06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gerði í lok ræðu sinnar áðan að umtalsefni tvö atriði sem komu fram í minni ræðu: Annars vegar að ég gagnrýndi að hlutur opinberra framkvæmda í heildarfjármagnsmyndun á þessu ári yxi mjög verulega á kostnað fjármunamyndunar í atvinnuvegunum. Það er rétt að þessa gagnrýni hafði ég uppi. En hæstv. forsrh. vildi svara því á þann veg, að stærsti hluti af hinum opinberu framkvæmdum væru orkuframkvæmdir og þá á vegum Landsvirkjunar, en ég á sæti í stjórn þess fyrirtækis, og ég hefði vissulega átt þátt í að efna til þeirra framkvæmda.

Ég fagna því, að svo stór hluti fjármagns til hinna opinberu framkvæmda skuli fara til virkjana. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan, að ég gagnrýndi ekki þann þátt í erlendum lántökum sem færi til jafnarðbærra framkvæmda og virkjanir eru. En ég legg áherslu á það, að auðvitað verður eitthvað að draga úr á móti þegar virkjunarframkvæmdir eru jafnríkur þáttur í framkvæmdum hins opinbera og raun ber vitni. Þá er ekki hægt að gera allt í einu og verður að draga þar eitthvað úr á móti, en ekki halda alls staðar áfram á fullri ferð. Það má ekki heldur draga fjármagn af innlendum lánsfjármarkaði til ríkisins, eins og gert er ráð fyrir í þessari lánsfjáráætlun.

Hitt atriðið, sem hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni, var að ég orðaði það einhvern veginn á þá leið í minni ræðu, að ég telji að nú verði að víkja af þeirri braut ríkisafskipta sem einkennt hefði stjórn efnahagsmála síðustu 10 ár. Ég skal ítreka þau ummæli og endurtaka þau, þrátt fyrir það að mér sé fullljóst að Sjálfstfl. hafi átt þátt í ríkisstj. á þessu tímabili, ekki síst á árunum 1974–1978. En við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram — og ég hygg meira að segja að hæstv. forsrh. hafi stundum sameinast okkur hinum í þeirri skoðun, að ástæðan fyrir því, að ekki tókst á árunum 1974–1978 að snúa af þeirri braut ríkisafskipta sem vinstri stjórnin 1971–1974 markaði, hafi verið sú, að Framsfl. sýndi mikinn óvilja í þá átt að fara af þeirri braut. Það var eðlilegt út af fyrir sig þegar haft er í huga að forsrh. þeirrar stjórnar, Ólafur Jóhannesson, hæstv. utanrrh., tók þátt í stjórninni 1974–1978. Við höfum haldið því fram, sjálfstæðismenn, að hann hafi verið mjög ófús að hverfa frá þeirri ríkisafskiptabraut sem hann markaði með fyrri vinstri stjórninni. En satt að segja efast ég núna um að sú skoðun okkar haldi, að það hafi verið framsóknarmenn, sem hafi einir staðið þarna á móti. Þegar ég sé og heyri nú skoðanir hæstv. forsrh. á ríkisafskiptum og ríkisumsvifum, eins og hann kynnir þær hér, þá hygg ég að það hafi verið fleiri en framsóknarmenn í ríkisstj. 1974 –78 sem ekki hafi viljað snúa af þeirri braut.