06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að bæta á innbyrðis erjur þeirra sjálfstæðismanna. En mig langar til að beina einni spurningu til hæstv. forsrh., af því að hann er hér í salnum, vegna sérkennilegs orðalags eða orðaskýringa sem hann kom með áðan.

Hann gat þess, að um fjórðungur gæti jafngilt 26.5%. Og skilgreiningin á orðunum „um það bil“ og „ca.“ gæti verið á bilinu 5–10%.

Hæstv. forsrh. hefur á undanförnum dögum margendurtekið það í viðtölum við fjölmiðla, að verðbólgan á þessu ári yrði um 40% eða u. þ. b. 40%. Ber þá að skilja það svo, að verðbólgan á þessu ári verði 45 eða 50% samkvæmt þessum orðaskýringum?