07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er örstutt. — Sú skoðun hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar að láta sér detta í hug að svarnættisafturhaldið væri horfið úr Framsfl. sýnir bara hversu lítill mannþekkjari eða flokkaþekkjari hv. þm. er. Auðvitað er svartasta afturhaldið í Framsfl. enn, eins og hefur alltaf verið. Þar hefur engin breyting orðið á. Og mér þykir það miður að jafngreinargóður þm. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson skuli falla í þá gryfju að láta sér koma annað til hugar.

Út af því máli, sem hér er til umr., skal ég ekki hafa mörg orð. Hér er um það að ræða að uppfylla loforð sem gefin voru fyrir nær þremur árum vegna samningsgerðar — loforð þeirra sem þá voru við völd, þ. e. stjórnar Geirs Hallgrímssonar, Sjálfstfl. og Framsfl., — og ég veit ekki betur en hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi þá verið fulltrúi Framsfl. hér á Alþ. og staðið að því loforði sem hér er verið að framkvæma. (SV: Lá frv. fyrir?) Það var loforð um hvernig haldið skyldi á þessu máli og hvernig það skyldi framkvæmt. Hafi hv. þm. ekki vitað hverju hann var að lofa er það hans, en ekki annarra. Þá átti hann að kynna sér það fyrr.

Ég hélt að almennt væru augu manna farin að opnast fyrir þeim geigvænlegu slysum sem átt hafa sér stað á vinnustöðum á undanförnum árum. Það fer ekkert milli mála að það hefur verið mikill misbrestur á því að Öryggiseftirlitið hafi haldið á málum sem skyldi til að koma í veg fyrir mörg af þessum slysum. Ég fagna því þessu frv. og tel að það hefði mátt sjá dagsins ljós í reynd miklu fyrr en nú og það sé ástæðulaust að vera að halda hér uppi löngu máli um frv. sem slíkt. Þetta er loforð sem ekki hefur verið efnt í þrjú ár, en virðist núna vera í augsýn að eigi að efna, a. m. k. að hluta til. En þeir, sem gáfu loforðið, sumir hverjir þeirra sem stóðu að þessu loforði, virðast hafa snúist og vilja nú draga það til baka. Ég tek undir það, sem kom fram áðan, að ef það er skoðun fulltrúa bændastéttarinnar í landinu, — ég segi: ef, ég dreg mjög í efa að það sé almennt skoðun bænda, — að það beri ekki að halda uppi eftirliti eins og frekast er unnt í sambandi við þessi mál, en ef það hefur verið skoðun fulltrúa bænda, hefði verið full ástæða til að taka þetta mál til umræðu á Búnaðarþingi, þar hafði verið vettvangur til þess, og koma þaðan á framfæri þeim aths. eða hugmyndum sem fulltrúar bændastéttarinnar vildu hafa í sambandi við framkvæmd málsins.

Ég vil að lokum segja að menn eru hér að tala um að setja upp sérstaka stofnun og það eigi að þjóna héðan frá Reykjavík. Ég fyrir mitt leyti — og vil að það komi skýrt fram — lít ekki svo á að um sé að ræða samkv. þessu frv. að senda eigi menn úr Reykjavík til eftirlits út á land. Það getur ekki verið ætlun þeirra sem að þessu standa að slíkt verði í reynd. Það verða auðvitað fulltrúar úti á landsbyggðinni á hinum ýmsu stöðum sem sjá um framkvæmd eftirlitsins. Það eru því ekki að mínu viti rök gegn þessu að það eigi að stjórna málum héðan. Væri svo mundi ég ekki tala í þessum dúr, það er öruggt mál.

Ég legg sem sagt áherslu á það að núna, eftir þetta langa bið frá því loforð voru gefin verkalýðshreyfingunni og aðilum vinnumarkaðarins, að staðið verði við þau loforð. Allra síst ætti það að sitja á þeim, sem gáfu loforðið, að bregðast nú og hlaupa til baka. Þeir ættu fyrst og fremst að standa við það sem þeir lofuðu.