06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég vildi ekki sitja undir því sem hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni áðan, að ég hefði gefið, eins og hann orðaði það, víllandi upplýsingar um þau mál sem ég ræddi og voru aðallega um fjármögnun Orkusjóðs. Það hefði verið villandi sem ég hefði sagt um það fjármagn sem veitt væri Orkusjóði til hitaveituframkvæmda, vegna þess að það væri líka gert ráð fyrir því að Lánasjóður sveitarfélaga veitti lán til hitaveituframkvæmda. Þetta breytir í engu því sem ég sagði. Ég vísa því heim til föðurhúsanna að það séu nokkrar villandi upplýsingar í því efni. Ég sagði nákvæmlega það sem rétt er. Ég vissi — og það vita allir sem eitthvað vita um þessi mál — að Lánasjóður sveitarfélaga hefur á undanförnum árum veitt lán til hitaveituframkvæmda. Hann gerir það líka í ár, þannig að það breytir engu í því efni sem ég ræddi um.

Hæstv, iðnrh. fór lofsamlegum orðum um áhuga minn á orkumálum og ég kann að sjálfsögðu að meta það. En honum varð dálítið á í messunni þegar hann ruglaði því saman að hafa áhuga á orkumálum og vera á milli vita. Hann vildi telja að ég væri milli vita vegna þess að ég hefði áhuga á orkumálum. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. og ég vil nú leyfa mér að vona að hann vari sig sjálfur á þessum misskilningi og verði ekki milli vita í orkumálunum.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf. — fyrst ég er staðinn upp ætla ég að víkja einu orði að honum hann sagði að það hefði verið ósanngjarn samanburður sem ég hefði gert á Vestfjörðum og öðrum byggðarlögum varðandi orkuframkvæmdir, því að ég hefði ekki haft í huga Vesturlínuna og þau miklu fjárframlög sem til hennar ganga. Auðvitað hafði ég ekki gleymt Vesturlínunni.

En mér kom aldrei til hugar að blanda henni inn í mál mitt þegar ég var að gera samanburð. Ég hef aldrei vitað til þess, að nokkur landshluti, sem hefur fengið byggðalínu, hafi verið látinn gjalda þess í öðrum orkuframkvæmdum. Það hefur verið talið sjálfsagt mál. Og þessu má enginn halda fram og allra síst þm. Vestf. (Gripið fram í.)

Hæstv. forsrh. — (Gripið fram í: Hann er farinn.) Hann er farinn, segir einhver þm. En ég get ekki látið vera að víkja aðeins einu eða tveimur orðum að því sem hann sagði. Hann sagði m. a. að við í stjórnarandstöðunni værum ekki sammála innbyrðis, værum sundurþykkir inn á við, vegna þess að sumir héldu langar ræður um að það þyrfti að auka útgjöld til orkumála, en aðrir væru að tala um að það þyrfti að draga úr útgjöldunum. Það er reginmisskilningur hjá hæstv. forsrh., að þetta geti ekki farið saman. Það er einmitt þetta sem verður að fara saman, ef á að vera eitthvert vit í því þegar menn segja, hvað þá heilar ríkisstjórnir, að eitthvert mál eigi að hafa forgang. Þegar, talað er um að eitthvert mál eigi að hafa forgang, þá þýðir það ekki að það eigi að koma útgjöld ofan á allt hugsanlegt annað. Það þýðir það, að menn hafi myndugleik til þess að velja og hafna, draga úr einu og auka annað.

Hæstv. forsrh. talaði — mér liggur við að segja: ákaflega drýgindalega um að framlög til orkumála, sem eiga að hafa forgang samkv. stjórnarsáttmálanum, hafi aldeilis aukist. Hann nefndi um 45%. (Forsrh.: 46.) 46, ég bið afsökunar, það er einu prósenti meira, 46. Og hæstv. forsrh. leyfir sér að bera á borð fyrir okkur að þetta sé einhver sönnun fyrir því, að vel hafi verið gert í orkumálunum. Ég bara minni í þessu sambandi á þær upplýsingar sem hafa legið fyrir okkur síðan við fengum í hendur fjárlagafrv. Þar er m. a. skýrsla um það, hvað hinir einstöku útgjaldaliðir ríkisins hafa aukist frá fjárlögum síðasta árs. Launin hafa aukist um 77.3%, önnur rekstrargjöld um 53.3%, viðhald um 54.4%, almannatryggingar um 80.6%, hreinar ríkisframkvæmdir um 77.9%. Ég gæti haldið áfram. Allar þessar upplýsingar sýna að aukningin í orkuframkvæmdunum heldur ekki í við aukninguna í heild, því að samkv. þessum upplýsingum hækka rekstrarliðir og rekstrartilfærslur um 70.5% og framkvæmdaframlög í heild um 65.3%. Svo stendur hæstv. forsrh. upp og gumar af því, að orkuframkvæmdir hafi hækkað um 46%. Nei, þetta er ekki hægt.

Svo er eitt sem hæstv. forsrh. gerði mikið úr, og það var að það stæðist allt sem segði í stjórnarsáttmálanum. Hann taldi upp ótal dæmi og alltaf stóðst það. En það var náttúrlega mikið hagræði fyrir hann að gera sér þá reglu, að það mætti kannske muna 5–10% hvort það stæðist eða ekki. En alltaf stóðst það.

Þegar ég var að hlusta á hæstv. forsrh. var hann búinn að telja upp svo mörg ákvæði stjórnarsáttmálans að ég fór að hugsa um þau sem hann hefði ekki talið upp. Og þá datt mér í hug þegar hann var að kenna mér og öðrum fræðin í lögfræðideild Háskólans, að ég man ekki betur — (Gripið fram í: Það hefur gengið misjafnlega.) — en eitt af því, sem við lærðum, væri að undir vissum kringumstæðum mætti gagnálykta. Ég fór því að gagnálykta og ef maður gagnályktar þýðir það að við þau atriði, sem hann taldi ekki upp, hafi ekki verið staðið. Ég held að ég verði að halda mig við þennan þankagang þar til annað reynist sannara. Og ég veit að hæstv. forsrh. verður mjög hjálplegur að staðfesta þetta sem ég hef nú verið að segja. Hann gæti kannske bara staðfest það með því að svara þeirri spurningu, hvort staðið hafi verið við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árin 1980–1982. En á bls. 15 í stjórnarsáttmálanum segir: „Staðið verði við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árin 1980–1982.“

Samkv. reglunni um gagnályktun hefur ekki verið staðið við þetta frekar en annað sem hann hefur ekki tekið fram.