07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. hjá hæstv. landbrh., að samþ. var brtt. í Ed. og átti hann hlut að máli. Það er ákaflega góð viðbót og er um sérstaka reglugerð um ákvæði laga þessara er snerta landbúnaðinn. Þetta er mjög jákvætt og ætti þess vegna ekki að þurfa að valda deilum.

Ég vil leggja á það áherslu vegna margítrekaðra yfirlýsinga frá hv. 2. þm. Norðurl. e., þegar hann kvartar undan því að ekki hafi verið haft samband við samtök landbúnaðarins, að í grg. stendur:

„Nefndin hefur leitað samráðs við fjöldamargar stofnanir, sem lögum samkv. hafa eftirlit á vinnustöðum.“ — Svo er talið upp Bifreiðaeftirlit ríkisins og Búnaðarfélag Íslands. Þá er sagt: „Þá hefur verið haft samband við ýmsa sérfræðinga í rn., svo sem landbrn., iðnrn.“ o. s. frv.

Ef hann flettir fundargerðum nefndarinnar kemur þar fram að oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur búnaðarmálastjóri mætt á fundum nefndarinnar og með honum hefur verið Haraldur Árnason verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands. Ég vil grípa niður í fundargerð 48. fundar nefndarinnar. Þar segir m. a.:

„Fram kom sú skoðun, að nauðsynlegt væri að hafa aldursmörk við vinnu á búvélum lægri en við vinnu á farandvinnuvélum, en það gerir að sjálfsögðu það nauðsynlegt að hafa hæfnipróf og veita leyfi til vinnu á búvélum.

Þeim Halldóri og Haraldi var tjáð að nefndin hefði ekki tekið ákvörðun um hvernig eftirliti í landbúnaði ætti að vera háttað. Nefndarmennirnir gerðu sér fulla grein fyrir því, að um geysilegt verkefni væri að ræða og fyrsta verkefnið væri upplýsinga- og fræðslustarfsemi og enn fremur að gera heildarúttekt á dráttarvélum og öðrum búvélum.

Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri var sammála þessu síðasta atriði og sagði að Búnaðarfélag Íslands hefði gert fjöldamargar samþykktir um slíkt og væri mjög brýnt að koma þessu í kring. Haraldur Árnason setti fram sömu skoðun og búnaðarmálastjóri hafði gert áður, að nauðsynlegt sé að framkvæma úttekt á býlum einu sinni, en þegar gengið hefði verið úr skugga um að allt er í lagi, megi líða 2–3 ár á milli skoðana.“

E. t. v. skiptir þetta ekki mjög miklu máli, en ég vildi að gefnu tilefni leiðrétta þær rangfærslur, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. var svo tíðrætt um hér, að ekkert samráð hefði verið haft við þessa aðila. Það kemur upp úr kafinu að starfsmenn, þ. e. búnaðarmálastjóri og sérfræðingur Búnaðarfélagsins hafa mætt þarna á fundi, og það kemur líka upp úr kafinu að hv. þm. Steinþór Gestsson hefur algjörlega rétt fyrir sér, eins og mig grunaði í ræðu minni upphaflega, að bændur væru almennt orðnir á því að herða eftirlit með þessu.

Þetta vildi ég leiðrétta. Mestu máli skiptir að koma málinu sem fyrst til nefndar. Það var rétt sem hæstv. landbrh. sagði um sérstaka reglugerð um ákvæði þessara laga er snerta landbúnaðinn. Það er sjálfsagt að fara þar í ýmsum nýjungum með gát og þreifa sig áfram, en aðalatriðið er upplýsingar og fræðsla.

Ég vil líka taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Alexander Stefánssyni, að vissulega er höfuðatriði að framkvæmd þessara laga verði í reynd jákvæð. Lögin sjálf skapa aðeins möguleikana, en eru engin trygging í sjálfu sér. Þetta var rétt og vel mælt hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni.

Ég vil ekki vera að eyða tíma þingsins í að skattyrðast við 2. þm. Norðurl. e. Ég var undrandi á ýmsum ummælum sem hann viðhafði um þetta þýðingarmikla mál, vegna þess að ég er sannfærður um að ef rétt er haldið á þessum málum geta þau skipt sköpum, ekki einungis um öryggi á vinnustöðum, heldur um heilsuvernd almennt, sem í ótrúlega ríkum mæli má rekja til atvinnu, til vinnustaða og atvinnuhátta. Aðalatriðið er að ná þessu fram, en ekki að vera að eltast við rangfærslur hv. þm. Norðurl. e. — Læt ég þá máli mínu lokið.