06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði að hann hefði ekki sóma af sínum lærisveini og honum var mikið niðri fyrir út af því. Ég undrast að hann skyldi láta sér detta í hug að ég gæti tekið þátt í þessum umr. í dag á þann veg að hann hefði nokkurn sóma af. Ég vil segja við hæstv. forsrh., að hann skal ekki hafa neinar áhyggjur af mér í þessu efni. En ég hygg að hann megi gæta að því, hvern sóma hann hefur haft af þessum umr., hvern sóma hann hefur haft af þeim málum, sem við höfum verið að ræða í dag, og hvern sóma hann hefur haft og umfram allt á eftir að hafa af þeirri ríkisstj. sem hann hefur myndað.