21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir og tel mig knúinn til að taka hér til máls utan dagskrár og vil beina orðum mínum til hæstv. fjmrh., þó að þau málefni, sem ég hér geri að umræðuefni, heyri e.t.v. einnig undir önnur rn. En hér er um að ræða greiðslur úr ríkissjóði, og vona ég að ekki verði talið óeðlilegt að ég beini orðum mínum til hæstv. fjmrh, fyrst og fremst.

Hér er um að ræða niðurgreiðslur á vöruverði og greiðslu útflutningsbóta vegna útfluttra landbúnaðarvara. Mér er tjáð að greiðsluskylda ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna nú í desembermánuði sé rúmir 1.7 milljarðar. Allir hv. alþm. vita hvers konar greiðslur er um að ræða. Þetta er hluti af verði búvara sem seldar voru í nóvembermánuði s.l. Vinnslustöðvar landbúnaðarins fá afurðalán hver hjá sínum viðskiptabanka eins og kunnugt er. Seðlabankinn endurkaupir svo lánin að 2/3 hlutum. Um hver mánaðamót skilar hver vinnslustöð birgðaskýrslu til banka síns, og ef um minnkun á birgðum er að ræða verður hún að standa bankanum skil á andvirði hinnar seldu vöru síðari hluta mánaðarins á eftir. Í þessu tilfelli kemur þessi upphæð, sem um er að ræða nú, til greiðslu til bankans 27. þ, m. vegna nóvembersölunnar.

En með hverju eiga vinnslustöðvarnar að greiða þar sem þær hafa ekki fengið nema hluta af verði þeirrar vöru, sem veðsett var og þær þurfa að standa skil á, sem eins og áður segir er 1.7 mill jarðar kr.? Nú er mér tjáð að samkv. greiðsluáætlun ríkissjóðs eigi ekki að inna þessa greiðslu af hendi fyrr en 8. jan. n.k. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé rétt, að fyrirhugað sé að inna þessa greiðslu ekki af hendi nú fyrir áramót. Ríkið gengur nú mjög hart eftir að allir standi í skilum, og ef út af ber, þá lætur það alla, sem ekki standa í skilum, borga dráttarvexti, sem eru nú 4.5% á mánuði, og gerir engan mun á þótt ríkið sjálft skuldi sama aðila stórfé sem er gjaldfallið. En sá er munurinn, að ríkið neitar að greiða vexti, hvað þá dráttarvexti, vegna sinna vanskila.

Einnig eru nú ógreiddar útflutningsbætur vegna útfluttra búvara að upphæð 1 milljarður 477 millj. kr. Þessar greiðslur, sem ríkið á að standa skil á, eru því samtals 3.1 milljarður. Það munar um minna, ekki síst í árferði eins og nú hefur gengið yfir landbúnaðinn. Hinn 28. des. 1978 var gerð samþykkt á ríkisstjórnarfundi um að inna greiðslur af hendi vegna útflutningsbóta jafnóðum og fyrir lægju reikningar þeirra vegna. Fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru gerð með tilliti til þessarar samþykktar. Á sama ríkisstjórnarfundi var samþykkt að greiða úr ríkissjóði geymslu- og vaxtakostnað vegna birgða jafnóðum og þessar greiðslur falla til. Ég veit ekki betur en það hafi verið farið eftir þessum samþykktum að öllu leyti af fyrrv. ríkisstj., þ.e. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort þessar 1477 millj. vegna útflutningsbóta verði ekki greiddar Framleiðsluráði nú fyrir áramót samkv. þessari samþykkt.

Á sama fundi var, eins og ég sagði áðan, tekin ákvörðun um geymslu- og vaxtakostnaðinn, og ég vil líka spyrja að því, hvort þær greiðslur verði ekki inntar af hendi á sama hátt og gert var af fyrrv. fjmrh., Tómasi Árnasyni.