07.05.1980
Neðri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 180 er frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980, en það er í reynd sama málið sem hér hefur verið til umr. í allan dag, en þó að því leyti frábrugðið að þetta er tæknileg útfærsla málsins meðan aftur á móti skýrslan, sem hér hefur verið til umr. í dag, er heildaryfirlit yfir framkvæmdir og lánsfjárútvegun.

Það hefðu sannarlega verið næg tilefni til að taka þátt í þeirri umr. undir lokin og svara ýmsu sem fram kom í umr. í dag. En ég stillti mig um að fara að bætast þar í hóp vegna þess að mjög er áliðið og næg tækifæri til þess að ræða um efni lánsfjáráætlunar á síðara stigi, við síðari umræður.

Hér voru bornar fram spurningar til mín í dag, sumar eðlilegar og efnislegar, en aðrar í hæpnasta lagi, þar sem svörin við þeim voru flest komin í fyrstu ræðu minni hér í dag. En þar sem fyrirspyrjandinn er nú fjarri góðu gamni, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þá held ég að ég geymi mér að svara þessum spurningum, enda segi ég það alveg hreinskilnislega, að ég vil frekar forðast að egna menn hér í stórum stíl upp í ræðustól til umr. um þetta mál, úr því að svo seint er orðið, svo áliðið kvölds, vil sem sagt ekki vekja upp neina drauga.

En ég vil segja það um þetta frv., að fyrstu 11 greinarnar fjalla um þær heimildir sem tengjast lánsfjáráætlun. Ég vil þó sérstaklega láta þess getið, að í ræðu minni í dag tók ég það fram, að 3. gr. frv. þyrfti nánari athugunar við, en hún fjallar um öflun lánsfjár frá lífeyrissjóðunum. Þessi grein er að vísu í megindráttum hliðstæð grein sem var í lánsfjárlögum á seinasta ári. Þar er ekki stór munur á, og satt að segja undraðist ég mjög umræður sem urðu hér í dag þar sem menn voru með miklar yfirlýsingar um að nú væri verið að stíga eitthvert stórt og nýtt og afdrifaríkt skref í þessum efnum. En það er ekki. Breytingin er fyrst og fremst fólgin í því, að nú eru lífeyrissjóðirnir skyldaðir til þess að leggja fé fram til Byggingarsjóðs ríkisins, Framkvæmdasjóðs Íslands og til orkuframkvæmda á vegum ríkissjóðs. Prósentutalan er sú sama og áður, 40%. Ég vil sem sagt ítreka það sem ég sagði í dag, að það hafa átt sér stað viðræður við lífeyrissjóðina frá því í seinustu viku um þetta mál og má vel vera að samkomulag takist um tilhögun þessara mála nú í vikunni, og þá tel ég eðlilegt að þessari grein verði breytt við meðferð málsins í nefnd.

Síðari greinar frv., 12–26., eru hins vegar allar tengdar fjárlagaafgreiðslunni, ekki nýjar efnislegar ákvarðanir, heldur ákvarðanir sem koma í beinu framhaldi af þeim ákvörðunum sem fólust í afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil svo aðeins að lokum svara spurningum frá hv. þm. Matthíasi A. Mathiesen sem hér er viðstaddur til að taka við svarinu. Hann spurði að því, hvort ekki væri von til þess að ríkisreikningur fyrir árið 1979, A-hluti, yrði lagður fram í þinginu áður en þinglausnir yrðu, og í öðru lagi, hvort ekki yrði gefin skýrsla um stöðu ríkissjóðs. Ég vil sem sagt svara báðum þessum spurningum játandi. Að vísu er það svo, að það verður í allra tæpasta lagi að takist að koma saman og prenta A-hluta ríkisreikningsins, og ég get því ekki fullyrt það 100%. Ætli ég verði ekki að hafa svo sem eins og 5–10% afföll af þeirri fullyrðingu? En það verður allt gert sem hægt verður til þess að tryggja að ríkisreikningurinn verði lagður hér fram.