06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það skal aldrei verða að ég tefji þessar umr., enda hef ég fleiri störfum að gegna. En þær skýringar, sem hæstv. forsrh. hefur gefið á þeim brigðum sem þegar eru orðin á stjórnarsáttmálanum, eru fáheyrðasti útúrsnúningur sem ég hef heyrt í samanlagðri þingsetu minni, sér í lagi sú síðasta, þar sem stendur — ég man það orði til orðs: „Staðið verði við þá vegáætlun sem samþ. var fyrir árin 1980–1982 og afgreidd hér í þingi í fyrra.“ Svo á að skjóta sér á bak við það, að þáv. hæstv. fjmrh., hv. þm., Sighvatur Björgvinsson, hafi lagt eitthvað til í starfsstjórn Alþfl. Það kemur þessu orðalagi ekkert við.

Ég nenni ekki og hef engan tíma til að elta ólar við aðrar skýringar í þessu sambandi, sem margar koma manni í opna skjöldu og kann vel að vera að ýmsar bakdyr séu hálfopnar til að smjúga út um af þeim sem sulluðu þessu hrófatildri .upp á sínum tíma sem heitir stjórnarsáttmáli. En það tekur steininn úr varðandi þetta orðalag, sem er svo tvímælalaust sem nokkurt orðalag getur verið. Við höfum vegáætlun samþykkta á síðasta þingi, þinginu fyrir ári. Það er sú vegáætlun sem gildir fyrir árin 1980–1982. Og það er tvímælalaus, bein yfirlýsing án nokkurra undanbragða á öftustu síðu í stjórnarsáttmálanum um að staðið verði við hana. (Gripið fram í: Um það bil.) Nei, það er alls ekki svo. Það er hvorki ca. eða hér um bil, um það bil eða about. Það er ekkert af þessu. Það er tvímælalaus, skilyrðislaus yfirlýsing, óvefengjanleg. Fleira var það ekki að sinni.