21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um það sem hér er nú til umr. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að halda því fram, að í æðimörg ár, eða eins mörg og ég gat skoðað þegar ég gegndi embætti landbrh., hafa útflutningsbætur fyrir liðið framleiðsluár landbúnaðarins verið gerðar upp fyrir áramót. Ef ég man rétt er aðeins um að ræða eitt ár — ég hygg árið 1975 frekar en 1976 — þar sem þessar útflutningsbætur voru gerðar upp með víxli sem féll strax eftir áramótin. Ég hygg því, að það sé misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að svo hafi ekki áður verið gert. Staðreyndin er vitanlega sú, að á fjárl. hefur aldrei, svo lengi sem ég þekki til, verið nægilegt fjármagn til að standa við lögboðna skyldu samkv. framleiðsluráðslögunum að greiða 10% útflutningsbætur, og öll árin hefur því orðið að fara fram úr fjárveitingu með tilvísun til þessarar lögboðnu skyldu.

Út af fyrir sig skiptir ekki máli, hvort um er að ræða liðið framleiðsluár landbúnaðarins eða nýhafið framleiðsluár landbúnaðarins.

Það er því miður svo, að fjárhagsár ríkisins eða almanaksárið fer ekki saman við framleiðsluár landbúnaðarins. Þetta hefur ár eftir ár valdið miklum vandræðum, því að upp hafa safnast skuldir við útflytjendur vegna þeirra fjögurra mánaða sem af framleiðsluári landbúnaðarins líða áður en ný fjárlög eru samþ. Þetta veldur m.a. því að greiðslur úr ríkissjóði verða mjög miklar á nýju ári, og við höfum verið að tala um að við þurfum að jafna sveiflur í greiðslum ríkissjóðs. Það er mikill halli á greiðslum ríkissjóðs í upphafi ársins. Því voru allir menn sammála um það, þegar þessi mál voru rædd, að það væri bæði frá sjónarmiði ríkissjóðs og sjónarmiði framleiðenda og útflytjenda ákaflega mikilvægt að þessar greiðslur yrðu jafnari yfir árið. Það var með tilliti til þessa hvors tveggja sem ég lagði fram þær till. sem hér voru nefndar áðan og eru reyndar í fleiri liðum. Þar er einnig samþykkt í öðrum lið að greiða áfallinn kostnað við vaxta- og geymslukostnað mánaðarlega, en geyma það ekki fram eftir ári eins og oft hafði tíðkast.

Strax eftir samþykkt þessara till. 28. des. hófst framkvæmd þeirra í anda þessarar samþykktar. Þá var þegar greitt úr ríkissjóði verulega áfallinn útflutningsbótakostnaður, og síðan var allan tímann greiddur jafnt og þétt vaxta- og geymslukostnaður eins og þar er gert ráð fyrir. Fjárlög ársins í ár taka ekki fram út af fyrir sig að þessi fjárhæð til útflutningsbóta sé vegna ákveðins verðlagsárs. Hún er vegna útflutningsbóta, og þar vantar á alveg ljóslega til þess að standa við þessa samþykkt, og því ekki um annað að ræða, ef ríkissjóður vill standa við lögbundna skyldu, en að greiða það með lántöku.

Ég vil jafnframt upplýsa það, að í þessu sambandi fóru fram viðræður við Seðlabankann um þetta mál. Mönnum er að sjálfsögðu ljóst að verulegur hluti af því fé, sem þarna er um að ræða í útflutningsbætur, rennur til baka inn í Seðlabankann því að hann hefur veitt þessi afurðalán. Því töldu seðlabankastjórar ekki mikið mál að veita ríkissjóði yfirdrátt til greiðslu á útflutningsbótum þegar þetta kemur aftur inn í bankann, eins og ég var að segja. Þetta mál hygg ég því að sé miklu auðleystara en menn láta hér liggja að.

Ég vil jafnframt að lokum taka fram að ríkissjóður má ekki horfa fram hjá þeim stórkostlega vanda sem hann veldur í atvinnulífinu með því að draga slíka greiðslu, með öllum þeim vanskilum sem þá hrúgast upp lið af lið í gegnum þetta kerfi. Ég hygg að sá skaði sé miklu meiri en hinn, að staða ríkissjóðs við Seðlabankann kunni að líta eitthvað betur út við einhver ákveðin tímamörk í almanakinu. Menn verða að horfa fram hjá því og skoða staðreyndirnar. Ég verð því að segja, að ég harma mjög að ekki hefur verið fylgt þessari samþykkt sem gerð var 28. des. í fyrra. Menn segja að þar séu engar aths. gerðar, en mín reynsla í ríkisstj., þó stutt væri, var sú, að þegar ekki voru gerðar aths. við till. voru þær ekki bornar upp til samþykktar og litið á það sem samþykkt á till., og ég hygg að mikill meiri hluti af samþykktum þeirra ríkisstj., sem ég átti sæti í, væru ekki samþykktir ef svo væri lítið á málið sem kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh. — Ég vil sem sagt ljúka máli mínu með því að lýsa furðu minni á að þessi ákveðna viljayfirlýsing fyrrv. ríkisstj. hefur ekki verið framkvæmd.