07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er stórt mál og viðamikið og þarf að fá miklu nákvæmari yfirvegun en ég tel að það hafi fengið enn sem komið er.

Mikil umræða hefur farið fram að undanförnu um að eitt brýnasta mál þessarar þjóðar sé að draga úr yfirbyggingunni og að Alþ. verði að taka til höndum og skera niður rekstrargjöld ríkisins þar sem framkvæmdamáttur þess fjár, sem til framkvæmda fer, minnki hlutfallslega með hverju árinu sem líður, þó þessi staðreynd sé á margan hátt skýranleg afleiðing af því að þegar við erum að byggja skóla, heilsugæslustöð eða t. d. sjúkrahús kostar ekki lítið að reka slíkar stofnanir. Að því leyti er eðlilegt að rekstrargjöld hins opinbera hækki. En ekki þýðir að loka augunum fyrir því að við þurfum mjög að andæfa gegn Parkinsonslögmálinu, ef þessi þróun — aukinn rekstrarkostnaður fram yfir þau eðlilegu mörk sem að framan greinir — á ekki að leiða til þess að alltaf minnki það fjármagn hlutfallslega sem til framkvæmda fer. Að vísu gerir frv., sem hér er til umr., ráð fyrir að sá kostnaður, sem það hefur í för með sér, verði greiddur að verulegu leyti beint af atvinnurekstrinum. Það breytir ekki því, að hér er um auknar álögur að ræða sem ég hef ekki heyrt um að nokkur hafi gert sér grein fyrir hvað miklar verða miðað við óbreytt frv.

Ég vil síst af öllu draga úr nauðsyn þess að bættur verði aðbúnaður á vinnustöðum, eftir því sem tök eru á, og aukið verði öryggi í hvívetna og komið verði í veg fyrir að vinnan eða vinnustaðurinn hafi heilsuspillandi áhrif á þá sem þar vinna. En á hitt vil ég leggja áherslu, að Alþ. setji ekki lög sem eru þannig, að kostnaðurinn við eftirlitið verði miklu meiri en þörf er á, og að ýmis lagafyrirmæli séu þannig, að enginn möguleiki sé að fara eftir þeim. Því miður get ég ekki betur séð en þetta frv. sé dæmigert um hvort tveggja ef ekki verða gerðar á því verulegar breytingar, og mun ég koma að því betur síðar.

Eins og þetta frv. er úr garði gert á að setja upp hér í Reykjavík mikla valdastofnun sem á að hafa á hendi framkvæmd laganna. Hér er um að ræða aukna miðstýringu, gagnstætt þeirri stefnu, sem landshlutasamtök sveitarfélaga hafa barist fyrir, að færa alla þá starfsemi, sem hægt er með góðu móti, til landshlutanna. Og ef slíkt eftirlit sem hér um ræðir er ekki tilvalið og sjálfsögð þjónusta til að setja á stofn úti í kjördæmunum, þá get ég ekki séð annað en Alþ. sé farið að slá því föstu að horfið sé frá slíkri stefnu þrátt fyrir þáltill., sem Alþ. hefur samþ. á undanförnum árum, og loforð ýmissa stjórnmálamanna, a. m. k. fyrir kosningar, um að vinna að því eftir megni að færa stofnanir frá Reykjavík til landsfjórðunganna eftir því sem við verður komið.

Í aths. með frv. kemur fram að í tengslum við kjarasamninga vorið 1977 hafi aðilar vinnumarkaðarins lagt fram sameiginlegar tillögur um aðgerðir í vinnuverndarmálum sem samþ. voru af þeim og ríkisstj. í aprílmánuði 1977. Það er orðin árviss uppákoma í tengslum við kjarasamninga að um er samið að setja nýja löggjöf um hitt og þetta. Síðan er sett eða skipuð nefnd til að semja frv. samkv. samkomulaginu, en þegar frv. eða frumvörpin líta dagsins ljós er í þeim, æðioft a. m. k., ýmislegt fleira en um var samið. Síðan eru frumvarpahöfundarnir kallaðir fyrir þingnefndir til upplýsinga og skýringa, en ekki er óalgengt að höfundarnir leggi á það þunga áherslu að engu megi breyta, eins og verk þeirra séu það fullkomin að engin leið sé um að bæta. Þau eru það efalaust í þeirra augum. Hins vegar hlýtur það að vera áleitin spurning fyrir okkur, sem erum kjörnir til að sitja á hinu háa Alþingi, hvort það séum við, sem eigum að segja til um hvað eigi að lögfesta og hvað ekki, eða hvort það eru embættismenn eða einhverjir aðrir úti í bæ. Ég hef a. m. k. mína skoðun á því máli og ég vona að flestir hv, alþm. hafi það, þó hinu sé ekki að leyna, að maður hafi stundum ástæðu til þess að efast um að svo sé.

Það frv., sem hér er til umr., snertir ekki lítið landbúnaðinn, þótt vinnubrögð við undirbúning á frv. væru á þann veg að engin landbúnaðarmaður var tilnefndur í nefndina og engin tilkvaddur við undirbúning þess, að öðru leyti en því að einn starfsmaður Búnaðarfélags Íslands mætti á tveimur fundum hjá nefndinni. Slík vinnubrögð eru einsdæmi. Þegar um er að ræða lagasetningu sem snertir landbúnaðinn er það viðtekin regla að öll slík mál fara fyrir Búnaðarþing og enn fremur til umfjöllunar hjá Stéttarsambandi bænda. En nú þarf ekkert slíkt að gera. Það ætti a. m. k. að vera umhugsunarefni hvað valdi þessum nýjum vinnubrögðum. Hér er um ný vinnubrögð að ræða, enda ber þetta frv. þess glöggt merki. Á það skal bent að þegar samkomulagið var gert um þessa lagasetningu var ekkert um það samið að málefni landbúnaðarins yrðu tekin inn í væntanlega löggjöf.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem var í þeirri nefnd sem var við að semja þetta frv., sagði við 2. umr. þessa máls í Ed., með leyfi forseta: „Vinnueftirlit ríkisins verði ekki sett í fjárhagslegt svelti og þessi lög um leið gerð að markleysu, en vissulega er hætta á því ef stofnunin fær ekki næga tekjustofna. Ég tel að með samþykkt þessa frv. sé verið að taka þátt í byltingu á sviði þessara mála og þess þurfi að gæta að í næstu fjárlögum verði séð fyrir fjármagni er nægi til þess að sinna þeim verkefnum sem um er að ræða.“

Þessi tilvitnuðu ummæli urðu til þess að ég fór að hugleiða hvernig hefði til tekist um framkvæmd hliðstæðra laga sem sett hafa verið á síðustu árum. Af því má draga ýmsa lærdóma um hvers við getum vænst af þeirri löggjöf sem hér er til umr., ef grunnur að henni er ekki þannig gerður að á honum sé í raun og veru byggjandi.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason gerði einnig að umræðuefni Heilbrigðiseftirlit ríkisins og sagði m. a., með leyfi forseta:

„Þegar nefndarstörfum var að ljúka í þeirri nefnd sem undirbjó frv. kom fram sérálit frá fulltrúa Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Voru allir aðrir nm. á því að það bæri ekki að taka tillit til þeirra ábendinga, sem þar eru settar fram, vegna þess að eins og Heilbrigðiseftirlitið er uppbyggt er það steindautt í eftirliti vinnustaða. Heilbrigðisnefndir víða um land hafa ekki gegnt því hlutverki að vera eftirlitsaðili hvað varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Taldi nefndin því eðlilegt að ganga fram hjá þeim.“

Þessi tilvitnuðu ummæli eru hörð og ég dreg mjög í efa að þau séu makleg. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., sem talaði fyrir þessu frv.: Hefur Heilbrigðiseftirlit ríkisins fengið þá fjárveitingu til starfsemi sinnar sem gerir því kleift að starfa á eðlilegan hátt og framkvæma þau eftirlitsstörf sem því ber að gegna lögum samkvæmt? Það er ekki nóg að samþykkja lög á hinu háa Alþingi ef fjárveitingavaldið sker svo við nögl fjárframlög að engin leið er að framfylgja þeim. Ég fullyrði að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur ekki fengið það fjármagn sem hefði þurft til að framkvæma lögin og hefur mikið á það skort, enda er verksvið Heilbrigðiseftirlitsins yfirgripsmikið. Kemur það fram í 10. gr. laganna sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Í heilbrigðisreglugerð skulu vera almenn ákvæði um: 1. valdsvið, skyldur og starfstilhögun heilbrigðisnefndar; 2. hreinlæti og þrifnað utan húss, svo sem á torgum, götum eða öðrum alfaraleiðum, opnum eða umgirtum svæðum í þéttbýli, fjörum, hafnarbökkum og bryggjum, görðum og lóðum kringum hús, hvort sem eru opinber eign eða einstakra manna; 3. vatnsveitur, vatnsból, salerni og frárennsli; 4. hirðingu á sorpi og hvers kyns öðrum úrgangi; 5. meindýr hvers konar, svo og ónytjadýr í óskilum; 6. íbúðarhúsnæði; 7. vinnustöðvar úti og inni, svo sem verksmiðjur hvers konar, verkstæði eða vinnustofur fyrir iðnað, sláturhús, frystihús, útgerðar- og fiskverkunarstöðvar, matvælagerðar(vinnslu)-stöðvar, verslanir hvers konar, útisölu. vörugeymslur, verbúðir og verkamannaskýli, afgreiðslustöðvar flutninga- og farartækja, þvottahús, skrifstofur, bókasöfn og annað tilsvarandi; 8. gistihús, matsöluhús og aðra veitingastaði; 9. skóla og aðra kennslustaði; 10. rakarastofur, hárgreiðslustofur og hvers konar aðrar snyrtistofur; 11. barnaheimili, þ. á m. sumardvalarheimili, upptökuheimili, svo og leikvelli; 12. heilbrigðisstofnanir samkv. sjúkrahúsalögum, heilsuverndarstöðvar, fávitahæli og tilsvarandi, lyfjabúðir og lækningastofur; 13. íþróttastöðvar, íþróttahús, sundhallir, almenn baðhús, gufubaðstofur, almenna baðstaði og því um líkt; 14. fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna; 15. kirkjur og hvers konar samkomuhús; 16. kirkjugarða, líkhús og bálstofur, svo og meðferð líka; 17. báta og skip, vélknúin ökutæki, flugvélar o. s. frv. ; 19. gripahús, svo og meðferð og gæslu húsdýra, þ. á m. hunda; 18. eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, svo og um húsakynni og tæki til matvælaframleiðslu, matvælaiðnaðar, matvælageymslu og matvæladreifingar, sbr. og 7. lið; 20. þátttöku heilbrigðisnefnda í sóttvörnum. Enn fremur er heimilt að setja ákvæði um: 21. hávaða, hvort heldur af starfrækslu hvers konar eða umferð á landi eða í lofti; 22. loftmengun; 23. Heilbrigðisreglugerð skal ljúka með því að kveða á um heimild til að veita undanþágur frá reglugerðinni og hvaða takmörkunum slík heimild skuli háð.“

Á þessu sést hvað starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins er í raun og veru. Þessi lög voru sett 1969. Í þessari grein kemur fram hverju Heilbrigðiseftirlitinu er ætlað að fylgjast með og framkvæma. Eftir 10 ára starfsemi hafa lögin ekki komist í framkvæmd, fyrst og fremst fyrir fjársvelti.

Það, sem hljóp fyrir brjóstið á hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, var það sérálit sem Hrafn V. Friðriksson lagði fram í nefndinni, en hann var einn þeirra sem unnu að frumvarpsgerðinni. Það skiptir auðvitað engu máli í þessu sambandi starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Sérálit Hrafns hefur fullt gildi hvað sem menn vilja um þá starfsemi segja, og engin frambærileg rök hafa komið fram sem hnekkja því sem kemur fram í þessu séráliti, enda er það athyglisvert og ætti að vera hv. alþm. umhugsunarefni hvað hann segir. Hann segir, með leyfi forseta:

„Frv. þetta um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hefur verið samið án þess að niðurstöður könnunar þeirrar á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum, sem Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Öryggiseftirlit ríkisins var falið að framkvæma, liggi fyrir.

Samkv. skipunarbréfi nefndarinnar frá 14. des. 1977 skal hún hafa hliðsjón af niðurstöðum nefndrar könnunar við undirbúning lagasetningar um það mál, sem hér er um fjallað. Slík könnun á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum þykir sjálfsagður undanfari lagasetningar um þau mál sem hér um ræðir og fór fram í þessum tilgangi í Noregi, Danmörku og Svíþjóð á sínum tíma.

Við gerð frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum á Íslandi verður að telja meiri nauðsyn á slíkri könnun heldur en í nágrannalöndum okkar, sem hafa haft vinnustaðarannsóknir af ýmsu tagi í gangi í mörg ár og þekkja betur til aðstæðna en við Íslendingar, sem erum byrjendur á þessu sviði.

Við skipulag vinnustaðaeftirlits, t. d. í nágrannalöndum okkar, hefur verið tekið tillit til annarra laga og reglna, sem um svipað efni fjalla, allt eftir því fyrirkomulagi sem til staðar hefur verið í þessum löndum hverju sinni.

Þannig er eftirlit með smærri vinnustöðum (undir 10 starfsmenn) í Svíþjóð í höndum eftirlitsmanns viðkomandi sveitarfélags, og heilbrigðisnefndir í Finnlandi fara með eftirlit með smærri vinnustöðum þar í landi. Hins vegar hefur eftirlit af hálfu sveitarfélaga með vinnustöðum verið lagt niður í Danmörku og Noregi. Þó eru í Noregi vinnuverndarnefndir á vegum sveitarfélaga.

Miðað við gildandi ákvæði laga, t. d. um heilbrigðiseftirlit, í þessum löndum er ofangreint fyrirkomulag eðlilegt.

Það er aftur á móti í hæsta máta óeðlilegt að við gerð frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum fyrir Ísland skuli ekkert tillit hafa verið tekið til ákvæða í gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 12/1969, reglugerða settra samkv. þeim lögum eða annarra laga eða reglna, sem heilbrigðisnefndum og/eða Heilbrigðiseftirliti ríkisins ber að sjá um framkvæmd á og varða skipulag almenns eftirlits með aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum af hálfu heilbrigðisnefnda.

Þetta er því athyglisverðara þegar haft er í huga að auk þess sem heilbrigðisnefndum ber að fylgjast með allri starfsemi innan síns umdæmis, þar með að vinnustaðaeftirliti sé framfylgt af þar til skyldum eftirlitsstofnunum, hafa heilbrigðisnefndir beint eftirlit með aðbúnaði og hollustuháttum meira en 70% starfandi manna hér í landi.

Hefur af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins og heilbrigðisnefnda stöðugt verið unnið að eflingu og frekari uppbyggingu eftirlits með aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ætti öllum, sem til þekkja, að vera ljóst, að miðað við þau lög og reglur sem nú eru í gildi á Íslandi og varða aðbúnaðar- og hollustumálefni, og þá þróun og uppbyggingu, sem átt hefur sér stað hvað þessi mál varðar hér á landi, þá er eðlilegast að yfirumsjón og eftirlit með aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum alls konar verði alfarið í höndum heilbrigðisnefnda og Heilbrigðiseftirlits ríkisins undir yfirstjórn heilbrmrh. og undir faglegu eftirliti landlæknis.

Slíkt fyrirkomulag mundi að mestu koma í veg fyrir tvíverknað, auk þess sem gera verður ráð fyrir minni rekstrar- og stofnkostnaði.

Þá verður að telja óeðlilegt að hagsmunaaðilum er falin umsjón með opinberu eftirliti og er þá átt við tillögur frv. um stjórn eftirlitsstofnunar.

Þá er lagst gegn þeirri megnu miðstýringu með eftirliti á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum, sem í frv. felst.“

Árið 1969 var lögfest einnig frv. um brunavarnir og brunamál. Það er líka lærdómsríkt að leiða hugann að því, hvernig hefur gengið að framkvæma þau lög. Hins vegar má enginn skilja orð mín á þann veg, að ég telji að bæði Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins hafi ekki margt gott látið af sér leiða, en það haggar ekki hinu, að það er ekki nóg að samþykkja lög ef ekki er hægt að framkvæma lögin vegna þess að löggjafinn leggur ekki fram það fjármagn sem til þess þarf.

Brunamálastofnunin hefur starfað einnig í 10 ár. Að hvað miklu leyti hafa lögin frá 1969 um brunavarnir og brunamál í raun komið til framkvæmda með hliðsjón af umfangi þeirra verkefna sem stofnunin skal sinna samkv. lögunum? Hverjar voru tekjur stofnunarinnar á síðasta ári og hverjir eru tekjustofnar Brunamálastofnunar ríkisins? Það væri gaman að það væri upplýst hér á hinu háa Alþingi. Hvaða aðstöðu og mannafla hefur brunamálastjóri sér til aðstoðar í stofnuninni til að framfylgja verkefnum Brunamálastofnunarinnar? Hann hefur þrennt. Þau eru sem sagt fjögur sem vinna í stofnuninni og hefur verið neitað um aukið starfslið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að fá aukið starfslið. Hafa hv. alþm. leitt hugann að því, hversu víðtæk og umfangsmikil eru verkefni og starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins ef sinnt væri til fullnustu og í samræmi við gildandi lög um brunavarnir og brunamál frá 1969 reglugerð um brunavarnir og brunamál frá 1978 og ákvæði um brunamál í byggingarreglugerð frá 1979? Hafa hv. alþm. leitt hugann að því, hver eru verkefni Brunamálastofnunar ríkisins?

1) Rannsóknir og öflun þekkingar um brunavarnir og brunamál, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

2) Dreifing upplýsinga, og tæknilegra gagna um brunavarnir og brunamál, samskipti og aðstoð við yfirvöld byggingarmála og brunamála í sveitarfélögum, námskeiðahald og æfingar slökkviliða og námskeið fyrir byggingarfulltrúa og iðnmeistara.

3) Rannsóknir á eldsvoðum, skýrslugerð til almennrar birtingar um orsakir eldsvoða, aðstoð við lögregluyfirvöld vegna brunarannsókna o. fl.

4) Ráðgjöf til hönnuða og arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga á frumstigi hönnunar, sömuleiðis við skipulagshönnuði og skipulagsyfirvöld.

5) Að yfirfara og samþykkja teikningar og brunatæknilega hönnun við byggingar frá byggingaryfirvöldum og hönnuðum, aðstoða byggingareftirlit sveitarfélaga.

6) Umsjón með olíu- og bensínbirgðastöðvum hvað varðar skipulag og staðsetningu, byggingu, frágang og sömuleiðis yfirumsjón með eftirliti á vegum sveitarfélaga.

7) Yfirumsjón með eftirliti á framleiðslufyrirtækjum, skemmtistöðum, hótelum, kirkjum, stórverslunum, vöruhúsum, flugvöllum og öðrum húsum og mannvirkjum þar sem áhætta er stór vegna manntjóns og eignatjóns í hugsanlegum eldsvoða.

8) Yfirumsjón og beint aðhald að brunavarnaeftirliti í byggingum, þjálfun starfsfólks og kynningarstarfsemi um brunavarnir í skólum, sjúkrahúsum, elliheimilum, heilsugæslustöðvum og barnaheimilum.

9) Opinbert eftirlit með framleiðslu og innflutningi með tilliti til eldvarna á verksmiðjuframleiddum húsum, byggingarhlutum, byggingarefnum og ýmsum útbúnaði til eldvarna og slökkvistarfa, sem stofnunin skal yfirfara, skrásetja og samþykkja hverju sinni.

10) Samskipti við almenning í landinu og félög áhugamanna um brunamál, skólayfirvöld og stjórnendur fræðslumála. Einnig samskipti við fjölmiðla og ýmsar stofnanir og aðila sem starfa á ýmsan hátt að öryggismálum, svo sem við slysavarnir, almannavarnir, löggæslu og heilbrigðiseftirlit.

11) Gerð og útgáfa reglugerða og leiðbeininga um brunavarnir og brunamál og að sjá um að stöðugt sé unnið að þeim málum í fyllsta samræmi við nýjustu þróun og þekkingu í brunamálum.

Þetta er það sem stjórnvöld hafa ákveðið að Brunamálastofnunin eigi að inna af hendi, en svo er henni neitað um aukið starfslið. Það er ekki nóg að setja lög, það þarf meira til.

Eins og ég gat um áðan er ljóst að ef þetta frv. verður lögfest hefur það víðtæk áhrif á landbúnaðinn. Þar er um algjört nýmæli í löggjöf að ræða. Nú vil ég spyrja hv. alþm.: Getur það talist eðlilegt að löggjöf sem þessi hljóti afgreiðslu á hinu háa Alþingi án þess að fram fari af hendi Búnaðarþings og Stéttarsambands bænda umfjöllun um málið, eða eru hv. alþm. þeirrar skoðunar, að það þurfi að ræða um þetta mál við alla hagsmunaaðila nema bændur? Ég trúi því ekki að það sé komið svo, að bændur séu þannig algjörlega hundsaðir.

Í grg. með frv. er tekið fram að nefnd sú, sem frv. samdi, hafi fjallað mjög mikið um eftirlit í landbúnaði almennt. Mér er spurn: Hver eða hverjir af nm. höfðu þekkingu á því máli? Það væri gaman að fá svör við því. Auðvitað þarf ekki svar við því, frv. ber þess glöggt vitni. Hitt er annað mál, að ég mun síst draga úr því, að það sé mikil þörf á að hafa eftirlit með hinum ýmsu vélum og tækjum í landbúnaði og þá ekki síður að láta fara fram fræðslu um meðferð þeirra tækja. Það verður að gera með öðrum hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir. Slík löggjöf verður ekki samin án staðgóðrar þekkingar á landbúnaðarstörfum og á þeim staðháttum sem bústörf eru unnin við.

Í 2. gr. frv., þar sem upp eru taldar undanþágur frá lögunum, er sagt í c-lið: „algeng heimilisstörf í einkaíbúðum“. Mér er spurn: Við hvað er átt? Hver eru hin óvenjulegu heimilisstörf sem lögin eiga að ná til?

Í 2. og 4. gr. er kveðið á um að lögin eigi að ná til atvinnurekstrar, þar sem vinna einn til níu menn, og skuli atvinnurekandi eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði á vinnustað í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækis eða trúnaðarmenn þeirra. Samkv. þessu taka ákvæði frv. til vinnu á öllum býlum í landinu. Jarðir í ábúð munu vera nú um tæp 5000. Þar af eru 600 býli með mjög litla framleiðslu. Tæplega verður þó hjá því komist að hafa eftirlit með þeim einnig. Ekkert trúnaðarmannakerfi er í landbúnaðinum og bændastéttin er ekki aðili að neinum samtökum vinnumarkaðarins. Fjöldi starfsmanna á hverjum vinnustað er víðast hvar aðeins 1–2 og er þar um að ræða bóndann og húsfreyjuna og þá aðra fjölskyldumeðlimi. Af þessari ástæðu væri eðlilegast að hafa í lögunum sérákvæði varðandi landbúnaðinn er væru sniðin að sérstöðu hans í þessum málum öllum.

Frv. í heild byggir á samráði og samvinnu aðila vinnumarkaðarins um framkvæmdina. Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins ákveði gjöld fyrir allt eftirlit og rekstur stofnunarinnar. Samtök bænda eru ekki í neinum tengslum við aðila vinnumarkaðarins og fráleitt að bændur geti sætt sig við að framkvæmd vinnueftirlitsins í landinu sé einhliða sett í hendur aðila sem lítið sem ekkert þekkja til landbúnaðarstarfa.

Í 49. gr. er fjallað um skráningu og eftirlit með hvers konar vélum, tækjum og búnaði, þar með talið búvélum. Hér er um brýnt og nauðsynlegt verkefni að ræða, en það þarf að leysa heima í héruðunum á eins hagkvæman og ódýran hátt og mögulegt er. Miklu varðar hvernig gjald fyrir þessa þjónustu er ákveðið. T. d. er fráleitt að bændur verði að greiða ferðakostnað eftirlitsmanna sem koma úr Reykjavík. Það mundi koma mjög þungt niður á bændum í strjálbyggðum og afskekktum sveitum. Hér þarf að ákveða fast gjald á hverja skoðaða vél, misjafnt eftir tegundum, án tillits til fjarlægðar víðkomandi býlis frá höfuðstöðvum Vinnueftirlits ríkisins.

Í IX. kafla er fjallað um hvíldartíma og frídaga. Í upphafi 52. gr. segir: „Vinnutíma skal hagað þannig, að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn a. m. k. 10 klst. samfellda hvíld.“ Og í upphafi 55. gr. er ákvæði um að „á hverju sjö daga tímabili skulu starfsmenn fá a. m. k. einn vikulegan frídag, sem tengist beint samfelldum daglegum hvíldartíma.“ Þessi ákvæði geta illa átt við landbúnaðinn. Bændur verða að sinna búverkum hvern dag, björgun verðmæta, án tillits til hefðbundins vinnutíma, svo sem við heyskap, uppskeru garðávaxta, einnig um sauðburð, og sinna þarf einnig kúm við burð hvenær sem er á sólarhringnum. Í kaflanum er gert ráð fyrir frávikum frá þeim meginreglum sem að framan getur. Skulu aðilar vinnumarkaðarins gera með sér samkomulag í þeim efnum. Aðilar vinnumarkaðarins geta að sjálfsögðu ekki gert neitt samkomulag um þessi mál fyrir hönd landbúnaðarins.

Í X. kafla er fjallað um vinnu barna og unglinga. Þessi ákvæði varða landbúnaðinn miklu því mikill fjöldi unglinga vinnur við landbúnaðarstörf að sumrinu. Nauðsynlegt er að haft sé samráð við Stéttarsamband bænda um setningu og framkvæmd þeirra ákvæða sem um er rætt í 62. og 63. gr.

Í XI. kafla laganna, sem er um heilsuvernd, læknisskoðanir og aðrar rannsóknir, segir í 66. gr., að heilsuvernd starfsmanna skuli falin þeirri heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi sem næst liggur og/eða auðveldast er að ná til. Hvert fyrirtæki skal gera skriflegan samning við stjórn viðkomandi heilbrigðisstofnunar um fyrirkomulag og framkvæmd þeirrar þjónustu sem veita skal. Líta verður svo á, að eitt af skylduverkefnum heilsugæslustöðva sé þetta verkefni og um það eigi ekki að þurfa að semja neitt sérstaklega.

Ekki kemur fram í frv. hvort leggja á niður Rafmagnseftirlit ríkisins, sem nú annast t. d. eftirlit með öllum raflögnum og rafmagnsmótorum á sveitabýlum, sem bændur greiða fyrir. Tryggja þarf að ekki verði um tvöfalt eða margfalt eftirlit að ræða og þá margfaldan kostnað.

Ljóst er af frv. að Vinnueftirlit ríkisins verður mikil stofnun sem starfa mun í mörgum deildum og óhjákvæmilegt er að sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins starfi við stofnunina. Því er ekki að ástæðulausu að óttast er að Vinnueftirlitið muni á fáum árum vaxa í mikið bákn, mannfrekt, þungt í vöfum og kostnaðarsamt, ef fylgja á fram þeim ákvæðum sem felast í þessu frv., eða þá hitt, að lögin komist aldrei til framkvæmda.

Þrátt fyrir lagaákvæði hef ég ekki heyrt um að það séu neinar tölur til um hvað menn halda að þessi stofnun muni kosta þegar verður búið að setja hana á laggirnar. Þess vegna verður að leggja áherslu á að ákvæði laganna verði einfölduð og þannig úr garði gerð, t. d. gagnvart landbúnaðinum og öðrum þeim sem eftir þeim eiga að starfa, að ekki verði að óþörfu íþyngt með skriffinnsku og vanhugsuðum ákvæðum um tilkynningarskyldu skv. 19., 95. og 96. gr. frv., og öðrum ákvæðum sem illframkvæmanleg munu reynast. Hvað landbúnaðinn varðar ber að hafa í huga að bændabýlin eru fáliðuð og ærinn starfi fyrir. Oft geta einangrun og erfiðar samgöngur útilokað að standa í daglegu sambandi við nálæga þéttbýlisstaði, hvað þá aðila hér á höfuðborgarsvæðinu. Því er æskilegast að um árlegt eftirlit verði að ræða hvað landbúnaðinn varðar, þegar löggjöf um það verður sett, enda ærinn starfi að heimsækja þá tæplega 5000 vinnustaði sem um er að ræða í strjálbýlinu.

95. gr. frv. er þannig, með leyfi forseta:

„Hver sá, sem hefur með höndum starfsemi, sem lög þessi gilda um, skal hafa sérstakt starfsleyfi Vinnueftirlits ríkisins til tryggingar því, að starfsemi fullnægi viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum snertir.

Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur um veitingar starfsleyfa og um gildistíma þeirra.“

Það er ekki óvíða í þessu frv. sagt að nánari reglur setji stjórn Vinnueftirlits ríkisins.

96. gr. er þannig: „Sérhver starfsemi, sem lög þessi ná til, skal tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins áður en hún hefst. Óheimilt er að hefja rekstur í fyrirtæki eða hlutafyrirtækis fyrr en eftirlitsmaður hefur gefið réttum aðilum vottorð um, að allur aðbúnaður sé í fullu lagi og í samræmi við fyrirmæli forstjóra eða stjórnar Vinnueftirlits ríkisins að mati eftirlitsmanns.“

Áður er búið að skilgreina að hvert bú í landinu er skoðað sem fyrirtæki. Ætli mörgum bóndanum þyki ekki þröngt fyrir sínum dyrum ef hann má engu breyta án leyfis þessarar nýju stofnunar. Og hafa menn hugleitt hvað þetta þýðir? Þau málefni, sem þetta frv. nær yfir, eru nú í höndum ýmissa stofnana og aðila.

Ég get ekki séð að höfundar þessa frv. hafi gert sér ljóst til hvers það mundi leiða ef þetta frv. verður að lögum í þeim búningi sem það er nú í. Það leysir engan vanda að setja á stofn nýtt bákn. Öll þessi mál útheimta sérþekkingu hvert á sínu sviði. Ég vil ekki fullyrða neitt um að það geti ekki verið til bóta að sameina stofnanir er starfa á líku eða sama sviði. Hitt hlýtur einnig að koma til álita, að taka upp meira samstarf á milli þeirra til að koma í veg fyrir tvíverknað sem leiðir af sér óþarfa kostnað.

Ekki er mér ljóst hver verður staða Heilbrigðiseftirlits ríkisins eða Brunamálastofnunar ríkisins eftir að lög þessi öðlast gildi. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig verður háttað starfsemi þeirra stofnana ef þetta frv. verður lögfest eða um leið og það kemur til framkvæmda?

Af því, sem ég hef sagt um þetta mál, má ljóst vera að ég get með engu móti staðið að því að lögfesta frv. nema það, sem viðkemur landbúnaði, verði fellt út úr frv. og það liggi síðan ljóst fyrir hvernig starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Brunamálastofnunar ríkisins verði háttað ef frv. verður lögfest.

Þegar ég var að fara hér upp í ræðustól barst mér í hendur bréf frá Félagi ísl. iðnrekenda. M. a. stendur í því bréfi þessi mgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Félag ísl. iðnrekenda telur ýmis atriði frv. orka mjög tvímælis, og má þar nefna að hinni nýju stofnun, Vinnueftirliti ríkisins, er falið óeðlilega mikið vald, þar með dómsvald í eigin ákvörðunum.“

Ég held að menn eigi að athuga þetta mál ögn nánar.