað er pappírslausn út í loftið því þetta verður ekki gert, það veit hver maður. Og í fjórða lagi að fresta lántöku hjá Framkvæmdasjóði um 2.5 milljarða fram yfir áramótin, en skipta fénu upp á árinu 1980, útdeila fé sem ekki er til. Slík eru nú kraftaverkin í efnahagsstjórninni á þessu landi.

Ég vil aðeins, til að árétta það að hér er um tvítalningu að ræða, benda á að samkv. töflu í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, aftarlega í áætluninni, á bls. 42, kemur fram að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna eykst úr 34 milljörðum á árinu 1979 í 50 milljarða á árinu 1980, eða um 16 milljarða kr. Miðað við það, að 40% af þessari aukningu væru til ráðstöfunar fyrir hæstv. ríkisstj. til þess annaðhvort að verja því til ríkissjóðs ellegar til fjárfestingarlánasjóðanna, mundi aukningin samsvara því að ríkisstj. gæti ráðstafað um 6 milljörðum kr. vegna aukningar á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. En þessu fjármagni, sem ríkisstj. hefur til ráðstöfunar vegna aukins ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna, ætlar ríkisvaldið, eins og ég sagði áðan, að ráðstafa tvisvar. Hún ætlar bæði að nota þetta fé til að kaupa ríkisskuldabréf af ríkissjóði og til að kaupa verðtryggð skuldabréf af lífeyrissjóðunum. Öðruvísi gengur talan ekki upp. Öðruvísi gengur það ekki upp sem hæstv. ríkisstj. upplýsir Alþ. um í þessari lánsfjáráætlun, að vísu tveim, þremur blaðsíðum aftar en hún telur upp þessar hókus-pókus-aðgerðir sínar. Það er eins og hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. hafi ekki lesið til enda eigin fjárfestingar- og lánsfjárskýrslu.

Ég held ég hafi þessi orð ekki miklu fleiri. Ég er búinn að gera nokkuð ítarlega grein fyrir áliti okkar Alþfl.manna á þessari merkilegu bók, sem hæstv. forsrh. mælti fyrir til þess að sýnast hafa eitthvað að gera, þó þetta sé raunverulega pródúkt hæstv. fjmrh. og annar af tveimur mikilsverðustu þáttum í starfi hans. Vænti ég þess, þó að hæstv. fjmrh. lofi forsrh. að mæla fyrir þessu í þetta skipti, að hann sé ekki þar með að afhenda honum helminginn af umsvifum síns rn., heldur reyni að finna fyrir hann eitthvert annað verkefni næst, svo að hæstv. forsrh. sé ekki verkefnalaus.

Hitt er algerlega ljóst, að hér er áfram haldið þeirri sömu stjórnarstefnu sem sett hefur svip sinn á þann áratug sem nefndur hefur verið framsóknaráratugurinn. Hér er áfram haldið þeirri stefnu að láta allt vaða á súðum. Og síðasta athvarfið hjá hæstv. ríkisstj. nú er að þyrla upp blekkingamoldviðri og spinna blekkingavef til þess að reyna með einhverjum hætti að fela það gjaldþrot sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin fyrir 1980 sýnir og sannar að þessi framsóknarstefna þessa framsóknaráratugs hefur valdið. Mér er mætavel ljóst eins og ég ætla að það sé flestum ljóst, þeim þm. a. m. k. sem hafa fylgst með tíðindum íslensks efnahagslífs á undanförnum árum, og þess er ekki langt að bíða að hæstv. fjrmh. verði það einnig ljóst — ætli það verði ekki í septembermánuði eins og í fyrra — að hann skortir um 6–10 milljarða kr. í ríkiskassann til þess að endar nái saman. Og hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera þá? Íslenskt verkafólk borgar núna um 67 kr. í skatt af hverjum 100 kr. sem það þénar í nætur- og helgidagavinnu. Treystir nokkur stjórnmálamaður sér til þess, jafnvel hæstv. ráðh., jafnvel hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að auka þessa skattbyrði á nætur- og helgidagavinnutekjur láglaunafólksins í september í ár? Við borgum núna næstum því fjórðu hverja krónu, sem við réttum yfir búðarborðið fyrir ýmsar nauðsynjar, í söluskatt til ríkisins, 23.5%. Treystir hæstv. fjmrh. sér til þess, þegar stjórnarstefnan verður komin í fjárhagslegt þrot í endaðan sept., byrjaðan okt., að auka það hlutfall? Hæstv. fjmrh. hefur þegar sagt að hann muni ekki svara þessum vanda með því að skipa Seðlabankanum að prenta verðlausa seðla. En hvenær verður mönnum það ljóst í stjórnarliðinu, að sú stefna sem fylgt hefur verið, hefur skilað þeim árangri, ef árangur skyldi kalla, að söluskattur hefur á tíu árum hækkað úr 7% í 23.5%, skattbyrði á láglaunafólki hefur hækkað úr 11.4% af tekjum greiðsluárs í 15.5% á sama tímabili, verðbólga hefur vaxið úr 8–10% að meðaltali, eins og hún var á sjöunda áratugnum, í 40–50%, eins og hún er að meðaltali á þeim áttunda, og virðist ætla að fara í 50–60% í upphafi þess níunda, að á þessum tíu árum hefur kaupmáttur verkafólks orðið 10% minni? Þrátt fyrir það allt, sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir, Alþb. og Framsfl., hafa þóst vera að gera, hefur kaupmátturinn orðið 10% minni en hann hefði orðið ef hinni vondu og oft með réttu gagnrýndu viðreisnarstefnu hefði verið fylgt.

Það er mjög stuttur tími þangað til þessa stjórnarstefnu rekur upp á sker, vegna þess að menn geta ekki haldið svona verðbólgubáli lengur við með því að pumpa á eldinn sífellt meiri olíu sem sótt er í launaumslög launafólksins í þessu landi. Það getur vel verið að þeir Alþb.-menn geri sér þessar staðreyndir ekki ljósar. En þeim er alveg óhætt að trúa því, að almenningur á Íslandi er farinn að sjá í gegnum þann blekkingavef sem þessi flokkur hefur ofið á undanförnum áratug í samvinnu við Framsfl. Og það er ógæfa Alþb. að einmitt núna þegar einhver von var e. t. v. til þess að flokkurinn og ríkisstj., sem hann á aðild að, mundi vitkast, þá er hrokinn svo mikill að Alþb. og þm. þess að einum undanteknum velja sér aðfaranótt 1. maí til þess að svara hógværum tilmælum Verkamannasambands Íslands um að nema staðar á þessari óheillabraut. Það gerðu hv. þm. Guðrún Helgadóttir, hæstv. ráðh. Ragnar. Arnalds og hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson og fleiri Alþb.-menn hér fyrir nokkrum kvöldum. Það er ógæfa Alþb. — en e. t. v. verður það gæfa ýmissa annarra — að hin nýja stétt ráðamannanna þar skuli vera slegin slíkri pólitískri blindu að það er ekki nóg með það, að hinir nýju ráðamenn Alþb. og flokkurinn séu að selja hugsjónir sínar, hafi látið þær í skiptum fyrir ráðherrastóla, heldur er verið að kveðja það fólk sem lengst og best hefur fylgt flokknum gegnum tíðina. Það voru merkilegustu tíðindin 1. maí árið 1980, þegar skildi á milli Alþb. og láglaunahreyfingar í þessu landi.