06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég mun svara nokkrum atriðum og fsp., sem beint hefur verið til mín, og skýra og leiðrétta fáein atriði, sem fram hafa komið, og skal reyna að lengja þessar umræður ekki um of.

Tveir hv. þm. spurðu hvers vegna forsrh. talaði fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, en ekki fjmrh. því er til að svara, að í lögum um stjórn efnahagsmála er svo ákveðið, að ríkisstj. skuli leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir, að þessar áætlanir skuli undirbúnar á vegum ríkisstj. og fleiri ákvæði í þá átt. Hins vegar er það auðvitað ljóst, að frv. um heimildir til lántöku innanlands og utan og ríkisábyrgðir, eða frv. til lánsfjárlaga eins og það er nú kallað, er að sjálfsögðu borið fram af fjmrh. Það var álit ríkisstj., að miðað við ákvæði laganna og eðli málsins væri eðlilegast að forsrh. fylgdi þessari skýrslu úr hlaði. Lögin um stjórn efnahagsmála, þar sem þetta er einn kaflinn, voru einnig flutt af forsrh. á sínum tíma og undirrituð til staðfestingar af forsrh.

Þá var um það spurt, hvort haft hefði verið samráð samkv. þessum sömu lögum við ýmsa aðila vinnumarkaðarins, eins og gert er ráð fyrir. Þá er því fyrst til að svara, að það er engin skylda í lögum að bera fjárfestingar- og lánsfjáráætlun undir þessa aðila, sem samráðsákvæðin fjalla um, áður en lagt er fyrir Alþingi. Hins vegar vil ég út af þessari fsp. taka það fram, að ákvæði laganna um samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda hafa ekki enn komið til framkvæmda. Á s. l. hausti mun hafa verið sett reglugerð um framkvæmd þessa samstarfs, en ríkisstj. Alþfl., sem sat í fjóra mánuði, efndi ekki til þessa samráðs og núv. ríkisstj. hefur ekki gert það enn, en það er að sjálfsögðu haft í huga og í undirbúningi. Annars vil ég minna hv. fyrirspyrjanda, 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, á það, að hann stóð að löggjöf á sinum tíma, ég held 1966, um hagráð, þar sem átti að vera samstarfsvettvangur og hvorki meira né minna en ég ætla 20 aðilar, félög og félagasamtök áttu þar að tilnefna fulltrúa. En þau 5 eða 6 ár, sem þau lög voru í gildi, mun þetta hagráð aldrei hafa verið kallað saman til fundar.

Þá var á það minnst af einum eða fleiri þm., að brotið væri það ákvæði í stjórnarsáttmálanum að fjárfesting skyldi nema fjórðungi af þjóðarframleiðslu, en fjárfestingin væri samkv. þessari áætlun 26.5%. Nú vil ég minna á það, að það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að fjárfestingin skuli vera fjórðungur, heldur um fjórðungur. Vitanlega þurfti að hafa hér nokkurt svigrúm því að við töldum heldur óeðlilegt og í rauninni óframkvæmanlegt að hafa hér ákveðna prósentu um fjárfestingu miðaða við spá um þjóðarframleiðslu, ég tala nú ekki um að hafa það t. d. eins og einhverjir hv. Alþfl.-menn vildu á sínum tíma og lögðu til, að fjárfestingin ætti að vera 24.5% af þjóðarframleiðslunni. Við höfðum hér vaðið fyrir neðan okkur og nefndum sem stefnumark um fjórðung. Ef menn spyrja nánar hvað það þýði, þá skal ég ekki tiltaka neinar prósentur, en þó minna á að í íslenskum lögum eru skýringar í vissum samböndum á því t. d. hvernig eigi að túlka orðin „um það bil“ þar sem svigrúm er ákveðið 5–10%. Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram með nokkrum rökum, þó að miðað sé við þær spár, sem nú liggja fyrir um fjárfestingu og þjóðarframleiðslu, sé fjárfestingin áætluð 26%, að það sé brot á stjórnarsáttmálanum, sem nefnir „um fjórðung.“

Þá hefur hv. þm. orðið tíðrætt um greiðslubyrði erlendra skulda, en í stjórnarsáttmálanum er svo komist að orði, að stefnt skuli að því að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u. þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar næsta ár. Hér segir „u. þ. b. 15%.“ Auk þess vil ég minna á það, sem sumir hv. þm. sleppa alltaf eða oftast, að það stendur skýrum stöfum að efri mörk erlendra lántaka verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar. Vitanlega var það haft í huga, að hér væri unnt að víkja frá og stofna til meiri lántaka vegna framkvæmda sem sérstaklega væru gjaldeyrisaflandi eða gjaldeyrissparandi. Það er einmitt þetta sem nú hefur gerst. Vegna hinna óvenjumiklu framkvæmda við rafvirkjanir og hitaveitur hefur þótt rétt, þar sem um er að ræða gjaldeyrisöflun og gjaldeyrissparnað, að fara nokkuð fram úr þessu ákvæði eins og beinlínis er gert ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum. Það er ekki heiðarlegur málflutningur að taka aðeins þessa einu tölu þarna út úr, en sleppa skýringunum.

Í annan stað er þess að gæta, að eins og komið hefur fram að undanförnu, bæði í skýrslum Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar, eru menn komnir að þeirri niðurstöðu að önnur viðmiðun erlendra skulda sé skynsamlegri og réttari en hlutfall greiðslubyrðar af útflutningstekjum. Það hefur verið skýrt hér og þarf ég í rauninni ekki að endurtaka það. Sannleikurinn er sá og kannske sjá menn það gleggst af því, að vegna þess að erlendir vextir hafa hækkað mundi greiðslubyrði okkar nú í ár væntanlega hækka frá síðasta ári í prósentu þó að engin ný lán verði tekin, þó að skuldir landsins hækkuðu ekki.

Sú viðmiðun, sem þarna er gerð, hefur verið lengi í gildi og viðurkennd sem sú heppilegasta. En eins og ég tók fram hafa þær stofnanir, sem ég nefndi, nú upp á síðkastið talið að æskilegra væri að miða við skuldaupphæðina í heild og þjóðarframleiðslu, og miðað við það mark yrðu skuldirnar nú í ár svipaðar og á s.1. ári eða kannske ívið lægri.

Hér hefur einnig komið fram önnur aths. við þessa viðmiðun skuldabyrðarinnar við útflutningsframleiðsluna, sem er sú, að þar kemur ekki fram sá hagnaður sem er t. d. af lántökum vegna hitaveitna, af því að hann kemur ekki fram í okkar útflutningstekjum, heldur í minnkuðum innflutningi eða sparnaði á útgjöldum vegna olíukaupa.

Þá var því hreyft hér, að mörkin fyrir verðhækkunum í stjórnarsáttmálanum væru ákveðin nú fyrir maí og júní 8% og þar sem framfærsluvísitalan mundi hækka um 12–13% væri ekki staðið við þessi fyrirheit og stefna ríkisstj, í rauninni hrunin.

Þetta er líka málflutningur sem ekki er sæmandi hér í þingi, vegna þess að það kemur skýrt fram í þessum ákvæðum hvað við er átt. Það er átt við að stefnt skuli að því, að verðhækkanir almennt skuli ekki leyfðar hærri en 8% á þessu tímabili frá febrúar til maí. Hins vegar segir skýrum stöfum í þessum kafla um verðlagsmál, að fyrir maí-júní 1980 skuli afgreiddar sérstaklega hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma sem framangreind mörk setja. Það var öllum ljóst þegar stjórnin var mynduð, að ýmiss konar verðhækkunarþarfir sem varð að leysa, höfðu safnast fyrir. Ég held að þetta hafi komið mjög skýrt fram í stjórnarmyndunarviðræðum sem fóru fram í tvo mánuði. A. m, k. var oft skýrt frá því, að þarna væri um uppsafnaðan eða geymdan vanda að ræða sem þyrfti að leysa. Þetta er sérstaklega tekið fram í stjórnarsáttmálanum. Það hefur þurft af þessum ástæðum að hleypa í gegn margvíslegum verðhækkunum, óhjákvæmilegum, sem voru meiri en 8%. Þess vegna var líka ljóst frá byrjun að framfærsluvísitalan mundi hækka meira nú í maímánuði en þessi 8% viðmiðunarmörk gerðu ráð fyrir. Þess vegna er alrangt þegar því er haldið fram, að sú vísitala, sem við höfum nú, með 12–13% hækkun, þýði það að stefnumörkun ríkisstj. í þessum málum hafi gengið úr skorðum. Það mun stefnt áfram hiklaust að því marki sem þarna er sett, þ. e. 7% og 5% síðar á árinu.

Það er rétt að nefna það aftur í sambandi við greiðslubyrðina 15%, að einn hv. þm. — mig minnir að það hafi verið hv. þm. Sighvatur Björgvinsson — sagði að þessi 15% hefðu gengið svo úr lagi hjá okkur að í skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun væru nefndar tvær mismunandi tölur á tveim stöðum sem sýndu miklu hærri greiðslubyrði. Hann sagði að á einum stað stæði 16% og öðrum stað 16–17. Honum fannst þetta ákaflega alvarlegt ósamræmi í skýrslunni. Ósamræmið er ekki í skýrslunni, heldur í hv. þm. sjálfum. Það stendur á bls. 5 í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni að það sé áætlun Seðlabankans að greiðslubyrðin verði á þessu ári rúm 16%. Hv. þm. sleppti orðinu „rúm“ 16%. Á bls. 22 er gert ráð fyrir að hún verði 16–17%. Ég veit ekki betur en rúm 16% séu á milli 16 og 17%. Ég sé því ekki að hér sé um ósamræmi að ræða í skýrslunni.

Það hefur auðvitað komið hér glögglega fram, að þeir, sem talað hafa frá, stjórnarandstöðunni og gagnrýnt lánsfjáráætlunina, eru sitt á hvoru máli innbyrðis. Stangast þar ákaflega margt á, þar sem sumir telja að hér sé um allt of miklar lántökur og óhæfilega skuldasöfnun að ræða, en aðrir hamast við í löngum ræðum og af miklum þrótti að gagnrýna það, hvað allt of litlu fé sé varið til ýmissa framkvæmda og þurfi því að fá miklu meiri lántökur til þeirra. Þetta er kannske mannlegt og ekkert um það að segja. En vegna gagnrýni í þá átt, að í ýmsum greinum sé áætlað allt of lítið fé til raforkuframkvæmda vil ég þó minna á að raforkuframkvæmdir samkv. þessari áætlun aukast um 46% frá síðasta ári og hitaveituframkvæmdir aukast um 17% frá síðasta ári.

Einn hv. þm., Birgir Ísl. Gunnarsson, gagnrýndi það að hlutfall opinberra framkvæmda aukist verulega samkv. þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Hann orðaði það þannig, að með þessari áætlun væri verið að draga fjármagn í ríkishítina, hún væri ekki samin með hagsmuni atvinnulífsins í huga. Nú vill svo til að þessi hv. þm. á sæti í stjórn Landsvirkjunar og langsamlegasta stærsta fjárhæðin í þessari lánsfjáráætlun, 31 milljarður, er ætluð til framkvæmda Landsvirkjunar, Hrauneyjafossvirkjunar. Mér þykir harla undarlegt ef stjórnarmaður í Landsvirkjun telur að með því sé gengið á hagsmuni atvinnulífsins eða atvinnuveganna. Ég hélt sannast sagna að hver einasti maður vissi að einmitt Hrauneyjafossvirkjun og þessar orkuframkvæmdir eru grundvöllur atvinnulífsins í landinu. Það er heldur undarlegur málflutningur að nota þann orðaleik, að opinberar framkvæmdir aukist stórkostlega á kostnað atvinnulífsins, þegar málum er svo háttað hér í okkar landi að einmitt virkjunarframkvæmdir, sem eru undirstaða atvinnuveganna, eru á vegum hins opinbera. A. m. k. situr það síst á manni úr stjórn Landsvirkjunar, sem hefur þar auðvitað samþykkt og sótt fast að sjálfsögðu, eins og líka nauðsynlegt var, að fá nægilegt fé til Hrauneyjafossvirkjunar, sem er hvorki meira né minna en framkvæmd upp á 31 milljarð á þessu ári.

Þessi sami hv. þm., Birgir Ísl. Gunnarsson, taldi að þessi fjárfestingar- og lárisfjáráætlun væri áframhald af því sem gerst hefði að undanförnu, því að lamandi hönd opinberra afskipta á atvinnumálum hefði ráðið ríkjum í síðustu 10 ár hér á landi. Nú vill svo einkennilega til, að á þessum 10 síðustu árum hefur Sjálfstfl. haft forustu í ríkisstj. meira en helming þess tímabils, eða í 5'Is úr ári. Ég held því að hv. þm. ætti fremur að beina þessari aths. sinni til formanns Sjálfstfl.