07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál í löngu máli. Ég vil aðeins segja út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að ég tel eðlilegt að reynt verði að ná samkomulagi um þetta mál án þess að farið sé að skerpa mjög harðar línur í því við 1. umr. með harðsnúnum deilum. Ég minni á að frv. á rætur að rekja til samkomulags sem gert var við kjarasamninga vorið 1977 og frv. er flutt til staðfestingar á því samkomulagi.

Ég tek hins vegar undir það, sem hér hefur komið fram, að aðild bændasamtakanna að samningu þessa máls og undirbúningi hefur verið ákaflega óveruleg. Aðild bændasamtakanna hefur engin verið að samningu málsins og það hefur mjög verið óverulega til þeirra leitað varðandi undirbúning málsins. Ég tel að að ýmsu leyti hafi frv. í för með sér óþarfa vafninga við almennan búrekstur og að ýmsu leyti geti ákvæði frv. naumast átt við í landbúnaðinum. Ég gerði þess vegna aths. um þessi efni í ríkisstj. og í framhaldi af því hefur við meðferð málsins verið gerð breyting á frv. í hv. Ed., þannig að í þeim breytingum, sem eru í bráðabirgðaákvæði, segir svo í 3. tölul., með leyfi hæstv. forseta:

„Félmrh. skal fyrir 1. júní 1981 setja reglugerð um þau ákvæði laga þessara, sem snerta landbúnaðinn.

Skal þar m. a. kveðið á um aðild Stéttarsambands bænda að ákvörðunum um þau ákvæði laganna er sérstaklega varða landbúnaðinn. Reglugerðin skal samin í samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.“

Þannig hljóðar 3. tölul. í bráðabirgðaákvæðum, sem hv. Ed. samþ. eins og hún afgreiddi þetta mál frá sér. Ég hef talið að eftir atvikum væri sæmilega fyrir séð hvað varðar undirbúning reglugerðar varðandi landbúnaðinn með þessum breytingum, en finnist mönnum að þar þurfi tryggilegar um hnúta að búa sé rétt að athuga í nefnd hvort þarf aukin ákvæði er að þessu efni lúta. Ég vil ekkert loka fyrir að það geti verið, en bið þá hv. nefnd, sem um málið fjallar, að taka það sérstaklega til athugunar.

Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég aðeins segja það, að bændur sem aðrir hafa miklar áhyggjur af þeim hryggilegu slysum sem orðið hafa í sambandi við vélarekstur hjá einstökum bændum á undanförnum árum. Þessi slys eru ákaflega hryggileg og er bændum ekki síður en öðrum mikið í mun að reyna að fækka þeim. Bændur eru því meðmæltir að settar séu reglur og eftirliti við komið sem geti orðið til þess að slíkum slysum fækki. Það hlýtur að vera keppikefli okkar allra og ég tel að það sé ekki vilji bændasamtakanna að sporna gegn því að slíkar reglur séu settar og þeim framfylgt.

Þetta vil ég taka fram í sambandi við ræðu hv. þm. En það eru mörg önnur atriði í þessu frv., sem leggja bæði mikla skriffinnsku og erfiðar takmarkanir á starfsemi í landbúnaði, sem ekki koma neitt nálægt vélarekstri beint eða eru þáttur í að reyna að hamla gegn slysum af völdum véla.

Ég skal ekki ræða frekar efnisatriði þessa máls, þó að þar séu ýmis ákvæði sem mér sýnist að geti orkað tvímælis, aðeins segja það t. a. m. í sambandi við 98. gr., að þar er áfrýjunarréttur í ágreiningsefnum sem spretta af ákvörðunum Vinnueftirlits, forstöðumanns þeirrar stofnunar eða starfsmanna, og það sýnist kannske í hæpnara lagi að deila um að slíkum ákvörðunum sé vísað til stofnunarinnar sjálfrar til úrskurðar með að vísu framhaldsáfrýjunarrétti til ráðh. Ég hef ekki neinar tillögur um betra form á þessu, en vænti þess, að þetta ásamt ýmsum fleiri atriðum verði tekið til athugunar af hv. heilbr- og félmn. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar.

En aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn var að vekja athygli á þeirri breytingu sem hv. Ed. hefur gert, sem gefur möguleika á ýmiss konar undantekningaratriðum varðandi landbúnaðinn. Ef mönnum sýnist ekki þar nægilega tryggilega um hnúta búið er unnt að athuga það frekar við meðferð málsins í þessari hv. deild.