07.05.1980
Efri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

7. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um þetta mál eða rekja aðdraganda þess mjög ítarlega, en það er rétt sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. um hvernig þetta mál hefði komið undir í hans tíð sem fjmrh. Hitt var auðvitað ljóst, að þegar ríkisstj. Alþfl. tæki við, og það var Sjálfstfl. vel ljóst, mundi reynast nauðsynlegt að framlengja þessi lög með þeim hætti sem gert var með brbl. Það var reyndar tiltekið sérstaklega af hálfu Sjálfstfl. að hann teldi reyndar ekki ástæðu til meiri háttar stefnubreytingar meðan ríkisstj. Alþfl. sat við völd. Það hefði náttúrlega verið stefnubreyting að fella þennan skatt niður.