07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða við 1. umr. að fagna því, að þetta mál er komið fram á Alþingi, og þakka hæstv. ráðh. fyrir að leggja það fram. Ég sé ekki betur en hér sé hreyft mjög merku máli og mikilvægu fyrir eflingu iðnaðar í landinu. Það má raunar sjá þegar á 1. gr. frv. að tilgangur þess er slíkur og er vert að taka mjög undir það markmið sem er sett í þeirri grein.

Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði að gera sér grein fyrir því að iðnaður er sú atvinnugrein sem við verðum fyrst og fremst að byggja á aukna atvinnu á næstu árum. Það verður ekki séð að við getum gert það með öðrum hætti. Við vitum að markaður í okkar ágæta landi er þröngur fyrir iðnaðarvörur. Þess vegna er útilokað að ná því markmiði að efla íslenskt atvinnulíf á næstu árum öðruvísi en að til komi útflutningsiðnaður og að útflutningsiðnaðurinn eflist. En því miður hefur það verið svo undanfarin ár, og það vita þeir best sem hafa komið nálægt útflutningsiðnaði, að það hefur verið verulegur tröppugangur á því hvernig búið hefur verið að þessum iðnaði.

Taka verður fram að það eru ekki alltaf stjórnvöld sem þarna ráða öllu. En það er svo, að atvinnumálastefna okkar hefur verið nokkuð hefðbundin að því er varðar útflutning á íslenskum afurðum. Við vitum að sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem er yfirgnæfandi. Hann er langmikilvægasta atvinnugreinin að því er varðar íslenskar útflutningsafurðir. Þá hefur það tíðkast um áratugaskeið að miða efnahagsstefnu okkar fyrst og fremst við afkomu hefðbundinna sjávarútvegsgreina. Nú er það svo, að sjávarútvegurinn hefur oft og tíðum ekkert verið ofhaldinn af því sem hann hefur átt við að búa á þessu sviði. Margir eru þeir forráðamenn sjávarútvegsins sem halda því fram að síst sé betur að honum búið en t, d. útflutningsiðnaðinum. En ég vil benda á eitt augljóst atriði í þessu sambandi. Gengisskráning, sem skiptir mjög verulegu máli fyrir þá sem flytja út vörur hvernig að er staðið, hefur oftast verið miðuð við afkomu sjávarútvegsins og þá yfirleitt þannig að sjávarútvegurinn hafi nokkurn veginn afkomumöguleika og miðuð við núllpunktinn í rekstri sjávarútvegsins. Ef eitthvað happ kemur fyrir í sjávarútvegi, verð hækkar skyndilega á fiski í Bandaríkjunum, er tilhneigingin sú að gengið sé við það miðað og ekki látið síga eins hratt og annars væri. Það þýðir að menn, sem eru að baksa við að búa til ullarvörur og flytja þær út, þurfa að fá tiltölulega hærra verð af því að fiskverð í Bandaríkjunum t. d. hefur hækkað. Þannig hefur þetta verið í gegnum árin, að efnahagsstefna okkar á þessu svíði, að því er varðar gengisskráningu og að því er varðar útflutning á hinum ýmsu vörum, hefur verið of einhæf að mínu mati og á þessu sviði þyrftum við að gera úttekt og athuga hvort við gætum ekki með einhverjum hætti skapað hagstæð skilyrði, fyrir þessar útflutningsgreinar, bæði fyrir sjávarútveginn og fyrir útflutningsiðnaðinn.

Þetta má auðvitað gera með ýmsum hætti, m. a. með því að beita jöfnunarsjóðum meira en við höfum gert. Við höfum t. d. Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, en eins og við vitum hefur honum verið beitt þannig undanfarin ár að hann hefur að litlu leyti verkað sem jöfnunarsjóður og allt öðruvísi en hann var upphaflega hugsaður.

Ég held að það verði ekki hjá því komist þegar verið er að ræða um eflingu útflutningsiðnaðar að benda mjög rækilega á að okkur hefur skort nægilega fastmótaða stefnu á þessu svíði þannig að útflutningsiðnaðurinn gæti haft verulega möguleika á að eflast á undanförnum árum. Er ég þá ekki að ásaka einn eða annan í þessu sambandi, aðeins að benda á að hér er umbóta og breytinga þörf.

Við vitum að útflutningsiðnaðurinn hefur átt við sérstaka erfiðleika að stríða undanfarna mánuði. Það hefur komið mjög fram í fjölmiðlum og þarf ekki að fjölyrða um það hér í hv. d. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hefur um það nýjar upplýsingar hvernig afkomuhorfur útflutningsiðnaðarins eru miðað við þá gengisskráningu sem nú er orðin, en eins og við vitum hefur gengið fallið og sigið undanfarnar vikur um nálægt því 8%. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um horfurnar í þessum efnum ef hæstv. ráðh. hefur upplýsingar tiltækar.

Í því sambandi vil ég enn minna á að á þessu ári verður aðlögunargjaldi, sem lagt er á innfluttar iðnaðarvörur og ætlunin var samkv. ummælum ráðh. í fyrra að verja til iðnaðarins, ekki varið öllu til iðnaðarins. Láta mun nærri að talsvert á annan miljarð kr. komi inn í ríkissjóð vegna þessa aðlögunargjalds sem ekki rennur til iðnþróunar aðgerða á þessu ári, þó að hæstv. ráðh. hafi tekið það skýrt fram fyrr og síðar að því muni þannig varið á næsta ári.

Það er staðreynd að ríkissjóður innheimtir þetta gjald án þess að veita því til iðnaðarins á þessu ári. Það hefur verið skoðun mín að það væri slæmt til þess að vita að ríkissjóður fengi með þessum hætti fé til afnota, sem í rauninni var ætlunin að veita til iðnaðarins jafnóðum og þessir peningar kæmu inn, á sama tíma sem fyrirtæki hafa verið í svo miklum erfiðleikum sem útflutningsiðnaðurinn hefur verið undanfarið. Nú eru um það skiptar skoðanir, hvort þessu fé á að verja til varanlegra iðnþróunaraðgerða eða hvort það skuli notað að einhverju leyti til að fleyta fyrirtækjum yfir ákveðna hjalla á meðan verið er að endurskoða stefnuna að þessu leyti. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh., hvernig staða útflutningsiðnaðarins er um þessar mundir eftir að gengi hefur sigið eins og við vitum undanfarið, en afkoma þessara fyrirtækja var mjög slæm fyrst á þessu ári, eins og kunnugt er.