07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota tímann. Það skal vera örstutt.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði úr þessum ræðustól að ég t. d. hefði lofað því að standa að löggjöf um þetta málefni. Það mun rétt vera að Framsfl. hét því að standa að löggjöf um þetta málefni, en engu um hvernig þessi löggjöf yrði. Ég vil spyrja: Þegar samið var um að setja þessa löggjöf 1977 var þá samið um að landbúnaðurinn, sem ekki hafði verið með í þessari löggjöf áður, væri tekinn þar inn? Ég neita því. Ég sagði í þessu sambandi að ég yrði ekki með þessu frv. nema landbúnaðurinn yrði tekinn út. Ég mun standa við það, þó að margt annað sé athugavert við þessa löggjöf. — Og ég vil spyrja hv. þm. Karvel Pálmason að því, í hvaða grein eða greinum frv. kemur fram að eftirlitsstöðvar eigi að staðsetja úti um land frá þessari nýju stofnun, Vinnumálaeftirliti ríkisins. Það er kannske eitt af því sem hefur gleymst að setja og þó eru þessar greinar 100.

Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan að bændur þyrftu að ákveða hvort þeir væru atvinnurekendur eða launþegar. Það kemur ekkert málinu við í þessu sambandi,— ekki samkv. þessu frv. Það er búið að skilgreina hvað sé talið fyrirtæki í þessu efni og það er búrekstur á jörðum. Það skiptir engu máli í því sambandi hvað landbúnaðurinn hefur ákveðið.

Þar sem ég mátti ekki gera nema stutta aths. verð ég að láta þetta duga.