06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hafa nú farið fram miklar umr. um þá áætlun sem hér liggur fyrir, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980. Það er eðlilegt að menn þurfi að ræða ítarlega slíkt plagg sem þetta er.

Ég hafði hugsað mér að ræða nokkuð almennt um stefnuna eða stefnuleysið sem fram kemur hjá hæstv. ríkisstj. í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, en nú hafa þrír samflokksmenn mínir þegar rætt þessa áætlun almennt og sýnt fram á fánýti hennar og haldleysi í stjórn ríkisfjármálanna. Ég held því að ég vendi mínu kvæði í kross og ræði þetta frá nokkru öðru sjónarmiði, á þann veg að taka til meðferðar tvö atriði, tvo þætti, annars vegar þátt sem varðar orkumálin og hins vegar þátt sem varðar húsnæðismálin. En þó takmarka ég mjög þetta viðfangsefni mitt og freista þess að gera það þeim mun ljósara sem ég vildi segja. En ég ætla að þessi tvö dæmi gefi hugboð um það, hvernig vinnubrögð hæstv. ríkisstj. eru almennt í sambandi við þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Ég vænti þess, að ég verði ekki vændur um að ráðast þar að sem garðurinn er lægstur. Við höfum það auðvitað öll í huga að ríkisstj. lýsti yfir að orkumálin skyldu hafa forgang, það skyldi verða lögð sérstök áhersla á þau, m. a. — eins og fram er tekið í stjórnarsáttmálanum — með það að markmiði, að innlendir orkugjafar komi sem fyrst í stað innfluttrar orku og að unnt verði með viðunandi öryggi að tryggja afhendingu orkunnar til notenda. Ég held að fróðlegt væri að athuga hvað skeður í þessum efnum og hvað þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun boðar hvað þetta varðar. Og með því að ég ætla að leggja áherslu á og takmarka umræðuefni mitt um orkumálin við þennan þátt, þá mun ég sérstaklega ræða fjármögnun Orkusjóðs og fjóra þætti í starfsemi hans.

Það er í fyrsta lagi það sem viðkemur styrkingu rafdreifikerfa í sveitum. Það er í öðru lagi jarðhitaleit. Það eru í þriðja lagi hitaveituframkvæmdir. Og það er í fjórða lagi sveitarafvæðingin, hin eiginlega sveitarafvæðing.

Í júní 1979 gerði orkuráð till. til fjárlagagerðar um þessi efni. Samkv. till. orkuráðs var lagt til að varið skyldi til þessara fjögurra þátta 5.4 milljörðum kr. Ég ætla ekki að fara út í sundurgreiningu á þessu, frekar kjósa að stytta mál mitt, en þetta voru 5.4 milljarðar kr. samtals. Í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar var gert ráð fyrir að til þessara fjögurra verkefna færu 2.3 milljarðar. Og ekki tók betra við þegar fjárlagafrv. Sighvats Björgvinssonar leit dagsins ljós. Þá var gert ráð fyrir að til þessara framkvæmda gengju 2 milljarðar. Þetta þóttu orkuráði heldur slæm tíðindi og það var að vonum. Orkuráð hafði lagt til 5.4 milljarða, en í fjárlagafrv. í des. eru lagðir til 2 milljarðar. Þó er þess að gæta, að ef átt hefði að halda framkvæmdamætti þess, sem lagt var til í júní 1979, hefði vafalaust þurft að hækka þá upphæð um 50% a. m. k.

Þegar svo var málum komið leitaðist orkuráð við að gera allt sem í þess valdi stæði til að fá leiðréttingu þessara mála. M. a. skrifaði það núv. hæstv. iðnrh. eða iðnrn. bréf 14. febr. s.1. Ég vil leyfa mér að geta þess, að á fundi orkuráðs 7. febr. samþykkti ráðið einróma eftirfarandi till. í málinu, sem send er ráðh. og hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Orkuráð samþykkir að beina því til hæstv. iðnrh., að hann beiti sér fyrir því, að till. þær um fjárframlög í Orkusjóð á árinu 1980, sem fram hafa komið í fjárlagafrv. í október 1979 og í desember 1979, verði teknar til endurskoðunar og þeim breytt í samræmi við till. orkuráðs á fundi þess 1. júní 1979, sem sendar voru hinu háa ráðuneyti með bréfi dags. 19. júní 1979.“

Með þessu bréfi til hæstv. iðnrh. fylgdi ítarleg grg. varðandi þessi mál. Þar segir í formála m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Orkuráð vill leggja ríka áherslu á þessar athugasemdir og á nauðsyn þess, að þær verði að fullu teknar til greina við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1980. Ráðinu er vel ljós nauðsyn þess að halda ríkisútgjöldum innan hóflegra marka, en minnir á að meginhluti fjárlagatillagna þess varðar ráðstafanir til að losna við hitun húsrýmis með olíu sem nú kostar notendur um 13 milljarða kr. árlega, þannig að það er mjög dýrkeyptur sparnaður í ríkisútgjöldum að draga slíkar ráðstafanir á langinn vegna fjárskorts. Orkuráð vill því eindregið leggja til að till. þess frá vorinu 1979 verði lagðar til grundvallar fjárveitingu til Orkusjóðs við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1980.“

Í þessari grg. er ítarlega rætt um styrkingu dreifikerfis í sveitum. Og til að stytta mál mitt mun ég aðeins vitna í kafla, með leyfi hæstv. forseta, sem er á þessa leið

„Í grg. þeirri, sem fylgdi átta ára áætlun orkuráðs, var á það bent, að styrking dreifiketfis í sveitum væri forsenda þess að unnt væri að dreifa raforku þar er nægði til fullrar hitunar, svo leggja mætti niður hitun með olíu. Hvarvetna í þéttbýli eru hitaveituframkvæmdir í gangi eða undirbúningi, þar sem jarðhiti er á annað borð fáanlegur, en annars staðar ýmist fjarvarmaveitur eða efling dreifikerfisins fyrir raforku sem gerir rafhitun mögulega. Átta ára áætlunin er hliðstæð framkvæmd í strjálbýlinu og augljóst er að olíuhitun verður við lýði þar löngu eftir að henni er hætt í þéttbýlinu ef einungis á að verja 700 millj. kr. til þessara mála á ári. Að mati Orkuráðs voru átta ár í rauninni hámark þess tíma sem ætla mætti í að styrkja rafdreifikerfi sveitanna. Niðurskurður úr 1700 í 700 millj. kr. á ári táknar að öðru jöfnu að framkvæmdatími lengist úr átta árum í nítján ár. Að mati orkuráðs verður ekki hjá því komist að ljúka verki þessu það snemma að strjálbýli þurfi ekki að búa við olíuhitun löngu eftir að þéttbýli hefur tekið innlenda orku í notkun til hitunar. Það væri með öllu óviðunandi. Ráðið leggur því áherslu á að till. þess um 1700 millj. kr. var í raun lágmark í þessu skyni.“

Til skýringar skal ég aðeins geta þess, að orkuráð gerði samþykkt í byrjun mars 1979 um átta ára áætlun um endurnýjun rafdreifikerfis í sveitum landsins. Samkv. þessari átta ára áætlun var nauðsynlegt að verja á ári 1700 millj. kr. — Þetta var um dreifingu rafkerfisins í sveitum.

Hér er einnig langur kafli sem snýr að jarðhitaleit. Ég skal ekki lesa hann allan upp, en ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr honum. Þar segir:

„Það er skoðun orkuráðs, að við núverandi horfur í verðlagsmálum olíu sé nánast þjóðhagsleg fásinna að láta fjármagn vera flöskuháls í leit að jarðhita til húshitunar. Þarf ekki að rökstyðja slíkt með mörgum orðum. Því eru till. um jarðhitaleit 1980 við það miðaðar, að unnt sé að sinna öllum þeim verkefnum sem borarnir komast yfir. Í samræmi við þetta sjónarmið lagði ráðið til að á árinu 1980 væri 900 millj. kr. varið til jarðhitaleitar. Af þessum 900 millj. kr. var gert ráð fyrir að 150 millj. kr. færu til að bora rannsóknarholur á norðanverðu Snæfellsnesi, í grennd við Ísafjörð og Súðavík og víðar um vestanvert landið. Talið er aðkallandi að leita af sér allan grun um nýtanlegan jarðhita á þessum slóðum, áður en endanleg stefna er mörkuð í húshitunarmálum þéttbýlisstaðanna þarna. Líkur eru taldar svo litlar á að þessar boranir leiði til hitaveitna, að ekki þykir eðlilegt að ætla sveitarfélögum að kosta leitina, svo sem annars er reglan þar sem líkur á árangri teljast nægjanlegar. Er því gert ráð fyrir að boranir þessar verði kostaðar af framlögum, svo sem tíðkast hefur um hitastigulsholur og almenna jarðhitaleit.“

Ein setning til viðbótar síðar úr þessum kafla, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkuráð leggur því áherslu á upphaflegar till. sínar um 900 millj. kr. til jarðhitaleitar í ár“ — þ. e. 1980. „Það verður, eins og fyrr segir, að teljast fjarstæða við núverandi ástand og horfur í olíumálum að láta fjárskort hamla jarðhitaleit og nýtingu jarðhita í stað olíu. Kostnaður landsmanna við olíuhitun húsnæðis hér á landi nú nemur um 13 milljörðum kr. á ári á núverandi verði á olíu, þannig að til mikils er að vinna.“

Í þessari skýrslu er einnig rætt ítarlega um það sem varðar hitaveituframkvæmdir. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nokkrar setningar úr þeim kafla. Þar segir:

„Í fjárlagafrv. eru Orkusjóði ætlaðar 500 millj. kr. í þessu skyni. Ekki verður af frv. ráðið að ætlunin sé að afla meira fjár til þessara framkvæmda á væntanlegri lánsfjáráætlun fyrir 1980. En augljóst er að 500 millj. kr. er allt of lítið. Orkuráð vill ítreka þau rök sem að framan voru talin og fram koma í grg. með fjárlagatillögum þess fyrir 1980. Gildir hið sama um hitaveituframkvæmdir og áður er rakið varðandi jarðhitaleitina, að það væri meiri háttar þjóðhagslegt glappaskot að láta fjárskort tefja það að þjóðin losni við 13 milljarða útgjöld á ári hverju. Ráðið leggur því þunga áherslu á að ekki má ætla minna fé í þessu skyni í ár en 2 milljarða kr.“

Að lokum ætla ég í sambandi við þessa skýrslu að víkja nokkrum orðum að því sem sagt er í henni um sveitarafvæðinguna, hina eiginlegu sveitarafvæðingu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkuráð er þeirrar skoðunar, að ekki megi dragast lengur að tengja samveitu þau fáu býli sem eftir eru og talið er rétt að tengja á annað borð. Bið þess fólks, sem þar býr, eftir rafmagni er orðin æðilöng. Í fjárlagafrv. eru 215 millj. kr. ætlaðar í sveitarafvæðingu í heild, sem rétt nægir fyrir viðbótum við eldri veitur. Þær viðbætur þola ekki bið. Táknar þetta í reynd að ekki verður um neinar nýlagningar að ræða í ár. Lengist þá enn bið fólks eftir rafmagni. Orkuráð telur að slíkt sé fólki þessu ekki bjóðandi. Átakið, sem eftir er í rafvæðingu sveitanna, er svo lítið; að ekki er áhorfsmál að ljúka því á einu ári. Ráðið ítrekar því eindregið fyrri tillögu sína um 600 millj. kr. í þessu skyni í ár. Þegar þessi 37 býli hafa veríð tengd þarf að taka til sérstakrar athugunar rafmagnsmál 38 býla, sem eru svo afskekkt að tenging við samveitur er mjög erfið eða óraunhæf.“

Skal ég svo ekki vitna frekar í þessa grg. En rétt er að taka það fram, svo að ekki valdi misskilningi, að þessi grg. er samin áður en fjárlagafrv. núv. ríkisstj. kom fram. En af því, sem ég mun segja hér á eftir, munu menn sjá að það skiptir ekki sköpum í þessu efni.

Eftir þessar aðgerðir orkuráðs, sem samþykktar voru einróma, — fulltrúar úr öllum flokkum voru sammála um þetta, væntu menn þess, að hlustað væri á þau rök sem þarna koma fram. Menn væntu þess. Og menn bjuggust við að nú mundi skipta um þegar fram kæmi fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj. En hvað fólst í því varðandi þessa fjóra framkvæmdaflokka sem ég er hér að gera að umræðuefni? Það fólst í því að gert var ráð fyrir samkv. fjárlagafrv. að til þessara mála gengju 2.3 milljarðar, 300 millj. meira en frv. Sighvats Björgvinssonar gerði ráð fyrir og ekki eyri meira en frv. Tómasar Árnasonar gerði ráð fyrir.

En þegar ég segi að í fjárlagafrv. hafi verið gert ráð fyrir 2.3 milljörðum til þessara mála, þá bið ég menn að hafa það í huga, að samkv. fjárlagafrv. var ekki gert ráð fyrir að þessi fjárhæð væri veitt úr ríkissjóði, nei. Ég ræddi það mál ítarlega við umr. um fjárlögin. Sýndi ég fram á þá óhæfu sem væri verið að framkvæma með slíkum ráðagerðum, að gera ráð fyrir því að Orkusjóður tæki að láni svo til allt þetta fjármagn með þeim vöxtum, sem nú eru á lánsfé, og væri gert skylt að afhenda það sem óafturkræft framlag til þessara verkefna að mestu leyti. Ég lagði líka við afgreiðslu fjárlaga áherslu á að það yrði að gera betur í þessu efni. Því mótmælti enginn. En það var látið að því liggja — ég held ég megi segja að því hafi verið lofað af hálfu hæstv. ríkisstj., að þetta yrði betrumbætt, hér væri einungis um að ræða frv. til fjárlaga, en við ættum eftir að sjá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og þar yrði bætt um margt sem aflaga færi í till. þeim sem lýst var við afgreiðslu fjárlaga. Að óreyndu hlutum við að taka eitthvert mark á þessum fullyrðingum og loforðum.

Nú höfum við fengið í hendur þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Og þegar við förum að gá að efndum í þessu efni, sem ég er að ræða um, hvað sjáum við þá? Við sjáum þá að það er gert ráð fyrir að til þessara framkvæmdaþátta í orkumálunum fari — hvað haldið þið? 2.7 milljarðar kr. Kannske hefur það verið reiknað nákvæmlega, því það er nákvæmlega 50% af þeirri upphæð sem orkuráð lagði til í júní 1979, 5.4 milljarðar. Og það er 400 millj. meira en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er á allt og sumt sem kemur út úr þessum yfirlýsingum og loforðum, 400 millj.

En er það nú svo mikið? Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Það sannast hér, því samkv. þessari áætlun eru þessar 400 millj. kr. skornar niður um 200 millj. kr. rúmar. Hvernig má þetta vera? Hvers konar fíflaskapur er þetta? Þetta er ótrúlegt í raun og veru. En vegna þess að það er ótrúlegt, þá skulum við athuga nánar hvernig þetta er gert. Ég bið menn að fletta upp í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á bls. 13. Þar er gerð grein fyrir þessum niðurskurði. Þar segir varðandi dreifikerfi í sveitum að til styrkingar dreifikerfa í sveitum hafi verið áformað að verja alls 1086 millj. kr. og að verkefni þetta sé fjármagnað með lántöku, en það komi ekki til afgreiðslu á árinu nema 978 millj. kr. M. ö. o.: þarna eru skornar niður 108 millj.

Tökum sveitarafvæðinguna, hvað segir þar á sömu bls.? Áætluð var 415 millj. kr. lántaka í fjárlögum vegna sveitarafvæðingar, en þar af verði afgreiddar 373 millj. á árinu. Af sveitarafvæðingunni á að skera niður 42 millj. Hvað segir um hitaveitulán á sömu bls.? Þar segir að til hitaveitulána sé Orkusjóði ætlað lánsfjármagn í fjárlögum til endurlána, alls 500 millj. kr., en afgreiðsla þess fjármagns sé bundin við 450 millj. árið 1980. Þessi upphæð er skorin niður um 50 millj. kr. Er furða þó að menn séu undrandi? Hvað segir á sömu síðu um jarðhitaleitina? Þar segir að framlag úr A-hluta til Orkusjóðs vegna jarðhitaleitar nemi alls 600 millj. kr. En það er tekið fram, að áformað hafi verið að auka lánagetu sjóðsins með því að afla 150 millj. kr. lánsfjár samkv. fjárlögum, þannig að 750 millj. kr. yrðu til ráðstöfunar til þessa verkefnis? Afgreiðsla lánsfjárins, sem er 150 millj., verður þó hæst 135 millj. kr. árið 1980. Á þessum lið er skorið niður um 15 millj.

Þetta eru ekki stórar upphæðir. Ég er ekki að rekja þetta þess vegna. Ég er að rekja þetta til að sýna vinnubrögðin. Í orði á svo að heita, að með þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé aukið framlag til þessara þátta orkumála, sem ég er að ræða um, um 400 millj., en á borði er það ekki nema 200 millj. aukning.

Þetta er í málaflokki sem ríkisstj. hefur lýst yfir að hún leggi sérstaka áherslu á, alveg sérstaka áherslu á. Þetta er varðandi framkvæmdir sem ráða mestu í bráð um það, hve vel tekst að leysa olíuna af hólmi sem orkugjafa til húshitunar. Allir eru að tala um vilja sinn í því efni að losa okkur við olíuna og hagnýta innlenda orkugjafa til húshitunar. Það hefur ekkert staðið á hæstv. ríkisstj. eða einstökum ráðherrum hennar að lýsa þessu yfir.

Ég sagði að orkuráð hefði skrifað bréf 14. febr. s. l. til iðnrn., til hæstv. iðnrh. Ég tel mig standa í þeirri meiningu, að hæstv. iðnrh. hafi lagt til í ríkisstj. að það yrði orðið við óskum og tillögum orkuráðs. Ég veit ekki betur. Og ég þykist vita að hæstv. ráðh. hafi raunar áhuga á þessu. En hvernig má það vera, að slíkt mál sem þetta nái ekki fram að ganga undir þessum kringumstæðum? Mikil má andstaðan vera í hæstv. ríkisstj. fyrst þetta mál fær ekki betri afgreiðslu. Alþingi á heimtingu á að vita hvað veldur, hvaða öfl í ríkisstj. það eru sem standa gegn þessu máli. Það vantar svör við því.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég mundi leitast við að takmarka mig við ákveðin viðfangsefni í orkumálunum, það sem ég hef nú þegar rætt. En ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því sem stendur á bls. 13 í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni varðandi framkvæmdir við dreifikerfi rafmagns í sveitum. Þar er tekið fram að framkvæmdir í þessu efni verði á vegum RARIK. Ég vek athygli á því, að starfsemi RARIK nær ekki yfir allt landið. Það er eitt kjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, sem RARIK hefur ekki með að gera. Og þar eru eins og annars staðar í sveitum landsins verkefni að vinna í þessu efni. Þess vegna fer illa á því að orða þetta svo. Ég vil leyfa mér að vona að hér sé einungis um gáleysi að ræða. Og eitt er víst, að það verður ekkert ákveðið í þessu efni eftir því hvað stendur í þessari skýrslu. Samkv. landslögum er það orkuráð sem á að fjalla um ráðstöfun fjármagns sem þessa. Því verður ekki breytt nema með lögum. Þessi skýrsla hefur auðvitað ekkert lagagildi.

En það er annað viðvíkjandi Orkubúi Vestfjarða sem ég kemst ekki hjá að víkja að. Ég bið menn að líta á töflu á bls. 32 í skýrslunni. Þar er um að ræða skrá yfir hitaveituframkvæmdir og þar er gert ráð fyrir að Orkubú Vestfjarða fái lánsfé að upphæð 500 millj. kr. til hitaveituframkvæmda. Orkubú Vestfjarða fót fram á miklu hærri upphæð, margfalda upphæð á við þetta, til ákveðinna framkvæmda, framkvæmda á Ísafirði, Bolungarvík og Patreksfirði. En hér er gert ráð fyrir að Orkubúið fái 500 millj.

Í þessari sömu töflu eru fleiri upplýsingar. Vestfirðir hafa nokkra sérstöðu í þessum efnum og Austfirðir vegna þess að þar er minnst um hagnýtanlegan jarðvarma. Það er ekki óeðlilegt að bera þessi kjördæmi saman. Hvaða upplýsingar er að hafa um það í þessari skýrslu? Það er gert ráð fyrir að til fjarvarmaveitu á Höfn í Hornafirði verði varið 750 millj., til Egilsstaða 600 millj., til Seyðisfjarðar 450 millj., samtals 1800 millj., en 500 millj. til Orkubús Vestfjarða.

Ég vil, áður en lengra er haldið, taka það skýrt fram, að ég er ekki að tala hér á móti því, að þessir austfirsku bæir fái þá fyrirgreiðslu sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil mæla sérstaklega með því. Mér er kunnugt um þessar framkvæmdir, ég hef haft aðstöðu til að setja mig inn í þessar framkvæmdir og undirbúning þeirra. Ég hef á þeim vettvangi, þar sem ég hef komið því við, lagt mitt lóð á vogarskálarnar til að styðja þessar framkvæmdir. Hér er um þrjá staði að ræða á Austfjörðum. Orkubú Vestfjarða bað um fyrirgreiðslu vegna þriggja staða. Menn verða að hafa í huga að Orkubú Vestfjarða er ekki orkufyrirtæki eins staðar. Það er orkufyrirtæki heils kjördæmis allra þéttbýlisstaða og strjálbýlis á Vestfjörðum. Er undarlegt þó að ég spyrji: Hver er ástæðan fyrir því, að Orkubú Vestfjarða fær ekki hliðstæða afgreiðslu í þessum efnum og þessir þrír staðir á Austfjörðum? Ég sé ekki annað en þetta sé alveg hliðstætt. Og eins og þörfin er mikil fyrir austan og ég lagði áherslu á áðan, þá er hún ekkert minni fyrir vestan. Ég óska eftir að fá skýringar á þessu.

Ég get ekki neitað því, að mér hefur komið ýmislegt í hug. T. d. hefur mér komið í hug hvort þetta gæti farið eitthvað eftir styrkleika kjördæmanna í ríkisstj. Ég ætlast ekki til þess, að hæstv. iðnrh. svari þessu, en ég hefði mjög gjarnan viljað spyrja hæstv. sjútvrh. að þessu. En kannske ætti ég fyrst og fremst að spyrja hæstv. forsrh.

Ég minnti á að á Vestfjörðum, fyrir Vestfjarðakjördæmi, er eitt orkufyrirtæki. Það á sina sögu, eins og margir munu kannast við. Hæstv. forsrh. var iðnrh. og fór með orkumál í stjórn Geirs Hallgrímssonar 1974–1978. Hæstv. forsrh. sem iðnrh. hélt fram ákveðinni stefnu um skipulag orkumála. Stefnan var sú, að það bæri að vinna að því að mynda svokölluð landshlutafyrirtæki í orkumálum fyrir hvert kjördæmi. Það var ekki látið sitja við orðin tóm. Það voru skipaðar sérstakar undirbúningsnefndir í öllum kjördæmum landsins af hæstv. núv. forsrh., þáv. iðnrh., til að vinna að framgangi þessarar stefnu. Hver er árangurinn? Hann er ekki áþreifanlegur nema í einu kjördæmi, í Vestfjarðakjördæmi, þar sem Orkubú Vestfjarða var stofnað.

Nú vil ég spyrja hæstv, forsrh. hvort hann hafi, miðað við þessa forsögu málanna, ekki neitt við það að athuga að það fólk, sem var reiðubúið að ganga til samtaka og hrinda stefnu hans í framkvæmd í sínum landshluta, skuli ekki njóta sama réttar og fólk í öðrum kjördæmum sem fór ekki að ráðum hans eða hefur ekki farið enn. Hér er um stórmál að ræða hvernig sem á það er litið. Það er stórt hagsmunamál byggðanna á Vestfjörðum og það er mikið réttlætismál að Vestfirðingar verði ekki látnir gjalda þess, að þeir fóru að ráðum hæstv. núv. forsrh. og þáv. iðnrh. og stofnuðu heildarsamtök í orkumálum fyrir allt kjördæmið. Ég segi að Vestfirðingar megi ekki gjalda þess. Það segi ég vegna þess að það eru allar sömu ástæður til að veita þrem þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum fyrirgreiðslu eins og það eru ástæður til að veita þrem stöðum á Austfjörðum slíka fyrirgreiðslu.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég ætlaði aðeins að víkja að tveim þáttum og það lítillega. Hinn þátturinn var húsnæðismálin.

Nú er það svo, að samkv. stjórnarsáttmálanum ætlar hæstv. ríkisstj. ekki að vera aðgerðalaus í húsnæðismálunum. En við höfum orðið fyrir vonbrigðum í þeim efnum eins og mörgu öðru og það jafnvel þó menn hafi ekki í upphafi gert sér miklar vonir um þessa hæstv. ríkisstj.

Við afgreiðslu fjárlaga kom strax í ljós áhugi hæstv. ríkisstj. á að efla veðlánakerfi til húsbygginga. Ríkisstj. féll fyrir þeirri freistni þá að rýra tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins, rýra það framlag sem átti að ganga til Byggingarsjóðsins frá ríkissjóði. Þetta voru slæmar fréttir og þeir, sem ábyrgð bera á framkvæmd þessara mála, leituðust við að spyrna við fæti, reyna að fá þetta leiðrétt. Þannig var það, að 18. mars var samþykkt í húsnæðismálastjórn till. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1980, sem nú er til meðferðar í hv. Alþingi, er gert ráð fyrir verulegri skerðingu á lögbundnum tekjustofnum til húsnæðismála, sem markaðir eru í lögum Húsnæðismálastofnunar ríkisins frá 1970. Þarna er um að ræða tekjustofna sem ákveðnir voru í samráði við aðila vinnumarkaðarins til eflingar íbúðarhúsabygginga, m. a. á félagslegum grundvelli. Sú skerðing á mörkuðum tekjustofnum, sem fram kemur í fjárlagafrv., nemur um 35% eða 3.8 milljörðum kr. Ljóst er að ef af þessari skerðingu verður getur það haft mjög alvarleg áhrif á stöðu Byggingarsjóðs ríkisins, því að þessir tekjustofnar hafa stóraukið eigið fé sjóðsins og gert honum mögulegt að halda uppi lögbundinni lánastarfsemi til hinna ýmsu þátta húsnæðismála.

Húsnæðismálastjórn væntir þess, að hæstv. ríkisstj. og Alþingi íhugi vandlega þetta mál áður en endanleg ákvörðun verði tekin um stórfelldan niðurskurð á mörkuðum tekjustofnum Byggingarsjóðs, sérstaklega þegar til þess er litið, að stöðugt er verið að bæta nýjum verkefnum á sjóðinn á sviði lánveitinga.“

Þessi till. var samþykkt samhljóða í húsnæðismálastjórn. Þar eru, eins og kunnugt er, menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Allir sáu hvílík óhæfa hér var að gerast og framin var með afgreiðslu fjárlaganna.

Nú er að finna nokkur orð um fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þar er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins fái 7.3 milljarða kr. af sölu verðbréfa, skyldusparnaðarfé sé 8.5 milljarðar og lántaka hjá Atvinnuleysistryggingasjóði sé 2.2 milljarðar. Og þar segir að með þessu sé gert ráð fyrir að heildarútlán sjóðsins séu 22.3 milljarðar á þessu ári og hækkunin nemi 45.3% frá árinu 1979.

Mér er ekki ljóst hvernig þessi tala, 22.3 milljarðar, er fengin, ef það er ekki prentvilla eða annað slíkt, því þetta er ekki rétt tala miðað við áætlun þá sem húsnæðismálastjórn hefur gert um útlán ársins í ár og gerði 21. febr. s.1. Þar er gert ráð fyrir-að það þurfi 23.2 milljarða. En látum þetta vera. Hér er gert ráð fyrir að í stað þess að veðlánakerfið haldi óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði, þá sé því gert að afla fjár í staðinn á hinum almenna lánamarkaði með þeim kjörum sem þar eru. En sagan er ekki öll sögð með þessu. Hún er ekki nema hálfsögð.

Fyrir þinginu liggur frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að verkefni Byggingarsjóðsins sé stóraukið frá því sem nú er. Í grg. með frv., sem ekki verða bornar brigður á, er gert ráð fyrir að þessi aukning kosti, þegar til framkvæmda er komin, um 10 milljarða kr. á ársgrundvelli á verðlagi ársins 1979. Nú er það augljóst mál, að það er tómt skrum og verra en skrum að ætla að samþykkja þessi auknu verkefni fyrir íbúðalánakerfið nema því sé séð fyrir tekjustofnum á móti. Það er ekki gert í þessu frv. Síðustu fréttir af þessu máli eru þær, að ríkisstj. sé búin að ákveða að fá þetta frv. afgreitt á þessu þingi. Að undirlagi ríkisstj. voru afhentar hátt í 100, eða 80 brtt. við þetta frv. í hv. félmn. Ed. í morgun. En ég hygg að mér sé óhætt að segja hér að þar finnist engin raunhæf tillaga um fjáröflun fyrir kerfið.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar. Því minnist ég á það, að ég hygg að það sé á sama veg og sá þáttur orkumálanna, sem ég reifaði hér áðan, gott dæmi um vinnubrögð hæstv. ríkisstj. og gott dæmi um það, hvers virði fjöldamargt er í þessari skýrslu sem við nú ræðum. Því miður, það verður að segjast eins og er, er það léttvægt fundið.