07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

7. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Við minnihlutamenn, ég og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, skilum minnihlutaáliti á þskj. 432 og leggjum til að frv. verði fellt.

Hér er um að ræða frv. sem upphaflega er þannig til komið að vinstri stjórn hækkaði söluskatt og vörugjald í fyrrahaust, söluskatt um 2% og vörugjald um nálægt 6%. Á þessu ári greiða íslenskir skattgreiðendur 18 milljarða kr. vegna þessara nýju skatta, en í fyrra voru þessar álögur 2.7 milljarðar vegna þess hvað þessi gjöld komust seint á — guði sé lof — á því ári. Við minnihlutamenn lítum á þetta mál sem einn hluta þeirra gífurlegu skattahækkana sem nú dynja yfir þjóðina og erum því mótfallnir og leggjum til að frv. verði fellt.